Tíminn - 22.01.1984, Qupperneq 9

Tíminn - 22.01.1984, Qupperneq 9
SUNNUDAGUR 22. JANUAR 19iM '9 menn og málefni Stöðngleikinn verður að ná til allra þátta efnahagslífsins ■ Þegar ríkisstjórn Steingríms Her- mannssonar lagði af alvöru til atlögu við verðbólguna á s.l. vori var lands- mönnum hvorki lofað gulli né grænum skógum. Þvert á móti var mönnum gert ljóst að baráttan krefðist fórna. Laun voru fryst og kaupgjaldsvísitalan tekin úr sambandi og það gekk enginn að því gruflandi, að lífskjörin mundu versna meðan verið væri að komast yfir erfiðasta hjallann. Almenningur í landinu tók efna- hagsaðgerðunum af skilningi og var fús að leggja sitt af mörkum til að koma í veg fyrir þá efnahagslegu kollsteypu sem fyrirsjáanleg var, ef ekki yrði að gert. Aðgerðirnar gegn verðbólgunni hafa borið ríkulegan árangur. Rúmum sjö mánuðum eftir að verðbólgan stefndi í hátt á annað hundrað prósent er sá hraði kominn niður fyrir 10 af hundraði, og er það meiri og betri árangur en nokkur þorði að vona þegar atlagan var gerð. Launþegar hafa borið hita og þunga baráttunnar en þeir eiga líka mikið í húfi. Stjórnarandstæðingar hafa hamr- að mjög á því að kjararýrnunin sé einhliða verk ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar og láta að því liggja að óþarfi hafi verið að grípa til svo harkalegra aðgerða sem raun ber vitni. Þeir vilja ekkert af því ástandi vita sem orðið hefði ef látið hefði reka á reiðanum. Þeir vilja gleyma því að það stefndi í algjört efnahagsöngþveiti. Fjöldi fyrirtækja var að komast á vonarvöl og væri löngu skoltið á fjöldaatvinnuleysi ef ekki hefði verið gripið í taumana. Síst hefði það verið launþegum hagkvæmara en sú lífskj- ararýrnun sem þeir hafa mátt þola. Eftir að launaskriðið var stöðvað máttu launþegar þola nokkrar skrokkskjóður. Gengið var fellt með tilheyrandi verðlagshækkunum, bú- vöruverð hækkaði samkvæmt lögum og margs konar opinber þjónusta hækkaði verulega. Nokkur raunabót var lögákveðin kauphækkun í júní- mánuði. Öfugþróun í vöruverði Síðan hefur gengið verið stöðugt og búvöruverðshækkunum var haldið í lágmarki, er þær voru ákveðnar í haust. Þegar leið fram á haustið voru vextir lækkaðir. Hafa þeir farið hrað- lækkandi allt síðan og nú um helgina verður enn umtalsverð vaxtalækkun. Stöðugleiki er að komast á í efnahags- lífinu. Stöðugt gengi og ört lækkandi vextir hafa komið atvinnuvegunum mjög til góða og fram til þessa hefur tekist að bægja atvinnuleysi frá. Undanfarnar vikur hefur það að vísu aukist mjög en aðalorsökin er aflatregða og slæmar gæftir, og svartsýni gætir vegna bágs ástands fiskstofna. Geta menn gert sér í hugarlund hvernig ástatt væri í þjóðarbúinu ef við byggjum líka enn við óðaverðbólgu ofan á önnur áföll. Einn er sá liður sem mörgum finnst að verðbólguhjöðnunin nái ekki til, en það er almennt vöruverð. Það er ekki andskotalaust hve seint og illa gengur að koma þar á eðlilegum stöðugleika og jafnvel ætti vöruverð í verslununum að geta lækkað eitthvað. Litlar skýringar fást á því hvers vegna vara heldur áfram að hækka eftir allt það sem á undan er gengið. Það er freist- andi að láta sér detta í hug að verslunin ætli sér ekki að taka á sig neinar byrðar af því sem það kostar að ná verðbólg- unni niður á svo skömmum tíma sem raun ber vitni. Albert Guðmundsson fjármálaráð- herra er gjörkunnugur málefnum verslunarinnar og þarf ekki að lýsa skoðunum hans og velvilja í garð þeirra sem við verslun fást og allir vita að hann er mikill talsmaður frjálsrar verslunar og frjálsrar álagningar. Samt getur hann ekki orða bundist um hve seint honum þykir ganga að koma á sams konar stöðugleika á vöruverði og á öðrum sviðum efnahagslífsins og hefur látið þá skoðun sína í ljósi opinberlega, að eðlilegt væri að vöru- verð lækkaði. Tilkostnaður