Monitor - 29.04.2010, Blaðsíða 8

Monitor - 29.04.2010, Blaðsíða 8
8 Monitor FIMMTUDAGUR 29. APRÍL 2010 Þátturinn byrjar um helgina. Þú ert búinn að vera að taka upp í meira en hálft ár. Er fólk að fara að hlæja að þessu? Já. Þetta er trylltur þáttur þannig að ég hef engar áhyggjur af því að fólk muni ekki hlæja. En þetta mun skiptast í tvo hópa. Það er fólk sem mun fíla þetta mjög mikið og svo verður fólk sem veit ekki hvar það hefur þetta og mun ekki alveg skilja húmorinn. Það er alltaf svoleiðis þegar nýtt fólk kemur inn. Það hefur ekki verið almennilegur sketsaþáttur síðan Fóstbræður voru og hétu. Við ætlum svolítið að reyna að færa þetta á næsta level. Það má segja að Fóstbræður hafi lagt ákveðna línu sem aðrir hafa fylgt síðan. Ert þú að fara að koma með eitthvað nýtt? Fóstbræður eru auðvitað klassískt efni, en við ætlum að reyna að taka svipað skref sem þeir tóku á sínum tíma. Það vantar eitthvað nýtt í dag. Við búumst alveg við því að heyra reiðar raddir. En að mínu mati er þetta ekkert gróft. Þetta er ekki klámfengið eða fyrir neðan beltisstað, enda finnst mér klámfenginn húmor bara lélegur. Þú hefur verið að gera grínsketsa frekar lengi, ekki satt? Þetta byrjaði árið 1999 þegar ég gerði bíómynd í fullri lengd sem hét Gorturinn. Þetta var mynd um apa og konu sem hét Unnur og var sjómaður. Það var skelfileg mynd. Okkur fannst þetta geðveikt þá, en þetta var mjög vont. Svo fórstu að gera sketsa. Já, ég á örugglega einhverja 10 klukkutíma af sketsum og stuttmyndum. Við vorum alltaf að gera stuttmyndir og sketsa. Við tókum upp hverja einustu helgi. Vinahópurinn var með bloggsíðu og þar settum við inn myndbönd. Svo var eitthvað ókunnugt lið farið að skoða þetta þannig að við héldum bara áfram. Þannig byrjaði þetta eiginlega. Má segja að þetta hafi orðið að alvöru þegar þú fórst að gera sketsa fyrir Monitor í fyrra? Já, Monitor hafði samband við mig og bað mig um að gera sketsa vikulega. Við gerðum það og það var bara mjög skemmtilegt. Í kjölfarið var svo gerður sjónvarpsþáttur þar sem ég var með sketsa. En það var alltaf ætlunin hjá mér og Bent, sem tók upp og klippti Monitor-þáttinn, að gera sketsaþætti. Ég hugsaði um Monitor-þáttinn sem stað til þess að sanna mig því ég vildi alltaf gera minn eigin þátt. Þér var boðið fyrst að fara inn í þáttinn hjá Audda og Sveppa. Af hverju ákvaðstu að taka því ekki? Það var samt allt á byrjunarstigi. Ég og Bent fórum á fund með þeim og það var bara verið að skoða möguleikana á því að við myndum detta inn í þeirra þátt, annað hvort með sketsa eða með einhverju öðru móti. Mér finnst þeir skemmtilegir og þeir eru fínir kunningjar mínir. En við vildum frekar gera eigin þátt og ég sé ekkert eftir því í dag. Við eigum samt vonandi eftir að vinna með þeim á öðrum vígstöðvum í framtíðinni. Þú samdir upphaflega við Skjá einn en fórst svo yfir á Stöð 2. Hvernig kom það til? Við ræddum við Skjá einn eftir Monitor-þáttinn um að gera þætti fyrir þá. Við fórum bara á fund þar sem þetta var ákveðið og byrjuðum svo að skrifa og taka upp. Sá þáttur átti að byrja í janúar. Svo fáum við að heyra, á sama tíma og allir aðrir, að Skjár einn sé að verða áskriftarstöð. Við vorum ekki alveg að fíla það. Við vissum af áhuga hjá Stöð 2 og færðum okkur í rauninni bara yfir. Það var allt á byrjunarstigi á Skjá einum og þetta var ekki komið í neitt ferli, þannig að það var enginn skaði skeður. Það er hellingur af frægu fólki að leika í sketsunum. Hvað erum við að tala um? Jóhanna Guðrún verður í hverjum þætti, hún leikur sjálfa sig. Ég leik náunga sem heitir Níels og er að ofsækja hana í svona framhaldssögu. Erpur Eyvindarson leikur Pólverja með mér í næstum öllum þáttunum. Svo eru Auddi og Sveppi, Gillz, Ólafur Darri, Haffi Haff, Helgi Seljan og Sindri úr Íslandi í dag leikur sjálfan sig. Það er fullt af liði með okkur í þáttunum. En við erum ekkert að troða inn frægu fólki samt. Við notum það í rauninni bara þegar það hentar. Við tölum við þann sem við höldum að henti best, hvort sem hann er þekktur eða ekki. Með hverjum var skemmtilegast