Morgunblaðið - 18.01.2010, Blaðsíða 17

Morgunblaðið - 18.01.2010, Blaðsíða 17
Minningar 17 MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 18. JANÚAR 2010 ✝ Halldór Bjarna-son fæddist á Ak- ureyri 27. október 1959. Hann varð bráðkvaddur á heim- ili sínu þann 9. jan- úar 2010. Foreldrar hans voru Magnea Katrín Bjarnadóttir, f. 5. október 1929, d. 31. mars 2007, og Bjarni Benediktsson, f. 13. ágúst 1901, d. 18. apríl 1985. Halldór fór mánaðagamall í fóstur til móðursystur sinnar, Hildar Aðalheiðar Bjarnadóttur, f. 30. apríl 1922, og manns henn- ar, Brynjólfs Sigmundssonar, f. 11.3. 1902, d. 11.3. 1984. Hann ólst upp hjá þeim, og bjó í Hvamms- gerði í Vopnafirði til 10 ára ald- urs og svo í Reykjavík. Systkini Halldórs eru: 1) Benedikt Bjarna- son, f. 1957. Kona hans er Hjördís og Elín eignuðust fjögur börn. Þau eru: 1) Hildur, f. 13. apríl 1989, 2) Hannes, f. 3. janúar 1992, 3) Bjarni, f. 26. október 1994, og 4) Kristjana, f. 19. september 1999. Halldór varð stúdent frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 1981, lauk BA-prófi í sagn- fræði frá Háskóla Íslands 1987 og cand.mag.-prófi í sömu grein árið 1994. Hann lagði síðan stund á doktorsnám í Department of Economic and Social History við University of Glasgow og lauk doktorsprófi í hagsögu árið 2001. Halldór fékkst við sagnfræðirann- sóknir frá árinu 1987. Hann var stundakennari í sagnfræði við Há- skóla Íslands með hléum frá 1990 auk þess sem hann kenndi í Fjöl- brautaskólanum við Ármúla 2000- 2001. Halldór tók við starfi sem aðjúnkt í sagnfræði við Háskóla Íslands 1. júlí 2007 og gegndi því starfi fram á þennan dag. Halldór verður jarðsunginn frá Grafarvogskirkju í dag og hefst athöfnin kl. 13. Sigurðardóttir. Börn með Mekkínu Kjart- ansdóttur: Snorri (látinn), Bjarni og Kjartan. 2) Guðrún Stefanía Bjarnadótt- ir, f. 1958. Fóst- ursystur Halldórs eru: 1) Kristín Brynjólfsdóttir, f. 1942. Maður hennar er Arthúr Pét- ursson. Börn þeirra: Ásdís, Svanur, Bryn- hildur og Margrét. 2) Guðrún Brynjólfs- dóttir, f. 1948. Maður hennar er Andrés Magnússon. Dætur þeirra: Hildur Brynja og Linda Mjöll. Eiginkona Halldórs er Elín Hannesdóttir tónlistarkennari. Þau giftust 17. júní 1989. Elín er fædd 16. apríl 1962, dóttir hjónanna Kristjönu Pálsdóttur, f. 8. maí 1934, og Hannesar Flosa- sonar, f. 12. mars 1931. Halldór Elsku Halldór minn. Mér tregt er um orð til að þakka þér, hvað þú hefur alla tíð verið mér. Í munann fram myndir streyma. Hver einasta minning er björt og blíð, og bros þitt mun fylgja mér alla tíð, unz hittumst við aftur heima. (Hugrún.) Þú varst besti vinur minn, mín stóra ást, yndislegur eiginmaður og faðir. Hafðu þökk fyrir allt og allt. Þín, Elín. Elsku besti pabbi minn, Ég veit þú hefðir sagt mér að herða huga minn. Ég hugga mig sem best, til að gera vilja þinn. Ég geymi hvert þitt bros í minning minni. Ég man og skal ei gleyma samvist þinni. (Hannes Hafstein.) Hjartans þakkir fyrir allt. Ég er svo heppin að hafa átt þig, elsku pabbi. Þar til við sjáumst aftur, Þín, Hildur. Til pabba. Ó, elsku pabbi, ég enn þá er aðeins barn, sem vill fylgja þér. Þú heldur í höndina mína. Til starfanna gekkstu með glaðri lund, þú gleymdir ei skyldunum eina stund, að annast um ástvini þína. Þú farinn ert þangað á undan inn. Á eftir komum við, pabbi minn. Það huggar á harmastundum. Þótt