Lesbók Morgunblaðsins - 02.02.2008, Blaðsíða 12

Lesbók Morgunblaðsins - 02.02.2008, Blaðsíða 12
12 LAUGARDAGUR 2. FEBRÚAR 2008 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.is A tli Heimir Sveinsson er frjótt tónskáld og afkastamikið. Atli var búinn að semja alls konar verk, allt frá sönglögum til ópera, minimalískra slátta til mikilfenglegra kammerverka – en enga sinfóníu, þar til fyrir um áratug, að hann fór að huga að sinfóníusmíð. Sinfónía nr. 1 var frumflutt 1999. Sú númer tvö var frumflutt árið 2006. Fjórða sinfónía Atla Heimis var frumflutt í Prag í Tékklandi í mars á síðasta ári, áður en sú þriðja fékk sína eldskírn. Bilið á milli þeirra styttist óðum; sú fimmta og sjötta er í smíðum. En nú er komið að því sú þriðja lifni í leik Sinfóníuhljómsveitarinnar og ein- söngvaranna Gunnars Guðbjörnssonar og Ágústs Ólafssonar. Hvernig verður hugmynd að sinfóníu til? „Ég veit það ekki.“ Hvernig byrjaðirðu á þeirri þriðju; hvað langaði þig að gera? „Ég veit það ekki. Ég vildi bara skrifa sin- fóníu. Ég byrja yfirleitt á því að reyna að fara ekki í troðnar slóðir og gera það sem aðrir hafa gert mörgum sinnum. Ég held að það sé mjög góð regla fyrir þá, sem vilja vera skapandi, að vera svolitlir einfarar. Ég held að það sé gott. Það er eins og með aflakónga til sjós. Þeir eru ekki mikið þar sem aðrir eru. Það liggur í hlut- arins eðli. Ég held að sinfónían eins og það form hefur þróast, sé alltaf með einhvern boðskap eða pró- gramm. Tónskáldin láta það hins vegar ekki alltaf uppi, það er mismunandi frá manni til manns. Ef maður gefur það upp, þá er maður búinn að binda áheyrandann um of – hans hug- myndaflug og fantasí. Ef þú segir að það sé ákveðið prógramm, eins og til dæmis lífið, þá ertu búin að gefa vísbendingu en hugarflug hlustandans er samt frjálst að finna út úr því fyrir sig. Þannig held ég að þetta sé. Þetta hef- ur aldrei valdið mér neinum erfiðleikum, og ég sé ekki endilega ástæðu til að gefa upp alla sög- una. Lífið í Lukku Heinesens Ég rakst á kvæði eftir Heinesen og það var byrjunin. Það fjallar um líf skáldsins og er óskaplega fallegt kvæði um Fortúnu. Fortúna er skipið Lukkan sem kemur til Þórshafnar og tekur sér ferð með henni með Sindbað sæfara, sjófaranum eilífa. Hann lýsir þeirri siglingu gegnum lífið. Það líta margir á lífið sem ein- hvers konar siglingu, og það er algengt hér á Íslandi. Heinesen siglir með Sindbað og það endar með því að Sindbað leggur hönd Heine- sens á stýrið og segir honum að taka við og stýra skútunni. Þá er klukkan tólf á miðnætti, stormur og myrkur. Þetta er hundavaktin svo- kallaða og skáldið stýrir Lukkunni gegnum stórsjóinn og storminn og stendur sig. Þetta er magnað kvæði, gullfallegt og fjallar um lífið. Ég valdi að hafa tvær karlaraddir í verkinu, tenór og baríton, þó ekki dúett. Ég hugsa mér það sem eina persónu með tvær raddir. Við get- um sagt að annar syngi út í salinn en hinn túlk- ar það sem gerist innra með frásegjandanum. Svo er ég með eitt sem er óþekkt í klassíkinni, því miður, og það eru bakraddir. Þær eru með venjulegt söngkerfi eins og Júróvisjón.