Tíminn - 12.06.1983, Blaðsíða 27

Tíminn - 12.06.1983, Blaðsíða 27
SUNNUDAGUR 12. JÚNÍ1983 27 smáborgarinn Kafka og hrekkjalómur- inn Hasek. Kafka skrifar í bréfi um: „...hið ókleifa varðandi það að skrifa ekki, skrifa á þýsku ellegar þá einhverju öðru tungumáli, - já, það er hægt að tilgreina hið fjórða: hið ókleifa varðandi það að skrifa yfirleitt." Fleiri vísbendingar? Nema hvað - ómæli sálfræðilegrar ævisögurýni, duld- irnar og fóbíurnar. Veikburða einstakl- ingur sem hrópar á lífsrými innan fast- mótaðrar gyðinglegrar fjölskyldugerðar. Kafka stríddi allt sitt líf við einn stórpúka - föður sinn. Hermann Kafka, tröllauk- inn mann með nautssvíra og gotneskt höfuðlag. í vitund Kafka var faðirinn holdtekja þess valds sem ekki þarf að spyrja um lög eða rétt, voldugur, hroka- fullur, ímynd þess afls sem deilir og drottnar eftir geðþótta. Faðirinn hafði alla þá eiginleika sem Kafka fannst sig sárlega vanta og vanmetakenndin geis- aði því af ofurafli í sál hans, einkum þegar kvenfólk var annars vegar. Hann stóð tvívegis á þröskuldi hjónabandsins, en hopaði síðan er atlot ástmeyjanna, Felice og Milenu, fóru að brenna á honum. Á sama hátt lagði skáldfaðir hans og annar forgengill existensíalism- ans, Daninn Sören Kierkegaard, á flótta er hjónabandið lagði snörur sínar fyrir hann. Ástæður Kafka voru líka gildar. Hann var heilsutæpur, kvalinn af óræðu samviskubiti, áleit að til þess að stofna heimili þyrfti hann frekar eiginleika föðurins en sína eigin, og ritstörfin voru honum brennandi þörf og köllun. í eldinn Þannig var allt hans vitundarlíf - sú hlið sem ekki laut að tryggingunum, sem hann mun hafa rækt af mannskemmandi samviskusemi - líf andlegrar vanlíðunar helgað ritstörfum. Samt lét Kafka ekki mikið frá sér fara meðan entist. Aðeins fáeinar fabúlur í tímaritum og tvö lítil söfn með prósabrotum og smásögum: „Betrachtungen" (Athuganir) og „Ein Húngerkúnstler" (Sultarlistamaður) fyrir áeggjan vina. Kafka renndi aldrei í grun að hann ætti eftir að verða einn hinna ódauðlegu. Hann var óframfærinn með afbrigðum, hélt þó engu leyndu fyrir pappírnum, en óaði líkast til við því að koma upp um sig með því að birta stærri verk, full af brotum og brota- brotum úr eigin ævi. Svo dó hann og það kom á daginn að eftir hann lágu þrjár skáldsögur, fjöldi óprentaðra smásagna, auk dagbóka og bréfa sem fylltu heil fjögur bindi. Á dánarbeði bað hann vin sinn Max Brod, miðlungsrithöfund, að koma því sem eftir lá í skúffunni á eldinn. Max, sem allar götur síðan hefur þótt einn helstur velunnari betri bókmennta, sveik merki, ólukkans hrappurinn, og hélt rakleitt til næsta útgefanda. Næstu árin stýrði hann svo útgáfum á stórvirkjum hans, skáld- sögunum Slotinu og Málaferlunum, og Ameríku, eilítið lítilvægara verki. Og hinn læsi heimur tók andköf... En hefði Kafka raunverulega viljað að handritin eyddust á eldi brennanda, hefði hann þá ekki átt að skreiðast framúr helsjúkur og ... Hér er heilladrjúgur tvískinnungur. Málaferlin Málaferlin (Der Prozess): „Einhver hlýtur að hafa borið ljúgvitni gegn Jósef K., því einn morgun var hann handtek- inn án þess að hafa brotið nokkuð af sér. “ Jósef K., bankablók og meðalmað- ur í alla staði er ákærður fyrir glæp sem hann veit ekki hvers eðlis er. Hann stendur hjálparvana andspænis óskiljan- legu og stirðu réttarkerfi, hann er stadd- ur í völundarhúsi þar sem engin undan- komuleið er til og speglast í endalausum stigum, göngum og kompum dómshúss- ins. í baráttu Jósefs K. verða undirtyllur og kontóristar