minnkar en verð hækkar Gengisþróunin, vaxtalækkunin og lægra kaupgjald ættu að koma verslun- inni til góða og gerir það. Allur tilkostnaður við verslunarrekstur, hvort sem um er að ræða innflutning eða smásöluverslun, hlýtur að lækka en vöruverðið ber það ekki með sér. Það er illþolandi ef verslunin ætlar að halda öllu sínu á þurru þegar aðrir leggja hart að sér til að koma á eðlilegum efnahagslegum stöðugleika. Verslunarrekendur gefa þá skýringu að vaxtalækkunin komi seint fram í lækkuðu vöruverði. En langt er um liðið síðan gengið varð stöðugt og launahækkanir starfsfólks hafa ekki verið slíkar í rúmlega tvö misseri að þessi mikilsverðu atriði geti réttlætt verðhækkanir úr hófi. Erlend verð- bólga hefur náttúrlega áhrif á inn- kaupsverð, en til þess hefur hún verið minni í helstu viðskiptalöndum okkar en hér, svo að hún á ekki að vega þungt. Það getur ekki verið meiningin að efnahagsaðgerðirnar með tilheyrandi kjararýrnun almennings eigi að standa undir óhófsfjárfestingum verslunar- innar enda ósæmilegt að ætlast til þess. Vissulega hefur nokkur stöðugleiki orðið á verðlagningu einhverra vöru- tegunda, en ekki eins mikill og æskilegt væri og verðskyn þeirra sem ákvarða álagningu og almennings sem kaupir sýnist ekki vera í takt við ört minnk- andi dýrtíð. Kynslóðir hafa vaxið úr grasi sem alist hafa upp við stöðuga verðbólgu, þótt hraðinn hafi verið mismunandi á ýmsum tímabilum. Ekki er óeðlilegt að það fólk sem ekki þekkir annað ástand líti á dýrtíðarskrúfuna sem náttúrulögmál sem stjórnast af víxl- gengi hækkana á kaupgjaldi og verð- lagi og það tekur sinn tíma að átta sig á að þessi sjálfvirkni er ekki lengur í gangi. Þeim mun meiri ástæða er til að allir leggist á eitt til að sannfæra okkur sjálf um að hægt er að koma á efnahags- legum stöðugleika. Þeir sem við versl- un fást verða að skilja þetta ekki síður en aðrir og haga gjörðum sínum sam- kvæmt þvi. Greitt fyrir gamlar syndir Miklar verðhækkanir á þjónustu op- - inberra stofnana hafa verið óhjá- kvæmilegar, þrátt fyrir að þær stinga mjög í stúf við stefnu stjórnvalda í þeirri viðleitni að ná verðbólgunni niður á viðunanlegt stig. Þar búum við að gamla kerfinu þegar einn megin- þátturinn í baráttunni við verðbólguna var að halda vísitöluhækkunum í lág- marki. Þjónustan var seld langt undir kostn- aðarverði og mismunurinn brúaður með erlendum lánum. En þarna hlýtur að komast á stöðugleiki eins og á öðrum sviðum efnahagslífsins og er þess að vænta að senn muni til að mynda rafmagn og heitt vatn hætta að hækka í verði til neytenda. Sú gjörbreyting sem orðið hefur á lánakjörum er einn gleggsti votturinn um breytt viðhorf. Vaxtalækkanirnar hafa dregið gífurlega mikið úr fjár- magnskostnaði sem var að kyrkja allt atvinnulíf og kom í veg fyrir að hægt væri að reka fyrirtæki á heilbrigðum grundvelli og þar með standa undir sæmandi lífskjörum í landinu. Kaup- hækkanir í krónutölu eru lítils virði í óðaverðbólgu. Það er því ekkert annað en lýðskrum þegar haldið er fram að verðbólguhækkanir komi launþegum til góða. Andstæðingar ríkisstjórnarinnar vinna ötullega að því að sprengja upp þá samstöðu sem náðst hefur um þá stefnu að koma á eðlilegum stöðug- leika í efnahagslífinu. Þeir komast ávallt hjá því að tengja saman þjóðar- framleiðslu og lífskjör. Krónuupphæð- in í launaumslögunum er eina viðmið- unin sem þeir reyna að telja fólki trú um að skipti máli. Afli og þjóðartekjur Minnkandi sjávarafli og dökkleitar horfur í þeim efnum er helsti þrándur í götu bættra lífskjara eins og nú horfir, en ekki baráttan gegn verðbólg- unni og þær ráðstafanir sem gerðar eru til að vinna bug á henni, eins og sumir vilja vera láta. Þjóðartekjur minnka í hlutfalli við minnkandi afla og það hlýtur óhjákvæmilega að koma niður á afkomu alls