Almanak Hins íslenska þjóðvinafélags - 01.01.1973, Blaðsíða 40
REIKISTJÖRNURNAR 1973
Merkúrius (ö er lengst í austur frá sólu 25. febrúar, 22. júní og
18. október, en lengst í vestur 10. apríl, 8. ágúst og 27. nóvember.
Beztu skilyrðin til að sjá hann verða eftir sólarlag dagana fyrir og
um 25. febrúar (sjá bls. 7) og fyrir sólarupprás dagana um og eftir
8. ágúst (bls. 19) og 27. nóvember (bls. 25). Hinn 10. nóvember
gengur Merkúríus fyrir sól. Þar sem sýndarþvermál Merkúríusar er
aðeins 10 bogasekúndur (1/200 af þvermáli sólar) sést fyrirbærið
aðeins í sjónauka. Þvergangan hefst um kl.07 48, alllöngu áður en sól
kemur upp á Islandi. Merkúríus færist yfir sólina frá vestri til austurs
og ber við miðja sól kl. 10 32. Þvergöngunni lýkur kl. 13 18. Næsta
þverganga Merkúríusar verður 13. nóvember 1986.
Venus (?) er morgunstjarna í byrjun árs, en lágt á lofti. Hún gengur
handan við sól yfir á kvöldhimin 9. apríl, en verður ekki áberandi
sem kvöldstjaraa fyrr en líða tekur á desembermánuð. Venus er
lengst í austur frá sól 13. nóvember, en er þá svo sunnarlega á himni,
að hún kemur ekki upp í Reykjavík.
Mars (cj) er morgunstjarna í ársbyrjun, en lágt á lofti og hættir
að sjást þegar líður að vori. Um haustið er hann hins vegar hátt á
lofti á morgunhimninum og áberandi, enda fer birta hans vaxandi
þar til í októbermánuði, að hann er í gagnstöðu við sól og næst
jörðu. Verður Mars þá bjartasta stjarnan á næturhimninum, auð-
þekkt af rauða litnum. Það sem eftir er árs er Mars kvöldstjama,
hátt á lofti og áberandi, þótt birta hans fari minnkandi með aukinni
fjarlægð frá jörðu. Mars er í vogarmerki í byrjun árs á austurleið,
og er kominn í bogmannsmerki í febrúar. Síðari hluta árs reikar
hann fram og aftur milli fiskamerkis og hrútsmerkis.
Júpíter (2þ) er lágt á lofti og sést tæplega fyrri hluta árs. Hann er
í gagnstöðu við sól 30. júlí og er síðan kvöldstjarna til ársloka. Sést
hann þá lágt á suðurhimni eftir að dimmt er orðið, í steingeitar-
merki.
Satúrnus (þ) er kvöldstjarna fyrri hluta árs, hátt á lofti. 15. júní
gengur hann handan við sól. Um haustið er hann morgunstjarna og
enn hátt á lofti. Hinn 23. desember kemst hann í gagnstöðu við sól
og er þá í hásuðri um lágnættið. Satúrnus er í nautsmerki fyrri hluta
árs. Um haustið er hann í tvíburamerki og heldur sig þar til ársloka.
Oranus ($) er í meyjarmerki allt árið. Hann er gagnstætt sól
11. apríl, en verður tæplega fundinn án sjónauka, því að birtustigið
er nálægt +5,5. Fyrstu þrjá mánuði ársins er Úranus um 3° norðan
við stjörnuna Spíicu, sem er bjartasta stjarnan í meyjarmerki.
Neptúnus (*4<) er nálægt mörkum sporðdrekamerkis og naðurvalda
allt árið og því Iágt á lofti. Birtustig hans er um +8, svo að hann
sést aðeins í sjónauka.
Plútó (E) er allt árið á mörkum meyjarmerkis og Bereníkuhadds.
Birtustig Plútós er nálægt +15, svo að hann sést aðeins í öflugum
stjömusjónaukum.
(38)