Lesbók Morgunblaðsins - 20.08.2005, Blaðsíða 7

Lesbók Morgunblaðsins - 20.08.2005, Blaðsíða 7
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 20. ágúst 2005 | 7 17. öld, bæði hér á landi og annars staðar. Afar auðvelt er þó að gera of mikið úr þessu siðvæðingarátaki. Einfaldast er í því sambandi að benda á eina afurð evrópskrar miðalda- menningar, þá sjálfsmynd eða söguspegil sem safnritið Sturlunga gefur af einu evrópsku mið- aldasamfélagi á 13. öld, því íslenska. Stað- reyndin mun vera sú að evrópskt samfélag allt fram á 16. öld markaðist af því sem Sturlunga lýsir svo vel: Öryggisleysi, ofbeldi og vargöld. Ríkisvald var varla eða ekki til nema að nafn- inu, höfðingjar (aðalsmenn) í hverju héraði réðu því sem þeir vildu ráða í krafti vopnavalds síns og almúginn mátti sæta þeim kjörum sem þeir skömmtuðu. Í þessu ljósi verður að skoða þá hreyfingu í átt til eflingar kirkjunnar sem er svo áberandi á 13.–15. öld. Kirkjan auglýsti sig sem friðsamlega stofnun, kirkjunnar menn áttu ekki að bera vopn og kirkjustofnanir söfn- uðu jarðarauði sem ekki þurfti stöðugt að skipta upp vegna erfða, en deilur um yfirráð jarðnæðis og valdið sem því fylgdi stöfuðu oft af óljósum erfðum. Menningarleg heild, pólitísk sundrung Í ákveðnum skilningi má segja að siðmenningin hafi ekki vaknað til fulls í Evrópu, eða dögun hennar runnið upp, fyrr en um mitt síðasta ár- þúsund. Varla er t.d. hægt að segja að í Evrópu hafi verið til ríki, sem beitt gátu hervaldi með skipulegum hætti fyrr en upp úr 1500. Fram að því skiptist álfan upp í misstóra búta fursta- dæma og smávelda sem börðust stöðugt sín á milli. Í þessum skilningi var Evrópu enn á stigi barbarisma, hún hafði enn ekki um 1500 náð því menningarstigi sem Rómaveldi skapaði í álfunni um skeið upp úr árinu 0. Evrópa tímabilsins 1000–1500 var samt að mörgu leyti ein heild, sérstaklega í menningar- legum skilningi. Lykilorð tímabilsins eru kristni og latína. Róm var ennþá miðpunktur álfunnar, þar bjó páfinn og þangað þurftu syndugir að leggja á sig ferð til að fá syndaaf- lausn, eins og Sturla Sighvatsson. Pílagrímar ferðuðust vítt og breitt um álfuna, Nikulás ábóti fór jafnvel til Jerúsalem. Santiago de Compostela á Spáni var ásamt Róm og Jerúsal- em mikill áfangi pílagríma, þangað lögðu þeir leið sína úr öllum hornum álfunnar. Allir menntaðir menn álfunnar lásu og skrif- uðu latínu. Hornsteinn alls skólalærdóms – sem upphaflega var á vegum kirkjunnar – var latínunám. Það var aðeins á Írlandi, Íslandi og að nokkru í Englandi sem tíðkaðist að skrifa bókmenntir á þjóðtungunum. Danasaga Saxa fróða í Danmörku var skrifuð á latínu, svo dæmi sé nefnt. Fljótlega urðu þó til talsverðar bókmenntir á frönsku, sérstaklega fyrir til- verknað trúbadora. Munurinn á tímabilinu 1000–1500 og tíma- bilinu á undan hvað varðar bókmenningu og menntir af öllu tagi er gífurlegur – um 1000 var jafnvel sjaldgæft að lög væru til rituð, það var ekki bara hér á landi sem lögsögumenn þurftu að kunna lögin utan að, en um 1500 var hvarvetna að finna menntaða menn og háskólar voru með reglulegu millibili um álfuna. Þar var um þetta leyti að finna fyrstu drögin að þeirri vísindabyltingu sem á næstu 300 árum gjörbreytti heimsmynd Evrópubúa. Einn afgerandi munur var á Evrópu um 1500 og Róm um ár- ið 0: Evrópumenn höfðu allt annað viðhorf til verkmenningar en Rómverjar. Evrópubúum þótti sjálfsagt að menntaðir menn skiptu sér af verktækni og verkmenningu, en slíkt hafði ekki þekkst í Rómaveldi, þar sem þrælar sáu um allt slíkt. Þetta varð til þess að tækni og vísindi gátu þróast með allt öðrum hætti í Evrópu nýaldar en á tímum Rómaveldis. Lítum aftur aðeins til baka: Fyrir 5000 árum urðu