Lesbók Morgunblaðsins - 01.10.2005, Blaðsíða 15

Lesbók Morgunblaðsins - 01.10.2005, Blaðsíða 15
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 1. október 2005 | 15 Fyrsta staðhæfingin er um leið meginstefið: „Alles mit Gott und nichts ohn’ ihn“, „Allt með Guði og ekkert án hans“. Bach, hinn mikli tón- mælskumaður, lætur „Guð“ falla á hæstu og áherslumestu nótuna. Svo tekur við dæmigerð- ur Bach-vefur, að þessu sinni tveggja radda kontrapunktur, þar sem sópran og fylgibassi (basso continuo) útlista merkingu fyrstu stað- hæfingarinnar, áður en bassinn endurtekur for- spilið. Síðan kemur millispilið, fyrir tvær fiðlur, víólu og fylgibassa. Ef einhver efaðist um að arían væri verk Bachs, hlýtur sá hinn sami að bægja þeim efasemdum snarlega á bug, því tjáningarkraftur þessa strengjakafla og frá- bærlega útfærð hermiröddunin bendir eindreg- ið í átt að snillingnum frá Eisenach. Verkið sem hér er verið að flytja, „nýja“ arí- an hans Bachs, er svokölluð strófuaría eða vers- aría, sem var afar vinsælt tónlistarform á þess- um tíma í Þýskalandi. Þetta voru sjálfstæð verk fyrir söngvara og fylgirödd, oft með strengja- millispili (ritornello), og textinn var í nokkrum eða mörgum versum. Textinn við aríu Bachs er alls tólf erindi og Juliane Banse syngur þrjú þeirra áður en gert er hlé á flutningnum og ræðuhöld hefjast, eins og vera ber við slíkt tækifæri. Fyrstur á mælendaskrá er Hellmut Seemann, forseti stofnunarinnar Klassik Stift- ung Weimar, svo stígur Christoph Wolff á stokk, einn af virtustu Bach-fræðimönnum heims og forstjóri Bach-safnsins í Leipzig, Bach-Archiv Leipzig. En þriðji og síðasti ræðu- maðurinn fær mesta athygli og lengsta klappið. Þar er kominn Michael Maul, hinn ungi, efni- legi og fundvísi starfsmaður Bach-safnsins, með skærappelsínugult bindi í tilefni dagsins og svo stoltur og hamingjusamur að hann svífur um í ræðustólnum. Grípum niður í spennandi frásögn hans: „Frá árinu 2002 hef ég tekið þátt í verkefni á vegum Bach-safnsins í Leipzig og Barokk- tónlistarþings Mið-Þýskalands (Ständige Kon- ferenz Mitteldeutsche Barockmusik) sem felst í því að fínkemba skjala- og bókasöfn í Mið- Þýskalandi í leit að efni sem tengist tónlist- arsögu barokksins. Bach-safnið hefur vitaskuld sérstakan áhuga á skjölum eftir og um Johann Sebastian Bach. Ýmislegt athyglisvert hefur komið í ljós varðandi Bach en enginn þorði þó að vona að óþekkt verk eftir tónskáldið myndu koma í leitirnar. Ég sniðgekk meira að segja þá bæi og borgir þar sem Bach starfaði, því ég gerði ráð fyrir því að kynslóðir Bach-fræðinga hefðu kannað söfn þessara borga svo gaum- gæfilega að ólíklegt væri að eitthvað mikilvægt myndi finnast þar. En er þetta ekki…! En fyrir um hálfu ári beindi ég þó athygli minni að árum Bachs í Weimar og sérstaklega að þeim fjölmörgu hyllingarljóðum sem embætt- ismenn og guðfræðingar skrifuðu á sínum tíma til heiðurs hertoganum af Sachsen-Weimar. Þann 17. maí sl. hafði ég þegar eytt tíu tímum í að rannsaka þessi prentuðu tækifærisljóð, sem eru geymd í stórum kössum í Önnu Amalíu- bókasafninu, þegar ég rakst á blöð sem höfðu að geyma að því er virtist lítt áhugavert afmæl- isljóð til handa vinnuveitanda Bachs, Wilhelm Ernst hertoga, á 52 ára afmæli hans árið 1713, eftir prófastinn