Akranes - 01.01.1945, Blaðsíða 9

Akranes - 01.01.1945, Blaðsíða 9
AKRANES 9 TEKLÐ UNDIR „Stíllinn er maðurinn". Þessi orð, komin frá Forn-Grikkjum, en nú venjulega tilfærð á frönsku, eru svo oft viðhöfð, að fyrir þá sök er nokk- ur ástæða til að sneiða hjá þeim, rétt eins og við verðum nú að forðast orðin „vissulcga", „öngþveiti", „svo mörg eru þau orð“ og ýms önnur, vegna þess, að orðasnauðir blaðamenn japla á þeim sýknt og heilagt. En svona er það nú samt, að stundum eiga þau betur við en nokkur önnur. Hvernig er, t. d., hægt annað en að minnast þeirra þegar eitthvað það er lesið, sem Kristleifur Þorsteinsson hefur ritað. Sjálfur maðurinn stendur þá lesandanum svo ljóslifandi fyrir hugskotssjónum. Og furðulegt er það, að maður nær hálfníræður skuli ekki þurfa annað en stinga niður penna eða opna munninn til þess að hressa þá og fjörga, sem á hann hlýða. En hér verður nú ekki rætt um Kristleif að sinni, heldur er þess að geta, að það var þáttur sá, er hann ritar í jólablað Akraness, sem kom mér til að taka pennann. Ekki þó til þess að bæta um frásögn hans, heldur til að þakka honum fyrir og taka undir með honum. Réttara væri þó að segja, að hvetja aðra til að taka undir. Kristleifur nefnir mörg nöfn í frá- sögn sinni, og býsna mörg þeirra minntu mig á, að þarna var maður og hérna annar, sem fróðlegt hefði verið að fleira væri frá sagt meðan ein- hver kann enn að geta það. Vildi ég óska að Akranes gæti fengið nokkru áorkað í þvi efni, því að lýsingar á merkum mönnum og ævistarfi þeirra eru á meðal þeirra fjársjóða, sem íslendingar hafa frá upphafi vega sinna talið geymslunnar verða, og gera enn. Fleiri Borgfirðinga minntist ég þá einnig á þennan hátt en þeirra einna, sem Kristleifur nefnir í þessu upphafi ferðasagna sinna. Líklega mundi hann a. m. k. enn geta einhverju við bætt um Guðmund Ólafsson á Fitj- um. En þó er mér hitt samt hugstæðara, að sonum Guðmundar væru gerð nokkur skil meðan það geta gert þeir menn, er voru á svipuðu aldurs- reki og þekktu þá vel. Mér er sjálfum kær minning þeirra, og svo ætla ég að sé um aðra þá, er til þeirra þekktu og meta kunna samtvinnaða menn- ingu höfuðs og hjarta. Af þeim bræðrum man ég nú Júlíus nálega ekki, og aðeins það um hann, hve fámáll hann var er hann gisti hjá foreldrum mínum í Akranesferðum; en það gerðu þeir bræður allir. Hinsvegar man ég þá vitaskuld mjög vel báða Ólaf og Stefán, og af stöðugum næturgest- um á Kalastöðum í uppvexti mínum, þótti mér þeir og Gísli í Stóra-Botni öllum skemmtilegri. En lítils svefns munu þessir þrír menn hafa notið þar, því jafnan vöktu þeir mikinn hluta nætur í viðræðum við föður minn. Alltaf var það liðna tímanum tilheyrandi, sem Gísli talaði um, og mikill má sá fróðleikur hafa verið, sem hann tók með sér í gröfina. Oft hef ég velkt það með mér, hvort verið geti að samtímis þeim Ólafi og Stefáni hafi verið hér uppi nokkur óskólagenginn maður, er svo væri sannmenntaður og fjölmenntaður sem þeir. Úr því fæ ég vitanlega aldrei skorið; en ákaflega á ég erfitt með' að hugsa mér það. Ólíkir voru þeir bræður í sjón og ólíkt virtist mér skaplyndið að öðru en því, hve báðir höfðu gott lundarfar. Ekki þurfti annað en að vera i ná- vist þeirra til þess að manni liði vel. Ólafur var örari og léttari, en ég efa að um djúphyggju hafi hann jafnast við Stefán, sem var spekingur að viti. Alveg er mér það leyndardómur hvernig þeir gátu hafa aflað sinnar fjöl- breyttu þekkingar; þvi að enda þótt þeir læsu erlendar tungur, þá er hinu ósvarað, hvar þeir komust yfir allar þær bækur, sem íróðleikurinn hlaut að vera kominn úr. Það gátu ekki hafa verið hversdagsbækur. Af