Akranes - 01.07.1944, Síða 14

Akranes - 01.07.1944, Síða 14
98 AKRANES löngu unz hann hafði rutt sér braut með kostgæfni og dugn- aði upp í formannsstöðu. Sú var venja Reykvíkinga, sem fyrir skipum höfðu að ráða, eða ætluðu að róa á farkosti Suðurnesjamanna, að búast að heiman í fyrra hluta marzmánaðar. Héldu þeir síð- an suður á Vatnsleysuströnd, í Voga, Njarðvíkur, Leiru eða Garð. Flest voru skipin sexæringar, en þó mátti sjá þar allmikið af stærri skipum, sem á voru allt að tólf menn. Geir var oftast á Vatnsleysuströndinni, og hafði uppsátur á svonefndum Bieringstanga. Þar var stórt hús, sem reist hafði verið af kaupmönnum til saltgeymslu og íbúðar fyrir vermenn. Nefndist það „anleggshús“. Þarna höfðu skips- hafnirnar bækistöð sína, þótt ekki væru híbýlin hlý né vist- leg. Veiðitækin voru þrennskonar á þessum tímum, net, lóð- ir og haldfæri. Stóð þó jafnan styr mikill um netin, vildu sumir banna þau með öllu, vegna þess hve mjög þau voru talin spilla annarri veiði. Samt fór svo, að netaveiðar færð- ust mjög í vöxt er fram liðu stundir. Mestan hluta þess tíma, sem Geir var við sjóróðra, voru þó haldfærin helzta veiðitækið. Áður fyrr höfðu þau mátt heita einvöld, en þokuðu smám saman fyrir stórvirkari veiðiaðferðum. Til eru allgreinilegar lýsingar á veiðum og verbúðalífi á Suðurnesjum og Vatnsleysuströnd, svo að ekki þykir ástæða til að fara lengra út í þá sálma.1) Venjulega var hætt róðrum syðra um sumarmálin, en þó fór það nokkuð eftir afla. Kom fyrir, að menn héldu þar til langt fram eftir vori, þegar fiskur var nægur, en lítið að hafa á Reykjavíkurmiðum. Þó var hitt venjulegast, að heim væri komið í fyrstu eða annarri viku sumars, enda var fiskur þá oft genginn á grunnmið í nánd við Reykja- vík. Hófust róðrar þaðan skömmu eftir heimkomuna, og stóðu til Jónsmessu. Svo segja þeir, sem helzt mega vita, að meðan Geir var formaður, hafi hann jafnan þótt heppinn með aflabrögð. Mátti einu gilda hvar hann réri og hvaða veiðarfæri notuð voru. Reyndist hann farsæll í starfi þessu eins og öðrum. Sagt er þó, að einu sinni hafi hann orðið fyrir áfalli og verið mjög hætt kominn. Ber mönnum ekki með öllu sam- an um atvik, en við ekkert er að styðjast nema minnið eitt. Telja sumir, að bátnum hafi hvolft og mönnum verið bjargað naumlega af kili, en aðra minnir, að yfir hafi skoll- ið alda og tekið út einhverja skipverja, en fyllt bátinn, þótt allt slarkaði af. Hitt hlaut yfir Geir að ganga, sem allir urðu að þola, að sum ár brást fiskafli gersamlega, svo að heita mátti þurr sjór hvarvetna. Var þá oft þröngt í búi hjá þeim, sem al- gerlega treystu á hafið, en höfðu engar landnytjar. Vorvertíð hófst um Krossmessu og stóð til Jónsmessu. Þá var bátum haldið úti frá Reykjavík, mest fjögra manna förum. Haustvertíð hófst 29. september og stóð til Þorláks- messu. Sinnti Geir jafnan hverri vertíð af mikilli kost- gæfni, og tók nú að fénast dálítið á þessum árum. 7. Kvonfang Á fyrri hluta 19. aldar bjó sá bóndi að Ægissíðu í Vestur- hópi, sem Sveinn hét, Guðmundsson. Kvæntur var hann Ingibjörgu Þorsteinsdóttur frá Kúfustöðum í Svartárdal, systur Jóns Thorstensen landlæknis. Jakob hét sonur þeirra hjóna. Hann sigldi ungur utan og lærði trésmíðar í Kaup- mannahöfn. Settist hann síðan að í Reykjavík, og fékkst einkum við húsgagnagerð. Jakob þótti í röð fremstu iðnaðarmanna hérlendra um sína daga, gáfumaður mikill og fjölfróður, en naut sín aldrei fyrir hlédrægni sakir. Var hann allra manna 1) Einna gleggst er írá verbúðalífinu sagt í Landnámi Ingólfs II. bindi, bls. 152—157. Sbr. ennfremur Sögu Reykjavíkur I, bls. 247, Rauðskinnu IV. hefti og Sagnir af Suðurnesjum. fálátastur og svo mannfælinn, að furðu gegndi. En slíkur völundur þótti hann við smíðar, að þangað komst enginn annar Reykvíkingur með tærnar, sem