blaðið - 03.11.2006, Blaðsíða 40
40 FÖSTUDAGUR 3. NÓVEMBER 2006
blaðið
Darri er á leiðinni til Los Angeles
jStundura
nræðir
pacTmjaað
vera leiiQiri
Darri Ingólfsson
er 27 ára og starf-
ar sem leikari í
London. Hann
útskrifaðist frá
Arts Educational
School of Acting
árið 2003 og hefur síðan þá starfað
þar í borg. Hann hefur tekið að sér
stöku verkefni hér á landi og lék til
að mynda í stórmyndinni Flags of
Our Fathers á móti Ryan Phillippe
á síðasta ári. Nú er hann staddur
hér á landi og hefur undanfarið fyllt
skarð Atla Rafns Gíslasonar í leikrit-
inu Sitji guðs englar í Þjóðleikhúsinu.
Darri fer hins vegar aftur út á laugar-
dagsmorgun til London. Hann mun
þó ekki staldra lengi við í London
því Darri hefur sett stefnuna á Los
Angeles þar sem hann mun reyna
fyrir sér sem leikari næstu misseri.
Hvað varð til þess að þú
ákvaðst og lœra og starfa í Lond-
on?
„Ég var alltaf á leiðinni til Banda-
ríkjanna en fór af forvitni til Lond-
on í prufu i leiklistarskóla og komst
strax inn,” segir hann. Darri er
ánægður með að lífið hafi tekið þá
stefnu að hann hafi farið í nám í
Bretlandi í stað Bandaríkjanna.
„Líf mitt fór á þennan veg, ég var
kominn til London til að læra og síð-
an vatt lífið upp á sig. Ég eignaðist
vini og fékk vinnu strax við lok skól-
ans. Ég var auðvitað ekkert að drífa
mig í burtu þegar verkefnin komu
inn, það hefði verið heimskulegt.“
Darri ólst upp í Garðabænum og
gekk í Verzlunarskóla Islands og
Fjölbraut í Garðabæ. Hann segist
hafa verið eirðarlaus og ekki haft
lund í sér til að dvelja langdvölum á
skólabekk. „Ég ætlaði alltaf að verða
skurðlæknir en áttaði mig svo á því
að ég myndi aldrei endast svo lengi
í skóla. Ég hefði ekki meikað það.
Ég stakk af til London til að læra
leiklist þegar ég var enn í framhalds-
skóla og sé ekki eftir þeirri ákvörð-
un.” Darra hefur gengið vel að fá
verkefni í London og segir þau hafa
verið fjölbreytt hingað til. „Þetta hef-
ur skipst nokkuð jafnt og ég hef feng-
ið hlutverk í kvikmyndum og leikið
á sviði.” Hann er ánægður með að
hafa landað hlutverki deyjandi her-
manns í stórmyndinni Flags of Our
Fathers sem tekin var upp að hluta á
íslandi síðasta sumar.
Hvernig var að vinna við Flags
of Our Fathers undir stjórn
Clints Eastwood?
„Það var frábært og minnti mig á
af hverju ég er leikari. Þetta var ein-
stök reynsla. Ég kynntist Clint East-
wood svo sem ekki mikið. Hann leik-
stýrði mér í þessari senu sem ég lék í
en ég get sagt að hann er þægilegur í
umgengni, hann vann sína vinnu og
leyfði öðrum að vinna sína. Það er
svo gaman að vinna með öllum þess-
um fagmönnum og finna að maður
getur treyst þeim til að gera það sem
þeir eiga að gera. Maður hefur engar
áhyggjur og það eina sem ég þurfti
að hugsa um var leikur minn.”
Darri segist vona að hlutverkið
hjálpi sér að fá verkefni í Bandaríkj-
unum. „Þá helst af þeirri ástæðu
að hlutverkið gæti komið mér inn
í stéttarfélag leikara í Bandaríkjun-
um sem ég verð að vera hluti af til
að fá frekari vinnu. Hlutverkið get-
ur þannig opnað mér margar dyr.”
Hefurðu séð myndina?
„Myndin hefur ekki enn verið
sýnd. Ég var ekki með umboðsmann
þegar ég fékk hlutverkið þannig að
ég ætla bara að bíða og setjast inn
í bíósalinn og sjá. Maður situr með
hnút í maganum og bíður og vonar.
Senan mín gæti orðið nokkur sek-
úndubrot eða ekki neitt.” Darri segir
BlaWFrikki
,Ef ég væri ekki leikári væri ég ef til vill kokkur
eða ljósmyndari," se(gir Darri Ingólfsson leikari.
hlutverk sitt hafa innihaldið nokkr-
ar línur. „Ég leik deyjandi hermann
í myndinni á móti Ryan Phillippe.
Ég ligg særður og bíð dauðans og
persóna Ryans reynir að koma mér
til bjargar.”
Gerðist eitthvað eftirminni-
legt á tökustað ífyrra?
„Einn tökudaginn sást til norður-
ljósa á himni. Þá var brugðist skjótt
við og slökkt á öllum græjum og
tækjum. Öll vinna stöðvaðist um
stund og kyrrð og hljóð skapaðist
meðan þeir sem unnu við myndina
virtu fyrir sér norðurljósin hlykkj-
ast um himininn. Það hefur kostað
sitt að slökkva á öllum græjum og
stöðva vinnu, þeim fannst þetta
þess virði og það fannst mér æðis-
legt. Síðan byrjuðum við að vinna
aftur skömmu seinna eins og ekkert
hefði í skorist.”
Þarf leikari að eiga hugsjón-
ir?
„Ég held að hann þurfi þess ekki
beint en mín persónulega skoðun
er sú að ég held að allir listamenn
beri ábyrgð. Leikarar, listamenn og
í raun ættu allir að vita hvaða völd
þeir hafa til að hafa áhrif. Rappar-
ar eru gott dæmi um hversu mikil
áhrif tjáning listamanns getur haft
á heila kynslóð.”
Hvernig er týpískur dagur hjá
þértLondon?
Darri segir daga sína aldrei vera
eins. „Það er erfitt að hafa fast form
á lífi sínu þegar maður vinnur sem
leikari. Stundum hræðir það mig
en þá þarf ég að minna mig á að ég
valdi þetta sjálfur. Ég datt ekki inn í
þetta. Ef ég á frídag lít ég venjulega
í ræktina og fer svo annaðhvort á
röltið eða skýst á vespunni í bæinn
með vinum mínum. Þar sem ég bý
er frábær matarmarkaður og þang-
að finnst mér gaman að fara til að
kaupa eitthvert góðgæti sem ég elda
svo handa mér og vinum mínum.”
Er erfitt að sjá sér farborða
sem leikari? Er baráttan hörð í
London?
„Ég má ekki kvarta því ég veit um
fólk sem hefur ekki fengið hlutverk
í langan tíma. Ég hef verið heppinn.
Ég hef líka oft bjargað mér með auka-
vinnu sem er vel borguð og tekur
stuttan tíma.” Darri segir aukavinn-
una geta verið að einhverju leyti
skemmandi fyrir sálina en maður
verði að líta á björtu hliðarnar. „Ég
hef ferðast mikið um England vegna
þessarar vinnu og hitt alls kyns
fólk. Oft þegar maður er að vinna
einhverja vinnu þá festist maður í
henni og þeim heimi sem er í kring-
um hana. Það er gott að líta út fyrir
leiklistarheiminn til að missa ekki
tengsl við raunveruleikann.”
dista@bladid.net
viðlal