almennings í landinu. Ein mesta breytingin sem orðið hefur í efnahagslífinu undanfarna mánuði eru hríðlækkandi verðbætur á vísitölutryggð lán. í óðaverðbólgunni var verðtryggingin á lán hrikaleg og skuldarar horfðu í örvæntingu á hve ört skuldir þeirra jukust frá mánuði til mánaðar. Þær drápsklyfjar sem lagðar voru á fyrirtæki og þau heimili í landinu sem skulduðu voru óbærilegar. Við þetta ástand var ekki unandi. En með hjöðnun verðbólgunnar hefur þrounin orðir sú að verðtryggðu lánin eru ein hin hagkvæmustu sem nú er völ á, þrátt fyrir að bankavextir hafi verið lækkaðir verulega. Ef vísitöluskrúfan magnast á ný Oddur Ólafsson skrifar munu verðtryggðu lánin þróast til verri vegar fyrir þá sem skulda, en þeir eru margir, og verður þeim síst til hags- bóta. Tekjujöfnun Mikið er rætt og ritað um hvernig tryggja á afkomu hinna lægstlaunuðu. Það er viðurkennt af öllum að lægstu launin duga hvergi nærri til framfærslu einstaklinga og enn síður heimila. Vandinn er sá að hækka þessi laun án þess að kauphækkunin vaði upp eftir öllu kerfinu og að þeir sem betur mega fái jafnvel enn meiri kjarabætur en þeir sem helst þurfa á þeim að halda. Það er áratuga reynsla af því að láglauna- hóparnir bera ávallt skarðan hlut frá borði í kjarasamningum. Því hafa komið fram hugmyndir um að vernda kjör láglaunafólksins með aðgerðum eins og að hækka lágmarkslaun í ákveðna upphæð eða að beita tekju- tryggingu á vegum opinberra aðila til að jafna kjörin. Menn eru ekki á eitt sáttir um hvaða leið er heppilegust en seint mun öllu réttlæti verða fullnægt á þessu sviði fremur en öðrum. En í allri umræðunni um réttlæti og skiptingu borgaranna í tekjuhópa hef- ur skattheimtan verið furðu mikið utanveltu. Staglast er á upphæðum sem láglaunafólkið fær í kaup og launum meðal- og hátekjumanna og kvenna, en sleppt úr dæminu hinum stighækkandi sköttum sem lagðir eru á hærri laun. Er útkoman því iðulega sú að fólk sem talið er til þess forréttinda- hóps að fá mannsæmandi laun hefur ekki til hnífs og skeiðar vegna skatt- heimtunnar og dregur oft á tíðum lítið hærri upphæðir upp úr launaumslögum sínum en þeir sem vinna á lægri töxtum. Afkoma heimila fer mjög eftir því hvort ein fyrirvinna eða fleiri vinna fyrir saltinu í grautinn, og þegar talað er um tekjutryggingu eða bága afkomu heimila hlýtur að verða að taka þetta dæmi með í reikninginn. Tekjujöfnunin í gegnum skattakerf- ið hlýtur að leiða hugann að þeim prívatskatti launamanna sem tekju- skatturinn er. Þrátt fyrir þá viður- kenndu staðreynd að hann sé1 oft á tíðum bæði óréttlátur og ósanngjarn er eins og engin stjórnvöld fái rönd við reist til að koma þar neinum umtals- verðum umbótum við, en það liggur í augum uppi að eins og horfir í þjóð- félaginu mundi „hálaunafólkið" vel geta sætt sig við að fá ekki launahækk- anir þótt hinum tekjuminnstu væri hyglað eitthvað, ef unnt reyndist að leiðrétta eitthvað þessa meinloku í skattheimtunni. í verðbólguslagnum hafa launþegar borið hita og þunga eins og fyrr er sagt. Innflytjendur og kaupmenn ættu nú að . taka á honum stóra sínum til að stuðla að æskilegri og nauðsynlegri þróun í efnahagsmálum. Opinberar stofnanir eru óðum að koma fótunum undir sig fjárhagslega með þeim miklu hækkunum sem þær hafa fengið. En verðbólguhugsunarhátturinn virðist enn ríkja hjá þeim sem síst skyldi. Svo virðist sem ríki og sveitar- félög muni ekki lækka skatta til sam- ræmis við hina miklu verðbólguhjöðn- un sem við blasir. Viðbárurnar eru margar og gamalkunnar. En ef á að koma á stöðugleika í efnahagslífinu verða allir, bókstaflega allir, en ekki aðeins launþegar, að leggja sitt af mörkum. Þau nýju viðhorf sem skapast hafa hljóta að ná til allra þátta þjóðlífsins.

x

Tíminn

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.