til fyrstu ríki, borgir og ritmál. Siðmenningin vaknaði í Mesópótamíu og Egyptalandi. Þrjú þúsund árum síðar steig siðmenningin sín fyrstu skref í Vestur-Evrópu fyrir tilverknað Rómverja. Hún hörfaði síðan aftur, eins og hún hafði gert áður t.d. í Grikklandi á tímabilinu 1200–800 f.Kr., en birtist aftur með endurnýjuðum krafti upp úr árinu 1000. Nú náði hún um alla Evrópu, sam- stæð kristin menning náði frá Varsjá í austri til Dublin í vestri, frá Skagafirði í norðri til Rómar í suðri. Miðstöð þessarar menningar var á svæðinu frá París í Frakklandi til Rínarlanda, þar náði hið svokallaða lénsskipulag mestum þroska og menn- ing þess mestum hæðum með riddaraskap sínum, dómkirkjum og stórgóssum. Austan við þetta menningarsvæði var hið forna Rómaveldi enn við lýði á svæði Býsanska ríkisins og austræn kristni var ástunduð í Rússlandi, sem á 13. öld komst undir yf- irráð Mongóla. Sunnan við það voru arabar og islamstrú. Á næstu 500 árum blómstraði Evrópa sem aldrei fyrr og náði um skeið heimsyfirráðum. Ísland var á því skeiði hluti af Danaveldi sem lagði undir sig svæði í Afríku, Asíu og Ameríku, eins og England, Frakkland, Holland, Spánn, Portúgal gerðu. Ríkið verður til Norbert Elias hét þýskur fræðimaður sem árið 1939 gaf út rit um sögu siðmenningarinnar. Ritið vakti þá enga athygli, en var gefið út á ný árið 1969 og hefur síðan orðið æ þekktara. Elias skrifar um það hvernig siðmenningin verður til með því að vald fer að orka á persónuleika manna og hegðun. Menn hætta að beita ofbeldi af minnsta tilefni og taka að tileinka sér kurteisi og góða mannasiði. Elias rakti Evrópusögu síðustu 1000 ára og lýsir því hvernig pólitískt vald var í fyrstunni sundrað í smáar einingar einstakra lénsfursta, en safnaðist síðan saman á æ færri hendur. Um 1200 voru orðin til öflug furstadæmi, segir Elias, en engu að síður leið talsverður tími þar til þróunin leiddi til þess að ríkisvald fór að hafa félagsleg og menning- arleg áhrif í átt til siðvæðingar. Elias rekur þá breytingu til þess tíma þegar furstadæmi og konungsríki voru orðin það öflug að þau gátu einokað beitingu ofbeldis og álagningu skatta á landsvæðum sínum. Við hirðir konunganna og furstanna urðu menn þá að fara að hegða sér eins og furstinn vildi, þeir urðu að sitja og standa eins og hann vildi í orðsins fyllstu merkingu. Þarna varð í fyrsta sinn til kurteisi með nútímasniði og margar aðrar nýjungar tengdar tilkomu siðmenningar má rekja til þessara evrópsku hirða. Aðrir fræðimenn hafa tengt eflingu konungsríkjanna við breytingu á vopnabúnaði. Vaxandi kostnaður við herbúnað leiddi til þess að smærri furstar heltust úr lestinni í vígbún- aðarkapphlaupinu. Til sögunnar voru komnar fallbyssur og annar vopnabúnaður sem var dýr. Ekki dugði lengur að ráða yfir smáléni til að standast konungsvaldinu snúning, að- alsmenn misstu sjálfstæði sitt og urðu að gerast þjónustumenn konunga til að halda stéttastöðu sinni. Um 1600 voru orðin til í Evrópu nokkur ríki sem hafa verið til síðan. Danmörk, Svíþjóð, Frakkland, Spánn, Portúgal, Bretland og Holland voru meðal þeirra. Innan landamæra þeirra ríkti meiri samfélagslegur friður en þekkst hafði í Evr- ópu síðan á tímum Rómaveldis. Segja má að Rómaveldi hafi verið endurreist í Evrópu með þessu, Evrópa hafði loksins náð því siðvæðingarstigi sem ríkti í Rómaveldi á meðan það var og hét. Víðast hvar annars staðar á hnettinum þróaðist siðmenning innan stórra ríkja, eins og til dæmis í Kína. Kína má að sumu leyti líkja við Rómaveldi, með þeim formerkjum að Kína var veldi sem aldrei hrundi. Í Evrópu þróaðist siðmenningin hins vegar innan margra smárra eininga, sem kepptu sín á milli. Í andstöðu við friðinn innan