erlendu málunum var vitanlega danskan sjálfsögð eins og prests- lambið. Hún var þeim án efa svo töm til lesturs að þeir hafa ekki fundið til þess, að hún væri erlent mál. Svo hefur sagt mér merkur maður, að eitt sinn kom hann á bæ og baðst gistingar. Þar var þá kominn fyrir Ólafur á Fitjum og var að lesa danska skáldsögu heimilisfólkinu til skemmtunar. Las hann söguna á islenzku. Sömu list lék að vísu Matthías Jochumsson, en hjá flestum mundi slíkur lestur hafa orðið óáheyrilegur og ekki til dægradvalar falllinn. Annars hefur mér verið sagt að Júlíus hafi lagt sér- staka alúð við frönsku, Ólafur ensku, en Stefán þýzku, og má vera að sönghneigð Stefáns hafi ráðið nokkru um valið. En víst er það, að nokkuð kunni hann líka í ensku. Bókfræðileg þekking hans var slík, að mig hefur bæði fyrr og síðar undrað hana. En það sem gerir mér minningu þessara bræðra allra dýrmætasta er samt hlýjan og ljúfmennskan. Það eru eiginleikar, sem börn og unglingar taka eftir. Vel sé þeim, er hlaða upp leiði slíkra manna. Einar Ingimundarson, sá er Kristleifur getur um, var vinnumaður hjá foreldrum mínum þegar ég var í bernsku. Hann var dagfarsprúður maður og jafnlyndur, sívinnandi, en líklega meir hneigður fyrir sjómennsku en sveitastörf. Hann saumaði skinnklæði og sinnti veiðarfærum hverja þá stund, er hann mátti því við koma. Honum var áhangandi stúlka ein, er ég ætla að væri fósturdóttir hans eða Sigríðar í Halakoti; a. m. k. mim hann hafa borið föðurlega umhyggju fyrir henni. Það hafði hann sagt henni, að ef það henti hana að verða barnshafandi, mundi' það kosta hana lífið. Rættist þetta og eftir hans dag. Nær er mér að halda að Einari hafi ekki verið það á móti skapi að menn ætluðu hann kunnáttusaman. Eg minnist eins atviks, sem hitt vinnufólkið á heimilinu a. m. k. túlkaði þannig. Bar svo við eitt kvöld, að aldrei þessu vant skiluðu kýrnar sér ekki heim undir túnið þegar að kvöldmjöltum leið. Sáust þær hvergi og var í ráði að fara að leita þeirra, en þá sáust þær allt í einu koma fyrir Skjólborg, sem er klettur á merkjum á milli Kalastaða og Kalastaðakots. Komu þær rakleitt götuna eins og þær væru reknar. Stóð vinnufólkið úti og horfði á þetta og við krakkar sömuleiðis. Þegar kýrnar voru komnar inn á móts við Kala, enn eins og reknar, ympraði Einar eitthvað á því við stúlkurnar, hvort þær sæju ekkert á eftir kúnum. Skildu þær þetta svo sem hann þættist hafa sent eftir þeim. Einhver tiltekin dæmi heyrði ég um það, að Einar hefði, eins og Krist- leifur segir, fundið þá, er sekir urðu um hnupl; en sett hafði hann það skilyrði fyrir hjálp sinni, að hinum seku yrði ekki refsað og þeir aðeins látnir skila aftur þýfinu í kyrrþey. Hefur Einar sennilega verið athugull maður og nokkur mannþekkjari. Hitt er víst, að heiðursmaður var hann. Þau urðu endalok Einars að nann varð bráðkvaddur í Lambhaganesi, einn á ferð fótgangandi og bar bagga, smjör og ef til vill eitthvað fleira. Minnir mig að það væri Böðvar í Vogatungu, sem reið þar fram á hann látinn. Óljóst minnir mig líka, að þá heyrði ég eitthvað um það talað, að þarna á sömu slóðum hefðu aðrir orðið til áður. Guðmundur bróðir hans man ég til að gisti hjá okkur a. m. k. tvisvar þegar ég var kominn á fermingaraldur. Hann hafði, eins og Kristleifur einnig segir, verið söng- maður mikill og söngfróður. Minnir mig fastlega að hann hefði verið for- söngvari í kirkju sinni. Var hann nú á ferðalögum til Reykjavíkur til þess að syngja þar gömul lög inn á fónógraf. Hann var greindur maður, ræð- inn og skemmtilegur. Við bræður fórum eitthvað að ympra á því við hann, sem sagt væri um kunnáttu hans, því