Lesbók Morgunblaðsins - 14.01.2006, Blaðsíða 10
10 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 14. janúar 2006
N
ýlega er komin út bók á
ensku með titilinn The
Hidden Structure of Int-
eraction: from neurons
to culture patterns. Rit-
stjórar eru Luigi Anolli,
Starkey Duncan jr.,
Magnús S. Magnússon
og Giuseppe Riva.
Útgefandi er IOS-Press í Amsterdam
(www.iospress.nl) sem m.a. gefur út mikið af
bókum á sviði vísinda og læknisfræði. Bókin
fæst innbundin bæði frá forlaginu og hjá
Amazon (www.amazon.com). Einstaka kafla
bókarinnar má þó sækja ókeypis á vefslóðinni
www.emergingcommunication.com/vol-
ume7.html
Bókin skiptist í 18 kafla ásamt formála sem
ritaður er sameiginlega af ritstjórum bók-
arinnar, en að auki eru tveir sérstakir for-
málar. Sá fyrri er eftir
Marcello Fontanesi,
Rector Magnificus við
Milano-Bicocca há-
skólann í Mílanó og prófessor í kjarneðl-
isfræði. Sá síðari er eftir André Langaney,
prófessor í erfðafræði við Genfarháskóla og
Náttúrusögusafn Frakklands í París (Museum
National d’Historie Naturelle).
Allir kaflar bókarinnar fjalla um hulin
mynstur í atferli og gagnvirkni (samskiptum)
og hvernig má uppgötva þau á grundvelli
formgerðarlíkans („T-patterns“, T-mynstur)
Magnúsar S. Magnússonar, vísindamanns og
forstöðumanns Rannsóknastofu um mannlegt
atferli við Háskóla Íslands, varðandi tímalegt
skipulag atferlis og gagnvirkni sem hann hef-
ur þróað í meira en 30 ár ásamt þeim algrím-
um og sértæka hugbúnaði, THEME, sem ger-
ir tilsvarandi greiningu (mynsturleit)
mögulega.
Nær 40 vísindamenn eru meðal höfunda
bókarinnar. Meðal þeirra eru prófessorar í
sálarfræði og líffræði við háskóla í Evrópu,
Bandaríkjunum og Japan, þar á meðal Par-
ísarháskóla, Chicagoháskóla, Tókýóháskóla,
Barcelónaháskóla, Mílanóháskóla, Heidel-
bergháskóla, Saarlandesháskóla, Gresham
College í London og Babraham Institute í
Cambridge. Að baki útgáfunnar stendur form-
legt samstarfsnet sjö evrópskra háskóla um
rannsóknir og þróun á „Aðferðafræði varðandi
greiningu félagslegra samskipta“ („Methodo-
logy for the Analysis of Social Interaction“ eða
MASI) á grundvelli greiningarlíkans Magn-
úsar („Magnusson’s analytical model“).
MASI-hópurinn hefur þegar haldið fjórar
ráðstefnur og var sú fyrsta haldin 1997 á
Sorbonne í París þar sem Magnús gegndi áður
prófessorsstöðu (sjá www.hbl.hi.is/masi.htm).
Forseti Franska sálfræðisambandsins, Alain
Blanchet, prófessor við Parísarháskóla, hefur
nýlega tekið að sér að fara fyrir hópnum.
Í formála Marcello Fontanesi segir m.a.:
„Þessi bók sýnir að skilningur á atferli get-
ur einnig notið afls stærðfræðinnar: ein
grundvallartegund stigbreyttra tímamynstra
– kölluð „T-patterns“ – og tilsvarandi grein-
ingarhugbúnaður, THEME, eru hér lögð fram
sem ný tæki til uppgötvunar á huldum atferl-
ismynstrum.“
Grunneiningar T-mynstra eru oftast við-
burðir sem greina má beint í atferli ein-
staklinga og/eða heilda og/eða innri líkams-
starfsemi og/eða umhverfis; sama T-mynstur
getur m.a. samanstaðið af öllum þessum teg-
undum eininga. T-mynstur samanstendur auk
þess yfirleitt af öðrum einfaldari T-mynstrum
sem fundist hafa. Skilgreining T-mynstra
varðar ekki einungis sérstaka röð eininga og
undirmynstra heldur einnig marktæka til-
hneigingu til að tímabilin á milli þeirra séu
svipuð að lengd við hverja endurtekningu
mynstursins, en án tillits til viðburða innan
þeirra tímabila. Mynsturleitin truflast því ekki
jafnvel þó mikið magn meira eða minna
óskyldra atburða komi fyrir innan mynsturs-
ins. T-mynstur eru oftast mynstur af mynstr-
um, af mynstrum, af mynstr-
um, með sömu formgerð. Slík
mynstur eru oft mjög flókin og
alls ósýnileg „berum augum“
og yfirleitt ófinnanleg með öðr-
um aðferðum. Á grundvelli
þessarar grunnformgerðar
hefur Magnús skilgreint önnur
hugtök varðandi tímalega
formgerð sem ásamt
T-mynstrunum mynda
formlegt kerfi sem hann kallar
T-kerfið (T-system).
