Morgunblaðið - 12.12.2012, Blaðsíða 3
HANDBOLTI
Guðmundur Hilmarsson
gummih@mbl.is
„Ég tognaði í nára eftir leikinn við
Rhein-Neckar Löwen og það tekur
sinn tíma að fá sig góðan af slíkum
meiðslum. En ég er búinn að grænt
ljós frá lækninum um að spila bik-
arleikinn annað kvöld (í kvöld),“
sagði landsliðsmaðurinn Aron Pálm-
arsson, leikmaður Þýskalands- og
Evrópumeistara Kiel, við Morg-
unblaðið í gær.
Aron hefur ekki verið með Kiel í
síðustu tveimur leikjum vegna
meiðslanna en þau undur og stór-
merki gerðust um síðustu helgi að
Kiel tapaði í deildinni og það á
heimavelli gegn Melsungen. Kiel
hafði ekki tapað í síðasta 51 leik í
deildinni og ekki á heimavelli í um
þrjú ár.
Allir halda ró sinni
„Ég upplifði þetta tap úr stúkunni.
Þetta var skrýtin tilfinning enda var
ég búinn að gleyma því hvenær við
töpuðum síðast í deildinni. Auðvitað
voru menn svekktir með tapið en það
halda allir ró sinni og það er engin
krísa í gangi. Ég hélt eins og allir
aðrir að við myndum vinna í lokin
eins og við erum gjarnir á að gera
þrátt fyrir að vera undir en það féll
ekkert með okkur. Við klúðruðum
mörgum dauðafærum og markvörður
þeirra átti örugglega sinn besta leik
frá upphafi. Lið Melsungen á hins
vegar mikið hrós skilið,“ sagði Aron.
Ekki er hægt að sleppa Aroni án
þess að spyrja hann út í komu
tveggja góðra vina hans í þýsku Bun-
desliguna, en á síðustu dögum hafa
þeir Ólafur Gústafsson og Stefán
Rafn Sigurmannsson gengið í raðir
toppliðanna í Þýskalandi. Ólafur yf-
irgaf FH og samdi við Flensburg og
í fyrradag gekk Stefán Rafn frá
samningi við Rhein-Neckar Löwen.
Hafnfirðingarnir þrír, sem eru mjög
góðir félagar, eru á mála hjá þremur
efstu liðunum í deildinni.
Stefán á þetta skilið
„Þetta er algjör snilld og virkilega
ánægjulegt. Þetta sýnir bara hvað
við Íslendingar eigum hæfileikaríka
handboltamenn. Þarna meiðast leik-
menn úr tveimur af bestu liðunum í
deildinni og það er leitað til Íslands
til að fylla í þeirra skörð. Þetta er
gríðarlega mikil viðurkenning fyrir
handboltann heima á Íslandi.
Stefán Rafn á þetta tækifæri fylli-
lega skilið. Hann er búinn að vera
bestur í yfirburðaliði landsins og hef-
ur sýnt það á landsliðsæfingum að
hann á fullt erindi í þetta. Þegar ég
sá að Uwe Gensheimer meiddist
svona illa þá fannst mér eðlilegt að
Gummi myndi sækja Stefán í lið sitt.
Auðvitað er þetta stórt stökk en ég
hef fulla trú á honum. Hann er stór
og sterkur, er fjölhæfur og góður
varnarmaður,“ sagði Aron.
Óli á bara eftir að verða betri
„Óli hefur byrjað virkilega vel hjá
Flensburg. Ég sagði við hann daginn
fyrir fyrsta leikinn hans að þar sem
hann væri óþekkt stærð þá ætti hann
frekar að láta taka sig út af fyrir að
klikka úr tveimur skotum í röð held-
ur en að þora ekki að skjóta á mark-
ið. Hans styrkleiki er að koma á
ferðinni og negla á markið og hann
hefur nýtt tækifæri sitt virkilega vel.
Hann hefur ekki bara skorað 5 mörk
í síðustu tveimur leikjum heldur hef-
ur þjálfarinn verið mjög ánægður
með framlag hans í vörninni. Óli á
bara eftir að verða betri þegar hann
hefur kynnst hlutunum betur og er
kominn meira inn í tungumálið,“
sagði Aron.
Auknar kröfur og meiri pressa
Aron er ekki nema 22 ára gamall
en er samt orðinn lykilmaður í lands-
liðinu og gegnir æ stærra hlutverki
með besta félagsliði heims, Kiel.
