Lesbók Morgunblaðsins - 01.10.2005, Blaðsíða 24

Lesbók Morgunblaðsins - 01.10.2005, Blaðsíða 24
24 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 1. október 2005 É g las með athygli grein Björns Þorsteinssonar heimspekings, „Hluturinn snýr aftur – póst- módernisminn kveður“ í Les- bók Morgunblaðsins 17. sept. síðastliðinn. Hin afdrátt- arlausa skoðun sem birtist í fyrirsögninni fékk mig til að velta efni greinarinnar fyrir mér út frá forsendum mannfræðinnar og ég komst að því að ég er ekki alls kostar sammála skoðun Björns. Póstmódernisminn Ef póstmódernisminn felst í því að „hvaðeina í heiminum megi setja í samhengi við eitthvað annað og skilja það til fullnustu með því að rekja þessi tengsl“, eins og Björn segir í grein sinni, þá er póstmódernisminn nærri ald- argamall í mannfræðinni. Frá því að Bronislaw Malinowski stundaði rannsóknir sínar á sam- félagi og menningu Trobrianda á árum fyrri heimsstyrjaldarinnar og rökfærði í framhaldi af því að hvert samfélag yrði að skilja út frá því sjálfu og að sérhvert félagslegt og menning- arlegt fyrirbæri yrði að skilja út frá samhengi þess hefur samhengið verið í lykilhlutverki í mannfræðilegum rannsóknum og greiningum. Gott dæmi um mikilvægi samhengisins í mannfræði er til dæmis umfjöllun Mary Dougl- as frá 1966 um hreint og óhreint. Douglas held- ur því fram að skítur sé fyrst og fremst efni á skökkum stað. Mold í blómabeði er ekki skítur, hún á heima þar og hefur þar hlutverki að gegna. Þessi sama mold komin inn á stofugólf er skítur, hún á ekki heima þar, hefur þar engu hlutverki að gegna og við hreinsum hana burt í samræmi við menningarlegar venjur okkar. Það er menningarlegt samhengi moldarinnar sem skilgreinir hana, ekki hlutveruleiki hennar því hann er sá sami í blómabeðinu og á stofu- gólfinu. Mikilvægi samhengisins á sér því langa sögu í mannfræðinni og mörgum mannfræð- ingum kom spánskt fyrir sjónir þegar farið var að gefa þessu grundvallargreiningaratriði nafn stefnu og kalla póstmódernisma. Fæstir gerðu þó athugasemd við það heldur fögnuðu því að samhengið væri fært til öndvegis í fræðilegri viðleitni. Ástæða þess að mikilvægi samhengisins á sér jafn langa sögu og raun ber vitni í mannfræð- inni er ef til vill sú að mannfræðin fæst meðal annars við að rannsaka og skilja samfélög sem eru ólík okkar eigin samfélögum og sem Vest- urlandabúar kölluðu gjarnan „villimanna- samfélög“. Þegar mannfræðingar fóru almennt að stunda rannsóknir á vettvangi á fyrri hluta síðustu aldar varð þeim fullljóst að þessir „villi- menn“ voru ekki bara menn rétt eins og við (Hluturinn), heldur menn á sama hátt og við með rökræna hugsun, tilfinningar, menningu og samfélagsskipan. Munurinn var einfaldlega sá að rökræna þeirra var ekki að öllu leyti sú sama og okkar og menning þeirra og þjóð- skipulag því að sama skapi frábrugðið okkar. Þess vegna varð að skilja hvert samfélag og hvert menningarfyrirbæri út frá samhengi þess, út frá tengslunum sem gerðu þessi fyr- irbæri rökræn. Þannig fjallaði Evans-Pritchard til dæmis um galdratrú Azande árið 1937 og komst að þeirri niðurstöðu að þótt hún væri ekki rökræn fyrir okkur væri hún fullkomlega rökræn fyrir þá. Azande trúa því að ef menn verða fyrir óhappi þá sé það vegna þess að einhver hafi bruggað þeim galdur. Ef maður situr undir tré og orm- étin grein af trénu fellur á höfuð hans og drepur hann þá er það vegna galdurs. Menn vita vel að greinin brotnaði af vegna þess að hún var orm- étin, en sú staðreynd að hún brotnaði af einmitt þegar þessi maður sat undir trénu, lenti á höfði hans og drap hann er sökum galdurs. Galdratrúin skýrir þess vegna það sem við köll- um tilviljanir eða slys og í samhengi sínu er hún fullkomlega rökræn. Hluturinn Þó að mannfræðin hafi snemma orðið að átta sig á mikilvægi samhengisins fól það ekki í sér að það sem Björn nefnir Hlutinn hafi verið fjar- verandi í skilningsleit mannfræðinga. Hlut- urinn í skilgreiningu Björns er ekki endilega efnislegur hlutur, hann getur verið fyrirbæri eins og dauðinn, lifandi hlutur eins og líkaminn sem hrörnar og tregðast við að láta að vilja okk- ar, eða skoðanir og trúaratriði. Hluturinn er þetta eitthvað í veruleikanum, segir Björn, sem „tregðast sannarlega við að láta smætta sig nið- ur í öfgafulla samhengishyggju … lætur ekki fanga sig í samhengi … snýr alltaf aftur þegar minnst varir, rýfur samhengið, hina skyn- samlegu, fyrirsjáanlegu, lögbundnu, þægilegu framvindu – og þá gerist eitthvað sem ef til vill má kalla viðburð“. Hér komum við að hinni hlið mannfræðinnar, þeirri