landamæra ríkjanna var útþensla þeirra um jarðarkringluna á tímabilinu 1500–1900 ofbeldisfull og blóðug. Á meðan siðmenningin þróaðist og dafnaði í vöggu hennar í borgum Evrópu eins og París, London og Vín mátti afgangurinn af heimsbyggðinni þola að vera fótum troðinn af fulltrúum evrópskrar menningar, álíka og Evrópubúar höfðu mátt þola af hendi Rómverja löngu áður. Í Evrópu háðu ríkin margar styrjaldir sín á milli, oft með hörmulegum afleiðingum fyrir íbúana. Afleiðingarnar af tilurð ríkisins Í túlkun Norberts Elias þá er sú þjóðfélagsbylting sem varð þegar konungar náðu undir sig einokun á ofbeldi og skattlagn- ingu á landsvæði sínu lykilatriði í þróun siðmenningar. Til að reka þessa einokun urðu konungar að koma á fót miklu kerfi, sjálfu því ríkiskerfi sem síðan hefur þróast, vaxið og dafnað. Nútímasiðmenning er að verulegu leyti afurð þessa kerfis. Lykilatriðið í þróun ríkisvaldsins var smíði og viðhald mikillar hernaðarvélar til að verja ríkið. Til þess að stofna her þurfti mannafla, vopn og vistir. Fyrstir til að stofna nútímalegan her með herskyldu allra þegna voru Svíar á 17. öld. Það var með naumindum að Danir gátu haldið í við Svía, sem þeir áttu í styrjöldum við alla þá öld. Danakonungur lagði mikla skatta á þegna sína, bæði peningaskatta til að greiða herkostnað og skatta í formi mannafla sem kvaddur var í her og flota. Skattlagning af þessu tagi varð ekki gerð nema með ítarlegu skýrsluhaldi. Skrár voru gerðar yfir jarðeignir og manntöl tek- in. Skýrslugerð af þessu tagi varð síðar grundvöllur fyrir hvers konar framfarir, t.d. í heilbrigðismálum. Hervæðing ríkja snemma á nýöld hafði því ófyrirséðar afleiðingar, til hennar má rekja þá samfélagstækni sem síðar var beitt til að byggja upp velferðarkerfi sem tryggja átti líkamlegt, andlegt og félagslegt heilbrigði. Það sem meira var, eftir því sem valdið varð samanþjappaðra hjá konunginum, þeim mun meiri almannaeign varð það. Bæði þurfti kon- ungurinn að réttlæta herútgjöld sín og æv- intýri með tilvísan í hagsmuni ríkisins, og smám saman fóru þegnar hans líka að líta svo á að þeim kæmi við hvað konungur gerði í nafni ríkisins. Menn þekktu orðið vel forna klassíska menningu, og þar á meðal grískt lýðræði, af lýsingum fornrita. Lýðræði Grikkja hinna fornu varð ein af uppsprettum þeirra krafna sem fram komu á 18. öld um lýðræði, um yf- irráð þegnanna yfir ríkinu og athöfnum þess. Ekki var lengur efast um að ríkið ætti að vera til, þótt skammt væri raunar að bíða uppkomu stjórnmálastefna sem höfðu að markmiði að eyða því kúgunarvaldi sem þessar stefnur töldu ríkið vera. Allar slíkar stefnur virðast einnig stefna að því að viðhalda siðmenning- unni, sem á að verða eftir þótt ríkið hverfi. Þannig er stefnan sú að fullkomna verkið sem hafið var í Egyptalandi og Mesópótamíu og gera að veruleika siðmenningu án kúgunar. Á 17. öld varð raunar bylting sem var eins konar forveri allra byltinga 18.–20. aldar, bylt- ingin í Englandi 1640–1660. Lykilatburður þeirrar byltingar var að konungurinn var tek- inn af lífi og lýðveldi stofnað. Þetta hafði aldrei gerst áður á svipaðan hátt. Hugmyndafræði lýðveldisins var hins vegar ekki sótt í klassískt lýðræði Grikkja heldur fyrst og fremst í biblí- una. Enska byltingin var kristin bylting. Henni lauk með endurreisn konungdæmisins, en upp frá því viðurkenndi konungur rétt þegnanna til að hlutast til um málefni ríkisins. Það var eins- dæmi í Evrópu á þeim tíma, en vísaði veginn fram á við. Hvar á Ísland heima? Hvað kemur þetta við mati okkar á 17. öldinni íslensku mætti spyrja. Eftir að siðmenning tók að færast í aukana í Evrópu um og upp úr 1000 leið ekki á löngu þar til hún var komin á tals- vert