Lesbók Morgunblaðsins - 03.09.2005, Blaðsíða 16
16 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 3. september 2005
P
atti Smith hefur verið eitt virt-
asta söngvaskáld rokksins í
þrjátíu ár, allt frá því hún gaf út
sína fyrstu plötu, Horses, árið
1975, sem John Cale pródúser-
aði með henni. Hún markaði sér
strax sérstöðu í heimi tónlistarinnar, var öðru
vísi, ögrandi, skapandi og óvenjuleg; samdi
firna góð lög og frábæra texta. Horses var
meistaraverk, og fleiri slík fylgdu í kjölfarið.
Heimsfrægðin lét ekki á sér standa – hún kom
þremur árum síðar, þegar Patti kveikti í heims-
byggðinni með lagi Bruce Springsteens, við
eigin texta um ást og losta:
Because the Night. En Patti
Smith var alltaf sjálfri sér trú,
og fór sínar eigin leiðir. Henni
tókst það sem svo fáum sem á annað borð hefur
lukkast að ná stjörnuhæðum hefur tekist; að
halda áfram að vera frumleg. Hún veðjaði ekki
á frægðina, heldur eigin list. Sennilega er það
þess vegna sem Patti Smith hefur aldrei horfið
í skuggann, og nýtur enn í dag ómældrar virð-
ingar fyrir stöðugt og öflugt framlag sitt til list-
arinnar.
Og nú er Patti Smith loks á leið hingað til
lands og heldur tónleika með hljómsveit sinni á
Nasa á þriðjudagskvöld. Af því tilefni slógum
við á þráðinn til hennar, þar sem hún var stödd
í Finnlandi, en hún hélt tónleika á Helsinkihá-
tíðinni á miðvikudagskvöldið.
„Ísland hefur vakið áhuga minn frá því ég
man eftir,“ segir Patti Smith. „Ég kom til
landsins árið 1969, þá ung stúlka. Mér fannst
Ísland ótrúlega fallegt. Árið 1972 fylgdist ég
svo úr fjarlægð með heimsmeistaraeinvíginu í
skák, og Bobby Fischer. Ég hef líka alltaf haft
dálæti á íslenskri ljóðlist, og ljósmyndir frá Ís-
landi hafa heillað mig gífurlega. Landslagið er
einstaklega áhrifamikið. Christoph Schlingen-
sief [...einn erlendu listamannanna sem komu á
Listahátíð í vor. Verk hans, Animatograph var
sýnt í Klink og Bank...] er vinur minn, og ég sá
nýlega hjá honum myndina sem hann tók á Ís-
landi. Mér fannst hún sérstaklega falleg.“
Ég verð að spyrja Patti Smith nánar um er-
indi hennar hingað árið 1969. Hún segist hafa
verið full af ævintýraþrá. „Við systir mín vorum
búnar að safna óralengi fyrir ferðalagi. Við
flugum til Íslands og stoppuðum hér í nokkra
daga áður en við héldum til Evrópu. Ísland var
ekkert líkt því sem við sáum annars staðar.“
Vil að þetta verði fagnaður
Á tónleikunum á Nasa ætlar Patti Smith að
syngja lög frá öllum ferli sínum. Hún er auð-
mjúk, þegar hún segir, að hún vilji umfram allt
flytja lög sem fólkið sem kemur vill heyra. Þar
verða því bæði eldri lög; af plötunum Horses og
Easter, og ný lög; lög eftir Bob Dylan, Jimi
Hendrix og fleiri. „Mig langar til þess að þetta
verði eins konar fagnaður með tónlist þess tón-
listarfólks sem ég og við öll elskum. Ef ég fæ
það á tilfinninguna að fólk vilji heyra eitthvert
ákveðið lag með mér, þá verð ég við því með
mestu gleði.“
Ég spyr Patti Smith hvernig henni lítist á
rokkið í dag, þegar allt er orðið svo óttalega
krúttleg og kjút og melló; og virðist – í það
minnsta í augum okkar miðaldra rokkgemling-
anna – vanta þá skörpu egg sem rokkið hafði í
gamla daga. Hún hlær.