Tæpur einn mánuður er þar til flaut-
að verður til leiks á heimsmeist-
aramótinu sem haldið verður á
Spáni. Á því móti kemur örugglega
til með að mæða mikið á Aroni og
mikilvægt fyrir landsliðið að hann
verði í sínu besta formi. Spurður
hvort hann sé farinn að hugsa um
HM sagði Aron:
„Maður byrjar alltaf í byrjun des-
ember að leiða hugann að stórmót-
unum með landsliðinu en það gefst
kannski ekki mikill tími. Það er þétt
leikið í deildinni. Við eigum til að
mynda leik þann 26. desember. Síðan
kem ég heim 27. desember, fer beint
á æfingu og spila tvo leiki með lands-
liðinu 28. og 29. desember. Ég fann
fyrir því á Ólympíuleikunum og eftir
þá að það eru settar meiri kröfur á
mig og það er komin meiri pressa.
Ég nýti mér það frekar heldur en að
stressast upp. Nú þegar ljóst er að
Arnór Atlason verður ekki með á
HM þá býst ég við því að fái ennþá
minni hvíld en það skapast líka tæki-
færi fyrir leikmenn eins og Ólaf
Bjarka, Ólaf Guðmundsson og Ólaf
Gústafsson. Eins og hefur sýnt sig að
undanförnu er eins manns dauði ann-
ars brauð.“
Aron segir að fjarvera Arnórs og
sú staðreynd að Ólafur Stefánsson sé
hættur sé auðvitað blóðtaka fyrir
landsliðið en þrátt fyrir það er hann
nokkuð bjartsýnn. „Það verður gam-
an að mæta á æfingarnar með lands-
liðinu núna í lok desember og sjá
keppni milli manna. Það er hörku-
samkeppni um að komast í hópinn og
það getur enginn leyft sér að slaka á.
Ég held að við getum spjarað okkur
vel á HM og ég held að það henti
okkur vel að nú verður ekki milliriðill
heldur farið beint í útsláttarkeppni í
sextán liða úrslitunum,“ sagði Aron.
„Mikil viðurkenning fyrir
handboltann á Íslandi“
Morgunblaðið/Ómar
Fyrstur Aron Pálmarsson var fyrstur af Hafnfirðingunum ungu til að spila í Þýskalandi og er búinn að festa sig vel í
sessi hjá meistaraliði Kiel. Nú eru Ólafur Gústafsson og Stefán Rafn Sigurmannsson líka komnir í topplið.
Aron Pálmarsson ánægður að fá tvo vini sína úr Hafnarfirði í þýsku Bundeslig-
una Tilbúinn á ný eftir meiðsli í nára Tilbúinn í auknar kröfur með landsliðinu
ÍÞRÓTTIR 3
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 12. DESEMBER 2012
Svíinn ZlatanIbrahimovic
var á skotskónum
með liði Paris SG
í frönsku 1. deild-
inni í knatt-
spyrnu í kvöld.
Svíinn snjalli
skoraði þrennu á
25 mínútna kafla
þegar Parísarliðið sigraði Val-
enciennes, 4:0 á útivelli. Zlatan hefur
þar með skorað 14 mörk í þeim 13
leikjum sem hann hefur spilað í
deildinni og er hann markahæstur.
Paris SG er í öðru sæti deildarinnar,
er tveimur stigum á eftir Lyon sem á
leik til góða.
Íris Ósk Hilmarsdóttir, 15 áragömul sundkona úr ÍRB, sló 15
ára gamalt Íslandsmet Kolbrúnar
Ýrar Kristjánsdóttur í telpnaflokki
á Aðventumóti ÍRB í 50 metra laug
sem haldið var í Reykjanesbæ um
síðustu helgi. Íris synti 50 metra
baksund á tímanum 31,26 sekúndum
en gamla metið sem var í eigu Kol-
brúnar Ýrar hafði staðið frá árinu
1997.
Kristinn Pálsson, fimmtán árakörfuboltapiltur úr Njarðvík,
fór í gær til Rómar á Ítalíu þar sem
hann æfir með unglingaliði Stella
Azzurra Academy næstu daga og fer
síðan með því á sterkt mót í Barce-
lona. Þar leikur Kristinn með ítalska
liðinu gegn Barcelona og Hospitalet
frá Spáni og Værlöse frá Danmörku.
