Morgunblaðið - 30.11.2005, Side 10
10 Lifandi kirkja
Jón Stefánsson tónlistarstjórnandi
og organisti Langholtskirkju var
aðeins sautján ára gamall þegar hann
réð sig til starfa hjá kirkjunni. Það
var árið 1964 og hann var þá enn í
námi og sinnti afleysingum til að
byrja með. Síðar það sama ár var
hann fastráðinn við sóknina. „ Ég
hélt stöðu minni á meðan ég lauk
námi mínu, bæði hérna heima og
framhaldsnáminu erlendis. Ég tók við
mjög góðu búi hér í Langholtskirkju.
Hér var hefðbundinn kirkjukór
ásamt því sem hefð hafði skapast
fyrir því að hann héldi tónleika einu
sinni á ári og æfði hann því meira en
aðeins kirkjusöng,“ segir Jón.
Fjölgun í kórnum
„Þegar ég kom heim úr námi þá
langaði mig að takast á við stærri
verkefni en kórinn var of lítill. Þá
voru reglur kórsins þannig að hann
fékk eina greiðslu á ári sem deildist
á alla félagana sem gerði að verkum
að erfiðara var að fjölga í kórnum því
þá minnkaði hlutur hvers og eins.
Árið 1973 var lögum kórsins breytt
þar sem kórfélagarnir afsöluðu sér
þessari þóknun og í staðinn voru
peningarnir lagðir í sameiginlegan
sjóð til að efla kórinn og kórstarfið“.
Í kringum 1990 hafði kórinn
flutt flest stóru kirkjutónverkin
og hann orðinn gríðarlega öflugur.
Jón segir að þetta hafi í raun verið
í fyrsta skiptið sem kirkjukór hafði
náð að hasla sér völl á þessu sviði.
Á svipuðum tíma var Kammerkór
Langholtskirkju stofnaður. Jón segir
að verkefnin hafi til að byrja með fyrst
og fremst snúið að söng við athafnir
eins og jarðarfarir en fljótlega sá
hann að það var ekki nóg fyrir kórinn
til að starfa af metnaði. „Við fórum
því að æfa meira, halda tónleika og
fara í tónleikaferðir, bæði innan
lands og utan. Kammerkórinn hefur
tekið þátt í ýmsum kórakeppnum og
m.a. unnið kammerkórakeppni einu
sinni. Hann hefur einnig gefið út tvo
geisladiska og er sá þriðji í bígerð,“
bætir hann við.
Fjölbreytt barnastarf
Á tíunda áratug síðustu aldar átti
tónmenntakennsla í grunnskólum
undir högg að sækja sem gerði að
verkum að kórastarfi hnignaði
mikið í grunnskólum. Starfið færðist
í kjölfarið að miklu leyti yfir til
kirkjunnar. Jón segir að sóknarnefnd
Langholtskirkju hafi beðið hann um
að stofna barnakór haustið 1990 og
hefur það starf verið í stöðugri þróun
síðan. „Við byrjuðum með kórskóla
til að kenna börnum tónfræði og
veita þeim markvissa raddþjálfun.
Kórinn samanstóð þá af börnum á
aldrinum átta til sautján ára“. Eftir
fyrsta starfsárið fluttu elstu börnin
í barnakórnum Mattheusarpassíuna
með kór Langholtskirkju. Í kjölfarið
varð til sérstakur kór sem fékk síðar
heitið Gradualekór Langholtskirkju.
„Þegar Gradualekórinn hafði tekið
til starfa fannst okkur ákjósanlegt
að fá börnin fyrr inn í starfið. Við
stofnuðum þá Krúttakórinn sem
í eru börn frá fjögurra til sex ára
aldurs. Hugsunin var sú að skapa
markvissa, samfellda leið fyrir börnin
að stærri kórunum. Í Krúttakórnum
er meira lagt upp úr sönggleði og því
að syngja saman en þau fá líka strax
að kynnast þeim aga sem fylgir að
syngja með kór. Þegar börnin koma
svo í kórskólann læra þau tónfræði
og fá frekari raddþjálfun. Þá taka þau
einnig þátt í samsöng með Graduale
kórunum og fá því að kynnast
því snemma að syngja í tveimur
til fjórum röddum. Kórskólinn er
hliðstæður tónlistarskóla nema í
stað þess að vinna með hljóðfæri
vinna börnin með eigin raddir.“
Graduale Nobili og söngvarar
framtíðarinnar
Þegar Gradualekórinn hafði
starfað í um níu ár var Jón farinn að
horfa á eftir mjög færum kórfélögum,
sem höfðu sungið hjá honum í fjölda
ára, en voru orðnir of gamlir fyrir
kórinn.
