Akranes - 01.01.1945, Blaðsíða 7

Akranes - 01.01.1945, Blaðsíða 7
AKRANES 7 Gils Guðmundsson: íslenskir athafnamenn /., 8. Geir Zoega Ævisaga Framhald. Um aldamótin 1800 var hafin fyrsta verulega tilraunin, sem íslenzkur maður gerði, til þilskipaútgerðar við strend- ur landsins. Frumkvöðullinn var Bjarni kaupmaður Sívert- sen í Hafnarfirði. Bjarni var ættaður úr Selvogi, bjó við fá- tækt í æsku, en dugnaður hans og gáfur fleyttu honum fram til vegs og álits. Framan af ævi átti hann oft undir högg að sækja, en vann jafnan sigur í hverri þraut. í ferðalögum til Kaupmannahafnar og fleiri staða, kynnt- ist hann þilskipum af ýmsum gerðum, og kom auga á nota- gildi þeirra til fiskveiða. Sjálfur var Bjarni góður smiður og starfsmaður mikill. Sagnir herma, að er hann dvaldi í Kaupmannahöfn, hafi hann daglega gert sér ferð þangað, sem þilskip voru í smíðum, og tekið sem bezt eftir hverju einu. Rétt fyrir aldamótin 1800, sennilega 1798, festi Bjami kaup á dönsku þilskipi, og hugðist láta reynsluna skera úr um það, hvort slíkar fleytur ættu ekki framtíð hér við land. Ekki tókst miður til en svo, að nokkrum árum seinna ákvað Bjarni að láta smíða þilskip í Hafnarfirði. Hafði hann sjálfur umsjón með verkinu, en aðalsmiðurinn var Ólafur Árnason á Hvaleyri. Skip þetta var smíðað með hliðsjón af dönsku skútunni, sem Bjarni átti, enda jafn- stórt og hún. Smíðinni var lokið síðla sumars 1803, og þótti fleytan hin snyrtilegasta í alla staði. Bjarni Sívertsen hélt nú áfram sömu stefnu næstu árin, og lét smíða nokkur þilsldp og gera við önnur, jafnvel stór kaupför. Mátti heita, að hann reisti skipasmíðastöð í Hafn- arfirði, búna tækjum þeim, sem þá tíðkuðust helzt við smíðar sambærilegra skipa. Fátt er nú heimilda um útgerð Bjarna riddara Sívert- sens. Þó er vitað um nokkur þilskipa hans, sem til fiskjar gengu, og virðist þeim hafa farnazt vel. Alls er kunnugt um tíu þilskip, sem Bjarni átti, en sum þeirra voru í sigl- ingum milli landa, enda nokkuð stór. Skipstjórar á skipum Bjarna riddara munu ýmist hafa verið danskir eða íslenzkir. Líkur eru fyrir því, að fóstur- sonur Bjarna, Steindór Jónsson Waage, hafi stýrt einu af millilandaskipum hans.1) Gísli sagnfræðingur Konráðsson getur tveggja íslenzkra skipstjóra á fiskiskútum Bjarna. Hét annar Pétur Eyjólfsson og var frá Reyn í Hegranesi. Hann stýrði skútu þeirri, er „Flynderen“ hét, og þótti myndarmaður. Hinn nefndist Einar Gíslason, sunnlenzkrar ættar. Hafði hann með höndum stjórn skips þess, sem „Foraaret" hét. Fordæmi Bjarna Sívertsens hafði allmikil áhrif, og komu nokkrir menn sér upp þilskipum, beint eða óbeint fyrir til- verknað hans. Það ýtti undir stórhuga útvegsbændur, að stjórnarvöldin voru hlynt þessum tilraunum og styrktu þær með árlegu gjaldi. Fyrstur íslenzkra manna naut styrks þessa Guðmundur Ingimundarson bóndi í Breiðholti við Reykjavík. Guðmundur hafði lært sjómannafræði erlend- is. Festi hann kaup á norsku þilskipi rétt eftir aldamótin 1800. Skipið nefndist Delphin, og gekk það í fyrsta sinn á veiðar árið 1803. Ekki átti Guðmundur skip þetta nema í fáein ár. Seldi hann það síðan Guðmundi Scheving sýslu- manni í Haga á Barðaströnd, og fluttist sjálfur vestur til að stýra skipinu fyrir nýja eigandann. Guðmundur Ingi- mundarson fórst á Delphin, ásamt öllum skipverjum sín- um, sumarið 1813. Þeir menn, sem einkum létu sér fordæmi Bjarna riddara 1) Sjá um þetta „Skútuöldin", fyrra bindi, bls. 63—64. Sívertsens að kenningu verða, voru bændur þrír á Suður- nesjum, skörungar miklir og sjógarpar. Voru það Ari Jóns- son í Njarðvík, Jón Daníelsson í Stóru-Vogum og Jón Sig- hvatsson í Höskuldarkoti. Líkur benda til þess, að skúta Ara í