Formáli Marcello Fontanesi
hefst á tilvitnun í eftirfarandi
texta Magnúsar:
„Jafnvel þó áhorfendur, án
aðstoðar hjálpartækja, skynji
oft atferli í mannlegum sam-
skiptum sem reglulegt og með
endurtekningum, þá veitist
þeim erfitt eða ómögulegt að
tilgreina hvaða tegundir
mynstra eru endurtekin og
hvenær. Sú nálgun sem hér er
valin gengur því út frá að tíma-
leg formgerð flókinna atferl-
iskerfa sé að mestu óþekkt, að
minnsta kosti ekki meðvituð.
Af þessum ástæðum er þörf á
hugmyndum og tilgátum varð-
andi tegundir mynstra þannig
að tilsvarandi leitaraðferðir
megi finna, aðlaga eða
skapa …“
Fyrstu þrír kaflar bók-
arinnar varða kenningarlegan
grundvöll. Sá fyrsti er eftir
Magnús S. Magnússon og
varða hugmyndir hans um
mynstur í tímalegu skipulagi
atferlis og gagnvirkni meðal
manna og annarra lífvera og
um hliðstæður við formgerð
erfðaefnis (DNA). Í upphafi
kaflans segir:
„Þegar tveir eða fleiri ein-
staklingar eiga samskipti hvort
sem þeir eru manneskjur, apar,
mýs eða bananaflugur gerast
margir hlutir samtímis. Skrokkar, höfuð, limir
og margs konar angar hreyfast, hljóð og lyktir
eru send út og móttekin meðan líkamar skipta
um stellingar og staðsetningar gagnvart hvor
öðrum og umhverfinu. Allt gerist þetta í einu,
fjöldi atburða af ýmsu tagi gerist samtímis og í
röð bæði innan og á milli einstaklinga á ótelj-
andi vegu.“
Hér er einnig skyggnst inn í hliðstæður
milli mannlegra samfélaga og samfélaga sam-
einda innan hverrar einstakrar frumu hvort
sem um er að ræða bakteríu eða einstaka lík-
amsfrumu, en í þessu sambandi hefur einmitt
verið talað um frumuna sem eins konar borg,
„Frumuborg“ (Cell City). Bent er á að sam-
skiptum milli einstakra eggjahvítusameinda
má oft lýsa með svipuðum hætti og sam-
skiptum einstaklinga. Ekki síst er þó bent á
hliðstæður milli annars vegar tímalegra atferl-
ismynstra og/eða spora eftir þau (t.d. textar,
sérstaklega helgirit, „sígildar“ bókmenntir,
stjórnarskrár og lög, sem hafa svipaða einvíða
formgerð) og hins vegar einvíðra mynstra inn-
an kjarnsýrusameinda (DNA) sem svara til
þeirra erfðavísa (gena) sem stýra lífinu í
„Frumuborg“. Hér er þannig m.a. varpað sér-
stöku ljósi á hliðstæður milli menningarlegra
og lífefnafræðilegra erfðaferla, hlutverk
trúarbragða og mótun og sérhæfingu sam-
einda jafnt sem einstaklinga, allt frá eggja-
hvítuefnum til maura og manna.