hvarvetna á vegi hans, en að baki býr ósýnilegt og óskiljanlegt vald sem hvergi gefur á sér færi, er alltum- faðmandi en um leið óendanlega fjarri. Barátta hans er til einskis, á endanum er hann tekinn af lífi án þess að hann sé nokkru nær um það hver glæpur hans er. Söguhetjan í Slotinu (Das Schloss), sem heitir einfaldlega K., á líka í vonlausri baráttu við ósýnilegt yfirv'ald. Hann er að mörgu leyti andstæðan við nafna sinn Jósef K., rótlaus flakkari sem kemur óvænt í sveitaþörp seint um nótt og reynir síðan ákaft að koma sér inn undir hjá yfirvaldinu í Slotinu sem gnæfir yfir þorpið, en hefur ekkert upp úr krafsinu nema skeytingarleysi og niðurlægingu. Sess sinn í bókmennta og menningar- sögu verðskuldar Kafka tæpast fyrir stílgaldur eða stundlega nýsköpun máls. Mörgum þýðendum hans hættir meira að segja til að lagfæra stílbragðið. Styrk- ur hans liggur fyrst og fremst í einstöku næmi, eins konar ofurskynjun á veru- leikanum sem hvorki þarf að sýnast eða berast á. Líkt og hjá öðrum skynjara af svipuðu tagi, sjálfum Dostoévskí, situr formið oft á hakanum, er í raun nauðaó- merkilegt á köflum og ritlistin ekkert til að taka andköf yfir. Það er sjálfsrýnin, einlægnin, óvægin naflaskoðun, þessi hamslausa tjáning sem næstum hefur verk slíkra höfunda yfir gagnrýni. Gald- urinn felst í milliliðalausu samspili lista- manns og veruleika, þeirra viðmið er ekki skapalón hversdagslegrar fagur- fræði. Milli stafs og hurðar „Everybody’s trying to be my baby“ - margir ritskýrendur sjá í Kafka dagsbrún existensíalisma og absúrdisma eftir- stríðsáranna. Marxistar sjá gjarna í honum napra ádeilu á pappírsveldi og handahófskenndar verkanir borgaralegs þjóðfélags. Eða er hann að deila á skrifræðiskommúnismánn, sem var í burðarliðnum um það leyti er hann féll frá? Guðhræddu fólki þykir hann skrifa flestum betur um leit að æðra lífsgildi, trúarlega óvissu, efann í návist þess guðs sem smækkar í sömu mund og alheimur- inn þenst út, og telja verk Kafka bera vott um óslökkvandi trúarþorsta. Og svo framvegis. Innra með honum berjast flestar tilfinningar við andstæðu sína - undirgefni Jósefs K. við uppreisn- argirni K. í Slotinu, ást og andstyggð á konum, hann óttast það að þær éti sig með húð og hári, hann „eyðileggist í öðrum," saurlífisseggurinn og spámað- urinn, löngunin til að samlagast borgara- legum lífsmáta og vissan um að á þeim vettvangi getur hann aldrei verið heill og óskiptur. Hann er staddur milli stafs og hurðar, og listamannsköllunin, „án ábata, án ástar, án fjölskyldu og tekna, reist á bjargi hjartans," svo notuð séu orð Rilkes, er hvort tveggja sáluhjálp hans og hans mesta ógæfa. Ef til vill þykja slíkar vanmetakenndir hálf grátbroslegar í okkar formyrkvaða efnishyggjusamfélagi; en eðlilega átti Gregor skinnið Samsa í Hamskiptunum erfitt með að samlagast er hann vaknaði einn morguninn í rúmi sínu og hafði ummyndast í risastóra pöddu - áður en yfir lýkur veltist hann svo um í eigin saur og því rusli sem gengur undan öðrum fjölskyldumeðlimum. Eða hr. K í Slot- inu sem átti í höggi við andstæðing sem var eins og „The Chesire Cat“ í Lísu í Undralandi, gufaði upp þangað til ekkert var eftir nema kalt glottið. Og Jósef K. sem var sakaður um glæp sem gat allt eins verið erfðasyndin sjálf. Endurskrift En höfum hugfastan vísdóm sem Jorge Luis Borges gefur listilega í skyn í smásögunni frægu um Pierre Menard, Höfund-Quijotes: á vissan hátt endur- skrifum við allar bækur sem við lesum, sníðum þær að eigin smekk og andlegum þörfum