Njarðvík hafi verið smíðuð hjá Bjarna riddara. Ann- ars eru heimildir litlar um útgerð þessa, og verður ekki um það sagt, hve lengi hún stóð. Jón Daníelsson í Stóru- Vogum mun hafa gert út að minnsta kosti tvö þilskip. Hann var sjálfur athafnasamur mjög og þótti ágætur for- maður á opnum skipum. Son átti Jón, sem Magnús hét. Haustið 1816 sigldi Magnús til Kaupmannahafnar og las þar siglingafræði um veturinn. Var hann þá aðeins 17 ára að aldri. Kom hann heim aftur að loknu prófi og reri á út- vegi föður síns um sumarið. En þegar á næsta hausti sigldi hann til Danmerkur í annað sinn og lagði stund á stór- skipasmíð um veturinn. Næsta vor hélt hann til íslands og hóf þegar að smíða þilskip fyrir föður sinn og Árna bónda Magnússon í Halakoti. Varð Magnús síðan skipstjóri á skútu þeirri, er hann smíðaði. Ekki greina heimildir frá því, hvað varð af skútum Jóns Daníelssonar, eða hversu lengi þær entust. Sjálfur varð Jón fjörgamall, andaðist 1855, og hafði þá verið blindur í 16 ár. Magnús sonur hans þótti líkjast föður sínum um dugnað og framtak. Smíðaði hann mikinn fjölda opinna báta, og þótti vel takast. í einni heimild, Annál 19. aldar, er þess getið, að Magnús hafði smíðað „nálægt 100 róðrar- skipa og báta og tvo þilbáta frá stofni.“ Magnús tók sér ættarnafnið Waage. Jón Sighvatsson í Höskuldarkoti var Rangæingur að ætt. Var hann af bláfátæku fólki kominn, en tókst að bæta hag sinn með dugnaði miklum og framsýni. Framan af ævi stundaði hann heyskap eystra á sumrin, en sjóróðra suður í Höfnum á vetrum. Jón gerðist snemma góður sjómaður og orðlagður smiður. Stundaði hann formennsku og báta- smíðar jafnhliða búskapnum, eftir að hann fór að búa í Höskuldarkoti. Árið 1814 hafði hann aflað sér trjáviðar til skútugerðar, og hóf smíð þilskips í Njarðvík. Réð hann til sín Gísla Pétursson skipasmið á Óseyri við Hafnarfjörð, og vann hann með Jóni að smíðinni í þrjá vetur, unz skútan var fullsmíðuð vorið 1817. Jafnframt sendi Jón son sinn, Jón að nafni til Danmerkur, og lét hann læra sjómanna- fræði. Fór Jón utan vorið 1815, dvaldist ytra í tvö ár og tók að því búnu stýrimannspróf með góðum vitnisburði. Kom hannheimmeð skipstjóraskírteinið í vasanum 8 dögum áður en skútan rann fullsmíðuð af stokkunum. Jón stýrði skútu föður síns í nokkur ár, en síðar tók við henni bróðir hans, Pétur að nafni. Pétur hafði lært eitthvað í sjómannafræði hjá Jóni stýrimanni Vídalín í Reykjavík. Var hann röskur maður og gerðist gildur bóndi í Njarðvík eftir föður sinn. Skúta Jóns Sighvatssonar reyndist heppnisskip mikið, og færði eigandanum góðan feng að landi. Á efri árum Jóns var skútan orðin mjög lasburða og lítt sjófær. Lét hann það verða eitt síðasta verk sitt að sjá um viðgerð henn- ar. Jón andaðist árið 1841. Ekki fara neinar sögur um endalok skútunnar.1) Svo virðist, sem þilskipaeign hafi aldrei lagzt með öllu niður við Faxaflóa, eftir að útgerð þeirra hófst um alda- mótin 1800. Þó fara mjög litlar sagnir af skútum þar á tímabilinu 1840—1860. Ekki er ósennilegt, að skúta Jóns Sighvatssonar hafi verið til nokkuð fram á fimmta ára- tuginn, eftir að hún hafði hlotið höfuðviðgerð um 1840. Hitt er fullyrt, að er Ketill Jónsson flutti í Hafnarhrepp 1848, hafi hann átt skútu, 20—30 smálesta stóra. Skúta þessi var gerð út frá Höfnum um tveggja ára skeið og „lukkaðist vel“ að því er segir í æviminningu Ketils. En þá mun svo slysalega hafa viljað til, að skútan strandaði og ónýttist með öllu.2) 1) Æviminning Jóns Sighvatssonar. 2) Frásögn Ólafs Ketilssonar.

x

Akranes

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Akranes
https://timarit.is/publication/865

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.