að hún rannsakar einnig hvað er sameig- inlegt öllum mönnum, ekki aðeins hvernig sam- félög og menning manna eru ólík. Allir menn hafa líkama (eitt dæmi um Hlutinn) og mann- fræðingar hafa löngum reynt að skilja hvernig líkaminn leikur með eða grípur inn í „raunveru- leikann“. Margir mannfræðingar hafa bent á hvernig Hluturinn líkami er sýnileg birting- armynd mismunandi æviskeiða manna og ef hann fylgir ekki eðlilegri framvindu menning- arlega skilgreindra æviskeiða og þroskast til dæmis ekki á réttan hátt þá rýfur hann hið „lög- bundna“ samhengi. Rannsóknir mannfræðinga hafa einkum beinst að því að skoða hvernig menn bregðast við slíku inngripi í samhengið og hvað þau viðbrögð segja um samhengið, en til grundvallar slíkum rannsóknum liggur skiln- ingur á mikilvægi Hlutarins og að hann rýfur hið „þægilega“ samhengi. Annað dæmi um Hlutinn er dauðinn, hann er okkur mönnum öllum einnig sameiginlegur og mannfræðingar hafa lengi rannsakað mismun- andi viðbrögð manna við þessum Hlut. Dæmið frá Azande hér að ofan sýnir að dauði mannsins sem sat undir ormétnu greininni rýfur sam- hengið með svo sviplegum hætti að það er við- burður. Og einmitt þess vegna verður að finna því skýringu, það er Homo sapiens sapiens, eða hinum vitiborna manna, óþolandi að geta ekki skýrt það sem ekki lætur að stjórn, það sem tregðast við. Og Azande-menn hafa sína skýr- ingu; manninum var bruggaður galdur. Þegar slík skýring er sett fram vaknar hins vegar sú spurning hvort Hluturinn, í þessu til- felli dauðinn, sé ekki orðinn hluti af samheng- inu. Að koma og fara Eins og af þessum pistli má sjá er ég sammála Birni um samhengishyggju póstmódernismans og mikilvægi Hlutarins í viðleitni okkar til að skilja það magnaða sköpunarverk sem mað- urinn, menning hans og samfélag er. Ég er aft- ur á móti ekki sammála þeirri niðurstöðu Björns að póstmódernisminn sé að kveðja og Hluturinn hafi verið fjarverandi og sé því að snúa aftur. Eins og ég hef bent á hefur samhengishyggja póstmódernismans verið fyrir hendi í mann- fræðinni í nær hundrað ár. Hún var einfaldlega ekki kölluð póstmódernismi. Sama má segja um Hlutinn, mikilvægi hans hefur mannfræðingum löngum verið ljóst en hann var einfaldlega ekki nefndur því nafni. Viðleitni okkar til að gefa skýringaraðferðum okkar nöfn er allra góðra gjalda verð, slík nafngift skilgreinir og skýrir hvað við erum að gera og fleytir okkur því áfram í viðleitni okkar. En í rauninni eru slíkar „stefnur“ oft ekki nýjar, þær er gjarnan að finna í ýmsum myndum í gegnum tíðina eins og ég hef rakið hér fyrir mannfræðina. Þær skil- greina hins vegar hvað er efst á baugi í hugsun okkar hverju sinni, eins og glitþráður sem sker sig úr í þeim fjölbreytta vef sem hugsun okkar myndar og leitast við að skipuleggja. Að sama skapi tel ég að stefnur „kveðji“ ekki. Þó að glit þeirra í vefnum dofni halda þær áfram að vera hluti af þekkingu okkar og skýr- ingaraðferðum. Þannig má halda fram að ýmsar stefnur frá fyrri hluta síðustu aldar eins og þró- unarhyggja, virknishyggja og gerðarhyggj- urnar lifi enn góðu lífi í fræðum og vísindum. Þær hafa ekki farið neitt, innsýn þeirra og skýr- ingarviðleitni býr með okkur áfram, jafnvel svo að við tökum ekki alltaf eftir því. Þær eru enn hluti af vefnum, en það kemur ekki í veg fyrir að við, vefararnir, höldum áfram verki okkar.  Heimildir sem vitnað er til Douglas, Mary [1966] 1985. Purity and Danger. An Analysis of the Concepts of Pollution and Taboo. London, Ark. Evans-Pritchard, E. E. [1937] 1980. Witchcraft, Oracles and Magic among the Azande. Oxford, Oxford University Press. Malinowski, Bronislaw [1922] 1978. Argonauts of the West- ern Pacific. London, Routledge and Kegan Paul Ltd. Póstmódernisminn og Hluturinn Samhengishyggja póstmódernismans hefur verið fyrir hendi í mannfræðinni í nær hundrað ár. Hún var einfaldlega ekki kölluð póstmódernismi, segir í þessari grein sem er svar við skrifum Björns Þorsteinssonar um Hlutinn og dauða póstmódernismans hér í Lesbók fyrir tveimur vikum. Höfundur telur að ýmislegt sem tengt er póstmódernisma nú hafi verið til lengi í fræðunum. Morgunblaðið/Jim Smart Samhengi hlutanna „Þó að mannfræðin hafi snemma orðið að átta sig á mikilvægi samhengisins þá fól það ekki í sér að það sem Björn nefnir Hlutinn hafi verið fjarverandi í skilningsleit mannfræðinga.“ Höfundur er prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands. Eftir Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur sduna@hi.i

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.