Morgunblaðið - 01.08.2012, Síða 4
FÓTBOLTI
Sindri Sverrisson
sindris@mbl.is
„Þetta var virkilega góður sigur. Við
höfðum misst síðustu tvo leiki niður í
jafntefli en náðum núna í þrjú góð
stig og erum í baráttunni um Evr-
ópusæti. Svo er ekkert langt í eitt-
hvað ennþá meira eins og þetta er að
spilast. Þetta getur verið fljótt að
breytast,“ sagði Andri Rafn Yeoman,
leikmaður Breiðabliks og leikmaður
13. umferðar hjá Morgunblaðinu, en
Andri lék mjög vel í mikilvægum 1:0-
sigri á ÍBV. Þar með eru Blikar að-
eins þremur stigum frá Evrópusæti
og átta stigum frá toppnum.
„Vissulega viljum við vera mun of-
ar í deildinni og það eru vissulega
vonbrigði að hafa ekki náð í fleiri
stig, en það er stutt í betra sæti,“
sagði Andri. Vandamál Blika hefur
verið að skora mörk en þeir hafa nú
fengið sóknarmennina Ben Everson
og Nichlas Rohde en sá danski skor-
aði sigurmarkið gegn ÍBV.
„Þeir hafa verið að koma mjög
sprækir inn á æfingarnar hjá okkur.
Þeir koma með meiri hraða og eru
beinskeyttari en okkar fremstu
menn hafa verið og eiga klárlega eft-
ir að nýtast okkur vel það sem eftir
er af deildinni,“ sagði Andri sem
myndi sjálfur hafa viljað skorað en
hann gerði tvö mörk fyrir Blika í
fyrra og einnig 2010.
Hvatning að sjá strákana úti
„Ég er ekki búinn að skora mark
núna og vildi auðvitað vera búinn að
bæta úr því en maður er að spila að-
eins aftar á vellinum en áður. Auðvit-
að vill maður samt ná inn einhverjum
mörkum og vonandi fara þau að
koma,“ sagði þessi tvítugi flinki
miðjumaður sem kann vel þá list að
skjótast um völlinn með boltann
límdan við lappirnar. Hann ætlar sér
að feta í fótspor manna á borð við
Kristin Steindórsson, Guðmund
Kristjánsson, Alfreð Finnbogason og
fleiri sem farið hafa frá Blikum í at-
vinnumennsku á síðustu árum.
„Það er mikil hvatning að sjá
stráka sem maður hefur verið að æfa
með á hverju ári fara út og standa sig
virkilega vel þar í stærri deildum.
Það sýnir manni að það er ekkert
sérlega langt í að maður geti gert
það sjálfur. Markmiðið hjá mér er
bara að hjálpa liðinu að standa sig vel
enda er ekkert tekið eftir manni
nema liðið sé að gera góða hluti.
Við erum með flottan mannskap á
hverju ári og það er enginn svakaleg-
ur munur á liðinu milli ára þó að við
missum sterka leikmenn,“ sagði
Andri sem er uppalinn Bliki og hefur
alltaf æft með liðinu. Þrátt fyrir að
hafa spilað með meistaraflokki í þrjú
ár er Andri svo ungur að hann þekkir
varla annað en að geta æft í knatt-
spyrnuhöll á veturna.
„Maður man varla eftir fyrstu æf-
ingunni í Fífunni þótt ég hafi eitthvað
æft úti á gervigrasinu sem var þarna.
Ætli maður hafi ekki verið átta eða
níu ára þegar hún kom. Það eru mikil
forréttindi að hafa alltaf getað æft
inni allan veturinn,“ sagði Andri.
Glöggir lesendur hafa kannski tekið
eftir að Andri ber ættarnafn en hann
á bandarískan afa. Sjálfur ber Andri
þó litlar taugar til Bandaríkjanna.
Ætlar ekki að bæta met Ásdísar
„Það er einhver voðalega löng
saga á bak við þetta nafn sem ég
kann ekki, en stutta skýringin er sú
að föðurafi minn er bandarískur.
