Lesbók Morgunblaðsins - 07.01.2006, Qupperneq 16
16 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 7. janúar 2006
H
ugvekja dr. Sigurðar Gylfa
Magnússonar í síðustu Les-
bók er þörf og kraftmikil
áminning um átakanlegan
skort á umfjöllun um fræði-
rit. Augljóst er að hún hefur
minnkað og eiginlega sokkið í flóðinu. Sig-
urður Gylfi varpar fram spurningum til há-
skólasamfélagsins og hagsmunasamtaka sem
full ástæða er til að bregðast við.
Hann hefur sjálfur verið afar
öflugur höfundur á þessum vett-
vangi, afkastamikill og ögrandi í
því að ryðja nýjum og umdeild-
um hugmyndum braut, og í síð-
ustu bókum sínum hefur hann greint tegundir
frásagna sem eru djúprættar í menningunni
og um leið sett fram hvassa og nokkuð ágenga
menningarrýni.
ReykjavíkurAkademían
ReykjavíkurAkademían var stofnuð í maí árið
1997 sem samtök og samfélag sjálfstætt starf-
andi fræðimanna í hug- og félagsvísindum og
rúmu ári síðar flutti rúmur tugur fræðimanna
í nokkrar skrifstofur í JL-húsinu. Akademían
hefur vaxið hratt og svarað brýnni þörf fyrir
bættar aðstæður og aukið samstarf fræði-
manna. Nú starfa þar hátt í 80 fræðimenn og
stúdentar í framhaldsnámi.
Akademían hefur látið til sín taka á ýmsum
sviðum fræðistarfsemi. Varðandi umfjöllun
um fræðirit hefur hún reyndar þá afsökun að
hafa vaxið svo hratt að nokkrir vaxtarverkir
fylgdu með. Hún barðist nánast fyrir lífi sínu
um hríð og hafði vart tök á að láta mikið bera á
sér eða störfum sínum. Nú hefur hins vegar
rofað mjög til og Akademían hefur fullan hug á
að láta til sín taka á sviði rannsókna og miðl-
unar þeirra. Spurningu Sigurðar Gylfa er því
fljótsvarað: RA hefur ekki verið með hugann
við bókaútgáfu og markaðssetningu fræðirita,
heldur lagt sig fram um að skapa sjálfstætt
starfandi fræðimönnum aðstöðu til að skrifa
slík rit. Margt hefur áunnist í þeim efnum en
mikið starf er framundan svo umheimurinn
átti sig á mikilvægi fræðistarfanna. Þá þarf
meðal annars að hreyfa við bókamarkaðinum.
Það er því ástæðulaust að stofna grátkór yf-
ir ástandinu, enda er það varla tilgangur Sig-
urðar Gylfa. Nær væri að blása til sóknar. Og
þá mætti jafnvel byrja á því að bera fram
spurningar eða drepa á nokkur atriði sem
kunna að vera jafnögrandi og grein hans.
Verðmæti
Það má hreinlega velta því fyrir sér hvort
rannsóknir og fræði skipti almenning nokkru
máli í nútímasamfélagi. Hluti vandans er
vissulega sá að samtíminn ber ótt á – og af
þeim sökum virðist það hreinlega vera svo að
yfirveguð og vönduð umfjöllun um samfélag
og menningu, umfjöllun sem krefst bóka, og
hægs og vandaðs lestrar, fari halloka fyrir
hraðsuðu fjöl- og netmiðla. Fræðileg eða hálf-
fræðileg umræða er oft lapþunn á netmiðlum
og tekur jafnvel fullmikið af kröftum þeirra
sem þar tjá sig frá betur ígrunduðum fræði-
störfum. Þetta eru einskonar þynningaráhrif
ágengrar kröfu um hraða skoðanamyndun
sem ef til vill mætti jafna við eignamyndun
viðskiptalífsins, kannski meira á pappírum en í
áþreifanlegum verðmætum. Menningar-
umfjöllun ljósvakamiðla og dagblaða, fyrir ut-
an Lesbókina og nokkra ágæta þætti á Rás 1,
er sjaldnast meira en slagorðaglamur og létt-
vægt yfirborðsklór. Varla er hægt að segja að
gagnrýnin samfélags- og menningarumræða
með fræðilega þekkingu að bakhjarli sé til í
öðrum fjölmiðlum hér á landi. Hvort smæðin
eða almennt skeytingarleysi eigi hér stærri
þátt er torvelt að meta en þörfin fyrir upplýsta
umræðu er jafnbrýn hvort heldur sem er.
