Orðlaus - 01.02.2006, Side 31

Orðlaus - 01.02.2006, Side 31
„Þú skilur ekki Singapore Sling," segir Ein- ar og mænir á mig drukknum og glansandi augum. Otar að mér fingrum sem hríslast um glóandi sígarettu. Ég gjóa jafn drukkn- um og glansandi augum til baka. Að hverju spurði ég eiginlega? Eða: Hvar er ég eigin- lega? Og hvað er klukkan? Og af hverju er Einar svona reiður? Er hann kannski bara að grinast? Hvar er ég aftur? ...litum til baka. Klukkan er sjö. Ég er viss um það. Dyrabjallan ómar. Við útidyrnar stendur Henrik Björnsson, forsprakki og óskoraður leiðtogi rokksveitarinnar Singa- pore Sling. Við heilsumst og setjumst að því loknu niður í kertalýstri borðstofu. Platan Souvlaki með Slowdive ómar enn í græjun- um og við fáum okkur sæti. Opnum bjóra. Tómur öskubakki situr á milli okkar - áður en yfir lýkur mun hann þarfnast tæmingar við. Nokkrum sinnum. Það er föstudagur í Reykjavík og myrkrið ber á dyr. Við spjöllum í smá stund. Um þetta venjulega sem fólk sem þekkist ekki spjallar um. Hljómsveitir og svona. Veðrið. Svo spyr ég: Af hverju „Taste the blood of Singapore Sling"? „Ég keypti mér slatta af gömlum myndum síðast þegarég variNewYork. Ein þeirra var Taste the blood of Dracula með Christopher Lee. Það er ekki góð mynd, kom á daginn, en sniðug samt. Og mér fannst nafnið við- eigandi. Það er töff - og svo má líka greina ákveðna merkingu í því. Singapore Sling hef- ur gengið gegnum ákveðin blóðskipti upp á síðkastið, fengið nýtt blóð. Það er ákveðin vísun. Svo er blóðið okkar mjög... toxic, að bragða það er... ákveðin upplifun skulum við segja." „Var ég ekki með vodkaflösku?" Henrik stendur upp og lítur rannsakandi um herbergið. „Var ég ekki með... var ég ekki með vodkaflösku þegar ég kom hing- að? Ég hélt það," segir hann og fær að hringja til að athuga hvort hann hafi gleymt henni á síðasta viðkomustað. Á meðan stekk- ur greinarhöfundur í eldhúsið og finnur þar fyrir flösku af einhverju mentól-glundri. Við látum það duga í fjarveru vodkans sem aldr- ei fannst. Og það gerir það. Ég beini talinu aftur að nýútkominni plötu Singapore Sling, þykist hafa gefið textunum þar sérstakan gaum og spyr hvort að þeir séu persónu- legri í þetta sinn, Ijóstri upp meiru um hug og innri heim hljómsveitarmeðlima. „Nei." Nei? „Tjah, Hákon [Aðalsteinsson, áður í Hudson Wayne en nú gítarleikari Singapore Sling] samdi t.d. lagið Blues in Black og ég gerði í kjölfarið texta út frá pælingu sem við vorum með um svarta blúsmeistara að borða ecst- asy árið 1920. Svarar það einhverju? Ég hef í textunum alltaf fjallað um einhverskonar pælingar, tilfinningar eða martraðir. Og geri enn. En mikilvægast er að textarnir passi við stemningu hvers lags," segir Henrik og við ræðum í kjölfarið umrædda stemningu. Ég vil meina að hún sé dekkri en á fyrri skífum og læt það álit mitt í Ijós, en textahöfundur- inn sjálfur er efins. „Finnst þér? Nefndu mér eitt jákvætt lag á síðustu plötu," segir hann og í hönd gengur rannsókn á breiðskífunni Life is killing my rock 'n' Roll. Kemur í Ijós að þar eru nokkur lög sem gefa til kynna einhverskonar vonarneista, lög sem betur fer að spila við upphaf sóðalegs kvölds en enda þess. „Ég held að flest Sling lög geti bæði átt við enda kvölds og upphaf. Einhver sagði mér að nýja platan væri svona plata sem maður setur á þegar maður gerir sig kláran og eins þegar heim er komið, með brostnar vonir. Og ég held það sé alveg satt, í einhverjum skilningi." Hvernig kom Taste the blood... til? „Hann Jón Sæmundur bað mig að gera lag fyrir sig, fyrir Dead. Og ég hafði það eitt- hvað í huga, svo eitt skiptið þegar ég var að rölta í Klink og Bank fékk ég melódíu i hausinn, raulaði hana á leiðinni þangað og tók svo upp. Það varð grunnurinn að fyrsta laginu, Song for the Dead. Mér fannst það gott og þaðfannst öðrum hljómsveitarmeð- limum líka, þannig að við ákváðum að spila það. Síðan fengum við þá hugmynd að gefa út svona trommuheila EP-plötu og tókum í kjölfarið upp þrjú lög saman, svo gerði ég restina sjálfur og eftir stóð plata. Pælingin var öðrum þræði að semja lög og taka þau upp samstundis; þegar ég geri demó og tek svo upp í stúdíói finnst mér