Lesbók Morgunblaðsins - 05.04.2008, Side 10
10 LAUGARDAGUR 5. APRÍL 2008 MORGUNBLAÐIÐ
lesbók|Bókmenntirnar á tímum hins óljósa
Eftir Þröst Helgason
throstur@mbl.is
V
eruleikinn er allt það sem rúm-
ast undir himninum,“ segir Jón
Kalman Stefánsson og vísar til
skáldsögu Eiríks Guðmunds-
sonar, Undir himninum (2006),
en í henni slær saman ýmsum
heimum – samfélagslegum og bókmennta-
legum, áþreifanlegum og óáþreifanlegum, nú-
tíð og fortíð – sem allir geta fallið undir þessa
skilgreiningu á veruleikanum; hann er með
öðrum orðum ekki bara það sem við sjáum,
heyrum, þreifum á, þekkjum með einhverjum
hætti, heldur líka það sem við hugsum, ímynd-
um okkur, trúum. Veruleikinn er heimurinn og
maðurinn í öllu sínu veldi en ekki það fyrirbæri
sem tungumálið virðist á einhverjum tíma-
punkti hafa skilgreint fyrir okkur sem eitthvað
áþreifanlegt og andstætt því sem við sköpum
með ímyndunarkraftinum.
Fyrirvarar, og þó
Þegar nokkrir íslenskir rithöfundar eru spurð-
ir hvort þeir séu realískir höfundar í þeirri
merkingu að þeir skrifi bókmenntir sem lýsa
veruleikanum felur svar þeirra flestra í sér
þennan fyrirvara á skilningi okkar á veru-
leikanum. Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart
því að hann hefur lengi verið til staðar í bók-
menntunum. Gyrðir Elíasson orðar hann með
eftirfarandi hætti: „Það er enginn einn veru-
leiki til, í rauninni eru til jafn margir „veru-
leikar“ og lífverurnar eru margar. Veruleiki
hvers manns innra með honum er jafnrétthár
og merkilegur til rannsóknar og svokallaður
veruleiki fyrir utan. Jafnvel draumar eru veru-
leiki, því öll dreymir okkur og svefninn er líka
veruleiki þótt við vitum ekki af okkur á meðan.
Sjálft ímyndunaraflið er einnig eins konar
veruleiki, því að það er staðreynd að það er
hluti af innréttingu mannskepnunnar og litar
þess vegna alla sýn hennar á það sem hún sér
og upplifir.“
Um raunsæið eru höfundarnir hins vegar
ekki jafnsammála. Auðvitað hefur sterk
raunsæisbylgja riðið yfir íslenskar bókmenntir
síðustu ár í formi afþreyingarbókmennta. Þar
hafa krimmarnir verið fyrirferðarmestir en í
fimmta bindi Íslenskrar bókmenntasögu setur
Jón Yngvi Jóhannsson verk Ólafs Jóhanns
Ólafssonar, Kristínar Marju Baldursdóttur og
Vilborgar Davíðsdóttur einnig undir þennan
hatt. Árni Þórarinsson, sem gaf út sjöundu
glæpasögu sína á síðasta ári, Dauða trúðsins,
lýsir viðhorfi þessara höfunda til skrifanna
ágætlega. Hann segir að flestir krimmar, og
hans þar meðtaldir, séu raunsæisbókmenntir
að því leyti að þeir taki mið af umhverfi sínu.
„Þeir skerpa kannski línur og draga fram
suma strauma sem leika um samfélagið um-
fram aðra. En eitt af markmiðunum er að
reyna að ná utan um veruleika okkar.“
Af öðrum höfundum svarar Hermann Stef-
ánsson spurningunni hvort hann sé realisti af-
dráttarlaust með einu orði: „Já.“ Skáldsaga
hans, Stefnuljós (2005), gæti hins vegar virst
stangast á við þetta svar enda afar flókinn vef-
ur veruleika og skáldskapar. Haukur Már
Helgason, Nýhilingur og höfundur skáldsög-
unnar Svavar Pétur og 20. öldin (2006), segist
einnig vera realisti en hneigjast meira „að að-
ferð Innrásarinnar frá mars en Zola, en með
sannleika um veruleikann að markmiði“. Sann-
arlega athyglisvert viðhorf hjá skáldi af kyn-
slóð þeirra sem hafa alist upp við þann skilning
að veruleikinn sé að leysast upp, sé jafnvel
ekki til. Auður Jónsdóttir segist vera komin í
heilan hring, fyrsta skáldsaga hennar, Stjórn-
laus lukka (1998), hafi verið realísk og eftir að
hafa diktað upp heiminn í Tryggðarpanti
(2006) sé hún aftur komin á byrjunarreit,
„nema núna sætti ég mig við að veruleikinn
verður ekki beislaður og leyfi honum barasta
að flæða. Ætli þetta endi ekki með að ég fari að
skrifa ljóð“.