„Ég vona að rokkið glati aldrei þeim eigin-
leika að geta verið beitt. En hitt er satt, að
bransinn í kringum það hefur sannarlega orðið
deigari með tímanum. Bransinn vill tónlistar-
fólk sem hefur áhuga á honum sjálfum. Brans-
inn hefur fyrst og fremst áhuga á að búa til
poppstjörnur. Hann er uppfullur af ímynda-
sköpun og „notar“ ungt og hæfileikaríkt fólk
sér til framdráttar en ekki því. Fókusinn er all-
ur á einhvers konar lífsstíl og stjörnudýrkun
frekar en á innihaldið. Samt held ég að það
verði alltaf til hljómsveitir sem sjá við þessu og
kjósa að fara grýtta veginn, þótt bransinn kæri
sig ekki um að prómótera hann.“
Patti Smith kveðst telja að í reynd eigi þetta
ekki bara við um tónlistina; þetta sé almenn til-
hneiging í heiminum í dag, og að almenningur
eigi æ erfiðara með að láta rödd sína heyrast.
„Í pólitík og stjórnmálum er tilhneigingin sú
að halla sér frekar að stórfyrirtækjum og al-
þjóðavæðingu fremur en að einstaklingnum og
þörfum hans. Hagfræði heimsins snýst um
bissness og peninga, en ekki fólk. Þess vegna
sjáum við líka að þættir eins og menning, um-
hverfisvernd, heimsfriður og annað sem fólk
hefur áhuga á að sé sinnt, á undir högg að
sækja. Alls staðar er verið að gera stóra samn-
inga um mikla peninga, mikla hagsmuni, mik-
inn hernað. Það sama er uppi á teningnum í
listum. Þar er því vel sinnt sem bransinn telur
sig geta grætt á.“
Patti Smith kemur mér á óvart með því að
segjast aðspurð hlusta helst á klassíska tónlist.
„Já, ég geri það; ekki síst á óperu. Ég hlusta
líka mikið á djass, þar sem John Coltrane er í
uppáhaldi hjá mér. Börnin mín eru bæði í tón-
list og ég hlusta á þau. Dóttir mín er í djassi, og
sonur minn hlustar mikið á Stevie Ray Vaug-
han og fleiri slíka og spilar á gítar. Það sem
mér finnst allra skemmtilegast að hlusta á eru
ungir krakkar sem eru að streitast við að skapa
og segja eitthvað í list sinni. Að öðru leyti
hlusta ég ekki mikið á tónlist dagsins í dag.“
Vil ná til fjöldans
Mig hefur lengi langað að spyrja Patti Smith
hvort standi hjarta hennar nær, ljóðskáldið
Patti Smith, eða tónskáldið og söngkonan Patti
Smith. Hún er jafnvíg á ritlistina og tónlistina,
og reyndar fleiri listgreinar, því hún bæði mál-
ar og tekur ljósmyndir. Svar hennar ber þess-
ari fjölhæfni hennar vitni.
„Ég lít á mig sem eins konar verkamann í
listinni. Ég geri þetta allt, og það sem ég er að
gera hverju sinni á allan minn hug þar til ég
sný mér að öðru. Ritlistin er þó sú grein sem ég
er stöðugt í og hefur fylgt mér lengst. Senni-
lega er hún mér mikilvægust.“
Þrátt fyrir að margir hafi litið á Patti Smith
sem einhvers konar „cult“ listamann, kveðst
hún aldrei hafa gert það sjálf, og segist ekki
vilja höfða eingöngu til fámennra og sértækra
aðdáendahópa. „En þetta er eitthvað sem fólk
ákveður fyrir sig, ég geri það ekki fyrir það. Ég
hef ekki áhuga á að vera „cult“ fígúra, því ég
hef alltaf haft áhuga á að geta talað til fjöldans.
