Tíminn - 24.12.1992, Qupperneq 4
4 Tíminn
Fimmtudagur24. desember 1992
Tímiim
MÁLSVARI FRJÁLSLYNDIS, SAMVINNU OG FELAGSHYGGJU
Útgefandi: Tíminn hf.
Framkvæmdastjóri: Hrólfur Ölvisson
Ritstjóri: Jón Kristjánsson ábm.
Aðstoðarritstjóri: Oddur Ólafsson
Fréttastjórar: Birgir Guömundsson
Stefán Ásgrímsson
Auglýsingastjóri: Steingrímur Gíslason
Skrifstofur: Lynghálsi 9, 110 Reykjavík Sími: 686300.
Auglýsingasími: 680001. Kvöldsimar: Áskrift og dreifing 686300,
ritstjóm, fréttastjórar 686306, iþróttir 686332, tæknideild 686387.
Setning og umbrot: Tæknideild Tímans. Prentun: Oddi hf.
Mánaöaráskrift kr. 1200,-, verð í lausasölu kr. 110,-
Grunnverð auglýsinga kr. 725,- pr. dálksentimetri
Póstfax: 68-76-91
Hátíð friðar
Annasamir dagar eru nú að baki og jólin ganga í garð.
Eðli þeirra er að vera hljóðlát hátíð, þrátt fyrir þann ys
og önn sem jólaundirbúningnum er samfara.
Nú um jólin leitar það fremur en áður á huga hugs-
andi manna hve margir búa við örðugar ytri aðstæður
og kröpp kjör. Fréttir berast um það frá þeim, sem rétta
náunganum hjálparhönd, að óvenjumargir séu hjálpar
þurfi um þessi jól. Það hefur reyndar ávallt verið svo að
margir standa höllum fæti í lífinu, en hins vegar eru
þeir fleiri en nokkru sinni nú síðari árin sem eru án at-
vinnu um þessar mundir.
Starf þeirra áhugamanna og félagasamtaka, sem láta
sig varða hagi þeirra sem höllum fæti standa, verður
seint ofmetið. Allar góðar óskir fylgja þessu starfi og
það ber að styðja með ráðum og dáð. Sem betur fer eru
margir aflögufærir og rúmlega það. Hinir betur settu
ættu að sýna hófsemi í háttum sínum um jólin og láta
eitthvað af hendi rakna. Það gera margir, sem betur fer.
Við eigum að strengja þess heit á jólum að leggja okk-
ar lóð á vogarskálina, þótt lítið sé, gegn misskiptingu
lífsgæðanna, og láta okkur þá varða sem illa hafa orðið
úti í lífsbaráttunni, einhverra hluta vegna.
Jólin eru fagnaðarhátíð. Þau eru til þess að sameina
fjölskyldur í hvíld og tilbreytingu. Þrátt fyrir skraut-
lega ytri umgjörð er boðskapur þeirra einfaldur og tær.
Það er boðskapur friðar og kærleika sem hefur verið
fluttur óbreyttur mann fram af manni, öld eftir öld.
Fyrir þá, sem eru önnum kafnir, er friður jólanna kær-
kominn. Sá friður er eins og hver kýs sér hann. Sumir
halda kyrru fyrir, aðrir heimsækja fjölskyldu og vini.
Þjóðin er ekki öll steypt í sama mót, sem betur fer, né
hefur það sama fyrir stafni.
Enginn ætti að þurfa að vera bókarlaus um þessi jól
sem hefur til þess efni og ástæður að verða sér út um
góða bók. Bækur, ásamt geisladiskum með tónlist
hvers konar, skipa veglegan sess í jólagjafaflóðinu.
Jólahátíðin skapar það markaðstorg sem listamenn
þessarar þjóðar bera afurðir sínar á. Auðvitað er margt
misjafnt að gæðum á því markaðstorgi. Svo hlýtur æt-
íð að verða. Hitt blandast engum hugur um að þrátt
fyrir það er margt þar gott og eigulegt. Sumt lifir og
verður sígilt, annað fellur í gleymsku.
Tíminn flytur þá ósk á aðfangadag jóla að sem flestir
geti notið hátíðarinnar, fundið kyrrð og helgi hennar
og tekið undir með Hannesi Péturssyni skáldi, sem
byrjar kvæði sitt „Ljós og hljómar“, sem fjallar um jóla-
hátíðina, með þessum hendingum:
Jólanótt — og ég kveikti
á kerti rétt eins og forðum
litlu kerti.
Það logar á borði mínu
unirþarsínu lífi
slær Ijóma á þögnina.
