Monitor - 03.02.2011, Blaðsíða 8

Monitor - 03.02.2011, Blaðsíða 8
8 Monitor FIMMTUDAGUR 3. FEBRÚAR 2011 Hvernig er ekki hægt að heillast af Yesmine Olsson? Hún er forkunnarfögur, hress, talar prýðilega íslensku og hefur frá mörgu að segja. Flestir Íslendingar þekkja hana núorðið, enda hefur hún komið víða við. Í þó nokkurn tíma hefur hún einbeitt sér að því að gera Íslendinga indverskari, með góðum mat og framandi dansi. Yesmine var heldur betur til í að setjast niður með Monitor og svara nokkrum spurningum. Byrjum á byrjuninni. Þú ert fædd á Sri Lanka ekki satt? „Jú, ég fæddist þar og var ættleidd til Svíþjóðar átta mánaða gömul.“ Hvenær komstu fyrst til Íslands? „Ég kom í fyrsta skipti hingað árið 1992, 18-19 ára gömul og fór þá til Akureyrar til að kenna Akureyring- um að dansa.“ Hvernig gekk það? „Það gekk mjög vel. Það var að vísu svolítið spes. Á þessum tíma vorum það bara við Duranona (Robert Julián Duranona, fyrrverandi handboltakempa frá Kúbu sem spilaði með KA á Akureyri) sem vorum brún (hlær) á Akureyri. Þetta var mikið sjokk fyrir mig. Þetta var í fyrsta skipti sem ég upplifði það að fólk horfði á mig fyrir að vera öðruvísi. Það var mjög skrýtið. En ég fíla Akureyri mjög vel.“ En hvað varð til þess að þú ákvaðst að koma til Íslands af öllum stöðum? „Það var eiginlega fyrir tilstilli Jónínu Ben. Ég hitti hana úti í Svíþjóð þar sem hún var með fitness- prógramm. Hún var mjög klár og dugleg og sá mig og hugsaði: „Hey, þetta gæti virkað á Akureyri“ og sendi mig þangað.“ Ertu ennþá vinkona Jónínu Ben? „Við erum vinir. Við vinnum ekki saman lengur en ég kann vel við hana.“ Hvað varð til þess að þú ákvaðst að flytja hingað til lands? „Árið 2000 var ég búin að ákveða það að búa ekki á Íslandi og að Ísland væri ekki staðurinn fyrir mig. Ég ætlaði að búa í New York og var farin þangað í nám, en fór til Íslands að heimsækja vini mína. Vinir mínir töluðu mig til og sannfærðu mig um að hér ætti ég að búa. Ég er mjög ánægð með það í dag.“ Þannig að þú varst hneppt í ánauð á Íslandi? „Já, mér var bara haldið hér (hlær).“ Og svo kynntist þú manninum þínum, honum Adda Fannari? „Já þetta var aðeins fyrr, þegar ég var að vinna hér. Ég þekkti strákana í Skítamóral og við urðum mjög góðir vinir, ég og Addi. Ég fór til New York í skólann og Hanni og Addi komu í heimsókn. Þeir voru harðir á því að ég ætti að vera á Íslandi. Og nokkrum árum síðar byrjuðum við Addi saman. Upphaflega var það þó mág- ur minn, hann Einar Bárðarson, sem kynnti mig fyrir Adda. Það var á þeim tíma þegar ég var einkaþjálfari og Einar kom með hann til mín og spurði hvort ég gæti þjálfað bróður sinn. Ég var til í það en Einar lét aldrei sjá sig þarna aftur (hlær).“ Þetta er á þeim tíma þegar Addi var með „dreadlocks“ og í Buffalo-skóm er það ekki? „Jú og það var ekki alveg minn tebolli. Það tók smá tíma að verða skotin í honum (hlær).“ Á hann Buffalo-skóna ennþá? „Já, ég er alveg viss um það. Hann á þetta allt saman einhvers staðar þar sem ég finn þetta ekki.“ Hver yrðu viðbrögð þín ef þú færir heim á eftir og hann væri kominn með dredda aftur? „Mér myndi örugglega finnast það svolítið kúl. En svo myndi ég klippa þá af honum á meðan hann svæfi.