NT - 29.09.1985, Blaðsíða 9
NT Sunnudagur 29. september
Með rót í auga
Það var einhverju sinni í gamla kirkjugarðin-
um við Suðurgötu að eldri kona kom að máli við
mig. Konan sagði farir sínar ekki sléttar og spurði
hvort ég gæti ráðið fram úr vandamálum sínum.
Karl faðir hennar hefði verið jarðsettur fyrir
mörgum árum og lengst af verið öllum til friðs, en
nú upp á síðkastið hefði hann gengið Ijósum
logum á heimili dóttur sinnar og látið dólgslega.
Þóttist konan þess fullviss að.eitthvað væri
athugavert við gröf gamla mannsins og bað mig
um að fylgja sér í stutta skoðunarferð þangað.
Eftir að hafa kannað aðstæður varð ég þess
fullviss að hér væri eitthvað gruggugt á seyði því
að á leiðinu gat að líta verksummerki um jarðrask
mikið eins og karlinn hefði bylt sér allóþyrmilega.
Voru plöntur allar rifnar upp með rótum og lágu
eins og hráviði umhverfis leiðið. Við nánari
eftirgrennslan kom í Ijós að ofan á karlinn hafði
skömmu áður verið jörðuð kona ein úr Vest-
mannaeyjum sem látist hafði stuttu eftir gosið í
Heimaey. Líkið hafði verið flutt til Reykjavíkur og
jarðsett þar sökum þess að kirkjugarðurinn í
Eyjum var fullur af vikri. Ég kom því til leiðar að
kona þessi var grafin upp og jörðuð á öðrum
stað. Virtist karl una vel þeim málalokum og lá
kyrr um sinn.
Nokkrum árum síðar var ég staddur í gamla
kirkjugarðinum og kom þá sama konan til-mín
aftur og sagði að nú væri gamli maðurinn kominn
á kreik að nýju og léti nú verr en nokkru sinni
áður. Hún bað mig sem fyrr að ganga að leiðinu
með sér og athuga hvort ég sæi eitthvað sem
gæti bent til þess að ró hans hefði verið raskað.
Fylgdi ég konunni aftur að leiðinu en í fljótu
bragði sá ég ekkert sem hefði getað orðið honum
til ama. Gróður allur var í miklum blóma og leiðið
vel hirt. Það eina sem mér flaug í hug var að
reynitré, sem var við höfðalag gamla mannsins,
hafði vaxið ótrúlega síðan ég hafði síðast haft
afskipti af gröfinni og gæti hugsanlega hafa vaxið
inn í kistuna og í auga hans. Eftir því sem ég
hugsaði meira um þetta sannfærðist ég um að
það hlyti að vera rétt skýring. Lagði ég til við
konuna að hún pantaði kranabíl og hífði upp tréð
með rótum af leiðinu. Þar sem konan hafði
tröllatrú á ráðleggingum mínum lét hún ekki
segja sér þetta tvisvar heldur pantaði stærstu
gerð af kranabíl frá G.G. og var tréð fjarlægt
samdægurs. Síðan hefur gamli maðurinn ekki
látið á sér kræla að því er ég best veit.