Eining - 01.07.1955, Side 10

Eining - 01.07.1955, Side 10
10 EINING Stórstúknþingið 1955 Hið árlega þing Stórstúku Islands stóð dagana 11.—14. Júní. A undan þingsetningu fór fram messa í dómkirkjunni. Séra Óskar J. Þorláksson þjónaði fyrir altari, en ræðuna flutti séra Leó Júlíusson, prestur að Borg á Mýrum, mjög at- hyglisverða og hugþekka ræðu. Þingið setti stórtemplar, Björn Magnússon, prófessor, strax að aflokinni messu. Til þings komu 70 fulltrúar frá 3 um- dæmisstúkum, 4 þingstúkum, 24 undirstúkum og 12 barna- stúkum. — Embættismenn stórstúkunnar lögðu fram skýrsl- ur sínar, og er þeim, sem kynna vilja sér nánar hið fjöl- breytta starf Góðtemplarareglunnar, bent hér með á þingtíð- indin. Þar er gerð allrækileg grein fyrir reglustarfinu í landinu. Að útbreiðslu bindindis og reglumála störfuðu á vegum stórstúkunnar aðallega þeir Guðmundur G. Hagalín, Gissur Pálsson og Páll Jónsson, en auk þess sáu um slíkt verk að allmiklu leyti umdæmisstúkur Vesturlands og Norðurlands, hver í sínu umdæmi. Komu þar til ýmsir menn, svo sem Pétur Björnsson, kaupmaður í Siglufirði, Bjarni Halldórsson, Akureyri, Halldór Kristjánsson frá Kirkjubóli, Arngrímur Bjarnason og fleiri. I Reykjavík sá þingstúkan aðallega, i samstarfi við stúkurnar þar, um útbreiðslustarfið og hefur blaðið skýrt frá ýmsu þessu áður á stórstúkuárinu. Skýrsla Gissurar Pálssonar um ferðalög hans í þágu ungl- ingareglunnar er mjög athyglisverð. í sumarfríi sínu ferðaðist hann um Austurland og bjó undir frekara starf þar, og af mestu árvekni hefur hann verið í sambandi við menn um allt land og ferðast allvíða sem gæzlumaður unglingareglunnar í landinu til þess að efla hana sem bezt. Hann tók við þessu starfi úr höndum frú Þóru Jónsdóttur, Siglufirði, sem um ára- bil hafði rækt það af mestu prýði, en vissulega hefur Gissur Pálsson gengið vel að verki og með góðum árangri. Allt er það starf ólaunað að mestu eða öllu leyti. Um útbreiðslustarfið er skýrsla Hagalíns auðvitað mest. Hann var um visst tímabil launaðar erindreki stórstúkunnar. Skýrsla hans er á þessa leið: Ég sendi þér hér með fáorða skýrslu um störf mín á vegum Stórstúku íslands á starfsárinu 1954—55: Hinn 18. nóvember fór ég vestur í Ólafsvík. Eg var þar síðan fram yfir þann 23. og vann að undirbúningi þess, að nýjú lífi væri blásið í stúkuna Jökulblómið. Naut ég aðstoðar ýmsra ágætra manna, eldri og yngri, og hinn 23. var stúkan Jökulblómið endur- vakin með 42 félögum. Eg hafði útbreiðslufund í Ólafsvík, en hann var laklega sóttur, enda var veður afar vont, stormur og hellirigning. Ég var á fjölmennum fundi í barnastúkunni, og einn daginn fór ég út að Hellissandi, dvaldi þar nokkra klukkutíma og var á fundi í barnastúkunni. Bæði sú stúka og barnastúkan í Ólafsvík njóta almennra vinsælda, enda er starf þeirra með mikl- um myndarbrag. Þann 25. nóvember fór ég til Akureyrar. Þar talaði ég um bind- indismál yfir fjölda manns í samkomusalnum í Varðborg. Ég flutti einnig erindi í menntaskólanum og gagnfræðaskólanum. Síðan fór ég til Húsavíkur. Þar hitti ég margt áhugamanna um bindindis- mál. Eg hélt útbreiðslufund, og sótti hann fjölmenni. Þá talaði ég á fundi í barnastúkunni, sem starfar af miklu fjöri og þykir almennt vinna gott starf og gagnlegt. Ég flutti og erindi í gagn- fræðaskólanum og Rotaryklúbbnum. Milli þessara starfa vann ég að því með tilstyrk margra ágætra manna að athuga, hvort til- tækilegt væri að endurvekja stúkuna Þingey, og upp úr miðjum degi þann 1. desember var hún endurvakin með 73 félögum. Hinn 2. desember fór ég suður, og þann 5. s. m. lagði ég af stað til Fáskrúðsfjarðar á strandferðaskipinu Heklu. Á Fáskrúðsfirði dvaldi ég þangað til að kvöldi hins 12. desember, en þá fór ég á Esju áleiðis til Reykjavíkur. Á Búðum í Fáskrúðsfirði hafði eng- in stúka starfað um nokkurt árabil, en þar reyndist