“ Nú ertu að byrja með sjónvarpsþátt á RÚV. Segðu okkur aðeins frá þessu. Hvernig þættir eru þetta? „Þættirnir byggja á DVD-disk sem ég bjó til ásamt Helga Jóhannessyni. Þeir á RÚV vildu fá þetta efni og ég held þeir hafi séð það alveg óvart þegar Helgi var að vinna þetta uppi á RÚV þar sem hann starfar. Ég bjóst ekki við þessu en ég er mjög ánægð með þetta. Fyrst gerði ég bók og DVD og ég hugsaði hann fyrst og fremst sem svona hálfgerðan fylgihlut við bókina en ég held að Helgi hafi hugsað þetta sem svo að þetta ætti erindi í sjónvarpið.“ Hvað með áhuga frá útlöndum? „Þetta virðist allavega eiga erindi utan Íslands. Ég er að gera bók fyrir sænskan markað, fyrir fyrirtækið ICA. Þetta eru mörg þúsund búðir, svona keðja eins og Hagkaup nema náttúrulega miklu stærra. Ég er rosa- lega stolt og var búin að vonast eftir þessu lengi. Ég hef aldrei fundið spennandi indverskar matreiðslubækur í bókabúðum í Svíþjóð og þess vegna finnst mér þetta svo spennandi. Hefurðu alltaf haft áhuga á matreiðslu? „Þegar kemur að indverskri matreiðslu þá held ég að ég hafi það í blóðinu. Foreldrar mínir kunnu ekki að elda indverskt og þegar ég var að alast upp í Svíþjóð voru engir indverskir veitingastaðir í kringum okkur. Það voru bara hamborgarar og pítsur. Mig langaði svo að prófa indverskan mat en hann var bara ekki til í Helsingborg. Ég hafði heyrt af stað sem var langt í burtu og þegar ég var 15 ára fórum við systir mín án þess að láta foreldra okkar vita til Kaupmannahafnar með lest. Á Østergade var staðurinn, lítil indversk búlla, og þar upplifði ég indverskan mat í fyrsta sinn. Og þá vissi ég „ok, þetta er eitthvað sem ég á að vera að borða“. Ég hef ekki ennþá sagt foreldrum mínum frá þessu (hlær).“ Hvað finnst þér um hefðbundinn íslenskan mat? „Ég gef börnunum mínum soðna ýsu með kartöflum vegna þess að þeim finnst það gott en mér finnst það ekki spennandi sjálfri. Og til dæmis slátur, dóttir mín elskar það. Ég reyndi að elda slátur og steikti það á pönnu og dóttir mín varð alveg brjáluð. Ég vissi ekkert hvað ég átti að gera við slátrið (hlær). Ég borða hangi- kjöt, harðfisk og rófustöppu og einu sinni smakkaði ég svið.“ Nú ert þú á fullu í Bollywood-dansinum. Hvað er það við hann sem heillar þig? „Það er mjög góð spurning. Ég held þetta sé líka í blóðinu. Það hefur aldrei verið kúl að vera Indverji og þegar ég var unglingur voru engir Indverjar í kringum mig. Ég las blöðin og sá bara „all the black people“, svona til þess að tengja við eitthvað. Varð rosalega hiphop og öll í þeim kúltúr. Svo seinna kom Slumdog Millionaire og Bollywood varð meira áberandi. Ég var reyndar byrjuð aðeins fyrr en þegar hún kom hugsaði ég: „Hey, nú er tíminn til að kýla á þetta og keyra á þessu“. Og ég get hætt að vera eitthvað sem ég er ekki og verið bara ég sjálf.“ Hvernig bregðast Íslendingar við Bollywood-dansin- um? Eru þeir áhugasamir? „Ég myndi segja það. Við vorum með Bollywood-sýn- ingu í Turninum með mat, sýningu og öllu. Upphaflega ætluðum við að hafa fjórar sýningar og sjá hvernig tækist til, en núna erum við búin að halda 14 stórar sýningar. Áhuginn er mikill og konum finnst þetta sérstaklega meiriháttar.