hjörtun titri af trega og þrá, við trúum, að þig við hittum þá í alsælu á grónum grundum. (Hugrún.) Þín, Bjarni og Kristjana. Pabbi er dáinn. Þessi orð eru svo óraunveruleg að ég trúi þeim varla enn. Ég á hálft í hvoru von á að pabbi komi askvaðandi inn á hverri stundu og brosi til okkar eins og ekkert hafi í skorist. Eins og þetta hafi allt saman verið vondur draumur. Þessi átján ár sem ég hef lifað hef- ur pabbi alltaf verið besti vinur minn og samskipti okkar í gegnum tíðina nánast hnökralaus. Ef það væri ekki fyrir hann þá væri ég ekki sá sem ég er í dag. Pabbi var ávallt mikill bjartsýnis- maður, hann lét ekkert koma sér úr jafnvægi og hafði góða og róandi nærveru. Þeir sem þekktu hann vel vissu einnig að hann var duglegur, ósérhlífinn og lét sér ekki standa á sama um náungann. Oft áttum við tveir í heimspekilegum samræðum og brýndi hann oft fyrir mér að mað- ur ætti að gera hlutina almennilega eða sleppa þeim. Í uppeldi mínu var pabbi stór þátt- ur. Hvort sem það snerist um að elda hafragraut í morgunmat eða fara í fótboltaferð til Akureyrar þá var hann til staðar. Fótboltaáhuganum deildum við tveir og fórum alltaf öðru hvoru að sparka bolta. Pabbi hafði mikla og góða kímni- gáfu og var nánast ógerningur að vera í fýlu í kringum hann. Hvað sem á bjátaði þá náði hann alltaf að koma manni í gott skap með glettni sinni og kankvísi. Alveg frá því að hann las Ástrík og Steinrík fyrir mig og bróð- ur minn þegar við vorum yngri til þess að við skeggræddum um Vol- taire seinasta sumar þá höfum við skemmt okkur saman. Á ferðalögum fjölskyldunnar get ég ennþá séð pabba minn frammí, grúskandi í kortum og bendandi okk- ur á nöfn fjallanna sem við keyrum fram hjá. Svo þegar við gistum í bú- stöðum þá tókum við oft í spil og spil- uðum langtímum fram á rauða nótt. Þetta voru góðar stundir. Elsku besti pabbi minn, nú ertu horfinn úr þessum heimi og ég þarf að sætta mig við það. Ég get ekki annað en þakkað þér fyrir allar góðu og skemmtilegu stundirnar. Ég veit að þú hugsar til okkar og fylgist með okkur. Við tveir höfum brallað margt saman í gegnum tíðina og það er mín bjargföst trú að við hittumst aftur einhvern tímann. Takk fyrir allt, pabbi minn. Þinn, Hannes. Ég vil í örfáum orðum minnast bróður míns Halldórs. Ég man eftir honum pínulitlum á Bjarnastöðum og svo aftur heima í Hvammsgerði standandi við þríhjólið sitt litla. Nokkrum árum seinna heima á Bjarnastöðum þegar hann var í sveit hjá okkur, var það hann sem samein- aði okkur systkinin og gerði lífið svo miklu skemmtilegra. Okkur kom vel saman og eru þetta með mínum björtustu minningum frá þessum ár- um. Alltaf mun ég minnast fallegu brosanna hans sem komu svo oft og gátu dimmu í dagsljós breytt, þegar dimmt var í sálinni hjá mér. Elsku Elín mín, Hildur, Hannes, Bjarni og Kristjana, ég votta ykkur mína dýpstu samúð. Guð styrki ykkur í þessari miklu sorg. Guðrún Bjarnadóttir. Elsku bróðir og mágur. Það er svo ótrúlega ósanngjarnt og sárt að þú skulir vera hrifinn frá okkur svona ungur. Þetta er óbæt- anlegt skarð sem þú skilur eftir hjá okkur öllum, sérstaklega hjá Elínu og börnunum. Þú sem lagðir mikið á þig fyrir velferð og gleði þeirra. Mér hefur svo oft orðið hugsað til þess tíma er mamma kom með þig mánaðargamlan í fóstur til okkar, við vorum öll svo glöð. Þú varst svo ein- staklega