“ Er það eitthvert vúbb skúbídúbí? „Nei, þetta eru allt öðruvísi bakraddir en þar. Þær eiga fyrst og fremst að víkka hljóð- heiminn, og gefa söngnum of mikla fjarlægð eða of mikla nánd. Svo er það bara hin venju- lega sinfóníuhljómsveit. Ég er alltaf með ein- hverja útvíkkun á hljómsveitinni – ég er gjarn- an með rafmagnsorgel eða einhver önnur hljóðfæri, eins og tónskáld hafa alltaf reynt. Þetta gerði Wagner, þetta gerði Richard Strauss og þetta gerði Stockhausen og fleiri meistarar. Dauðinn á hafísnum Þetta var upphafið, en svo kom það næsta. Ég hef alltaf haldið mikið upp á Gunnar Gunn- arsson; svona vissa þætti í honum. Eitt af því sem hann gerði fallegt var sérkennileg skáld- saga sem hét Drengurinn. Maður veit eiginlega ekki hvort hún er í bundnu máli eða óbundnu – þetta er ljóðræn frásaga. Hún endar á frásögn af manni sem kýs sér dauðdaga. Þetta er ein- hvers staðar á Norðausturlandi, en Gunnar var þaðan. Maðurinn fer út á hafís. Í sunnanvind- inum rekur hafísinn frá landi og maðurinn horfir á landið sitt hverfa og kveður þá drápu þar sem hann kveður lífið. Það er einkennilegt atómkvæði sem Gunnar kveður þar. Ég veit ekki hvort það er fyrsta atómkvæðið á íslensku. Kvæðið er kveðja til lífsins. Maðurinn sér ströndina sem hann þekkir svo vel hverfa, en horfir um leið óhræddur á það sem óhjákvæmi- lega koma skal. Ódysseifur og frelsið Þá voru tveir kaflar búnir af sinfóníunni og ég bætti þeim þriðja við. Mér barst frá vini mínum doðrantur á ensku eftir Kasantzakis, gríska skáldið sem skrifaði Zorba og um píslir Krists og frábæra sjálfsævisögu. Hann orti mikinn bálk um Ódysseif – hinn eilífa Grikkja, og allt það sem gerist þegar hann er heim kominn úr sjóferðum sínum. Ódysseifur var kominn heim, búinn að finna fjölskylduna og hamingjuna, en þá fyrst byrjaði nú ballið. Ég fann þar klausu sem ég þýddi, en hún er um frelsið. Þá hafði ég lífið, dauðann og svo frelsið; þetta óskiljanlega sem allir þrá á einhvern hátt en alltaf er verið að skerða á einhvern hátt. Svo spilar mitt eigið líf líka inn í þetta, en ég fer ekkert út í það. Þetta er grunnurinn að sinfóníunni og meira er ekki upp gefið. Einhvern tíma var sagt, og ég held að það hafi verið Mahler sem sagði það, að sinfónía ætti að taka utan um allt mannlífið, alveg eins og stóru skáldsögurnar á 19. öld, eins og Stríð og friður, Vesalingarnir og slíkar sögur, þar sem sagðar eru miklar og flóknar sögur og hlið- arsögur sem fléttast saman; saga þjóða, saga einstaklinga; sorglegar lægðir og glaðværar hæðir – í slíkum verkum er búinn til heill heim- ur.“ Þetta blundaði lengi í mér Þarf tónskáld að semja sinfóníu? „Það veit ég ekkert um.“ Hvers vegna finnur þú til löngunar til að semja sinfóníur? „Það veit ég ekki. Fyrsta sinfónían var seint skrifuð. Það eru tíu, fimmtán ár síðan.