okkar sjálfra. Þetta-á'ékkT-síst við um slíkan ráðgátuhöfund sem Kafka er. Hollast er að taka túlkanir og útlist- anir með fullri aðgát; fjöldi þeirra er í besta falli meðmæli með höfundinum. Sendum bókmenntafræðingana á tog- ara! Lesum bækur í stað bóka um bækur! Undir lokin er ekki úr vegi að minnast á gagnkvæma ást Kafka og sálgreiningar- innar. Þurfti maðurinn ekki að komast undir læknis hendur? Það má gera að því skóna. Hann fór hvergi og þakklátir lesendur anda feginsamlega. Angistin, sambandið við hinn drottnandi föður, óvægin hreinleikakrafa hans, kynferðis- leg vanmetakennd, sektarvitundin, sam- viskubitið, hið tvöfalda líf hans - allt eru þetta sjúkdómseinkenni, talin viðfangs- efni sálgreiningarinnar. Og vissulega hafa sálgreinendur rýnt af öllum sálar- kröftum í ævi Kafka og rit. Sjálfum var honum þetta fullljóst, enda greindi hann sjálfan sig með aðferðum Freuds og stílaði síðan niðurstöðurnar til föður síns í ósendu bréfi, Bréfi til föðurins 1919. Taugaveiklunin Þar gerir hann upp sakirnar við sjálfan sig og reynir að komast fyrir rætur taugaveiklunarinnar sem þrúgaði hann alla tíð. Hann ásakar föður sinn fyrir að hafa kúgað sig í bernsku með sínum næstum guðlega mætti, geðþóttavaldir vanþóknun og sífelldum kröfum. Af- leiðingarnar sér Kafka í veiklyndi, sekt- arkennd og skorti á sjálfstrausti. Hann gat ekki kvænst, gat ekki lifað mannsæm- andi lífi, honum var engrar undankomu auðið, líkt og tamda apanum talandi í smásögunni Skýrsla flutt Akademíu. Hann var dæmdur til að lifa lífi sultar- listamannsins, svo notað sé hans eigið orð. Hvorki sektarkenndina né andúð- ina á föðurnum fékk hann upprætt, en altént fann hann þarna hvata til að skrifa verk sem láta engan ósnortinn. Ósnort- inn? Ef bækur Káfka hafa á lesandann þau áhrif sem hann taldi æskileg við lestur skáldsagna hljóta þær að duga: „Ef bók sem við erum að lesa vekur okkur ekki eins og ef við værum lamin með henni í hausinn, til hvers þá að lesa hana? Til þess að hún færi okkur ham- ingju? Drottinn minn dýri, við værum líka hamingjusöm ef við hefðum engar bækur, og bækur sem færa okkur ham- ingju gætum við, ef svo bæri undir, skrifað sjálf. En það sem við getum ekki verið án eru bækur sem dynja yfir okkur eins og ógæfa og valda okkur hugraun- um, eins og dauði einhvers sem við elskum meira en okkur sjálf, eins og sjálfsmorð. Bók verður að vera ísöxi til að brjóta hafið sem er frosið innra með okkur." Franz Kafka kvaddi þennan heim 3ja júní 1924. Það er haft fyrir satt að flestir venslamenn hans sem Iifðu, systur hans og ástkonur, hafi týnt lífinu í útrýming- arbúðum þúsundáraríkisins, þar sem stóðu, vænti ég, fyrir búi dóinsstjórarnir úr Málaferlunum og hinir háu herrar úr Slotinu. Egill Helgason HOLLAÍSD heybindivélin Vinsælasta og mest selda heybindivélin á markaðnum Ein af höfuðástæðum fyrír vinsældum NewHolland hér á landi, erað New Holland verksmiðjurnar hafa hannað vélarnar fyrir fíngert hey og íslenska staðhætti. Við bjóðum tvær stærðir 'H°1~ÚANrs •• . | ,s JL nrís l\EW HOLLAf\D 370 Breidd sópara 1,57 m. Stimpilhraði 80 siög við 540 snúninga á aflúrtaki. Stimpilslaglengd 76 cm. Verð kr. 143.000.- ^Kew hollai\d 378 Breidd sópara 2,00 m. Stimpilhraði 93 slög við 540 snúninga á aflúrtaki. Stimpilslaglengd 76 cm. 3ja hjöruliða drifskaft. Verð kr. 159.000.- (gengi 20/4 ’83) Afkastamesta vélin á íslenska markaðnum Örfáum vélum óráðstafað úr síðustu sendingu. G/obus? LÁGMÚLI 5, SIMI 81555

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.