eftirminnilegt og skemmti- legt barn með þitt ljósa mikla hár. Það kom fljótt fram hvert hugur þinn stefndi þótt þú sinntir skepnunum af alúð og öðrum sveitastörfum sem þurfti. Sumar eitt var Siggi Manni í sveit hjá okkur og las fyrir þig myndasögurnar í Tímanum. Það sumar ákvaðst þú snögglega að læra að lesa og varst orðinn fluglæs þegar að hann fór um haustið. Eftir það last þú alltaf mikið og fórst fljótt að leita þér að fræðandi lesefni. Það var stórt skref hjá okkur, haustið sem þú varðst tíu ára, þegar að við fluttum frá Hvammsgerði í Vopnafirði á Seltjarnarnesið. Ég man aldrei eftir neinum vandamálum hjá þér í sambandi við þá miklu breytingu, þú varst svo duglegur að aðlaga þig að nýjum aðstæðum. Eftir að við fluttum í bæinn fórst þú hvert sumar í sveitina til foreldra þinna Magneu og Bjarna og systkina á Bjarnastöðum, sem þú náðir strax svo góðu og nánu sambandi við. Þið Andrés náðuð strax mjög vel saman. Þú fórst með okkur til Kanaríeyja ein jól þegar þú varst sextán ára, sem var mikið ævintýri fyrir okkur öll. Síðan þegar við giftum okkur á Þingvöllum, án viðhafnar, þá varst þú sá eini sem fórst með okkur. Þeg- ar Hildur Brynja okkar var ungbarn sýndir þú barnauppeldi mikinn áhuga. Skyndilega varstu kominn með bækur um barnauppeldi, enda varstu orðinn mikill bókamaður, þá einungis sautján ára. Það er mér svo minnisstætt þegar það kom viðtal og mynd af þér í blaðinu og fyrirsögnin var: „Sautján ára og safnar bókum.“ Ég hef orðið þeirrar gæfu aðnjót- andi að hafa listavel gert handverk eftir þig, sem er holtagrjótshleðslan kringum garðinn hjá okkur. Hún er svo vel unnin að það hefur ekki hagg- ast steinn í henni og allir hafa dáðst að henni. Enda varstu eftirsóttur í garðhleðslu, sem var sumarstarf þitt með námi. Á þessum árum bjugguð þið mamma saman og hélduð þið áfram þetta ánægjulega heimili eftir að pabbi dó. Mamma sagði oft: „Hann gerir svo litlar kröfur, hann Halldór minn“, og þótti henni af- skaplega gott að búa með þér. Þið voruð tvö í heimili þangað til að þú fannst hamingjuna með henni Elínu þinni. Elsku Elín, Hildur, Hannes, Bjarni, Kristjana og mamma, harm- ur ykkar er mikill. Megi Guð styrkja ykkur áfram en huggun er hversu góður eiginmaður, faðir og sonur hann var. Hvíl þú í friði, elsku bróðir og mág- ur, Guðrún og Andrés. Þitt starf var farsælt, hönd þín hlý og hógvær göfgi svipnum í. Þitt orð var heilt, þitt hjarta milt og hugardjúpið bjart og stillt. (Höf. ók.) Það er eins og skáldið ókunna hafi verið að yrkja um mág minn Halldór Bjarnason í þessum látlausu ljóðlín- um. Halldór var einstaklega farsæll maður, bæði í einkalífi sem og starfi. Framganga hans var alltaf hógvær og einstaklega vingjarnleg og með Halldóri kom ætíð einhver óútskýr- anlegur friður hvar sem hann kom. Æðruleysi það sem menn vinna oft að því að öðlast langa ævi var Hall- dóri eðlislægt, hann virtist hafa allan tíma í heimi og gaf óskipta athygli hverjum þeim sem leitaði til hans, hvort sem það voru börn eða full- orðnir. Börnin mín og ég nutum þess að vera samferða Halldóri, þau frá fæð- ingu og ég frá því að systir mín og hann kynntust fyrir u.