Johann Anton Mylius í Butt- städt skammt frá Weimar. Þegar ég fletti þessu prentskjali sá ég mér til furðu að tvær síðustu síðurnar höfðu upphaflega verið skildar eftir auðar, en þar hafði svo tónlist við ljóðið verið handskrifuð án þess að nafns tónskáldsins væri getið. Ég trúði ekki eigin augum, því ég kann- aðist strax við hinn glæsilega bogadregna sópr- anlykil – þetta leit út eins og rithönd Bachs! Ég reyndi að vera raunsær. Mylius- fjölskyldan státaði af mörgum tónskáldum. Hefði prófasturinn ekki leitað til einhvers þeirra til að fá ljóð sitt tónsett? Eða þá til Drese-feðganna sem báðir voru hærra settir í Weimar en Bach, sem fram að þessu hafði ekki samið ýkja mikið af söngtónlist? En samt leit þetta út eins og rithönd Bachs! Ég gat þó ekki verið alveg viss í minni sök og ákvað að panta ljósmynd af handritinu til að getað borið það saman við önnur Bach-handrit í Leipzig. Næstu dagar ætluðu aldrei að líða. Ég gat ekki hugsað um neitt annað en handritið í Weimar og kollegi minn, kennari og vinur, Pet- er Wollny, sérfræðingur í að greina rithönd Bachs, varð að hlusta á mig tala um tilgátu mína klukkustundum saman án þess að ég gæti sannað mál mitt eða sýnt honum eitt né neitt. Það var svo loks 1. júní sl. að umslag barst frá Weimar. „Opnaðu það!“ sagði Peter, og síðan: „Ekki spurning! Þetta er mikilvægasti hand- ritafundur í marga áratugi!“ Um kvöldið opn- uðum við kampavínsflösku og daginn eftir ákváðum við í samráði við leiðbeinanda minn, Christoph Wolff, að tilkynna uppgötvunina á blaðamannafundi 7. júní. Síðan hefur síminn ekki þagnað: Allir vilja flytja eða heyra aríuna.“ Einstakt andrúmsloft Og margir eiga vafalaust eftir að heyra hana á næstu mánuðum og árum. Það er víst alveg öruggt að þessarar fallegu aríu bíða önnur ör- lög á okkar dögum en á átjándu öldinni. Þá var tónverk á borð við þetta einfaldlega tækifær- isverk, líftími þess rann út um leið og tækifærið var liðið hjá, nema ef höfundarnir ákváðu að endurnýta efniviðinn á einhvern hátt. Nú sjá hljóðritanir og nótnaútgáfur til þess að hver tónn sem hefur varðveist eftir meistarana er öllum aðgengilegur, hvenær og hvar sem er. Þó skaut þeirri hugsun upp í huga mér að sá and- blær sem sveif yfir hátíðarsalnum laugardaginn 3. september, þegar týnda arían hans Bachs hljómaði á ný í fyrsta sinn, myndi aldrei verða endurskapaður, frekar en andrúmsloftið sem verkið var upphaflega flutt í. (Ég skýt hér til gamans inn nöfnum þeirra skóladrengja sem helst kemur til greina að hafi sungið verkið upphaflega: Johann Philipp Weichardt, Johann Christian Gerrmann). Það var því yndislegt að heyra Juliane Banse, András Schiff og félaga flytja þrjú erindi til viðbótar af versunum tólf, hin síðustu þrjú. Ekki það að textinn sé neitt meistaraverk, en það er þó honum að þakka að maður fær að heyra laglínuna og um leið milli- spilið svo oft. Annars vantar ekki lærdóminn og pæling- arnar í texta prófastsins. Í hverju erindi leynast tilvísanir í ritningarstaði (þeir eru tilgreindir í prentuðum textanum) og fyrsti stafur þriðja orðs annarrar ljóðlínu hvers erindis (!) mynda saman nafn hertogans, Wilhelm Ernst, og skýr- ist þá fjöldi versanna. Og Bach lét sitt ekki eftir liggja. Það má geta sér þess til að ástæðan fyrir því að forspil