Lesbók Morgunblaðsins - 02.02.2008, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 02.02.2008, Blaðsíða 5
svipaða hluti hjá hljómsveitum eins og Jethro Tull og Gentle Giant. En það var nú ekki svo að við værum að leggja upp með það að líkja eftir þeim eða stæla. Tónlistin fór svo fljótlega að færast frá þjóðlagarokkinu og á Þursabit má t.d. heyra bræðing og djassrokk.“ Tómas segir að þeir hafi fiktað nokkuð með hægan og þungan takt, eitthvað sem þeir ímynduðu sér að væri íslenskt. „En við vorum eðlilega í myrkrinu með þetta enda var takturinn tekinn af þjóðinni þegar Jörfagleðin var bönnuð. Ólíkt og hjá frændum okkar Færeyingum þar sem dansinn fékk að lifa.“ Fálkinn gaf út fyrstu plötuna og Tómas rifjar upp að viðbrögðin við henni hafi verið afar sterk. „Það hvatti mann til að halda áfram því að planið náði nú ekki langt út fyrir þá plötu. Þetta var ákveðin tilraun. En eftir þá plötu fór síminn að hringja og fólk vildi fá okkur á tónleika.“ Þursar lögðu í hann í miðju pönk- og diskó- æði. Egill rifjar upp að nokkrir þeirra hafi verið úti í London þegar Sex Pistols létu fyrst á sér kræla. „Einhverjir okkar sáu þá hljómsveit spila og við urðum auðvitað fyrir kúltúrsjokki. Ég meina, við vorum að gera Tivoliplötuna! (Stuð- manna). Þarna sáum við menn hrækjandi í allar áttir, varla kunnandi á hljóðfærin. Eyr- arbakkaskipið var þá ekki enn komið til Íslands með pönkplöturnar.“ Tómas segir að þeir hafi líka hitt Malcolm McLaren, hinn fræga umboðsmann Sex Pistols sem rak auk þess búðina SEX ásamt Vivienne Westwood í Kings Road. „Hann var að setja saman hljómsveitina þeg- ar ég bjó úti í London. Hann kom sérstaklega til að skoða band sem ég var að spila með („Trigger Happy?“ spyr Egill og Tómas kinkar kolli). Ég var víst aðeins of vandaður! (þeir hlæja dátt). Hilmar Örn sagði við mig að ef ég hefði verið aðeins lakari bassaleikari hefði myndin heitið Tom and Nancy.“ Nú er mikið hlegið og Egill rifjar upp að þeir hafi hitt Malcolm tvisvar úti í London. „Við fórum í búðina SEX. Allir innviðir voru skakkir og Malcolm seldi latexgalla með götum fyrir kynfæri. Við sveitamennirnir vorum eðli- lega forviða.“ Þursarnir gerðu svo pönkinu skil á sinn hátt, með því að spila pönkað lag við ljóð Jónasar Árnasonar, „Jón var kræfur karl og hraustur“. „Við vorum á túr með Kalla Sighvats og lék- um fyrir sjö áheyrendur í Vík í Mýrdal,“ rifjar Tómas upp. „Þeir voru að gæla hressilega við stút og vildu fá eitthvað rífandi fjörugt. Lagið var sett saman baksviðs og útsett nánast um leið og við spiluðum það.“ Kartöflupokar Hugmyndin að safnkassanum kom upp í kjölfar þess að ákveðið var að blása til tónleika. „Það voru Senumenn sem stungu upp á þessu með kassann, við sjálfir náðum nú ekki að hugsa svona langt,“ segir Egill og kímir. „En við komum strax að málum og okkur langaði gjarnan að það yrði nú vandað til útgáfunnar. Og Senumenn hafa sýnt mikinn metnað, það er farið ítarlega í öll þessi mál. Ljósmyndir, grein- astúfar, tónleikaferðir; allt er þetta tíundað. Passað er upp á hljóm platnanna og aukaplatan hefur þá sitt að segja. Alltént fyrir þessa 150 „hardcore“ aðdáendur (hlær).