þ.b. 22 árum. Börnin okkar ólust upp saman og saman deildum við fjölskyldurnar gleði og sorg. Mikill styrkur var að því fyrir mig og börnin mín að búa í nábýli við fjölskylduna þar sem við áttum okkar annað heimili. Skyndi- legt fráfall Halldórs er algert reið- arslag, sem skekkir ekki einungis hina fallegu fjölskyldumynd systur minnar, heldur einnig eina af und- irstöðum stórfjölskyldunnar. Það er með trega og söknuði og sorg í hjarta sem við kveðjum Hall- dór Bjarnason, sem svo sannarlega hefði átt að vera með okkur öllum svo miklu, miklu lengur. Elsku Elín, Hildur, Hannes, Bjarni og Kristjana. Við biðjum algóðan Guð að gefa ykk- ur styrk í sorg ykkar og leiða ykkur á lífsins braut. Elsku Halldór, við þökkum fyrir með hlýju. Þitt ævistarf var far- sælt … en hefði mátt vera svo miklu lengra. Kær kveðja, Ingibjörg, Haukur Hannes og Helena. Halldór mágur minn var vandaður maður. Það er ekki oft sem hægt er að nota orðið vandaður yfir alla þætti í fari einstaklings, hvort sem þeir þættir lúta að einkalífi hans eða starfi. Hér á þetta þó við að öllu leyti. Sem fræðimaður var Halldór boð- beri nýrra hugmynda og glöggur greinandi. Vandvirkni hans í fram- setningu og áhugi á viðfangsefnum var annálaður og bar mikilli þekk- ingu hans og næmni glöggt vitni. Allt frá því að systir mín og Hall- dór kynntust var ljóst að hér var kominn ábyrgur og hlýr maður inn í fjölskylduna. Farsælt fjölskyldulíf þeirra og efnileg börn voru honum gleðiefni og var hann ætíð fjölskyldu- maðurinn sem sagði frá afrekum barna sinna með stolti og umhyggju. Við hið ótímabæra og skyndilega fráfall hans er stórt skarð höggvið. Eftir stendur minning um góðan mann sem gerði líf okkar sem hann þekktum ríkara. Haukur F. Hannesson. Við eigum erfitt með að skilja hvers vegna Halldór frændi minn var tekinn svona snemma frá okkur, að- eins fimmtugur að aldri, í blóma lífs- ins. Þegar ég var krakki í sveitinni minni á Vopnafirði var fátt eins skemmtilegt eins og að fara til Reykjavíkur í heimsókn til afa og ömmu. Labba í mjólkurbúðina með afa, fara að skúra úti í Háskóla með ömmu og allt þetta sem var svo nýtt fyrir mér. Svo ég tali nú ekki um þeg- ar ég læddist inn í stóra herbergið hans Halldórs frænda og virti fyrir mér allar bækurnar hans. Ég hafði aldrei séð svona mikið af bókum, ekki einu sinni í bókabúðinni á Vopnafirði. Hann safnaði nefnilega bókum og tímaritum og var alltaf að skrifa og grúska, og að sjálfsögðu fór hann í sagnfræði í Háskóla Íslands. Ég var alltaf svo stolt af honum og leit mikið upp til hans. Það kom í minn hlut að taka á móti Halldóri þegar hann kom í fyrsta skipti, með Elínu sína, í heimsókn í Syðri-Vík. Það var seint um kvöld, og sauðburður í fullum gangi og ég var á vakt úti í húsum þegar Ladan rann í hlað. Ég gleymi seint þessari heim- sókn, þau voru lengi með mér í hús- unum að spjalla, spá og spekúlera. Það geislaði af þeim gleðin og ham- ingjan sem var svo einkennandi fyrir þeirra hjónaband. Alltaf eins og þau hefðu kynnst í gær. Ekki minnkaði hamingjan eftir að þau áttu börnin sín fjögur sem öll eru einstaklega vel gerð. Við barnauppeldið lagði hann sig allan fram og fórst það vel úr hendi eins og annað sem hann tók sér fyrir hendur. Heimili hans og Elínar í Fannafoldinni var sérstaklega hlý- legt og kærleiksríkt, ávallt tekið á móti manni með bros á vör, í orðsins fyllstu merkingu því brosið hans Halldórs var einstakt, það náði svo sannarlega yfir allt andlitið. Guð geymi minningu þessa ein- staka frænda míns, í hjörtum okkar allra um ókomin ár. Elsku