Sjálf hef ég áhuga á fjöldanum; öllu fólki heims-
ins, umhverfinu okkar á þessari plánetu og því
að við höldum frið hvert við annað. Þess vegna
vil ég geta náð eyrum eins margra og ég get.“
Mystík og dýpt í íslenskum kveðskap
Íslensk ljóðlist barst í tal í upphafi spjalls okk-
ar, og ég spyr Patti Smith nánar út í þann
áhuga hennar.
„Ég hef lesið margt af því sem ég hef náð í í
enskum þýðingum og í ljóðasöfnum, hvort sem
það eru rómantísk náttúruljóð eða eitthvað
gamalt úr goðafræðinni. Ég finn einhverja
mystík og dýpt í íslenskum kveðskap og mér
finnst hann hrjóstrugur eins og landið, sem
mér finnst mjög fallegt. Reyndar hlakka ég
mjög til þess að geta tekið ljósmyndir á Íslandi,
og auðvitað hlakka ég líka til að hitta fólkið.“
Patti Smith kveðst hafa óskað eftir því, þeg-
ar verið var að skipuleggja ferð hennar hingað,
að eiga að minnsta kosti einn heilan frídag fyrir
sig. Og enn kemur hún mér á óvart með því
sem hún ætlar þá að taka sér fyrir hendur. „Ég
ætla að byrja á því að heimsækja Skáksamband
Íslands og fá að skoða og ljósmynda borðið sem
Fischer og Spassky tefldu við. Þótt ég tefli ekki
mikið sjálf, hef ég haft mikinn áhuga á skák allt
frá því ég var krakki, og finnst það göfug list.
Ég hef fylgst með afdrifum Fischers og vona að
hann sé hamingjusamur á Íslandi, því hann hef-
ur mátt þola mikla erfiðleika síðustu ár.“
Patti Smith kveðst varla geta svarað því
hvaða væntingar hún hafi til íslenskra aðdá-
enda sinna, því hún hugsi miklu meira um
væntingar þeirra til hennar. „Mér finnst það
skylda mín að standa undir væntingum þeirra.
Mínar væntingar snúast um það að ég nái til
þeirra og þeir til mín. Ég hlakka bara svo til að
koma. Ísland er enn svo nýtt fyrir mér, þótt ég
hafi bæði komið þangað áður og fylgst með
mörgu því sem þar gerist. Ég hef ferðast svo
víða og séð svo margt í heiminum, að það er
mér sérstakt gleðiefni að koma til staðar eins
og Íslands. Það verða mér landvinningar að
heimsækja ykkur. Ég veit að mörg ykkar
þekkja til minna verka, en ég þarf að kynnast
ykkur betur. Ég lít á þetta sem nýtt upphaf og
vona að einn góðan veðurdag fái ég tækifæri til
að koma aftur og dvelja lengur til að kynnast
landi og þjóð.“
Ég lít á mig sem
verkamann í listinni
Söngkonan, tónskáldið og ljóðskáldið Patti
Smith heldur tónleika með hljómsveit sinni á
Nasa á þriðjudagskvöld. Patti Smith á að
baki farsælan feril í rokkinu, en í nóvember
verða 30 ár liðin frá því fyrsta plata hennar,
meistaraverkið Horses, kom út. Patti Smith
hefur heimsótt Ísland áður, hefur yndi af
mystíkinni og dýptinni í íslenskri ljóðlist og
lætur það verða eitt sitt fyrsta verk hér að
heimsækja Skáksambandið.
Patti Smith „Ég vona að rokkið glati aldrei þeim eiginleika að geta verið beitt. En hitt er satt, að bransinn í kringum það hefur sannarlega orðið deigari
með tímanum. Bransinn vill tónlistarfólk sem hefur áhuga á honum sjálfum. Bransinn hefur fyrst og fremst áhuga á að búa til poppstjörnur.“
Eftir Bergþóru
Jónsdóttur
begga@mbl.is