Morgunblaðið - 11.12.2003, Blaðsíða 8
lifun
Er fjölskyldan mikið jólafólk og komin í jólaskap?
„Við erum frekar mikið jólafólk og það eykst eftir því sem börnin okkar
eldast því þetta er jú þeirra tími. Jólin hefjast nú frekar snemma hjá
okkur en við skreytum búðirnar okkar í nóvember og síðan fá krakkarnir
okkar að skreyta heima í byrjun desember þannig að jólaskapið er
komið.“
Markast jólaundirbúningurinn af því að þið hjónin eruð verslunarfólk og
háannatími fyrir jólin?
„Við reynum að vera frekar tímanlega í því sem við þurfum að gera því
þegar nær dregur jólum eykst viðvera okkar í búðunum og þá gott að
vera búin að ljúka öllum jólagjafakaupum og því sem snýr að
heimilinu.“
Hvernig nýtið þið þann tíma sem þið hafið lausan fyrir jólin?
„Við eyðum að sjálfsögðu öllum þeim frítíma sem við höfum í desem-
ber með krökkunum okkar og þá er líka oft ýmislegt að gerast bæði í
skólanum og leikskólanum hjá þeim sem við viljum taka þátt í. Einnig
sækjum við ýmsar uppákomur sem þau hafa áhuga á. Þetta snýst í raun
um hvað þau vilja gera. Við bökum saman piparkökur sem þau skreyta
og nú síðustu ár höfum við bakað og skreytt piparkökuhús.“
Er mikið gert til að færa heimilið í jólalegan búning?
„Við skreytum alltaf eitthvað en við sækjum í látlaust jólaskraut og
notum mikið köngla, greni og kerti. Reyndar finnst krökkunum okkar
þetta full einfalt og lítið spennandi þannig að þau fá að skreyta að vild
sín herbergi svo allir eru sáttir.“
Hver er jólamaturinn?
„Ég og maðurinn minn, Gunnar Hilmarsson, höfum bæði alist upp við
hamborgarhrygg á aðfangadagskvöld þannig að hann er okkar jóla-
matur. Ég held að það sé ekkert að breytast.“
Leggið þið mikið upp úr borðhaldinu og fallega skreyttu borði?
„Við höfum gaman af því að hafa fallegt í kringum okkur og því
skreytum við alltaf jólaborðið. En það breytist milli ára hvernig það er
skreytt.“
Haldið þið í hefðirnar?
„Við getum ekki sagt að við höldum í einhverjar ákveðnar hefðir þar
sem okkur finnst hlutirnir breytast frá ári til árs. Við frekar leikum þetta
eftir eyranu og reynum að njóta hverrar stundar eins og hún er á
hverjum tíma.“
jólaborðið
Jólin hefjast snemma hjá okkur
Þegar verið er að leggja meira en venjulega í matinn er einnig um
að gera að leggja meira en venjulega í að gera matarborðið
huggulegt. Kolbrún Petrea Gunnarsdóttir, eigandi verslunarinnar
GK, dekkaði upp jólaborðið heima.