Í formála André Langaney segir m.a.:
„Þessi bók byrjar á Guði og Biblíunni, sem í
heimi nútímans ætti að auka sölu hennar í
Bandaríkjunum! En til allar hamingju og að
venju í heimi vísindanna, er Guð fljótlega að
hverfa og í staðinn kemur tungumálið og sam-
skipti. Það eru réttmætari vísindaleg við-
fangsefni!“
Flestir kaflar bókarinnar varða rannsóknir
á mjög mismunandi mannlegu atferli og sam-
skiptum. Sérstaklega má nefna rannsóknir á
samskiptamynstrum milli foreldra og barna,
milli einhverfra barna og meðferðaraðila, milli
kynhegðunar og makavals, samlífsforms og
hormónastarfsemi hjá körlum, milli sjónvarps
og áhorfanda, samspilsmynstur í knattspyrnu,
samskiptamun milli kynjana, mismun á sam-
skiptahegðun Ítala og Íslendinga, svipbrigða-
mynstur í samtölum milli meðferðaraðila og
einstaklinga sem gert hafa tilraun til sjálfsvígs
eða glíma við eiturlyfjavanda. Aðrir kaflar
varða ógnarhröð og flókin gagnvirknimynstur
taugafruma í lifandi heilavef og loks samskipti
kynjanna hjá bananaflugum (Drosophilae
melanogaster).
Í kafla Luigi Anolli sem er prófessor í sál-
arfræði við Milano-Bicocca háskóla segir m.a.:
„Með því að finna T-mynstur er mögulegt
að fá innsæi í hina huldu gerð merkingar í
jafnt málrænni sem ómálrænni tjáningu
(utterance), ekki almennt og abstrakt heldur
beint og í samhengi.“
Í niðurlagi kafla um rannsókn á sam-
skiptum eiturlyfjaneytanda og meðferðaraðila
í stuttu meðferðarviðtali segir einn höfunda,
Alain Blanchet, forseti Franska sálfræði-
sambandsins, m.a.:
„Sú atferlisgreining sem við framkvæmdum
með THEME-hugbúnaðinum hjálpaði okkur
til að skilja þau huldu mynstur sem einkenndu
málræna og líkamlega tjáningu sjúklingsins.
Þar má nefna að umræðu sjúklingsins um
dauðann fylgdi sérstök höfuðhreyfing. Sjúk-
lingurinn talar um dauðann eftir að hann hef-
ur snúið höfði sínu til hægri og snýr því svo
aftur til hægri. Sjúklingurinn virðist sækja þá
hugmynd annars staðar, langt frá augnaráði
viðmælandans hann snýr svo þangað aftur
langt frá augnaráði lækningaaðilans. Þessi
hugsun virðist liggja utan við stað og stund
samtalsins, eins og hún væri ekki hluti þeirrar
samræðu sem þeir byggðu upp í sameiningu.
Hins vegar, þegar sjúklingurinn talar um lífið
snertir hann fingur sína og gerir það út allt
samtalið.“
Margvísleg önnur atriði eru nefnd og gröf í
kaflanum sýna ýmiss T-mynstur sem fundust.
Meðal annars kemur þar fram að þegar sjúk-
lingurinn talar um dauðan opnar hann hend-
urnar og krossar fingur.
Einn af köflum bókarinnar er eftir Agliati,
Vescovo og Anolli við Mílanóháskóla, en þar
segja þau varðandi rannsókn sína á mismun í
samskiptahegðun Ítala og Íslendinga sem
fram fór bæði hér á landi við Rannsóknastofn-
un um mannlegt atferli, HÍ og við Mílanóhá-
skóla:
„Í hnotskurn má segja að samræðustíll Ís-
lendinga virðist fyrirsjáanlegri og öruggari þó
hann sé frekar einhæfur. Íslenskur þátttak-
andi í rannsókninni er líklegur til að vita hvaða
hreyfingum hann/hún geti búist við frá við-
mælanda frá sömu þjóð og hvaða svar hann/
hún ætti að gefa. Með þessum
hætti eru aðlögun og viðbrögð
viðmælenda gerð léttari og
samræður verða auðvelt fé-
lagslegt ferli.“
Hvað Ítalina varðar segir að
þeir notuðu mun fleiri tegundir
hreyfinga og bendinga og í
mun meira mæli en Íslending-
arnir til að undirstrika eða
skýra merkingu orðanna og
„stundum var eins og þeir
treystu ekki fyllilega orðunum
og teldu merkingu þeirra oft
full óbeina eða óáreiðanlega“.
Í formála prófessors André
Lagnaney segir m.a.:
„Umfram það innihald þess-
arar bókar sem varðar atferl-
islíffræði, sálafræði, og sam-
skiptavísindi
hefur THME sannað gildi
sitt á sviðum allt frá rann-
sóknum á erfðamengi manns-
ins til faraldsfræði meðal
ínúíta. Enginn vafi leikur á að
þetta er bara byrjunin: sam-
skipti (gagnvirkni) og mynst-
urlýsingar, jafnt eigindlegar
sem megindlegar, eru helstu
grundvallarvandamál og að-
ferðir allra vísinda.“
THEME-hugbúnaðurinn er
nú í eigu ungs íslensks fyr-
irtækis, Atferlisgreiningar ehf.