Sumir höfundar eru meira efins um raunsæ-
ið. Jón Kalman, sem hefur unnið mikið með
samband veruleika og skáldskapar í verkum
sínum, meðal annars sitt eigið líf, segir að bók-
menntir hafi alltaf reynt að fanga veruleikann
og beitt til þess öllum hugsanlegum aðferðum:
„Realisminn er bara ein aðferðin, og ekki
býsna góð, hún býr ekki yfir því óvænta og lýs-
ir einungis því sem blasir við.“ Auður Ólafs-
dóttir, sem gaf út Afleggjarann á síðasta ári,
segist tvímælalaust vera að fást við ýmsar til-
vistarspurningar er varði stöðu mannsins í
heiminum á 21. öld og séu raunverulegar, en
bætir við: „Ég er þó fyrst og fremst upptekin
af veruleika skáldsögunnar, þeim sem er að-
eins til í samhengi bókar, það er síðan í hönd-
um lesenda að byggja brýr yfir í aðra veruleika
og koma á diplómatísku sambandi. Ef lesand-
inn gengst inn á lögmál leiksins og lætur
blekkjast getur ó-raunsæi skáldskaparins gef-
ið honum skáldlega sýn á veruleikann utan
bókar, í því er galdurinn fólginn.“
Bókmenntir síðustu ára hafa snúist um
spurningar um tengsl veruleika og skáld-
skapar – eða veruleika skáldsögunnar, eins og
Auður orðar það – og þá ekki síður um mögu-
leika skáldskaparins til að ná utan um veru-
leikann. Það hefur því verið látið reyna á
raunsæið í sagnagerð, ekki síst með því að
leggja á það ýmsar tilraunir sem módernism-
inn gerði með form á síðustu öld, eins og fjallað
var um í inngangi þessa greinaflokks í Lesbók
fyrir viku. Sumar skáldsögur hafa beinlínis
tekið möguleika frásagnarlistarinnar til um-
fjöllunar, þar á meðal Sendiherrann eftir
Braga Ólafsson. Hún er upplagt viðfangsefni í
byrjun þessa greinaflokks, enda fáar sögur
sem varpa jafnskemmtilegu ljósi á íslenskar
bókmenntir í aldarbyrjun, hugmyndir þeirra
um sjálfar sig, takmarkanir sínar, form og
hlutverk, en einnig viðtökur þeirra.
Tími sem enn er ekki liðinn
Spurningunni um það hvort hann sé realískur
höfundur svarar Bragi á eftirfarandi hátt:
„Það sem ég skrifa um bý ég til úr því sem ég
sé og heyri og ímynda mér. Ég er kannski real-
ískur höfundur í þeim skilningi að ég reyni fyr-
ir alla muni að forðast fantasíu og það að reyna
að lýsa tíma sem enn er ekki liðinn.“ Með þess-
ari síðustu setningu um að lýsa tíma sem enn
er ekki liðinn vitnar Bragi til Sendiherrans.
Aðalpersóna bókarinnar, Sturla Jón Jónsson
ljóðskáld, fer á ljóðahátíð í Litháen, sem
fulltrúi eða eins konar sendiherra íslenskra
bókmennta, en áður skrifar hann grein fyrir ís-
lenskt menningartímarit um það sem gerist á
ljóðahátíðinni. Ritstjóri tímaritsins á bágt með
að skilja hverslags grein þetta er og dettur
helst í hug framtíðarskáldskapur, Science-
fiction, sem hann segist ekki vilja birta. Þetta
uppátæki, að lýsa tíma sem enn er ekki liðinn,
kemur aftur fyrir í sögunni og þá hneykslast
Sturla Jón mjög á þeirri hugdettu. Hann fær
grein sína ekki birta í tímaritinu en hún er hins
vegar birt í bókinni áður en sagt er frá ferð
Sturlu Jóns á ljóðahátíðina. Það kemur reynd-
ar ítrekað fyrir í sögunni að sagt sé frá hlutum
sem enn hafa ekki gerst. Yfirleitt er það Sturla
Jón sem fantaserar um óorðna hluti.
Bíðum nú aðeins við. Þetta virðist stangast á
við svar Braga Ólafssonar um að hann sé real-
ískur höfundur í þeim skilningi að hann reyni
fyrir alla muni að forðast fantasíu og það að
reyna að lýsa tíma sem enn er ekki liðinn.
Hvað er Bragi eiginlega að hugsa?! Getur ver-
ið að hann meini ekkert með orðum sínum?