alltaf demóið meira sjarmerandi innst inni, þó hitt hljómi kannski betur. Og í þessu tilviki kom demóið í raun út. En það hljómar samt helvíti vel. Ég vil ekki einusinni meina að Taste the blood sé neitt EP þegar upp er staðið, White Light/White Heat með Velvet Underground er bara sex lög. Ég man þegar ég heyrði White Light... í fyrsta skiptið, hún hljóm- ar hörmulega en samt... eins og draumur. Þar er sköpunargleði að verki, eitthvað sem sýnir að í grunninn er rokk ekki annað en hugmynd og framkvæmd. Hugmyndir og gredda. Og ég man ég ákvað strax að gera sjálfur plötu þegar ég heyrði hana. Hún er full af sköpunargleði, sándið er líka mjög flott. Nú á dögum eyðir fólk tíma og pen- ingum í að búa til „fullkomið sánd" og gera myndbönd... Taste the blood... er ekki full- komin og á ekki að vera það - betur færi ef hún virkaði sem innblástur fyrir aðra að búa til tónlist. Fólk þarf að heyra að það getur gert þetta sjálft. Það virðist alltaf þurfa að minna á það af og til, að rokk og ról þarf ekki að byggja á hrúgu af peningum og staf- rænum græjum. Dadaismi, beat, blús, pönk, allar þessar stefnur eru ákveðin viðbrögð við uppskrúfun, eitthvað sem virðist þurfa að gerast á nokkurra áratuga fresti. Því fólk gleymir. Því miður. Hugmyndin með Taste the blood... var sem sagt að gera eitthvað ódýrt og sýna fram á að það er hægt að gera kúl hluti á lélegar græjur fyrir ekki neitt. Það var mér innblást- ur að gera heila plötu á átta-rása tæki og ég vona að hún geti orðið öðrum innblást- ur líka, eins og ég sagði. Life is killing... var okkar tilraun til að gera fullkomna plötu, plötu þar sem allt væri á réttum stað, eins og fyrsta Spiritualized platan; hvert einasta hljóð á henni er þar af sérstakri ástæðu og myndar jafnvel ékveðið þema. Við gerðum það og kostuðum ýmsu til. í þetta skiptið ákváðum við að taka upp ódýrt, erum meira í því að fanga kjarnann. Og ég held það hafi tekist. Fanga kjarnann? Þá eins og að leita í ein- hvern frumkraft rokksins og vinna út frá honum? „Já, þetta einfalda, kröftuga, góða... eins og rokkabillimúsík eða blús-riff og stef. Við notum alls konar hluti úr fortíðinni, hvort sem það er kántrí, rokkabillí eða blús. Mér finnst að fólk mætti gera meira af því að sækja í þessi frumefni en það gerir. í stað- inn fyrir að hlusta bara á einhver ný bönd eins og Coldplay og svoleiðis kjaftæði. Fólk á til að saka okkur um að hljóma eins og viss bönd úr fortíðinni, Jesus & Mary Chain eða Velvet Underground, flest bönd í dag minna hins vegar bara á öll önnur bönd sem eru að gera svipaða hluti. Það hljóma allir eins og Coldpay - og Coldplay eru hreinlega ógeðslega leiðinlegir. Mér finnst eitthvað svo innantómt þegar fólk gerir bara músík út frá einhverju sem það hefur heyrt síðustu fimm árin, hefur þetta fólk ekkert meira að segja en það? Og eins þegar fólk reynir að vera frumlegt, gera eitthvað nýtt, ætlar að gleyma öllu sem það hefur heyrt. Það er óheiðarlegt." „Djöfull leiðist mér reggae tónlist," segir Henrik svo þegar reggae-skotið rokk laum- ast úr hátölurunum. „Það þarf ekki að segja neitt um reggae sem það segir ekki sjálft. Ef þú fílar það ertu bara fáviti." í hönd gengur umræða um mismunandi tónlistarform og kemur á daginn að Henrik kann vel að meta þau flest, jafnvel rapp og raftónlist. „Ég elskaði rapp þegar ég var unglingur. Public Enemy, Run DMC. Tone Loc. Fíla það ennþá í dag. En í nýrri rapptónlist finn ég fátt sem fellur mér vel. Fannst betra þegar það var meira attitjúd í gangi, meira pönk." Enn er fyllt á glösin. Henrik er með nokkra kæki sem verða meira áberandi eftir því sem líður á kvöldið og blóð hans verður eitraðra. Hann hrækir á handarbakið á sér. Itrekað. Gleymir sér reyndar einusinni eða tvisvar og hrækir á borðstofuborð gestgjafans, en áttar sig strax á villunni og þurrkar tób- aksblandað munnvatnið með annarri erm- inni. Sýgur einnig ítrekað upp í nefið. Hann átti og eftir að nýta eina klósettferðina til þess að æla í vaskinn, skömmu áður en við héldum á vit frekari subbuskapar í miðbæn- um. Á einum barnum fleygði hann af og til íkveiktum sígarettum inn í mitt dansgólfið. Veggurinn þar fékk sömuleiðis að kenna á