Heima er bezt - 01.02.1954, Qupperneq 25

Heima er bezt - 01.02.1954, Qupperneq 25
Nr. 2 Heima er bezt 57 illskulega í karli. „Það verða aflabrögð eða hitt þó heldur á manni í dag.“ Svo hnykkti hann á árunum. „Róðu strákur!“ Eftir hálftíma blóðspreng, komum við að fyrstu baujunni. „Það sýður á henni,“ tautaði karl ofurlítið skapvægari. „Það er norðurfallsdragningur enn- þá.“ Síðan lagði hann upp árar, rak álkuna út í þokuna, þefaði eins og hundur af þúfu. „Við er- um hérna í útkantinum. Láttu pjásuna róa, strákur.“ Ekki höfðum við lagt nema hálfa lóð, þegar baujukransinn mætti okkur. Þær vögguðu sér stríðnislega í kvikunni, hoppuðu og skoppuðu. „Það er sosum viðbúið," hvein ilskulega í karli. „Skerðu í sund- ur og hnýttu stjóra við.“ Hann starði á mig með nær því manndrápssvip meðan ég fram- kvæmdi verkið, viðbúinn að hella sér yfir mig, ef eitthvað færi aflaga. En til allrar hamingju, leysti ég það óaðfinnanlega af hendi, að minnsta kosti sagði hann ekkert ljótt. Hann skimaði hvasseygur út í mugguna, gretti sig herfilega og sagði argur: „Fjárans tuðran sú tarna, betur hún væri komin suður í dýpi!“ Fékk sér síðan landssjóðslauf, stakk upp í sig, bruddi og spjó góða stund slægðarlega íhugull á svipinn. „Sérðu nokkra kænu?“ spurði hann og leit hvasst til mín. Ég glápti út í þokuna, hlustaði og þefaði eins og ég hafði séð hann gera. „Ég sé engan bát,“ sagði ég. „Legðu þá að tuðrunni,“ sagði hann og klöngraðist frammí. Þá varð mér ljóst, hvað hann ætlaðist fyrir. „Hvað ætlarðu að gera?“ spurði ég kvíðinn. „Þetta er ekki okkar bauja.“ „Steinhaltu kjafti og gerðu eins og ég segi þér!“ hvæsti hann. Ég þorði ekki annað en að hlýða. Hann hrammsaði til sín belg- inn, þumaði inn nokkra faðma og gerði fast um stefnið." Róðu nú eins og djöfullinn hafi gefið þér máttinn til.“ En það var hægara sagt en gert, að róa móti strekkingsfalli og það með botnfasta lóð í eftir- dragí. Hvernig sem ég spyrnti, beit á jaxlinn og bölvaði, vannst ekkert á. „Það tommar ekki hjá þér,“ hvein í karlinum. „Þú ert liðó- nýtur.“ Þá var það að ég hleypti í mig illsku og næstum öskraði: „Reyndu þá að hjálpa mér, bölvaður vindhaninn þinn!“ Hann því næst hrökk í kút, góndi forviða á mig, grallara- laus yfir þessum ofstopa, settist síðan undir árar steinþegjandi. Við drógum dræsuna suður í dýpi, bömbuðum síðan til baka og lögðum þessar þrjár lóðir, sem eftir voru í bátnum. Ekkert rót kom á þokuna. Hún þjappaðist að okkur eins og dimmur, hreyfanlegur veggur. En nú fór að heyrast ára- skvamp, snýtur og mannamál. „Við skulum fara að kíkja undir,“ sagði karlinn, „það er ekki eftir neinu að bíða. Við drögum fyrri lögnina. Hann ætti að vera skriðinn á.“ Hann hólk- aði sig í brókina og setti upp róna vettlinga. „Hún ætti ekki að vera langt undan, tuðran okkar.“ Hann tók fram áttavit- ann, néri móðu af glerinu. „Vest- ur. Það ætti að vera eitthvað nærri sanni.“ Síðan settumst við undir árar, tókum sprettróður. Allt um- hverfis okkur voru baujur, leti- lega flatmagandi eins og heima- sætur í sólbaði. „Það er dottið úr fallinu," sagði karlinn, lagði inn árar og skimaði hvasseygur eftir bauj- unni. „Þetta er undarlegur skratti. Við vorum á milli þeirra þessa!“ sagði hann og benti á tvo kálfsbelgi, annan rauðan, hinn bláan. „Það hlýtur að hafa rekið,“ kraflaði niður í austur- rúmið, leit síðan upp og á mig, grimmdarlegur eins og reitt fress. „Helvítis bjöllusauðurinn! Þú hefur valið léttustu stjór- ana.“ Ég bjóst nú við öllu illu. En í sama bili glórði í bát, sem kom dragandi á móti okk- ur. Þar stóð á hverju járni, spegilfagur, spriklandi stútung- ur og ein og ein ýsubranda. Við dömluðum til þeirra. „Fá ann?“ spurði karlinn. „Það er reitingur.“ „Þetta er meira en reitingur. Þið fáið í kænuna. Það er ann- að af okkur að segja, vældi eymdarlega í karli.“ „Ekki held ég þú þurfir að kvarta, þó þér bregðist róður. Þú ert langhæztur í Víkinni,“ sagði hinn, bylti inn aulaþorski, graðýsu á eftir. „Ekki er hún dónaleg þessi. Þær verða smærri, sem við fá- um.“ Mér datt ekki annað í hug, en karlsauðurinn færi að gráta, svo aumur var hann. Hann þreif af sér húfuna, þó sér um enni og augu. „Þið hafið víst ekki rekist á bauju frá okkur. Ég finn hvergi fyrri lögnina.“ „Nei, Brandur minn.“ Þögn. Svo allt að því illgirnislega glott- andi: „Varstu ekk; sunnar? Við þóttust sjá þig þarna suður í þokubrúninni. Varstu þá ekki að leggja?" Það var eins og karlinum væri rekinn rokna löðrungur. Hann varð blásvartur í framan, brýrn- ar sigu og lúkurnar krepptust líkt og í krampa. Það var komið rót á þokuna. Hún trosnaði í sundur eins og tröllauknar hendur væru að verki. Lófastór heiðríkjublettur, kom í ljós, fagurblár eins og lind í fjarska. Svo sást sólin, ekki stærri en túkall, en víkkaði síð- an hring sinn unz allt varð skín- andi bjart. Svo kom landið, stúrið á svip- inn eins og krakki, sem staðið hefur verið að því að fela sig mitt í önn dagsins. Við rérum eins og óðir væru suður alla ála, en þar náðum við lóðinni, sem var á hröðu reki undan fallinu, drógum hana steindauða Karlinn var þögull og fár, þjösnaði henni inn vonzkulegur á svipinn. Síðan böðlaðist hann aftur í skut, þreif áttavitann og þveitti honum langt út á sjó. „Farðu til fjandans." Svo sneri hann sér að mér ofurlítið hægari. „Svona eru svikin á öllu nú til dags.“ Svo bömbuðum við norður á Glöggvuna aftur, drógum lóð- irnar og fengum á þær í skut- inn. Framh. á bls. 61.

x

Heima er bezt

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.