Lesbók Morgunblaðsins - 03.09.2005, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 03.09.2005, Blaðsíða 5
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 3. september 2005 | 5 samið hefur verið um vinnuslys, segi ég við þá félaga og uppúr því spinnst nokkuð spjall um texta og tilgang þeirra. Kjartan segir að þeir hafi ákveðið að hafa texta á Takk meðal annars vegna þess hversu takmarkað það er sem hægt er að gera með vonlenskunni, en þeir séu líka að gera texta sjálfum sér til skemmtunar og hvort fólk skilji þá eða ekki sé aukaatriði að hans mati, sér finnist gaman að hafa hlutina opna, að hver áheyrandi skilji textana á sinn hátt, túlki þá eins og honum finnst falla best að tónlistinni eða hugarástandi hverju sinni. „Margir hafa rýnt í textana og reynt að þýða þá, stundum með aðstoð orðabókar, sem hef- ur oft skilað ansi skemmtilegum misskilningi og bulli,“ segir hann og bætir við að sjálfur sé hann ekki mikill áhugamaður um texta. Orð og myndir Það má til sanns vegar færa að ef lagið er nógu gott þarf það ekki skiljanlegan texta í sjálfu sér og jafnvel engan. Á móti kemur að þegar vel tekst til með texta verður úr lag- inu annað og meira eins og dæmi af Ágætis byrjun sannar: Fátt er eftirminnilegra en að hafa heyrt á tónleikum línurnar: „Það besta sem guð hefur skapað / er nýr dagur“ úr Viðrar vel til loftárása af Ágætis byrjun. Þeir Kjartan og Jónsi taka undir þetta að vissu leyti en Kjartan bendir þó á að það geti líka verið fólki mikilvægt að fá að fella lag að tilfinningaríkri stund í lífinu, hafa það sem einskonar undirleik við minningu, og þá gott ef menn geta túlkað lagið eins og þeim sýnist, látið það vera um hvað sem er. Þann- ig eigi menn eftir að lesa í Heysátu eins og þeim sýnist og ekki víst að þeir sjái fyrir það sama og hann, gamlan bónda sem sé sáttur við sitt hlutskipti, sáttur við að lífið sé búið. Eins og þeir félagar lýsa því rennur tón- listin alla jafna mjög auðveldlega uppúr þeim en textarnir eru þeim meiri raun. Þeg- ar kom að því að taka upp Takk fannst þeim þó skemmtilegra að hafa texta við flest lögin á þessari plötu og sömdu þá saman. Jónsi lýsir því svo að þeir hafi sest niður og hlust- að á lögin og skrifað niður orð eða teiknað myndir eftir því sem þeim fannst eiga við í hverju lagi. „Þegar við svo bárum það saman sem við höfðum gert var það allt mjög svip- að, við vorum að sjá sömu hluti út úr hverju lagi. Út frá því fórum við svo aftur hver út í sitt horn að semja texta og svo koll af kolli. Þetta var mjög erfitt en mjög skemmtilegt líka þegar því var lokið,“ segir Jónsi, en eins og Kjartan bendir á þá hefur Jónsi vitanlega síðasta orðið í textunum því hann syngur þá á endanum og velur þá það sem honum finnst passa. Heysáta stingur í stúf Eins og getið er er Glósóli fyrsta smáskífan af plötunni, en það er líka fyrsta eiginlega lagið á plötunni, kemur eftir stuttan inngang sem kallast Takk. Glósóli ber öll helstu ein- kenni Sigur Rósar og gefur prýðilega mynd af því sem á Takk er að finna. Eitt lag á henni stingur þó í stúf, lokalagið, Heysáta, er ekki sama hrífandi flæði og stigmögnum sem sveitin beitir svo oft, heldur ekki fínleg flugeldasýning, en eitthvað sem erfitt er að lýsa, takturinn brotinn upp með þögnum, öðruvísi hreyfing í því en öðru sem sveitin hefur sent frá sér hingað til. Kjartan segir það hafa orðið þannig til að þeir hafi verið að leika sér í hljóðverinu, velta fyrir sér hluta úr Svo hljótt, næstsíð- asta lagi plötunnar. „Það var skemmtilegur smábútur í því og í stúdíóinu var