“ Á þetta eitthvað skylt við magadans? „Nei, þetta er tvennt ólíkt. Það er örugglega hægt að blanda þessu eitthvað saman en þetta er alls ekki það sama. Fólk ruglar þessu mjög mikið saman.“ Nú hefur þú fengist við tónlist. Hver er staðan á því? „Ég hef alltaf verið í tónlist og ég elska tónlist. Ég hef frá því ég man eftir mér verið að semja lög. Eitt lag fór á safnpötuna Svona er sumarið 2003. Það var lag sem heitir „Everything That I Am“, sem var með svona indversku svíngi. Þegar ég var að vinna með Backstreet Boys sagði umboðsmaðurinn þeirra mér að ég ætti að fara heim og læra að syngja og vera meira í músíkinni. Ég held áfram að semja mín lög. Ég reyndi í smá tíma og fann mig ekki alveg, en nú er ég búin að finna mig. Ég er að vinna í nýjum lögum og það verður spennandi blanda af vestri og austri.“ Tónlist, Bollywood-dans, matreiðsla, einkaþjálfun. Ertu ofvirk? „Mér finnst það ekki en auðvitað lítur það þannig út. Ég er með mikla orku og ég held ég sé að setja hana á rétta staði. En ég kann alveg að slappa af og þá með fjölskyldunni. Þá er ég mjög róleg.“ Hvað er næst á dagskrá? „Ég er að byrja með nýtt Bollywood-dansnámskeið í Laugum í febrúar. Ég er ekki að þjálfa þar lengur en verð með þetta námskeið þar. Ég er að kenna indverska matargerð í Veisluturninum. Tilvalið að mæta bara í bæði. Og svo er það að sjálfsögðu sjónvarpsþátturinn.“ Matreiðsluþættir Yesmine Olsson, Framandi og freistandi, hefjast fimmtudaginn 10. febrúar í Ríkissjónvarpinu. Það er erfitt að finna viðeigandi starfsheiti fyrir Yesmine Olsson. Hún hefur starfað sem einkaþjálfari, danskennari, gefið út matreiðslubækur og DVD-diska, og nú er hún komin með sinn eigin sjónvarpsþátt. „Þúsundþjalasmiður“ á líklega best við, eins klisjukennt og það hljómar. Texti: Haukur Viðar Alfreðsson haukur@monitor.is Myndir: Kristinn Ingvarsson kring@mbl.is HRAÐASPURNINGAR Uppáhaldsmatur? „Svartfugl.“ Uppáhaldstónlistarmaður? „Aishwar- ya Ray.“ Borðarðu einhverntímann sveittan skyndibita? „Það gerist, en ekki oft. Ef ég á svona „junk food“-móment þá fer ég á Búlluna.“ Ertu nammigrís? „Ég elska súkkulaði. Uppáhaldið mitt er chili-súkkulaði.“ Besti indverski veitingastaðurinn á íslandi? „Fyrst og fremst er Austur- Indíafélagið. Þar er svolítið svona „north Indian cooking“ í gangi, en svo færðu suðrið á nýjum stað sem heitir Gandhi, og hann er undir Skólabrú. Þarna færðu að upplifa muninn. Svo er einn krúttlegur staður í viðbót sem heitir Indian Mango. Þar er maður sem gerir allt sjálfur og eldar með hjartanu.“ Uppáhaldsbíómynd? „Indverska myndin Devdas og mögulega Inception.“ Skemmtilegasta íslenska celebið? „Jógvan Hansen. Þó hann sé frá Færeyjum.“ Hvað yrðirðu lengi að koma Einari Bárðarsyni, mági þínum, í form? „Ég hugsa að ég gæti það ekki. Hann hlustar aldrei á mig (hlær).“ Tekurðu lýsi? „Mér finnst það vont en ég tek lýsistöflur.“ Eru Íslendingar skemmtilegri en Svíar? „Ég flutti nú hingað. Það segir svolítið. Ég fíla Svíþjóð, en ég fíla Ísland meira.“ Ég fíla Svíþjóð, en ég fíla Ísland meira. Aldrei verið kúl að vera Indverji

x

Monitor

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Monitor
https://timarit.is/publication/791

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.