Elín, Hildur, Hannes, Bjarni og Kristjana. Guð gefi ykkur styrk til að takast á við þessa miklu sorg. Brynhildur Arthúrsdóttir. Þegar við systurnar vorum litlar kíktum við oft til ömmu, afa og Hall- dórs í Eskihlíðina. Á þessum tíma var hugur Halldórs við nám og dvaldist hann tímunum saman við lestur í herberginu sínu. Amma Hild- ur leyfði okkur stundum að fara inn til Halldórs og þá fengum við að prófa ritvélina hans, hlusta á plötu eða fá bók að láni. Halldór byrjaði ungur að safna bókum og minnti her- bergið hans á alvöru bókasafn. Halldór fann hamingjuna með El- ínu sinni og voru þau mjög samrýmd og slógu hjörtu þeirra sannarlega í takt í lífinu. Þau sinntu barnauppeld- inu með aðdáunarverðum hætti og munu börnin þeirra ávallt njóta þess. Það var alltaf gaman að hitta Hall- dór og tók hann ævinlega vel á móti okkur með bros á vör. Hann sýndi áhuga á því sem var að gerast í lífi okkar og hann samgladdist af heilum hug. Það er einstaklega erfitt og sárt að þurfa að kveðja Halldór langt fyr- ir aldur fram. En Halldór var ein- staklega ljúfur og góður maður sem var okkur einstaklega kær og þannig munum við minnast hans. Elsku Elín, Hildur, Hannes, Bjarni og Kristjana, ykkar missir er mikill. Megi Guð vera með ykkur. Hildur Brynja og Linda Mjöll. Kveðja frá Háskóla Íslands Í stofnunum eins og Háskóla Ís- lands er hugtakið „mannauður“ gjarnan haft á orði í ræðu og riti. Við fráfall einstaklinga eins og Halldórs Bjarnasonar öðlast þetta hugtak sér- staka skerpu og skýra merkingu. Háskólinn varð auðugri fyrir verk hans og stúdentar í sagnfræði áttu í honum fræðara og vin. Í einni svipan missir skólinn öflugan kennara í blóma lífsins og jafnframt einstak- ling sem auðgaði starfsumhverfi sitt á marga lund. Halldór stundaði nám til BA-prófs og meistaraprófs í sagnfræði við Há- skóla Íslands. Hann tók snemma að sér stundakennslu við skólann og eft- ir að hann lauk doktorsprófi í hag- sögu frá Glasgow-háskóla 2001 var Háskóli Íslands hans helsti vinnu- staður og hann fékk þar fullt starf við kennslu og rannsóknir árið 2007. Hann varð strax einn af lykilmönn- um í sagnfræðikennslu og sá um stór skyldunámskeið, ýmist einn eða með öðrum, auk þess sem hann kenndi valnámskeið á sérsviðum sínum. Kennslusvið Halldórs var breitt því að hann kenndi Íslandssögu, heims- sögu og aðferðafræði. Hann var vin- sæll kennari, áhugasamur um kennslufræði og lagði sig eftir nýj- ungum í kennsluháttum. Rannsókna- svið hans var einkum á sviði hagsögu og félagssögu. Halldór var í senn dugnaðarforkur og mikill nákvæmn- ismaður í öllum vinnubrögðum. En jafnframt fylgdi honum sérlega já- kvæður starfsandi; þetta var maður sem gekk glaður til sinna verka. Halldórs er því sárt saknað af sam- kennurum og öðru samstarfsfólki. Nú er óvænt skarð höggvið í raðir hugvísindamanna við Háskóla Ís- lands, en vitaskuld er mestur missir og harmur Elínar, eiginkonu Hall- dórs, og fjögurra barna þeirra. Við sendum þeim hugheilar samúðar- kveðjur á þessari sorgarstund. Starfsfólk og stúdentar við Háskóla Íslands minnast Halldórs með þakk- læti og virðingu. Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands. Ástráður Eysteinsson, forseti Hugvísindasviðs Há- skóla Íslands. Halldór Bjarnason  Fleiri minningargreinar um Hall- dór Bjarnason bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.