talinn var hann bróður sínum fremri í því efni. Lítið vildi hann fara út í þá sálma og eyddi umtalsefninu ljúf- mannlega. En það lét hann í ljósi, að gjarna hefði hann kosið að gamlar skræður sínar (líklegt þykir mér að það hafi nú einkum verið guðsorða- bækur) hefðu mátt lenda hjá okkur bræðrum. Skildist okkur á honum að sonur hans væri lítt hneigður fyrir bókleg efni. Guðmundur kallaði okkur frændur sína, og mun það hafa haft við rök að styðjast. Þetta voru nú Borgfirðingar, og margir koma þeir mér fleiri í hug. En svo er fyrir að þakka, að enda þótt Akranesi standi það næst, að sinna héraðinu, þá hefur það ekki gerzt svo kotungslegt að binda sig við það eitt. Þetta hefur blaðið rækilega sannað með því að birta ævisögu þess manns, er flestum bar hærra í athafnalífi Reykjavíkur á síðara helmingi nítjándu aldar. Reykvíkingar hafa ekki enn sýnt þá manndáð að stofna tímarit til þess að varðveita sögu höfuðstaðarins og þeirra íbúa hans, sem einkum hafa sett svip á hann. Meðan svo er, blasa hér hvarvetna við verkefnin fyrir aðra, þrátt fyrir allt það, sem Jón biskup Helgason fékk afrekað. Ekkert bendir enn til þess, að nokkur ætli að taka upp það merki, sem honum féll úr hendi, og þó ekki fyrr en á banadægri. Því er það, að sumir hafa orð á að víkja þurfi síra Bjarna vígslubiskupi Jónssyni úr embætti. Ekki fyrir þá sök, að þeir ætli annan líklegri til að skipa sætið betur, heldur til þess að hann gefi sig við því, er ýmsir telja ekki á ann- ara færum að vinna og sjálfur Jón biskup mun hafa talið hann öðrum fær- ari til að inna af hendi. En líklega verður nú bið á þessu. Á meðal þeirra Reykvíkinga, sem Kristleifur minnist á, eru Hlíðar- húsahjónin Jón Þórðarson og kona hans Jódís Sigurðardóttir, sem var afa- systir mín. Sagði Jón biskup mér ýmsar sögur af nafna sínum. Báru nokkrar þeirra vitni röskleika hans og hispursleysi, en sumar kunna að hafa bent til þess, að hann væri nokkuð óheflaður, og þó alls ekki á þann hátt, að leggja mætti honum til lasts. Ein var um það, er þau hjón sóttu brúðkaup í Brautarholti, en síra Helgi Hálfdanarson þjónaði Kjalarnes- þingum. Var á norðanveður svo mikið að vart var stætt. Þegar gengið var til kirkju, fylgdu Hlíðarhúsahjónin næst á eftir prestshjónunum. Leiddu þeir síra Helgi og Jón konur sinar, en áttu eríitt með að hemja sig og þær í ofviðrinu, svo að jafnvel vildi hrekja af leið. Kallar þá Jón til prests: „Það hefur hver sinn djöful að draga, síra Helgi“. Síðar var það yfir borðum að inn var borinn einhver lostætur réttur. Segir þá Jón við konu sína: „Éttu nú, Jódís; ekki færðu þetta á morgun". Um Þórð son þeirra er mér það minnisstæðast að hann kom að Kalastöðum rétt eftir að ég var kominn heim úr fyrstu för minni til Reykjavíkur, og var ég þá tólf ára. Veitti hann mér þungar ávitur fyrir það, hvernig ég rækti frænd- semina, aö koma heim undir bæjardyr hjá frændfólkinu og líta þó ekki inn. Þótti mér hann ekki mjúkur á manninn. Vitaskuld hafði ég ekkert farið fram á Nes, og víst ekki komist lengra vestur í bæ en til Björns Hjaltesteðs í Tjarnargötu. Var það í fyrsta og síðasta sinn, er ég sá þann aldavin föður míns, enda átti hann þá aðeins tvö ár ólifað og var orðinn hrumur; grét þegar við kvöddumst. En allt þetta er ekki annað en mas. Það sem ég vildi með því gert hafa, er að hvetja menn til að gera slíkt hið sama og Kristleifur — halda til haga fróðleik, sem þeir kunna að búa yíir, en ella er hætta á að glatist. Sn. J.

x

Akranes

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Akranes
https://timarit.is/publication/865

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.