fylgibassans inniheldur einmitt 52 tóna hafi verið æviárafjöldi hertogans, þó það megi efast um að hann eða nokkur annar hafi gert sér grein fyrir þessari staðreynd, ef Bach hefur ekki hróðugur vakið athygli á henni. Tilhlýðileg tileinkun Skáldið sló þó tónsmiðnum við í undirgefni og þjónustulund eins og hin tilhlýðilega tileinkun sem er að finna á titilblaðinu ber með sér. Kvæðið var semsé helgað „hinum hágöfga fursta og herra, herra Wilhelm Ernst, hertoga af Saxlandi [o.s.frv., o.s.frv. (hér kemur löng upptalning á þeim landsvæðum sem undir her- togadæmið heyrðu)], samið út frá vors náð- arsamlega stjórnandi þjóðdrottins og lands- herra kirkju-furstalega kjörorði eða SYMBOLUM, Omnia cum DEO, & nihil sine eo. Allt með GUÐI og ekkert án hans. Íhugað og úthugsað í undirgefinni skyldurækni og með hjartans innilegustu óskum um allt sem það hefur að geyma og í ofanálag allar hugsanlegar líkamlegar og andlegar blessanir. Yðar há– furstalegu tign til handa þann 30. október 1713, enn og aftur í hásælu vegna gleði gervalls landsins í tilefni af háfurstalegum afmælisdegi yðar hátignar og blessaðri byrjun 53. æviársins. Afhent í dýpstu undirgefni af Johanni Antoni Mylius, prófasti í Buttstädt.“ Þegar þessi fjálglega tileinkun er höfð í huga kemur kannski ekki á óvart að hinar prentuðu síður (og um leið handskrifaðar síður Bachs) skyldu vera bundnar inn í afar glæsilegt band með upphleyptu marmaramynstri. Og það var einmitt það sem varð til þess að bjarga verkinu frá tortímingu. 2. september 2004, ári og degi fyrir flutninginn á aríu Bachs í hátíðarsalnum, stórskemmdist Önnu Amalíu-bókasafnið í mikl- um eldsvoða. Safnið, sem stendur steinsnar frá höllinni, státaði af tugþúsundum sjaldgæfra og einstakra bóka, að ekki sé talað um fingraför Goethes, Schillers, Herders, Wielands og ann- arra stórmenna þýskrar menningarsögu. Í einni svipan urðu yfir 50.000 bækur frá 17. og 18. öld að reyk og ösku, auk þess sem mikið magn tónlistargagna varð eldinum að bráð. Al- les mit Gott hefði vafalaust farið sömu leið ef ekki hefði verið fyrir merkilega tilviljun. Aðal- viðgerðarmaður bókasafnsins, Matthias Hag- elböck, hefur sérstakan áhuga á tækifær- iskveðskapnum frá Weimar vegna hinna einstöku banda. Hann ákvað að skrá böndin og var nýbúinn að færa þau til tímabundinnar geymslu á verkstæði sínu. Ef hann hefði ekki gert það hefðum við aldrei komist að því að „nýja“ verkið hans Bachs hefði verið til. - - - Þegar hinni ógleymanlegu stund í hátíð- arsalnum var lokið tókst mér að eiga orðastað við Juliane Banse sópran. Ég spurði hana hvernig það kom til að hún varð þess heiðurs aðnjótandi að frumflytja aríuna. „Ég þekki að- standendur hátíðarinnar,“ sagði hún, „og gat að sjálfsögðu ekki neitað þessu einstæða boði. Það var talað við mig áður en búið var að opinbera fundinn og ég mátti því ekki segja neinum frá þessu. Svo fékk ég nóturnar sendar – ljósrit af handriti Bachs – og gat ómögulega lesið þær. Þannig að það var ekki fyrr en búið var að tölvusetja nóturnar sem ég gat loks farið að æfa aríuna.“ Hvernig tilfinning skyldi það nú vera að fá fyrstur allra söngvara á okkar dögum að takast á við verk eftir tónskáld á borð við Bach? „Það er auðvitað ólýsanlegt. En ég gerði mér eiginlega ekki alveg grein fyrir mikilvægi stundarinnar fyrr en ég stóð frammi fyrir áheyrendunum núna áðan og sá hvernig andlit Michaels Mauls ljómaði og hversu fast hann hélt í hönd konu sinnar. Ég mun aldrei gleyma þessari stund!