munnvatni hans. Fleira kemur til; hrækir, kækir, hefðir og venjur sem fengju líklega einhvern til þess að álykta að Henrik Björns- son væri níhílisti með sjálfseyðingarhvöt á háu stigi. Eða vildi altént koma þannig fyr- ir [hér ber að geta þess að milli þess sem hann spekúleraði í merkingu sjálfsmorða og hrækti út í loftið var hann mjög duglegur að klappa heimilisköttunum og ræða við þá á krúttmáli. Og var mjög kurteis og þrosti alveg stundum]. Ef gengið er út frá því að áðurnefnd Life is killing my rock 'n' roll hafi fjallað um erf- iðleikana við það að finna balans milli vilj- ans til að upplifa óheftan rokk-lífsstíl ásamt meðfylgjandi subbulíferni og þess að sækja fjölskylduboð hjá ömmu og reikninga-upp- vasks-einkabílastreð daglegs lífs, líkt og Henrik hefur sagt í viðtölum að megi skilja hana, mætti færa fram þá kenningu að á Taste the blood ofSingapore Sling hafi rokk- ið gert öfluga gagnsókn mót lífinu og vildi ólmt ráða niðurlögum þess að fullu: l'm stoned, Tm drunk, Tm living the life of a god-damned skunk. I worship death while you watch TV, 'cause l'm a better man. syngur hann með letilegum fyrirlitningar- tón í laginu Long past crazy og ekki verður betur heyrt en að þar sé á ferð lofsöngur til ýmissa afla sem hafa til þessa jafnan verið talin óheilla-. Fullur, skítugur og ógeðslegur rónabóhem virðist vera hetja lagsins. En er það ekki bara kjaftæði, Henrik? Eru skítugir og ógeðslegir rónabóhemar verðugar fyrir- myndir og hetjur? „Ja, textinn endurspeglar kannski ákveð- inn hluta af sjálfum mér. Eða nei. Fyrir mér var þetta lag ákveðin tilraun, mig langaði til að upphefja alls konar hluti sem fólk telur almennt vera ömurlega og fyrir neðan sína virðingu. Það er svo líka hluti af stemningu lagsins. Sjálfsréttlæting á einhverju kjaft- æði fyrir virkilega dekadent mann, sem er að reyna að líta sig jákvæðum augum þó hann sé algjör lúser. Textinn er sjálfsréttlæt- ing ræfilsins. Þetta var hugmyndin, en síðan platan kom út hefur fólk verið að koma að mér og segja „Þetta lag er ekta þú, Henrik". Það er alls ekki tilfellið. Málið er að ég fyrir- lít þannig fólk, sem er alltaf fullt á barnum í einhverri ímyndaðri rómantík. Það er alveg jafn ömurlegt og tilgangslaust að sitja á sama barnum og tala um sama draslið kvöld eftir kvöld og að sitja alltaf heima hjá sér og úða í sig pízzum fyrir framn sjónvarpið. En mér þykir gaman að syngja um eitthvað sem allir fyrirlíta og réttlæta það. Næst geri ég lag um offitusjúkling." Og þarna virðist Henrik engu Ijúga, því þeir sem eru alltaf fullir á þarnum hefðu varla tíma til þess að gefa út eins margar plötur og Singapore Sling hefur gert undanfarin ár. Og þá er kannski rangtúlkun að bendla hann við sjálfseyðingarhvöt og níhilisma, þvi svoleiðis hvatir skila yfirleitt ekki árangri og afurðum; þær eru and-skapandi. Eru stælar Singapore Sling þá bara stælar, eins og í samnefndri bók Andrésar Indriðasonar? Töffa rastælar? „Um töffarastæla í músík? Mér finnst að músík eigi að vera kúl. Ég kann að meta kúl sem andrúmsloft og vil frekar að tónlistin okkar sé kúl en hallærisleg. Ég vona það svari spurningunni..." En strikar kúl ekki út einlægni og vina- leika? Er það ekki útilokandi og afmarkandi ástand? „Þess vegna er það besta tilfinning í heimi! Langar þig aldrei að fíla þig kúl? Kúl er til- finning sem skítur á tilfinningar, kúl er þeim æðri, hún er eins og guð. Fyrir mér er kúl stemmning það æðsta sem ég kemst í, ein- mitt vegna þess að hún er óbundin ást, ein- lægni eða einhverjum öðrum vondum hlut- um. Sólgleraugu. Cramps-plötur. Kúl setur þig on top of the world. En væri ekki skemmtilegra að vera einlæg- ur og elskandi? „Nei. Þá værum við öll eins og Coldplay [hrækir]. Viljum við vera eins og þeir? Nei! Kúl er stemning eins og David Lynch mynd. Ég lít á hana sem flótta undan erfiðum til- finningum, eins og að vera... eins og að vilja fremja sjálfsmorð, eða gifta sig ékveðinni manneskju. Þá blasir kúl við sem töfralausn, flótti inn í betri heim."

x

Orðlaus

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Orðlaus
https://timarit.is/publication/942

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.