skrið hér á landi. Eins konar menning- arlegt kraftaverk átti sér stað hér á landi með tilurð miðaldabókmenningar. Það skyldi þó haft í huga að markaður fyrir bækur á norrænu var þá miklu stærri en núverandi markaður fyrir bækur á íslensku. Allir Norðurlandabúar gátu lesið það sem höfundar á Íslandi skrifuðu. Það var hins vegar alls ekki svo að miðaldaritin væru nokkur almenningseign, hvorki hér á landi né í Noregi. Þau voru fyrst og fremst eign fámenns hóps yfirstéttarfólks sem kunni að lesa og skrifa. Í stórum dráttum var íslenskt samfélag á miðöldum barbar- ískt samfélag án ríkisvalds. Raunar má segja að ríkisvald (í klassískum skilningi, þeim skilningi að friður ríkti innan landa- mæra ríkisins, eins og raunin var í Rómaveldi – Pax romana) hafi ekki orðið til á Íslandi fyrr en um 1550, eða um svipað leyti og víðast hvar í Evrópu. Aðrir þættir siðvæðingar voru hins vegar komnir til sögunnar fyrr í Evrópu en á Íslandi, og á það sérstaklega við um tilurð borga. Lögðu niður vopn eftir siðaskipti Borgir tóku að vaxa í Evrópu á miðöldum, og um 1300 var í álf- unni fjöldi borga. Flestar þeirra voru samt frekar litlar, en þær voru öflugur þáttur í menningu álfunnar, bæði pólitískt, efna- hagslega og menningarlega. Margar þeirra voru pólitískt sjálf- stæðar, en þær mynduðu einnig öflug bandalög eins og Hansa- sambandið. Þessar borgir voru af ýmsum toga, en mikilvægustu þættir í vexti þeirra fólust í hlutverkum þeirra sem miðstöðvar stjórnunar og mennta, siglinga, verslunar og viðskipta. Einnig skipti handiðnaður margar borgir talsverðu máli. Marga þessa þætti var að finna á íslenskum stöðum, sér- staklega Hólum og Skálholti, þar sem finna mátti stjórn- unarmiðstöðvar og skólaþorp. Hið sérstaka við Ísland var að kaupmenn máttu ekki setjast hér að. Engir innlendir kaupmenn voru starfandi og erlendir kaupmenn máttu ekki hafa hér vetursetu fyrr en 1765. Ísland varð þar með heldur ekki flotaveldi, Íslendingar gerðu ekki út millilandaskip eins og Danir og Norðmenn. Þegar stjórnkerfi landsins var flutt til Reykjavíkur frá Þingvöllum, Skálholti, Hólum og Bessastöðum á síðari hluta 18. aldar varð til fyrsta borgin á Íslandi, því í Reykjavík voru líka kaupmenn og iðn- aðarmenn. Þeir fengu að búa þar frá 1765 eins og áður sagði, og einnig á nokkrum öðrum höfnum. Fram að 1550 var vopnað vald á Íslandi ekki opinbert vald. Hver höfðingi fyrir sig hafði sinn einkaher, sveinalið, sem hann styrkti með bændum og bændasonum af jörðum sínum væri á því þörf. Bæði biskupar, ábótar klaustra og veraldlegir höfð- ingjar ráku slíka einkaheri. Hervald var ekki á vegum rík- isvaldsins fremur en rekstur útgerðarfyrirtækja, verslana eða iðnfyrirtækja er á vegum þess nú til dags. Þetta gjörbreyttist á tímabilinu 1550–1650. Meginbreytingin varð sennilega um 1575, þegar Danir bönnuðu vopnaburð á Ís- landi, en þrátt fyrir það komu vestfirskir höfðingjar ríðandi til Alþingis á hverju ári með alvopnað, fjölmennt lið allt fram und- ir 1600 og svo gerðu væntanlega aðrir helstu höfðingjar, t.d. biskupar. Þetta var þó fyrst og fremst til sýnis, leifar af göml- um sið. Íslenskir höfðingjar áttu ekki í vopnuðum átökum sín á milli eftir 1550. Með siðaskiptunum breytti íslensk yfirstétt um yfirbragð, hún hætti að reka einkaheri og lét eftir það kon- ungsvaldið um hernað. Þetta táknaði að Ísland hafði stigið afgerandi skref í átt til siðvæðingar. Ríkið hafði náð undir sig einkarétti til valdbeit- ingar. Þennan einkarétt hefur íslenska lýðveldið tekið að erfð- um frá danska konungsríkinu. Kristján III. Danakonungur hafði áhrif á siðvæðinguna á Íslandi. Höfundur er sagnfræðingur.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.