Þetta kemur í framhaldi af því að
umboðsmaður sá til Kristins með
U15 ára landsliði Íslands á móti í
Kaupmannahöfn í sumar og falaðist
eftir því að fá hann lánaðan til að
spila á mótinu á Spáni.
Þýski handboltamarkvörðuinn Jo-hannes Bitter hefur hafið æf-
ingar á nýjan leik með þýska liðinu
Hamburg en hann sleit krossband í
hné í marsmánuði á þessu ári. Bitter
verður í leikmannahópi Hamburg í
bikarleik gegn Emsdetten í kvöld en
hinn stóri og stæðilegi Bitter hefur
verið talinn einn af betri markvörð-
um heimsins undanfarin ár. Með
Emsdetten leika Ólafur Bjarki
Ragnarsson og Ernir Hrafn Arn-
arson en lið þeirra er í 2. sæti þýsku
B-deildarinnar.
Nökkvi Gunn-arsson,
kylfingur úr Nes-
klúbbnum, held-
ur áfram að leika
á lítilli mótaröð
fyrir atvinnu-
menn á Flórída.
Nökkvi lauk í
gær leik á
Eastwood-vellinum og lék hringina
tvo á samtals tveimur yfir pari.
Nökkvi lék fyrri hringinn á 74 högg-
um sem er tvö högg yfir pari og hinn
síðari á parinu. Nökkvi segir á Fa-
cebooksíðu sinni að völlurinn hafi
verið erfiður og hann hafi því verið
nokkuð sáttur við skorið.
Fólk folk@mbl.is
Nicola Leali, 19 ára gamall markvörður Juven-
tus, hefur sett sér það takmark að taka við af
Gianluigi Buffon hjá aðalliði félagsins eftir
þrjú ár.
Leali er talinn einn allra efnilegasti mark-
vörður Juventus en hann kom til félagsins frá
Brescia í sumar. Til að stöðva ekki þróun hans
var Lealo lánaður til Lanciano í B-deildinni.
„Ég myndi glaður vilja leysa Buffon af eftir
þrjú ár,“ segir Leali. „Buffon er fyrimyndin
mín. Ég var ótrúlega stoltur að deila búnings-
klefa með honum og Marco Storari í byrjun
tímabilsins áður en ég var lánaður,“ segir Leali sem ætlar sér að
spila fyrir Juventus. „Ég er strax byrjaður að láta mig dreyma
um að snúa aftur til Juventus og verða varamaður Buffons,“ segir
Leali sem er samningsbundinn Juventus til 2017. tomas@mbl.is
Vill taka við af Buffon
Nicola
Leali
Fremsta dómarapar Íslands í handbolta, Ant-
on Gylfi Pálsson og Hlynur Leifsson, hafa
verið valdir til að dæma á heimsmeistaramóti
karla í handknattleik sem fram fer á Spáni
dagana 11. til 27. janúar á næsta ári.
Anton Gylfi og Hlynur hafa verið á meðal
fremstu dómarapara í Evrópu undanfarin ár
og fengið stór verkefni í Evrópukeppnum fé-
lagsliða, bæði í Meistaradeild og undan-
keppnum landsliða.
Þeir félagarnir verða á meðal 16 dómara-
para sem munu dæma á mótinu.
Anton Gylfi og Hlynur dæmdu í úrslitakeppni Evrópumótsins
í Serbíu í janúar á þessu ári og fengu mjög góða dóma fyrir
frammistöðu sína.
tomas@mbl.is
Anton og Hlynur á HM
Anton Gylfi
Pálsson
Will Hughes, 17 ára gamall miðjumaður
Derby í ensku B-deildinni í knattspyrnu, hefur
slegið rækilega í gegn á tímabilinu eftir að
festa sér sæti í byrjunarliðinu. Hann hefur
vakið áhuga stórliða í úrvalsdeildinni með
frammistöðu sinni en Man. City, Liverpool og
Arsenal eru öll sögð fylgjast grannt með Hug-
hes sem spilaði sinn fyrsta leik fyrir U21 árs
landslið Englands á dögunum.
Breskir miðlar greindu frá því um helgina
að spænska stórliðið Barcelona væri einnig
áhugasamt um piltinn og er hætta á því að
hann yfirgefi liðið í janúar.
„Við höfum ekki fengið tilboð frá neinum og svo sannarlega
ekki Barcelona,“ segir Nigel Clough, knattspyrnustjóri Derby.
„Við vissum samt alltaf að hann yrði eftirsóttur.“ tomas@mbl.is
Barca horfir til Derby
Will
Hughes