Sérhvert siðmenntað samfélag þarf sárlega
á að halda slíkri umræðu eigi það að standa
undir nafni. Til þess að halda uppi vitrænni
umræðu þarf að stunda rannsóknir og það
þarf að gefa út bækur sem bæði verða að ná
einhverri almennri athygli og ögra viðteknum
hugmyndum á einhverju sviði þjóðlífsins. Það
gerist ekki oft, eitt síðasta dæmið er líklega
bók Hörpu Njáls, Fátækt á Íslandi, sem kom
út árið 2003 og stakk á viðkvæmum kýlum vel-
ferðarsamfélagsins. Neyðarlegasta dæmið um
fjarveru slíkrar umræðu (vegna hræðslu
manna við að missa spón úr aski sínum?) er
bók og heimildamynd Ómars Ragnarssonar
um Kárahnjúkavirkjun. Hann tók sér fyrir
hendur að gera því efni skil, nánast fyrir eigin
vélarafli, sem hópar vísindamanna á ýmsum
sviðum hagfræði, náttúruvísinda, umhverf-
isfræða og hugvísinda hefðu átt að gera.
Oft er um að ræða margvísleg hags-
munatengsl sem ekki liggja í augum uppi.
Menn þora jafnvel ekki að tala upphátt um
umdeilda hluti af ótta við að styggja þá sem
skammta brauðmolana. Vel mætti til dæmis
kanna hvernig menn haga orðum sínum í op-
inberri umræðu á haustdögum, meðan verið er
að ganga frá fjárlögum. Kapphlaup fræða-
heimsins um verkefni og rannsóknarfé sem
hvorttveggja er mjög af skornum skammti fel-
ur í sér þá hættu að dragi úr biti hvassrar um-
ræðu. Þegi menn gegn betri vitund eru þeir
um leið að bregðast siðferðislegri skyldu sinni
sem fræðimenn. Hér mætti minna á að Páll
Skúlason fyrrverandi háskólarektor hafði
stundum orð á því í ræðum að ein meginskylda
akademískra fræðimanna væri að stuðla að
upplýstri og gagnrýninni umræðu. Sú krafa
virðist þó ekki koma í veg fyrir að menn veigri
sér við umræðu sem styggt geti þá sem yfir
fjármunum ráða. Reyndar er mönnum vork-
unn að því leyti að háskólasamfélagið er svelt
að fé og fjötrað í undarleg reiknilíkön sem not-
uð eru til að skammta aurana. Því er skiljanleg
tilhneiging manna til að lúta þeim sem valdið
hafa – til dæmis þiggja af þeim verkefnin á
kostnað þess andófsmáttar sem á að vera eitt
helsta stolt akademískra rannsókna.