margt manna á ýmsum aldri, sem áhuga hefur fyrir slíkri starfsemi. Ég flutti erindi við mikla aðsókn, talaði í unglingaskólanum og hitti fjöl- marga að máli. Sunnudaginn 12. desember endurvakti ég stúk- una Afureldingu og barnastúkuna Perlu, þá fyrrnefndu með 52 félögum og hina með 102. Upp úr miðjum janúar fór ég vestur á ísafjörð. Þar átti ég tal við marga af forvígismönnum bindindismanna, ræddi við þá um starfsemi hinna fjögurra undirstúkna, bæði á fundi og í einkavið- tölum, og mætti á fundi í barnastúkunni, sem vinnur mjög fjöl- breytt og gagnlegt starf. Allar undirstúkurnar nema Dagsbrún eru frekar fámennar, en allar eiga þær álitlegan hóp traustra liðs- manna. Var rætt um, hvort tiltækilegt væri og heppilegt að sam- eina liðið í færri og stærri heildir, en engar ákvarðanir voru tekn- ar. Ég talaði í gagnfræðaskólanum og hugðist halda útbreiðslu- fund, en af ástæðum, sem hér verða ekki greindar, varð ég að bregða við og fara til Reykjavíkur, áður en ég hefði boðað slíkan fund. Um 10. febrúar tók ég að hugsa til ferðar austur í Hornafjörð, en komst þangað ekki fyrr en þann 14. í Höfn dvaldi ég í átta daga. Ég hitti marga málsmetandi menn og ræddi stofnun undir- stúku, hélt útbreiðslufund bæði í Höfn og inni í Nesjum og talaði í barnastúkunni og unglingaskólanum. Ég stofnaði síðan undir- stúku sunnudaginn 20. febrúar, og voru stofnendur 28. Daginn eftir stofnaði ég barnastúku í Mánagarði í Nesjum. Barnastúkan í Höfn er fjölmenn og starf hennar með miklum blóma, og var þegar ráðgert samstarf hennar við hina nýju barnastúku í Nesj- unum. Hinn 3. marz fór ég vestur að Hellissandi. Tíð var ill og um- hleipingasöm, og hafði ég gert tvær árangurslausar tilraunir til að komast vestur, orðið að snúa við í bæði skiptin. Þegar vestur kom, veiktist ég af inflúensu, en ekki vildi ég hverfa á brott án þess að fá eitthvað að gert. Ég boðaði útbreiðslufund, og kom all- margt manna til að hlýða á mál mitt. Daginn eftir stofnaði ég síðan stúkuna Berglind með 22 félögum. Ég hugðist síðan mæta á fundi stúkunnar í Ólafsvík, en varð að halda kyrru fyrir, því að nú hafði inflúensan færzt mjög í aukana. Lá ég veikur nokkra daga á Hellissandi, en komst síðan inn í Ólafsvík og til Reykja- víkur á strandfei’ðaskipinu Skjaldbreið. Eftir að ég kom suður, var ég lengi veikur og hafði ekki tækifæri til frekari starfa að sinni. Þrettánda dag maímánaðar fór ég, ásamt Indriða Indriðasyni, vestur í Stykkishólm. Við vorum þar á fjölmennri samkomu, sem stúkan hafði boðað til. Við lásum þar upp og fluttum erindi, og frá hendi heimamanna var þarna margt skemmtilegt á boðstólum. Daginn eftir fórum við, ásamt tuttugu og sex félögum stúkunnar í Stykkishólmi, út í Ólafsvík. Þegar þangað kom, voru þar saman komnir í samkomuhúsinu rúmlega f jörutíu félagar stúkunnar Jökul- blómið og 18 manns úr stúkunni Berglind á Hellissandi. Stúkan í Ólafsvík hafði búið gestum sínum glæsilega veizlu. og var nú setið þarna nærfellt fjóra tíma í miklum fagnaði. Indriði flutti þarna tvær ræður, og ég las upp sögu, og heimamenn og stúkufélagar úr Ólafsvík skemmtu með upplestri, gamanvísnasöng, ræðum og mælskukeppni. Ríkti þarna mikil gleði, samfara áhuga um fram- gang bindindismálsins og eindregnum vilja til samstarfs. Komst ég að raun um það, að báðar stúkurnar úti á Nesinu hafa starfað mjög vel og aukið verulega tölu félaga sinna. Snerum við Indriði heim á leið glaðir og sannfærðir um, að félagar okkar á Snæfells- nesi mundu ekki aðeins halda í horfinu, heldur auka starfsemina og bæta við þann hóp, sem nú er þar undir merki Reglunnar. Lindarbrekku í Fossvogi, 17. maí 1955. í trú, von og kærleika. Guðm. Gíslason Hagalín.

x

Eining

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Eining
https://timarit.is/publication/833

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.