„Stúlkurnar voru margar hverjar
orðnar gífurlega færir söngvarar
og því erfitt að horfa á eftir þeim.
Við ákváðum þá að stofna Graduale
Nobili sem eins konar framhald af
Graduale kórnum“. Graduale Nobili
er úrvalskór sem er smár í sniðum, en
aðeins 24 stúlkur syngja með honum.
Skilyrði fyrir inngöngu í þann kór
er að hafa fengið tónlistaruppeldi í
GradualekórLangholtskirkjuogvelur
Jón félagana sjálfur inn. Hann segir
að það sé hreint stórkostlegt að vinna
með þeim kór en flestar stúlknanna
eru að auki í tónlistarnámi eða hafa
lokið slíku námi.
Jón segir að þegar reynsla hafi
verið komin á kórskólann og
Krúttakórinn hafi komið í ljós að
fyrir þau börn sem höfðu farið þá leið
var kórskólinn heldur of auðveldur.
Þau voru hins vegar ekki orðin nógu
gömul til að taka þátt í Graduale
starfinu auk þess sem inntökupróf
eru í þann kór. Það var því ákveðið
að stofna einn kórinn enn sem fékk
heitið Graduale Futuri og segir Jón
að þetta skipulag hafi gefið mjög
góða raun.
Jón segir að auk þessa hafi fyrir
nokkrum árum síðan verið ákveðið
að fjárfesta í Gradualekórnum
með söngkennslu í grunnámi.
„Kórinn hefur styrkt þá félaga í
Gradualekórnumsemhafahaftáhuga
á því að fara í enn frekara söngnám
og erum við í mjög góðu samstarfi
við Söngskólann í Reykjavík. Við
erum mjög stolt af þessu starfi hér og
höfum undanfarin ár getað státað af
nemendunum með hæstu einkunn í
grunnprófinu. Það segir okkur að við
erum á réttri og góðri leið“.
Mikil vinna
Það gefur auga leið að töluverð
vinna fer í að halda úti svona miklu
kórastarfi en í kórum Lanholtskirkju
starfa nú um 270 manns. Jón stýrir
sjálfur fjórum af kórunum. Tveir
kennarar sjá um Krúttakórinn og
þrír kennarar eru með kórskólann
og Graduale Futuri. Ólöf Kolbrún
Harðardóttir sér um raddþjálfun hjá
stóra kórnum ásamt kórskólanum.
Gradualekórinn er rekinn af
foreldrafélagi en í hinum kórunum
þurfa nemendur að greiða skólagjöld.
Jón segir að foreldrafélag Graduale
kórsins sé gríðarlega öflugt og hafi
skilað ótrúlegu starfi. „Fyrir okkur
sem stöndum að þessu er ótrúlega
gefandi að sjá hvað þetta starf hefur
skilaðsérútítónlistarlífið.Fjölmargir
út kórunum hafa haldið áfram í
söngnámi og hafa t.d þrjár stúlkur úr
Graduale Nobili kórnum komist inn
í mjög góða tónlistarháskóla erlendis
á þessu ári“.
Framtíðin og aðventan
Jón hefur lengi gengið með það
í maganum að stofna drengjakór.
Hann segir að það sé aðeins einn
drengjakór starfandi við kirkju á
landinu. „Ég tel að ef að við myndum
stofna annan drengjakór þá myndi
sá sem fyrir er eflast til muna. Hins
vegar stendur og fellur slíkt starf
með góðum stjórnendum og það má
eiginlega segja að við séum að bíða
eftir tónlistarstjórnanda til að taka
verkið að sér“, segir Jón. Hann bætir
við að framundan sé aðventan og
þá taki kórarnir ávallt mikinn þátt
í helgihaldinu. Kór Langholtskirkju
syngur sína hefðbundnu jólasöngva
síðustu helgina fyrir jól, en þetta eru
27. jólin sem það er gert. Í ár heldur
kórinn ferna tónleika og verður sem
áður notaleg stemning á staðnum,
með heitu súkkulaði og piparkökum.