Eða er svar hans einhvers konar útúrsnún-
ingur? Hvað þýðir það í raun að hann forðist
fantasíu og það að lýsa tíma sem enn er ekki
liðinn? Er hægt að forðast fantasíu í skáld-
skap? Þykist Bragi alltaf vera að segja sögur
um eitthvað sem hefur gerst? Reyndar fór
Bragi á ljóðahátíð í Litháen og ýmislegt úr
þeirri ferð mun hafa skilað sér inn í söguna
eins og hann hefur sagt frá í viðtali hér í Les-
bók (23.12. ’06). En Sendiherrann er fyrst og
fremst uppspuni, fantasía um hluti sem hafa
ekki gerst (ekki enn að minnsta kosti). Og sú
staðreynd gerir svar Braga hér að framan líka
að uppspuna. Svo virðist sem við séum lent
inni í skáldverki eftir Braga Ólafsson.
Það er augljóslega engu að treysta! Sjálfur
gerir Bragi lítinn ef nokkurn greinarmun á
veruleika og skáldskap. Í svari sínu um real-
ismann segir hann nefnilega enn fremur:
„Þegar ég hef lýst einhverju og það er komið á
prent er það í mínum augum áþreifanlegur
veruleiki. Og stundum verð ég var við það hjá
lesendum að þeir upplifa þann veruleika á
svipaðan hátt og ég.“
Hvað er raunsæi? Hverju er hægt að treysta
í frásögn? Sendiherrann glímir við þessar
spurningar. Hann er metafiction, skáldverk
um skáldskap, saga sem er sífellt að gera at-
hugasemdir við það hvernig hún er sögð, texti
sem grefur undan sér með nákvæmlega sömu
aðferð og Bragi beitir í svarinu um meintan
realisma sinn: Að búa til leiðarvísi um sjálfan
sig sem er villandi. Sturla Jón fær einmitt þá
hugmynd að fyrsta prósaverk hans, að frátal-
inni áðurnefndri tímaritsgrein, verði einhvers
konar leiðarvísir fyrir útlendinga um Reykja-
vík sem villi um fyrir lesandanum og gefi hon-
um kolranga mynd af borginni.
Bragi er enginn realisti, nema í þeim skiln-
ingi að hann skrifar bókmenntir sem lýsa veru-
leika skáldskaparins. Eða, svo sanngirni sé
gætt: Bragi er einn af þeim höfundum sem líta
á sig sem realista en gera það með þeim hætti
að maður þarf að endurhugsa hugtakið.
Frásagnarháttur Braga er raunsæislegur.
Það er nánast eins og hann vilji kryfja hvert
augnablik í sögum sínum. Þessi nákvæmi og
hægi stíll virðist vera tilraun til þess að ná utan
um veruleika eða kannski skapa veruleika eða
tilfinningu fyrir veruleika. Staðsetningar
skipta líka miklu máli í sögum Braga, þær ger-
ast á þekktum stöðum, í tilteknum borgum,
götum, húsum, íbúðum, herbergjum. Spurður
hvers vegna hann sé svona upptekinn af sögu-
rýminu svarar hann: „Þegar ég er staddur í
bókabúð kaupi ég mér frekar skáldsöguna
Brighton Rock eftir Graham Greene heldur en
einhverja bók sem gerist á stað sem er ein-
ungis til í höfði höfundarins. Þetta er ábyggi-
lega einhvers konar fötlun. En hvers vegna ég
nota í sögunum ákveðnar nafngreindar götur
og jafnvel húsnúmer og íbúðir, mig grunar að
það sé einhvers konar sambland af gægjuþörf
og illkvittni. Þeir eiginleikar eru held ég mjög
algengir hjá höfundum.“
Sendiherrann er kirfilega settur niður í til-
teknu rými. Fyrsti hluti bókarinnar gerist í
Reykjavík og bera kaflarnir heiti gatna í borg-
inni, svo sem Bankastræti og Skólavörðustíg-
ur. Þetta kunnuglega umhverfi undirstrikar
ekki aðeins raunsæi frásagnarinnar heldur
einnig staðfestu í fari Sturlu Jóns, ákveðið
sjálfsöryggi sem endurspeglast í þungum
dómum hans um menn og málefni. Hann er á
heimavelli. Í lok fyrsta hluta er birt grein hans
um ljóðahátíðina sem hann fer á í næsta hluta
bókarinnar. Í greininni, sem áðurnefndur rit-
stjóri tímaritsins hafði einnig kallað spádóm,
lýsir Sturla Jón því yfir – þrátt fyrir að segja
það of sjálfsagða freistingu til þess að láta
undan henni – að nafn þorpsins Druskininkai,
sem ljóðahátíðin er haldin í, sé fjarstæðukennt
og sannarlega ósannfærandi. Í greininni, sem
úthúðar uppákomunni, er sömuleiðis sagt að
það eina óvænta sem gæti gerst á hátíðinni sé
að textar eins útlenda þátttakandans, sem
þýddir eru á litháísku, væru hreint ekki textar
þess tiltekna ljóðskálds heldur einhverjir allt
aðrir textar sem hefðu ekkert með ljóðlist að
gera. Hvort tveggja hefur forspárgildi í sög-
unni. Annar hlutinn heitir Vilnius en kaflar
hans bera ekki götuheiti. Sá fyrsti heitir Blett-
ur í teppinu en bletturinn er það fyrsta sem
Sturla Jón festir augun á þegar hann opnar
dyrnar að hótelherbergi sínu ef frá er talið
sjónvarpstæki sem virðist hanga í lausu lofti.