(PatternVision, sjá vefslóðina
www.patternvision.com), sem
stofnað var árið 2000 með að-
stoð Rannsóknaþjónustu HÍ.
Markmiðið var að styðja við
þróun, notkun og dreifingu
hugbúnaðarins sem heldur
áfram undir stjórn höfundar.
Aðrir aðilar að Rann-
sóknastofnun um mannlegt at-
ferli og Atferlisgreiningu eru
meðhöfundar að nokkrum
köflum bókarinnar. Þessir
kaflar fjalla m.a. um rann-
sóknir við Tókýóháskóla
varðandi samskipi kynjana og greiningu
samskiptahegðunar við Háskólageð-
sjúkrahúsið í Genf varðandi svipbrigða-
mynstur í samtölum milli meðferðaraðila og
einstaklinga sem gert hafa tilraun til sjálfs-
vígs. Auk þess er að finna kafla um beitingu
T-mynsturleitar við greiningu á samspili í
knattspyrnu, en fyrri greiningar samstarfi við
leiðandi breska rannsóknaaðila hafa nú m.a.
verið birtar í einu af helstu tímaritum um
íþróttarannsóknir (Journal of Sport Science).
Einn af köflum bókarinnar fjallar um grein-
ingu á knattspyrnu í samstarfi við íþrótta-
rannsóknadeild Hullháskóla í Bretlandi, en
niðurstaða kaflans hefst á orðunum „Mögu-
leikar á notkun T-mynsturleitar í knattspyrnu
eru gífurlegir“.
Sérstakur kafli eftir Alister Nicol, Keith
Kendrick við Babraham Institute í Cambridge
og Magnús S. Magnússon, fjallar um
T-mynsturgreiningu með THEME á taugalíf-
eðlisfræðilegum gögnum sem safnað hefur
verið með nýjum hátækniaðferðum við Babra-
ham Institute. Hegðun hverrar einstakrar
frumu er sjálfvirkt skráð samtímis frá 200
taugafrumum í heila sem eru í mikilli nálægð
hver við aðra. Þessi ferli eru ógnarhröð og
tíminn því mældur í einingum sem eru um þrír
milljónustu úr sekúndu. Með THEME er
síðan leitað að samvirkni/gagnvirkni
mynstrum og hafa löng og mjög marktæk
mynstur fundist. Þetta er raunar nýjasta
notkun T-mynsturgreiningar.
Rektor Milano-Bicocca háskóla, Marcello
Fontanesi, lýkur formála sínum með þessum
orðum:
„Að lokum vonum við að innihald þessarar
bókar muni ýta undir frekari rannsóknir varð-
andi hulin mynstur að baki atferlis manna og
dýra og hvernig best megi nota stærðfræði til
að skilja formgerð þess. Framtíðar notk-
unarmöguleikar T-mynstra (T-patterns) eru í
raun einungis háðir ímyndunarafli hæfi-
leikaríkra einstaklinga. Að skilja hvernig móta
megi og nýta að fullu möguleika þessarar nýju
nálgunar er spennandi ögrun fyrir þá sem
vinna að þróun og rannsóknum. Þessi bók leit-
ast við að benda á nýjar leiðir að því marki.“
Hulin mynstur í samskiptum: Frá
taugafrumum til menningarmynstra
Í nýlegri bók, The Hidden Structure of Inter-
action: from neurons to culture patterns, er
fjallað um hulin mynstur í atferli og gagn-
virkni (samskiptum) og hvernig má uppgötva
þau á grundvelli formgerðarlíkans sem ís-
lenski vísindamaðurinn Magnús S. Magn-
ússon hefur þróað síðastliðinn þrjátíu ár.
Einn af greinarhöfundum í bókinni kynnir
efni hennar.
Höfundur starfar á Rannsóknarstofu um mannlegt
atferli í Háskóla Íslands, og í Atferlisgreiningu ehf.
Eftir Guðberg K. Jónsson
gjonsson@hi.is
Falin formgerð „Þegar tveir eða fleiri einstaklingar eiga samskipti hvort sem þeir eru
manneskjur, apar, mýs eða bananaflugur gerast margir hlutir samtímis.“