“ Bara byrjunin? Peter Wollny, áðurnefndur kollegi Michaels Mauls, var að sjálfsögðu viðstaddur flutninginn í Weimar og gaf sér einnig tíma til að eiga við mig nokkur orð, þó hann væri umsetinn eins og aðrir Bach-fræðingar þennan dag. Ég spurði hann hvort hann teldi þetta verk bæta ein- hverju við vitneskju okkar um stílþróun Bachs. „Já,“ svaraði hann, „þetta verk fyllir visst tóm, því það er fátt til eftir Bach sem vitað er að hann samdi árið 1713. Arían sýnir okkur líka að strax á þessum tíma, áður en hann fór að semja kantötur reglulega, var Bach orðinn gott söng- tónskáld.“ Og svo lét ég sjálfgefna spurningu flakka: Eiga fleiri óþekkt eða týnd verk eftir að finnast á komandi árum, eftir Bach eða aðra þekkta meistara? Aftur svaraði Wollny játandi, nú með áherslu. „Ég er alveg viss um það! Auð- vitað munum við ekki finna öll verk Bachs og annarra tónskálda sem við vitum að voru samin en eru ekki lengur til og það er ekki líklegt að við opnum skáp og finnum heilan bunka af óþekktum verkum. En hinsvegar er ég sann- færður um að enn leynist ýmis verk hér og þar. Mörg söfn í gamla Austur-Þýskalandi sem eru líklegir fundarstaðir voru óaðgengileg um langt skeið og enn á eftir að kanna þau til hlítar. Svo er líka nokkuð um rangar skráningar í söfnum, svo það er mikil vinna framundan, en spenn- andi!“ Ég kvaddi Wollny og hina Bach-fræðingana með þakklæti og nokkurri öfund. Kannski mað- ur söðli bara um og gerist safnagrúskari? Svo bara ein lítil saga í lokin, sem sýnir hverfulleika hins veraldlega valds betur en margt annað. Þegar Bach hafði þjónað hertog- anum margnefnda, Wilhelm Ernst, með frá- bærum tónlistarflutningi og tónsmíðum af ýms- um gerðum, að ekki sé minnst á Alles mit Gott, í tæpan áratug og hugðist flytja sig um set til Köthen, rauk hertoginn upp og kastaði tón- skáldinu í fangelsi. Þar mátti Bach dúsa í tæpan mánuð áður en hann var loks leystur frá skyld- um sínum með skömm. Slík eru laun heimsins! Þess ber að síðustu að geta að Alles mit Gott und nichts ohn’ ihn, sem fengið hefur númerið 1127 í Bach-verkaskránni (BWV), er komið út á nótum hjá Bärenreiter-útgáfunni þýsku og fyr- irtækið hyggst einnig gefa út ljósprent af hand- ritinu í haust. Þá hefur fyrsta hljóðritunin litið dagsins ljós hjá kantötuútgáfufyrirtæki Johns Eliots Gardiners, SDG. Elin Manahan Thomas syngur með hljóðfæraleikurum úr hljómsveit Gardiners, English Baroque Soloists. Svo er líka gaman að geta þess að stefnt er að því að frumflytja Alles mit Gott á Íslandi á Tónlist- arhátíð á jólaföstu í Hallgrímskirkju í desem- ber næstkomandi.  Tilvísanir 1. Lesendum er bent á afar athyglisverða endurgerð á hall- arkirkjunni í þrívíðri tölvutækni á vefsíðunni www.florianscharfe.de/schlosskapelle. Höfundur er útvarpsmaður. Í höll hertogans Þéttskipaður hátíðarsalur hertogahallarinnar í Weimar á meðan á flutningi „nýju“ aríunnar eftir Bach stóð. Maul og Banse Hinn fundvísi Michael Maul og sópransöngkonan Juliane Banse í lok dagskrárinnar í hátíðarsalnum.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.