Tíminn óskar lesendum sínum og öðrum landsmönn-
um gleðilegra jóla.
Sr. Kristján Björnsson, Hvammstanga:
Tjamarkirkja á Vatnsnesi.
Það gerðist í smábæ einum í
Skotlandi, Dunfermline, árið
1784 að skyndilega birti yfir ann-
ars fábreytilegu heimilishaldi.
Hjónin George og Jean höfðu átt
um sárt að binda eftir missi fjög-
urra barna sinna af fimm og áttu
ekki af veraldlegum auð að státa.
Þau eignuðust aldrei eigin jarðar-
part að yrkja um ævina, þótt þau
ynnu alla tíð við landbúnað.
Ljóminn inn í líf þeirra var sann-
kallaður sólargeisli eins og enn
þann dag lýsir upp tilveru þeirra
er eignast son eða dóttur. Alltaf er
ánægja af bömum og áhyggjur
eru ekki nálægt þegar bamungi er
annars vegar, því gamalt máltæki
segir að brauð fylgi barni hverju.
En hvers vegna er ég að taka
dæmi um barnsburð aftan úr átj-
ándu öld, sem er einhver sú dul-
asta í sögu íslands og líklega sú er
státar af minnsta risi menningar-
sögunnar? Það er til að undir-
strika að alla daga er mannkyni að
fjölga og nýir kornungar að líta
heimsins ljós, hvað sem menn-
ingu og efnahag líður. Mitt í þess-
um sögðu orðum hringdi einmitt
til mín móðir á Hvammstanga og
gerði viðvart um skírn á jóladög-
um. Þetta hefur alla tíð verið svo
og verður vonandi enn um hríð,
þótt við í kristninni segjumst lifa
á síðustu tímum, — efstu stundu.
Einn kornunginn, sem ég tek hér
dæmi af frá fyrri tíð, hlaut á fjórða
degi nafnið Ebenezer. Það nafn er
dregið af steini eða hellu sem
Samúel spámaður reisti upp fólki
sínu til minningar um aðstoð
Guðs í stríði þess við Filistea,
helstu ógn hins útvalda lýðs á
þeim tíma. Þegar minningar-
steinninn var risinn, sagði Samú-
el: „Hingað til hefir Drottinn
hjálpað oss.“ Dró steinninn af því
heiti sitt eftir hans fyrirsögn og
var kallaður hjálparhellan æ síð-
an. George, sem ég nefndi í upp-
hafi, var minnugur sögunnar úr
fyrri Samúelsbók og fannst við
hæfi að barnið sitt unga bæri vott
um trú þeirra hjóna til Guðs, sem
hafði er hér var komið sögu verið
hjálparhella fjölskyldunnar á erf-
iðum tímum. Frá George og Jean
segir í nýútkominni bók eftir Fel-
ix Ólafsson um Ebenezer Hender-
son, er varð með dvöl sinni hér á
landi 1814 og ‘15 kveikjan sem
tendraði áhuga manna fyrir stofn-
un Hins íslenska Biblíufélags.
Nú er engin sérstök ástæða til að
dýrka dauðlega menn, jafnvel þótt
þeir skari framúr öðrum í því að
breiða út Biblíuna eða stunda trú-
boð. Það er út af fyrir sig ómælan-
legt og því ekki í okkar valdi að
hampa einum til lofs og vegsemd-
ar umfram öðrum. Saga Ebenez-
ers er hins vegar góð til umhugs-
unar á jólum, þegar annríki að-
ventunnar sleppir skyndilega tök-
um sínum á nútímamanninum og
við föllum í frjálsu hrapi niður til
dúnmjúkrar lendingar í friði jól-
anna. Upphaf ævi hans er áminn-
ing til okkar sem þykjumst eiga
við kreppu að stríða. Þá minnir
hún líka ósjálfrátt á fæðingu Jesú
inn í fátækt og allsleysi óreyndrar
móður. Hún minnir ósjálfrátt á
ungan mann sem lærði til iðn-
greina, en lagði iðnina ekki fyrir
sig sem lífsstarf. Ebenezer lærði
til klukkuviðgerða og skósmíða,
en Jesús til trésmíða. Sjálfsagt
hafa þeir báðir verið vakandi í
þessum veraldlegu gildum sínum
og getað gripið til handverksins ef
á þurfti að halda, þótt fátt segi af
smíðagripum þess síðarnefnda.
Fæðing barns er undur. Það er
undur sem læknisfræðilega hefur
verið skýrt til hlítar að kalla. Fæð-
ing Jesú var bæði venjulegt og
sérstakt undur, rétt eins og með-
ganga ungu móðurinnar, Maríu.