Gunnar Gunnarsson organisti í
Laugarneskirkju er löngu þekktur
fyrir áhuga sinn á djasstónlist. Á
liðnum árum hafa Gunnar og séra
Bjarni Karlsson sóknarprestur í
Laugarnessókn útfært kvöldmessur
annað hvert sunnudagskvöld í
mánuði þar sem flutt er vönduð
djasstónlist auk hefðbundinna
sálma.
Að sögn Gunnars er um
hefðbundið messuform að ræða,
,,og sálmabók kirkjunnar er lögð til
grundvallar öllum tónlistarflutningi
og messuliðirnir eru hefðbundnir.”
Gunnar bætir því við að þessar
messur hefðu aldrei orðið að
veruleika nema fyrir gott samstarf og
víðsýni þeirra presta sem þjónað hafa
í Laugarneskirkju. ,,Kvöldið hentar
vel til messuhalds og við höfum haft
kvöldmessur í Laugarneskirkju á
sumrin, einkanlega til þess að mæta
þörfum þeirra sem nýttu helgarnar
til ferðalaga eða sumarbústaðaferða
en vildu engu að síður geta sótt
messur í kirkjunni sinni. Þessi
messutími hefur verið mjög vinsæll
og kvöldmessurnar með djassívafi
yfirveturinneruenginundantekning
frá því.”
Messan í aðalhlutverki
Gunnar segir að ef vel eigi að vera
verði organistar í kirkjunum að líta
á sig sem starfandi listamenn sem
sífellt eru að þróa sína list en það er
einmitt það sem liggur til grundvallar
djassmessunum í Laugarneskirkju.
Reyndar vill Gunnar kalla
samkomurnar kvöldmessur, ,,því
sjálf messan skiptir meira máli en
tónlistin,” segir Gunnar og bætir við
að hefðbundnar sunnudagsmessur
séu ekki kallaðar sálmamessur!
,,Í mínum huga getur kirkjutónlist
verið nytjalist þar sem tónlistin
er notuð til þess að lofa Drottin. Í
kvöldmessunum nýti ég mér hins
vegar tónlistarlegt frelsi mitt og hef
áherslurnar aðrar. Fyrir vikið náum
við til annars hóps sem síður sækir
hefðbundnar messur,” segir Gunnar.
Að sögn Gunnars er það hvorki
sjálfgefið né einfalt að leika gömlu
sálmalögin í djassútsetningum, ,,því
sálmarnir eru langt frá því að vera
taktfastir enda ekki hugsaðir þannig.
Yfirleitt er sungin ein lína og síðan
kemur þögn til þess að söngfölkið
geti andað áður en það syngur næstu
línu. Ég þarf því að útsetja hvern
sálm upp á nýtt og setja í þá takt
þar sem bassi og trommur mynda
grunninn.”
Messan gerir öllum gott
Kvöldmessurnar hefjast klukkan
hálfníu en hálftíma fyrir athöfnina
er boðið upp á djasstónlist og
tónlistarmennirnir sem leika með
Gunnari eru engir aukvisar. Tómas
R. Einarsson leikur á bassa, Matthías
Hemstock á slagverk og Sigurður
Flosason á saxafón. Kvartettinn
leikur djasstónlist fram að
athöfninni og hefðbundin sálmalög
í djassútsetningum Gunnars
Gunnarssonar meðan á athöfninni
stendur. Sjálf athöfnin er í engu öðru
frábrugðin hefðbundnum messum;
þar er miskunnarbæn, dýrðarsöngur
og altarisganga í lokin.
Gunnar segist hafa fengið góð
viðbrögð djassáhugamanna við
tónlistarflutningnum í messunum
og oft segist hann sjá þekkta
djassáhugamenn í kirkjunni ,,og
það er gott ef tónlistin verður
til þess að fleiri sæki kirkju, því
messan gerir öllum gott,” segir
Gunnar Gunnarsson, organisti í
Laugarneskirkju.
Kvöldmessur með djassívafi í Laugarneskirkju
Brautryðjendur í kórastarfi