“ Það er auðheyranlegt að Þursarnir standa Agli nær. „Já, ég viðurkenni það að mér þykir dálítið vænt um þetta band þrátt fyrir að oft hafi verið hart á dalnum. Við lögðum upp í þriggja vikna túra þar sem leikið var á hverju einasta kvöldi – og stundum í hádeginu líka! Á þessum örmark- aði sem við búum við hér á landi þarf mikla þol- inmæði og sterk bein til að halda hreinlega út, að maður tali nú ekki um þegar menn ákveða að fylgja sinni sérvisku og sveigja frá tískusveifl- um. Þegar maður lítur til baka var þetta alveg ótrúlegt úthald en síðustu tónleikarnir voru 1984. Án þess að nokkur talaði um það að band- ið væri að hætta lagði það nánast sjálfvirkt upp laupana því að við tók hljómsveit sem hafði það í för með sér að menn voru farnir að sjá marg- faldar þær tekjur sem við höfðum haft til þessa. Aðstæður manna voru líka breyttar, fjölskyldur voru farnar að myndast o.frv.“ Tómas segir að þeir hafi talað um bandið sem „harkið“ sín á milli og hann og Egill rifja það upp þegar Þórður keypti sér tvo kartöflupoka fyrir veturinn. „Þórður keypti tvo fimmtíu kílóa kart- öflupoka, frekar en einn, til að eiga örugglega eitthvað í soðið einn veturinn,“ segir Egill og Tómas bætir við að reglubundið hafi þeir fé- lagar farið heim til Þórðar í fátækrakássu. Platan týnda, Ókomin forneskjan, ratar inn á samnefndan aukadisk, hálfkláruð að sögn Egils. Byrjað var að leggja drög að henni árið 1983. „Við tókum okkur góðan tíma í þetta, kannski alltof langan,“ segir Tómas. „Svo þegar á leið fór að hlaupa allverulega á snærið hjá Stuð- mönnum og allt í einu voru tvö, þrjú ár liðin. Þá voru menn komnir með upp í kok af þessu öllu saman. Platan fór í hvíld en nokkur lög fóru inn á fyrstu sólóplötuna hans Egils, Tifa tifa. Tón- listin sjálf var orðin ansi framsækin.“ Og töluvert þyngri að mati Egils. „Þetta var myrkara og textarnir voru ansi óræðir. Þetta var mikil hljóðversvinna enda var sveitin hætt að spila á tónleikum. Það voru ýms- ar tilraunir í gangi.“ Lögin sem fóru inn á Tifa tifa eru „Fjand- samleg návist I“ og „Fjandsamleg návist II“. Lagið „Þórdís“ fór svo inn á sólóplötu Egils frá 2001, Angelus Novus. Eftir eru í hillum tvö lög, „Sofðu“, einskonar vögguvísa handa komandi kynslóðum að sögn Egils og svo eitt ósungið lag, nafnlaust. Tónleikarnir komandi eiga sér afar langan aðdraganda, allt aftur til þess er Þursarnir voru enn starfandi. „Um það leyti sem við gerðum Þjóðleik- hústónleikana (sem voru hljóðritaðir fyrir Á hljómleikum plötuna) kom upp sú hugmynd að Sinfóníuhljómsveitin myndi spila með okkur,“ segir Egill. „Menn voru á því að tónlist Þurs- anna myndi gera sig vel með Sinfó. Svo þegar var ákveðið að Þursarnir kæmu saman á ný, vegna tímamóta í sögu bandsins, stakk Þórður upp á því að það væri ef til vill hentugra að fá minni sveit til liðs við okkur. Við erum í raun- inni kammer-rokksveit og því lægi beinast við að fá kammersveitina Caput með okkur. Þar er einfaldur strengjakvintett og strengjahljóm- urinn því ekki eins áberandi og í stórri sinfón- íuhljómsveit. Það fer okkar tónlist betur að hún sé lituð með málmblæstri, tréi og slagverki og strengjahljómurinn lágstemmdari, með fullri virðingu fyrir þeim fallega blæ. Þá ætlum við að vera með fáein óvænt tæki á tónleikunum. Þessi tillaga Þórðar er að virka og mér sýnist að út- setningarnar, sem ég hef gert að stórum hluta geri það einnig. Eins hafa Haukur Tómasson, Tatu Kantoma, Samúel Samúelsson og Lárus Grímsson lagt okkur til frábærar útsetning- ar.Þá hefur Ríkharður Örn Pálsson samið sér- staka svítu af tilefninu, sem hann nefnir Þursas- vítu.“ Tímans tönn En hefur Þursaflokkurinn staðist tímans tönn? Hvernig tókst til? Eru Egill og Tómas sáttir? Löng þögn fylgir þessum spurningum en Egill ríður á vaðið. „Ég veit ekki hvort að við erum réttu menn- irnir til að svara þessu,“ segir hann. „Þó þetta séu orðin þrjátíu ár frá því við gerðum þetta og réttsýnin orðin nokkur á viðfangsefnið, þá stendur þetta okkur engu að síður of nærri. Ég held ... ef ég á að vera heiðarlegur, að ég geti sagt með góðri samvisku að erfitt sé að finna merkimiða með upplýsingum um síðasta sölu- dag á þessari tónlist.