Ganga hennar á fjallaslóðum um
nálægt kaldasta tíma ársins er
undur. Það sem þó er mesta undr-
ið er að Guð skyldi gerast maður
með fæðingu Jesú í þennan sí-
svanga heim ónægta og þurfta.
Þannig steig konungurinn fram á
völl mannkynssögunnar: berstríp-
að mannsbarn, sem háð var skjóli
og næringu við móðurbarm.
Sr. Kristján Björnsson.
HIIRI.giniMli
Á JÓLUM
Fram til atburðanna á Betle-
hemsvöllum hafði Guð sent þjóð
sinni tákn og veitt henni blessun í
árhundruð, án þess að hún treysti
sér til að leggja það á minnið
nema skamma hríð. Lýðurinn féll
stöðugt frá og lagðist í freistni og
tilbað alls kyns guði og goð, ef
glitti á fótstalla þeirra. Fram til
þessa hafði Drottinn hjálpað
þeim, en samt mundi fólkið það
ekki. Hvaða tryggingu hafði þá
Guð fyrir því að lýðurinn gæti
frekar munað eftir því til fram-
búðar að hann sendi einkason
sinn til manna? Enga. Hann gerði
það sem aðeins var hægt að gera
einu sinni: að ganga sjálfur inn í
mannleg kjör, fallvölt og óviss
eins og þau gjarnan hafa verið.
Þetta hlýtur hann að hafa gert í
elsku til manna, þrátt fyrir dæma-
lausa reynslu af heimtufrekri og
illa alandi þjóð, sem öllu gleymdi
um leið og hann var genginn fyrir
næsta horn.
„Hvar er Guð minn núna?“ er
hrópað ef lítillega bjátar á, ef hann
er þá yfirleitt í lífsmynd þjóðanna
sem telja sig kristnar. Svar Biblí-
unnar er skýrt: „Hingað til hefir
Drottinn hjálpað oss“ (1. Sam.
7.12).
Það má heita tryggt að við
gleymum ekki jólatilstandi, því
kaupmenn og þjónustuaðilar
minna með sínum sérstaka hætti
á það með tilstyrk fjölmiðla og
pésa. Allir keppast við að komast í
jólaskapið og reyna að horfa björt-
um augum fram í gegnum svart-
asta skammdegið. Kannski glittir
á eitthvað. Kannski færðu and-
virði sjónvarpsins endurgreitt eft-
ir tíu ár og því ekki að slá til. Það
gleymist hins vegar að hingað til
hefur Drottinn hjálpað okkur en
ekki tæknin eða nokkur annar
hjáguð sögunnar eða nútímans.
Aðeins Drottinn getur hjálpað og
því ætti mannkyn ekki að eyða
tíma, fyrirhöfn eða fjármunum í
leit að annarri bjargfestu, svölun
eða mettun í stað þess að líta til
hjálpar Guðs. Allt annað er hé-
gómi og það er hámark eftirsókn-
ar eftir vindi að láta leiða sig
áfram í girnd til alls er glóir.
Aðeins einn eðalsteinn hefur
þann ljóma sem reynst hefur
sannur geisli gleði og hamingju.
Blessun okkar er sú að geta opnað
fyrir þann glóanda inn í líf okkar,
því að Drottinn gerðist maður til
að veita birtu og yl inn í líf allra
manna. Spurningunni um það
hvort Maríu guðsmóður hafi verið
kalt þessa vetrarnótt á Betlehems-
völlum er því vikið til hliðar. Það
er ekki spurning. Hún vissi að
fram til þessa hafði Drottinn
hjálpað. Hann hafði gefið og hún
tekið við.
Alið því ekki áhyggjur í brjósti
ykkar um það hvernig afkoman
verður. Hagur heimilanna og
landshagur er ekki á niðurleið á
meðan þjóðin og leiðtogar hennar
eru þess minnug að hingað til hef-
ur Drottinn hjálpað börnum sín-
um. Hann hlúir að okkur eins og
móðir vefur barn sitt reifum eða
hreinu líni eftir efnum og ástæð-
um. Hann elur okkur á kærleika
sínum, ef við aðeins viljum kann-
ast við hann sem guð í lífsmynd-
inni. Þetta er glefsa af þeim fagn-
aðarríka boðskap sem fluttur er í
kirkjunni um jólin. Megi hátíðin
nú verða ykkar minningarsteinn
og hjálparhella í hækkandi sól.
Guð gefi ykkur gleðileg jól og far-
sæld á komandi ári.