Hann flutti með ömmu og pabba
hingað þegar pabbi var smábarn.“
Andri starfar hjá SA lyfja-
skömmtun og það er engin tilviljun
því hann ætlar að hefja nám í lyfja-
fræði í haust. Blaðamaður spurði
Andra hvort hann hefði í hyggju að
bæta met Ásdísar Hjálmsdóttur
spjótkastara, sem útskrifaðist í vet-
ur með hæstu einkunn sem gefin
hefur verið í meistaranámi í lyfja-
fræði. „Það er ólíklegt. Ætli ég leyfi
henni ekki bara að eiga það met,“
sagði Andri léttur.
Morgunblaðið/Golli
Góður Andri Rafn, hér í baráttu við Fylkismanninn David Elebert, lék mjög
vel gegn ÍBV í síðustu umferð þegar Breiðablik vann afar dýrmætan sigur.
Skammtar fólki lyf
og skýst svo um völlinn
Andri Rafn Yeoman kann bara stuttu söguna á bak við bandaríska ættarnafnið
Lið 13. umferðar
í Pepsi-deild karla 2012
3-5-2
Ingvar Þór
Kale
Breiðabliki
Hversu oft leikmaður
hefur verið valinn í lið
umferðarinnar
2
Jóhann
Laxdal
Stjörnunni
Haraldur Freyr
Guðmundsson
Keflavík
Davíð Þór
Ásbjörnsson
Fylki
Arnór Ingvi
Traustason
Keflavík
Andri Rafn
Yeoman
Breiðabliki
Rúnar Már
Sigurjónsson
Val
Bjarni
Guðjónsson
KR
Bjarki
Gunnlaugsson
FH
Matthías
Guðmundsson
Val
Gary
Martin
KR
2
3
2
2
3
4
4
4 ÍÞRÓTTIR
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 1. ÁGÚST 2012
Víðir Sigurðsson
vs@mbl.is
Hvernig sem undanúrslitaleikur
Stjörnunnar og Þróttar úr Reykja-
vík í bikarkeppninni í fótbolta endar
í kvöld er ljóst að úrslitin verða
söguleg. Það er nefnilega gulltryggt
að nýtt lið spilar til úrslita um bik-
arinn í ár, hvort sem það verða
Stjörnumenn, undir stjórn Bjarna
Jóhannssonar, eða Þróttarar, með
Pál Einarsson við stjórnvölinn, sem
hrósa sigri í Garðabænum.
Að sjálfsögðu eru Garðbæingarnir
mun sigurstranglegri aðilinn í þess-
ari viðureign. Þeir eru í toppbaráttu
úrvalsdeildarinnar og hafa aðeins
tapað einu sinni í fyrstu 13 leikjum
sínum á Íslandsmótinu. Á meðan
hafa andstæðingar þeirra í Þrótti
verið í bölvuðu basli í 1. deildinni en
hafa þó rétt hlut sinn talsvert að
undanförnu og hafa aðeins tapað
einum af síðustu sex leikjum sínum.
Auk þess sem þeir hafa slegið Val og
Fylki út úr bikarnum.
Sex töp Þróttar
í undanúrslitum
En þegar kemur að sögunni eru
það Þróttarar sem hafa gert meiri
rósir í bikarnum en mótherjar
þeirra. Þetta er í sjöunda sinn sem
þeir komast í undanúrslit bikar-
keppninnar. Síðast gerðist það 2006
þegar þeir fóru líka þangað sem
fyrstudeildarlið og töpuðu naum-
lega, 0:1, fyrir KR í framlengdum
leik. Það var þeirra sjötta tap í jafn-
mörgum leikjum í undanúrslitum frá
upphafi.
Stjarnan hefur hins vegar aðeins
einu sinni áður komist í undanúrslit
og það eru heil 18 ár síðan. Þá féllu
Garðbæingar fyrir Grindvíkingum í
vítaspyrnukeppni eftir að liðin
skildu jöfn, 3:3. Stjarnan var þá í
efstu deild en Grindavík á leið upp í
hana í fyrsta sinn. Grindavík er ein-
mitt líka í undanúrslitum núna og
tekur á móti KR annað kvöld.
Sögulegt hvernig
sem fer í kvöld
Nýtt lið kemst í úrslitaleik bikarsins
Bjarni
Jóhannsson
Páll
Einarsson