hann hafði hælana. Mun Jakob hafa verið mjög listhneigður að eðlisfari, enda þóttu margir gripir hans forkunnar vel gerðir. Systur átti Jakob Sveinsson, þá, er Guðrún hét. Hún ólst upp hjá foreldrum sínum, en kom síðan suður til Reykja- víkur, eftir að bróðir hennar settist þar að. Þar kynntist hún verzlunarmanni nokkrum, Kristjáni Þorsteinssyni, hjá Siemsen, og gengu þau í hjónaband 30. júní 1854. Þá var Kristján 26 ára að aldri, en Guðrún 24 ára, fædd 1820. Kristján Þorsteinsson var sonur Þorsteins lögregluþjóns Bjarnasonar og Ragnheiðar Ólafsdóttur frá Seli við Reykja- vík, Jónssonar. Hann var maður röskur og dugandi, enda mun hann hafa ætlað sér fremri hlut en flestum öðrum. Hætti hann nú verzlunarstörfum fyrir aðra, en keypti hús það, er Sjóbúð nefndist. Fluttu þau Guðrún þangað og hóf Kristján verzlun í húsi sínu. Sjóbúð var nyrzt í Grjótaþorpi, næst sjónum. Mun hún hafa verið með elztu þurrabúðum við Reykjavík, enda gott þaðan til útræðis, þar sem uppsátrið var aðeins steinsnar í burtu. í Sjóbúð hafði búið fyrir aldamótin 1800, Magnús Guðlaugsson næturvörður. Á fyrra helmingi 19. aldar átti þar lengi heima Magnús Jónsson Norðfjörð beykir, faðir Jóns verzlunarmanns Norðfjörð. Magnús beykir andaðist 1844. Strax og Kristján Þorsteinsson var kominn af stað með verzlun sína, þótti sýnt að hann var bráðlaginn kaupsýslu- maður. Fannst honum brátt of þröngt um sig í Sjóbúð, en þar var þá gamall torfbær og mjög að falli kominn. Hugð- ist hann rjúfa bæinn og reisa þar betra hús og veglegra, sem fremur hentaði til verzlunar. En í þeim svifum gafst honum kostur á að kaupa verzlun í fullum gangi. Tvínón- aði hann ekki lengi við það, en lét þegar verða af kaup- unum. Sú saga var til þeirra kaupa, að Jón nokkur Markússon hafði byggt hús til verzlunar í Grófinni, árið 1842, og verzl- að þar síðan. Haustið 1857 fórst Jón Markússon með póst- skipinu Sölöven. Það var á leið til útlanda, en hreppti ofsa- veður og týndist undir Svörtuloftum á Snæfellsnesi, með áhöfn allri, farþegum og farmi. Var nú verzlun Jóns kaup- manns til sölu og keypti Kristján Þorsteinsson hana vorið 1858. Verzlun þessi var þar sem síðar nefndist Liverpool. Snemma vors 1859 lét Kristján rífa Sjóbúðarbæinn gamla og ætlaði að reisa þar timburhús í staðinn. En þegar sú bygging var skammt á veg kominn, andaðist Kristján Snögglega. Skeði það hinn 21. maí 1859. Varð hann hverj- um manni harmdauði, og þótti öllum eftirsjá mikil að hann skyldi falla frá í blóma lífsins, aðeins 32 ára gamall. Guðrún, ekkja Kristjáns, stóð nú uppi svipt forsjá manns síns, er fallið hafði frá mitt í erilsömu starfi. Varð hún nú að sjá ráð fyrir verzluninni í Grófinni og mátti auk þess annast framkvæmd byggingarinnar í Sjóbúð. Grófarverzl- unina seldi hún um sumarið eða haustið Hans Chr. Robb, er rak þar kaupsýslu um skeið, og kallaði verzlun sína Liverpool. Sjóbúðarhúsið lét Guðrún fullgera, og var því verki lokið um haustið. Er það ekki ólíkleg tilgáta, að Geir Zoega hafi litið eitthvað til með Guðrúnu þetta sumar. Vitað er, að hann og Kristján Þorsteinsson höfðu verið vinir frá barnæsku, eins og fyrr var getið. En hvernig sem þessu var var háttað, þá er hitt víst, að kunnug urðu þau Geir og Guðrún. Varð sá kunningsskapur svo náinn, að þau voru saman gefin í hjónaband 8. september 1860. Stendur svo í giftingardálki kirkjubókarinnar: Geir Zoega yngis- maður í Reykjavík, 30 ára, og Guðrún Sveinsdóttir, ekkja í Reykjavík, 30 ára. Svaramenn: Snikkari Jakob Sveinsson í Reykjavík og tómthúsmaður Jóhannes Zoega í Nýjabæ.1) 1) Jakob Sveinsson, smiður, bróðir brúðarinnar og Jóhannes, bróðir brúðgumans.

x

Akranes

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Akranes
https://timarit.is/publication/865

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.