“ Þá voru margir farnir að velta því fyrir sér hvort þú ætlaðir ekki semja sinfóníur. „Jájá. Sumir hafa samið sinfóníur, aðrir ekki. Ef við lítum á 20. öldina, sem við erum nú sennilega partur af, þá skrifaði Bartók aldrei sinfóníur, Schönberg eiginlega ekki heldur. Stravinskí, það eru ekki hans meiri háttar verk. Sjostakovitsj samdi hins vegar sinfóníur og þýski meistarinn sem Íslendingar þekkja ekki, Karl Amadeus Hartmann, með sínar fimm, sex sinfóníur, sem eru einhvers konar mótmæli gegn óréttmætu stjórnarfari sem hann upplifir. Honum var ýtt til hliðar af því að hann studdi ekki stjórnvöld. Jón Leifs gnæfir upp úr þeim tíma með Sögusinfóníuna. Leifur Þórarinsson samdi tvær. Sú síðari, hans svanasöngur, er mér sérstaklega hugstæð. Jújú, menn eru að þessu. Sumir hafa svo samið stór hljómsveit- arverk sem hafa ekki verið sinfóníur – marg- þætt verk oft fyrir kóra og hljómsveit. Þetta blundaði lengi í mér, fór seint af stað, og nú er ég orðinn nokkuð fastur í þessu.“ Hvað heillar þig við sinfóníuna? „Ég hef bara gaman af því, og meðan ég hef eitthvað að segja held ég því áfram. Þegar komið er nóg, þá hætti ég.“ Horfirðu til baka til hefðarinnar þegar þú semur sinfóníurnar? „Nei, ég hef aldrei gert það. Fyrir mig hefði það engan tilgang að endurtaka form Beetho- vens. Engan. Maður getur þó lært ýmislegt af honum, aðferðafræði, hugsunarhátt, siðferð- iskennd. En það væri fráleitt að stæla hans stíl. Það hafa of margir gert, og árangurinn eftir því. Fyrsta sinfónían mín var hljómsveitars- infónía og endurspeglaði að ýmsu leyti mitt líf. Hún var dökk og ekki aðgengileg. Menn eiga að fylgja sinni sannfæringu. Það verður að ráð- ast með viðtökurnar. Önnur sinfónían var ljós- ari og aðgengilegri og sumir myndu segja fal- legri. Hún var með kór sem notaður var á nýjan hátt eins og hljóðfæri. Í þeirri fjórðu eru tvær fiðlur, hvor sínum megin við hljómsveitina. Sin- fónía concertante. Fiðlurnar halda áfram tón- listinni þar sem hljómsveitinni sleppir. Sú fimmta verður með elektróník og tölvu- hljóðum.“ Hugsarðu til áheyrandans þegar þú semur? „Nei. Ég hef nóg að gera við að koma hugs- unum mínum á blaðið. Ef ég forma hugsanir mínar skýrt, getur hver sem er skilið. Þá skipt- ir engu máli hvað maður er að semja, hvort ég er í gamaldags jukki eða öðru. Ef hugsunin er ekki skýr mun enginn geta skilið það.“ Tvær íslenskar sinfóníur verða frumfluttar á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á Myrkum músíkdögum á fimmtudagskvöldið. Fyrir hlé leikur hljómsveitin Sinfóníu nr. 3 eftir Atla Heimi Sveinsson. Atli segir sinfóníuna fjalla um lífið, frelsið og dauðann. Þetta er söngsinfónía, og textann fær Atli úr ljóðum þriggja eyjaskálda, Heinesens, Kasantsakisar og Gunnars Gunnarssonar. Sinfónía lífs og frelsis Árvakur/Árni Sæberg Atli Heimir Sveinsson „Þetta blundaði lengi í mér, fór seint af stað, og nú er ég orðinn nokkuð fastur í þessu.“ »Ég held að það sé mjög góð regla fyrir þá, sem vilja vera skapandi, að vera svolitlir einfarar. Ég held að það sé gott. Það er eins og með afla- kónga til sjós. Þeir eru ekki mikið þar sem aðrir eru. Það liggur í hlutarins eðli.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.