Nýir tímar
Menntasprenging undanfarinna áratuga, og
núverandi umræða um hátækni- og þekking-
arsamfélag og þessháttar, er líklega á nokkr-
um villigötum. Ofuráhersla er lögð á tækni og
viðskiptamenntun, meira og minna á kostnað
hug- og félagsvísinda. Raunvísindi og hag-
fræði fæða reyndar lítið af sér af fræðibókum
sem rata á almennan markað, en þekking á
þessum sviðum skilar sér inn í stjórnun fyr-
irtækja og hins opinbera, en verður hæglega
býsna einsýn og teknókratísk, sé hún ekki
metin út frá því víða sjónarhorni sem hug- og
félagsvísindin búa yfir. Til þess að jafnvægi sé
í efnahags- og vitsmunalífi landsmanna þurfa
mannvísindin að skipa jafnháan sess og raun-
vísindi og tæknigreinar. Til þess að hægt sé að
mynda heildarsýn, yfirsýn yfir samfélagið, er
lífsnauðsynlegt að hug- og félagsvísindi eigi
sína rödd. Þekking á íslenskri menningu er að
öllu leyti brýn – ekki síst á hreyfiafli hennar og
sköpunarmætti í gegnum tíðina, þekking á
grundvallaratriðum lýðræðis og mannrétt-
inda, þekking á ýmsum félagslegum og menn-
ingarlegum þáttum sem nauðsynlegir eru til
að samfélagið starfi eðlilega. Um þessar
mundir skortir til að mynda tilfinnanlega
þekkingu á menningu og sögu til að geta selt
ferðamönnum, því menningartengd ferða-
mennska er óhugsandi án staðgóðrar þekk-
ingar. En ekki er hvað síst þörf á gagnrýn-
isröddum sem andæft geta því alræði sem
einhæft gildismat þröngra markaðs-
sjónarmiða hefur öðlast undanfarin ár.
Það er fyrst og fremst á sviði hug- og fé-
lagsvísinda sem eldurinn brennur á fræði-
mönnum. Á sviði tækni og raunvísinda ýmiss
konar er hringrás þekkingarinnar afar sér-
hæfð – og á í sinni hreinustu mynd lítið erindi
út fyrir raðir sérfræðinga, þótt brýnt sé að rit-
uð séu upplýsandi fræðirit fyrir almenning á
þessum sviðum. Gott dæmi um slíkt er ritið
um líftækni, Líf af lífi eftir Guðmund Eggerts-
son, sem Bjartur gaf út á síðasta ári og hjálpar
eflaust ýmsum að átta sig betur á flókinni um-
ræðu um þau efni.
Ný sókn
Það er full ástæða til að taka undir með Sig-
urði Gylfa og veita fjölmiðlum og öðrum sem
stýra útgáfu fræðibóka og umfjöllun um þær
hressilega ádrepu. Þeir eiga einfaldlega ekki
láta stjórnast af markaðslögmálum heldur af
sjálfum sér og eigin viti og sannfæringu. En
hitt væri líka athugandi að auka til muna at-
hyglisfrekju okkar fræðimanna, vinnustaða
okkar og hagsmunasamtaka. Við eigum að
ryðja okkur betur til rúms – þótt sá grunur
læðist að þeim sem fylgjast með allra hæstu
fílabeinsturnunum á fræðasviðinu að þar þyki
mönnum síst til þægðar að einhver almenn-
ingur sé að hnýsast í verk þeirra. Þeir loka
helst að sér turnherbergi sínu með dulúðugu
yfirlætisbrosi. En fræðimenn verða einfald-
lega að auka þrýsting sinn til að koma hug-
myndum sínum á framfæri við ritstjóra blaða,
tímarita, sjónvarps- og útvarpsþátta og ná
þannig athygli þeirra sem vilja afla sér þekk-
ingar. Og fræðimenn verða líka að gera hvort-
tveggja í senn, að skrifa sjálfir og gera þá
sanngjörnu kröfu til fjölmiðla sem vilja standa
undir nafni, að þeir endurspegli eða miðli
þeirri fræðilegu umræðu og þekkingarmiðlun
sem fram fer í samfélaginu.