“ Blaðamaður gerist svo djarfur að tefla fram hljómsveitum eins og The Band og Sigur Rós í tengslum við Þursana, þar sem mikil og náin samvera, ásamt með nánast telepatísku sam- bandi einstakra hljómsveitarmeðlima stýrir tónlistarsköpun og flutningi. „Við unnum mjög mikið og samveran var að sama skapi mikil,“ segir Tómas. „Það er alveg rétt.“ Egill tekur þennan bolta á lofti og segir að endingu: „Ég held að það sem gerist yfirleitt með heið- arlega músík og heiðarlega kúnst, er að hún hættir að vera í samkeppni við nokkurn hlut. Hún er bara í innri samkeppni við sjálfa sig. Og þegar þetta næst – og ekki spyrja mig hvernig það gerist, því ég hef ekki hugmynd um það, þá er eins og öllum létti og allt fer að streyma eins og bunulækur . Ég tel mér trú um að ég hafi tekið þátt í þannig samstarfi með Þursum – að okkur hafi tekist að búa til eitthvað einstakt. Við vorum nefnilega ekki að keppa við neitt nema sjálfa okkur.“ við neitt nema sjálfa okkur Árvakur/Golli MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 2. FEBRÚAR 2008 5 AUK þeirra fjögurra platna sem komu út á líftíma Þursa verður í safnkassanum platan Ókom- in forneskjan, sextán laga plata með efni sem hefur ekki komið út áður (utan tvö lög). Munar þar mest um fimmtu plötu Þursanna, sem heitir einmitt Ókomin forneskjan, en hana láðist að klára og voru þó gerðar margar atrennur að verkinu. Sveitin lék efni af plötunni á tónleikum á þorra árið 1984 og vinna við hana hófst í apríl sama ár. Lögin sem plötuna áttu að prýða og koma nú loks fyrir almenningseyru eru lögin „Ókomin forneskjan“, „Of stórt“, „Fjandsamleg návist – III“, „Súpa a la carté“ og „Hverju á að trúa – Arab?“. Auk þessara laga er að finna áður óheyrðar hljómleikaútgáfur af lögunum „Sérfræðingar segja“ og „Úr Vesturheimi“. Lögin „Anarkí“, „Svífur uppá silfurhimni“ og „Lísu-blús“ (með texta eftir Megas) eru þá hér sem tón- leikaupptökur en ekkert þeirra rataði inn á hljóðversplötur á sínum tíma. Þá er að finna hljóm- leikaútgáfur af lögum úr söngleiknum Gretti; „Harley Davidson“, „Sveinninn er samningi bundinn“, „Fram allir vöðvar“ og „Sálmur fyrir Gullauga“. Þau lög sem hafa komið út á plasti áður, en eru hins vegar ekki á hverju strái eru „Gegnum holt og hæðir“, sem kom út á plötu sem var gefin út í tengslum við minningartónleika um Karl Sighvatsson (1992) og „Þögull eins og meirihlutinn (Í speglinum)“ í þeirri útgáfu sem er að finna á Rokk í Reykjavík plötunni. Ókomin forneskjan » Svo þegar var ákveðið að Þursarnir kæmu saman á ný, vegna tímamóta í sögu bandsins, stakk Þórður upp á því að það væri ef til vill hentugra að fá minni sveit til liðs við okkur. Við erum í rauninni kammer-rokksveit og því lægi beinast við að fá kamm- ersveitina Caput með okkur. Þar er einfaldur strengjakvintett og strengjahljómurinn því ekki eins áberandi og í stórri sinfón- íuhljómsveit. Það fer okkar tónlist betur að hún sé lituð með málmblæstri, tréi og slagverki og strengjahljómurinn lág- stemmdari, með fullri virðingu fyrir þeim fallega blæ. »Ég held ... ef ég á að vera heiðarlegur, að ég geti sagt með góðri samvisku að erfitt sé að finna merkimiða með upplýs- ingum um síðasta söludag á þessari tónlist.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.