Sjónvarpið getum við litið á sem glugga inn í
hið óraunverulega og fjarstæðukennda en
bletturinn (sem er kveikjan að skáldsögunni,
eins og fram kom í áðurnefndu Lesbók-
arviðtali) gerir hótelherbergið meira spenn-
andi og framandi í augum Sturlu Jóns og jafn-
vel hættulegra. Og þess er auðvitað ekki langt
að bíða að Sturla Jón verður leiksoppur
óvæntra atburða – og að vissu leyti hættulegra
– og á sama tíma missir hann fótanna í þessu
nýja og framandi umhverfi. Eitt kvöld er hann
rændur rándýrum frakka, sem hann hafði fest
kaup á fyrir ferðina, og í sömu svipan er hann
afhjúpaður sem ritþjófur – ljóðabókin sem
hann ætlar að lesa upp úr á hátíðinni sam-
anstendur af ljóðum sem eru meira og minna
stolin úr handriti eftir látinn frænda hans sem
ber það kunnuglega nafn Jónas Hallmunds-
son. Stuttu eftir að upp kemst um ritstuld
Sturlu Jóns verður hann svo uppvís að því að
stela verðmætum frakka af öðrum gesti hátíð-
arinnar.
Hin raunsæislega frásögn sem fékkst við að
lýsa kunnuglegum veruleika hefur nú á óvænt-
an hátt snúist upp í frásögn sem hefur það
ekki að meginverkefni að lýsa veruleikanum
heldur því hvernig bókmenntir verða til. Nafn
Jónasar, frændans sem Sturla Jón stelur frá,
vísar auðvitað til þjóðskáldsins Hallgríms-
sonar og þar með bókmenntahefðarinnar sem
kenningar segja að skáldverk séu tilvitnanir í.
Sjálfur virðist Sturla Jón ekki þekkja þessar
kenningar því það kemur honum stórlega á
óvart að maðurinn sem afhjúpar ritstuldinn
fordæmir hann ekki. Reyndar kemur í ljós að
maðurinn beitir nákvæmlega sömu aðferð til
þess að fá útrás fyrir eigin sköpunarþörf. Og
þá þarf ekki að koma á óvart að sögunni um
frakkastuldinn „stelur“ Bragi úr sögunni Káp-
unni úr Pétursborgarsögum Gogols en sú bók
er nefnd í Sendiherranum.
Það er ekki fyrr en í síðasta hluta bók-
arinnar sem ákveðið jafnvægi kemst aftur á líf
Sturlu Jóns. Hann hefur þá fengið sína lexíu í
gangvirki skáldskaparins. Þessi hluti gerist að
mestu leyti í Minsk og ber það heiti en eini
kafli hans nefnist Pilies-stræti eftir götu í Vil-
nius sem Sturla Jón kynnist fyrst í ljóði. Þar
situr Sturla Jón á bar og fer að ímynda sér
hvað eigi eftir að gerast í væntanlegri heim-
sókn hans til móður konu, sem hann kynnist á
hátíðinni, og býr í blokkaríbúð í Minsk. Í lok
sögu vitum við að þau tvö eiga fyrir höndum
þessa ferð til Minsk. En við vitum ekki hvern-
ig sú ferð verður „í raun“. Um það verðum við
að treysta hugarburði Sturlu Jóns, skálds og
sérlegs sendiherra í framandi fantasíu- og
framtíðarheimum, en hann á það reyndar til að
verða að veruleika.
Realismi sagnabókmennta nú um stundir
fjallar fyrst og fremst um veruleika skáld-
skaparins. Eins og við eigum eftir að sjá í
næstu greinum þessa flokks er sá veruleiki
hins vegar farinn að skarast með ýmsum hætti
við aðra heima sem lengi þóttu raunverulegri.
Veruleiki skáldsögunnar
Skáldsaga Braga Ólafssonar, Sendiherrann,
er upplagt viðfangsefni í byrjun þessa greina-
flokks, enda fáar sögur sem varpa jafn-
áhugaverðu ljósi á íslenskar bókmenntir í
aldarbyrjun, hugmyndir þeirra um sjálfar
sig, takmarkanir sínar, form og hlutverk, en
einnig viðtökur.
Bragi Ólafsson Erum við stödd í skáldsögu eftir hann?
Morgunblaðið/Einar Falur