að vinna? Ætli maður verði ekki að segja Þorsteinn Guðmundsson. Hann hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi og það var gaman að djóka með honum. En það var gaman að vinna með öllu þessu fólki. Er eitthvað hægt að skilgreina þitt grín? Það er mjög dramatískt. Serían er öll mjög dramatísk og jafnvel sorgleg líka. Mér finnst grín verða að vera dramatískt. Það geta ekki bara verið tveir hálfvitar að djóka á móti hvor öðrum. Hvaðan kemur nafnið Steindi Jr.? Upprunalega kemur þetta frá afa mínum. Ég er skírður í höfuðið á honum og hann kallaði mig þetta alltaf. Svo kom að því, þegar maður var að gera stuttmyndirnar í gamla daga, að maður vildi hafa eitthvað listamannsnafn. Þá datt mér þetta í hug. En maður ræður því yfirleitt ekki hvaða nöfnum maður er kallaður. Þetta er yfirleitt eitthvað sem festist á manni bara. Hefðir þú ekki meikað það sem háðfuglinn Steinþór Hróar? Jú jú. Einn daginn mun ég gera það. Hvaðan kemur Hróar? Já, Hróar er mjög sérstakt nafn. Foreldrar mínir settu fimm miða í glas og drógu. Þetta voru Arnar, Arnór, Örvar og eitthvað eitt í viðbót. Svo var bara dregið. Klikkað lið maður. Hvað með kvenhylli? Ég er náttúrulega í sambandi þannig að ég er bara mjög rólegur. Ég er búinn að vera með stelpu í tvö ár. Hún heitir Sigrún Sigurðardóttir og er að læra snyrtifræði. Hvað værir þú að gera ef sketsarnir hefðu floppað og þú værir ekki að gera þáttinn? Ég hef bara ekki hugmynd um það. Ég fór að læra fjölmiðlafræði, fyrst í Borgó og svo í FÁ, og fannst það alveg ógeðslega leiðinlegt. Ég hef eiginlega ekki áhuga á neinu öðru en því sem ég er að gera núna. Ég er akkúrat að gera það sem ég hef mestan áhuga á. Hvar heldur þú að þú værir að vinna? Ég veit það ekki. Ég tolli mjög illa í vinnu. Ég hef hætt í vinnu áður en ég mætti. Ég hætti líka einu sinni í vinnu klukkan 12 á hádegi fyrsta daginn. Það var í Móum í Mosfellsbæ þar sem ég átti að setja kjúklinga á færiband. Ég setti einhverja tvo saman að gamni mínu. Gæinn sem tók á móti þessu starði bara sorgmæddur í augun á mér og hristi hausinn og ég vissi að ég átti ekki heima þarna. Það var enginn að djóka. Ég var líka að mála í þrjú ár og fannst það reyndar mjög fínt. Ég er fínn málari. En svo fékk ég leið á því líka. Ætli ég sé ekki best geymdur þar sem ég fæ að skrifa og taka upp og svona. Hvað með framhaldið? Ætlar þú að halda áfram að gera sketsa eða á að færa út kvíarnar? Vonandi fáum við að gera aðra seríu því þetta er það sem ég elska að gera. Við erum búnir að taka upp meira en hundrað sketsa og erum langt frá því að vera orðnir saddir. Mér finnst ennþá mjög gaman að gera sketsa. Við erum raunar hálfnaðir með að skrifa aðra seríu og komumst ekki yfir allt sem við ætluðum að gera í þessari. En svo væri ég líka til í að skrifa leikna þætti og jafnvel leika í leikriti. Ég er til í þetta allt maður. Eftir Björn Braga Arnarsson Myndir: Ernir Eyjólfsson Steinþór Hróar Steinþórsson, betur þekktur sem Steindi Jr., byrjar með nýjan sjónvarpsþátt um helgina sem á að vera það fyndnasta síðan Fóstbræður drápu landann úr hlátri. „Þetta er það sem ég elska að gera,“ segir Steindi. Grín verður dramatískt Hróar er mjög sérstakt nafn. Foreldrar mínir settu fimm miða í glas og drógu. Á 60 SEKÚNDUM Steinþór Hróar Steinþórsson 09.12.84 Besti sjónvarps- þáttur? Curb Your Enthusiasm. Ég elska hann. Besta bíómynd? Out For Justice með Steven Siegal. Besti tölvuleikur? Mortal Kombat. Ég er rosalegur Mortal Kombat-maður. Ég spilaði þetta alltaf í Super Nintendo og þá var ekki hægt að fara á Netið og finna brögðin. Maður þurfti að finna allt sjálfur. Besti tónlistarmaður? Bjartmar Guðlaugsson. Ég elska tónlistina og textana hans og bara hann yfir höfuð. Ég hef hitt hann nokkrum sinnum og þekki hann. Ég hef meira að segja tekið upp mína eigin útgáfu af Týndu kynslóðinni með honum. Besti skyndibiti? KFC. Horfið bara á mig! að vera

x

Monitor

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Monitor
https://timarit.is/publication/791

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.