Fé til rannsókna í hug- og félagsvísindum
hefur verið mjög af skornum skammti og í
raun kraftaverk hve miklu fræðimenn hafa
áorkað undanfarin ár, ekki síst innan vébanda
ReykjavíkurAkademíunnar. Árin 2003–2004
komu út um 30 bækur og veigamiklar ritgerðir
eftir félaga RA. Samt þarf að stórauka rann-
sóknagetuna með stærri og betri sjóðum, bæði
opinberum og úr atvinnulífinu, og fræðimenn
þurfa líka sjálfir að vera frekir á athyglina,
starfa saman að útgáfumálum og einfaldlega
krefjast hljómgrunns og meiri útgáfu, meiri
umfjöllunar og umræðu, bókaþátta í sjónvarpi
og útvarpi. Menningin og samfélagið hafa
breyst og nú ríkir sérhæfing með þeim hætti
að menntun og þekking hafa lokast inni á af-
mörkuðum sviðum. Fyrir hálfri öld var fjöldi
bænda og verkamanna áskrifendur að Skírni,
Andvara, Sögu og fleiri fræðilegum tímaritum.
Nú eru þeir nær engir og spyrja má hvort sú
sterka sjálfsaflahvöt til staðgóðrar menntunar
sem áður ríkti sé að hverfa eða ekki. Skóla-
kerfið sér um hina almennu upplýsingu með
misjöfnum árangri en vel má spyrja hvort það
sé enn svo að hópa manna þyrsti í þekkingu
um samfélag og menningu, þekkingu sem ekki
fæst svalað, vegna breyttra samfélagshátta,
en einnig og í vaxandi mæli vegna þess að
áhersla fjölmiðla og bókaútgefenda hefur
breyst. Fólk fái hreinlega ekki nægar upplýs-
ingar um allt það hnýsilega efni sem fræði-
menn eru að gefa út, eða reyna að koma á
framfæri.
ReykjavíkurAkademían mun á næstu vikum
blása til rannsóknastefnu í samstarfi við fleiri
aðila um stöðu hug- og félagsvísinda – með það
fyrir augum að boða nýja sókn á þeim vett-
vangi. Full ástæða er til að fræðimenn, sem
um hríð hafa átt undir högg að sækja varðandi
rannsóknafé, útgáfu, bóksölu og almenna
kynningu á störfum sínum, leggi saman krafta
sína og hefji sókn til aukinnar athygli – því
raddir okkar þurfa að heyrast í samfélaginu.
Það er í raun skylda okkar að miðla því sem
við höfum fram að færa til sem flestra. Líklega
er það svo að flestir geta gert betur: Fjöl-
miðlar sem í alvöru vilja endurspegla sam-
félagsumræðuna, bókaútgefendur sem trúlega
hafa ekkert á móti fjölbreytni, hið akademíska
samfélag sem kannski þarf að einhverju leyti
að koma sér útúr fílabeinsturninum og knýja
dyra í hinni almennu samfélags- og menning-
arumræðu, og loks hagsmunasamtök á borð
við Hagþenki, félag höfunda fræðirita og
kennslugagna og Rithöfundasambandið sem
einnig á að gæta hagsmuna höfunda fræðirita.
Nýtt flóð óskast
Höfundum fræðirita þykir verk þeirra ekki
hljóta nægilega athygli í jólabókaflóðinu.
Sigurður Gylfi Magnússon skrifaði grein í
síðustu Lesbók þar sem hann hvatti til um-
ræðna og aðgerða í því efni. Hér er brugðist
við.
Morgunblaðið/Brynjar Gauti
Fjölmiðlar „Hluti vandans er vissulega sá að samtíminn ber ótt á – og af þeim sökum virðist það hreinlega vera svo að yfirveguð og vönduð umfjöllun um
samfélag og menningu, umfjöllun sem krefst bóka, og hægs og vandaðs lestrar, fari halloka fyrir hraðsuðu fjöl- og netmiðla.“
Eftir Viðar
Hreinsson
vidar@
akademia.is
Höfundur er bókmenntafræðingur og framkvæmda-
stjóri ReykjavíkurAkademíunnar.