barí- tongítar sem mig langaði að prófa og svo fórum við að leika okkur,“ segir Kjartan – greinilegt að hér er komið gott dæmi um djúphugsaðar vinnuaðferðir hljómsveit- arinnar. „Mér hefur alltaf þótt gaman að velta fyr- ir mér talningum í lögum og við Orri vorum búnir að ræða um það áður en við fórum að vinna plötuna að gaman væri að leika sér að- eins með þær sem skilaði sér svo í þessu lagi, uppáhaldslaginu mínu á plötunni – eins og er,“ segir Kjartan er leggur þó áherslu á að þeir hafi ekki sest niður og sagt hver við annan: nú skulum við gera tilraunir með talningar – þetta hafi þróast áfram hvað af öðru, hálfgerð tilviljun. „Það er mjög mik- ilvægt held ég að reyna að halda hinu óvænta inni í tónlistinni, að passa sig á því að taka hlutina ekki of alvarlega.“ Fjölskylduferð Í þeim hluta tónleikaferðarinnar sem þegar er lokið voru þeir félagar ekki með nema þrjú lög af Takk á dagskránni, fjögur ef inn- gangurinn er talinn með. Aðspurður hverju því sæti svarar Kjartan að bragði og kímir: „Við vorum að spara lögin.“ Hann heldur svo áfram af meiri alvöru að þeir hlakki til að spila nýju lögin, en ekki þótt skynsamlegt að leggja öll gömlu lögin til hliðar í einu. Nýju lögunum muni fjölga smám saman og vænt- anlega eigi Íslendingar eftir að heyra hljóm- sveitina flytja plötuna alla á tónleikum fyrir jól. Þó að einkalíf tónlistarmanna eigi sjaldn- ast erindi í fjölmiðla er gaman að geta þess að mikið hefur verið á seyði í þeim efnum hjá þeim félögum í hljómsveitinni, Orri Páll Dýrason og Lukka heitmey hans gengu í hjónaband á Hawaii í miðri tónleikaferð fyr- ir stuttu og Georg Hólm og Svanhvít gáfust hvort öðru skömmu áður en tónleikaförin hófst. Í tónleikaferðinni voru þær Lukka og Svanhvít báðar með og einnig María Huld Markan Sigfúsdóttir, eiginkona Kjartans, og Alex, sambýlismaður Jónsa, en þess má geta að María er í hljómsveitinni amina sem hitar upp fyrir Sigur Rós í ferðinni og kemur einnig við sögu í nokkrum lögum hljómsveit- arinnar sem gestahljóðfæraleikari. Amina hefur annars verið nátengd Sigur Rós síð- ustu ár, hafa spilað með hljómsveitinni á tónleikaferðum síðan 2000, útsettu alla strengi á () og í laginu Gong á Takk, auk þess sem þær eiga helming í Milanó. Kjartan segir að það að hafa alla með hafi gert ferðina skemmtilegri, „en ég fæ mig stundum fullsaddan á því að hafa konuna mína með á túr“, segir hann og kímir. „Við erum alltaf að reyna að vera professional í þessum ferðum, megum ekki vera að turtil- dúfast, við erum í vinnunni og þess vegna er það stundum svolítið erfitt.“ Jónsi segir að þeir Alex séu mjög sam- rýndir og fáist við margt saman svo það hafi verið gaman að hafa hann með, en það sé líka ágætt að hafa hann ekki með. „Þegar menn eru með fjölskylduna með, kærastann eða kærustuna þá eru þeir hver í sínu horni og við í hljómsveitinni miklu minna saman. Það verður betra í næstu ferð.“ Ljósmynd/Helen Woods ’Á síðustu plötuvar ekkert um texta heldur not- aði Jónsi rödd- ina eins og hvert annað hljóðfæri, en á Ágætis byrj- un var fullt af textum sem áhugamenn víða um heim lágu yfir og fundu í djúpa merkingu sem iðulega kom höf- undum þeirra á óvart. Á Takk er líka sungið á ís- lensku í flestum laganna og víst að Sigur Rós- arfræðingar úti í heimi eiga eft- ir að greina þá sundur og sam- an, ímynda sér að í þeim sé fjallað um hinstu rök tilver- unnar og það er reyndar gert í einu lagi, Hey- sátu. Tvímæla- laust fallegasta lag sem samið hefur verið um vinnuslys.‘

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.