Morgunblaðið - 17.05.2013, Blaðsíða 21
FRÉTTIR 21Innlent
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 17. MAÍ 2013
Viðar Guðjónsson
vidar@mbl.is
Hreppsnefnd Rangárþings ytra
samþykkti á fundi sínum á mánudag
að leitað yrði álits hjá Sambandi ís-
lenskra sveitarfélaga um réttaráhrif
þess ef sveitarfélagið lýsti því yfir við
embætti sýslumanns að það legðist
gegn því að fasteignir yrðu boðnar
upp á nauðungaruppboði. Tillagan
barst frá minnihluta Á-lista en fékk
samhljóma samþykki hreppsnefnd-
armanna D-lista, sem eru í meiri-
hluta í hreppsnefndinni.
Vandamál í sveitarfélaginu
Í greinargerð með tillögunni segir
að fulltrúar Á-lista telji að kanna
beri hvort fresta megi nauðungarsöl-
um í sveitarfélaginu á meðan óvissa
ríkir um lögmæti útreikninga á verð-
tryggðum lánum. Þrjú dómsmál eru
nú rekin fyrir dómstólum þar sem
tekist er á um lögmæti útreiknings
og gildi verðtryggðra lána.
„Það er virkilegt vandamál hér í
sveitarfélaginu, sem og víðar, hve
margar fasteignir hafa farið á upp-
boð og fallið í skaut banka og Íbúða-
lánasjóðs. Þær standa nú auðar,“
segir Guðfinna Þorvaldsdóttir, odd-
viti Á-lista.
Aðspurð hvort hún telji að sveit-
arfélögin hafi vald til þess að beita
sér í málum sem tilheyra öðru
stjórnsýslustigi segir hún sveitarfé-
lagið líta svo á að því beri að kanna
rétt íbúa samkvæmt 73. gr. nauðung-
aruppboðslaga. Þar er kveðið á um
að ef upp rís ágreiningur á milli gerð-
arþola og gerðarbeiðenda beri sýslu-
manni að vísa málum frá eða fresta
þeim þar til úrskurður héraðsdóms
liggur fyrir um lögmæti krafna.
„Við leitum lögfræðiálits um það
hvað sveitarfélaginu sjálfu er heimilt
að gera. Við viljum kanna hvort okk-
ur er heimilt að banna ríkisvaldinu
að fara gegn íbúunum í samræmi við
73. greinina. Við erum ekki að biðja
ríkið að fella niður kröfur eða ógilda
þær, heldur að þessi mál fari í réttan
farveg með tilliti til réttmætis krafn-
anna. Ef sveitarfélaginu er ekki
heimilt að beita sér með þessum
hætti þá munum við leita allra leiða
til þess að aðstoða íbúana í að fá upp-
lýsingar um rétt sinn til andmæla,“
segir Guðfinna.
Hjá Sambandi íslenskra sveitarfé-
laga fengust þær upplýsingar að enn
hefði erindið ekki borist og því væri
ekki tímabært að tjá sig um málið.
Sveitarfélagið vill beita sér
gegn nauðungaruppboðum
Rangárþing ytra vill bíða með nauðungaruppboð vegna óvissu um lánasamninga
www.myndasafn.is
Hella Hreppsnefnd Rangárþings ytra samþykkti á fundi að leita álits hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
Á aðalfundi Hagsmuna-
samtaka heimilanna sem
haldinn var 15. maí var meðal
annars samþykkt ályktun þar
sem skorað er á sveitarfélög
að stemma
stigu við nauðungarsölum
sýslumanna og öðrum fulln-
ustugerðum gagnvart íbúum
sveitarfélaganna. Svo beri að
gera í ljósi þess að vafi leiki á
um lögmæti slíkra aðgerða
vegna óréttmætra fjárkrafna í
fasteignalánasamningum.
,,Einkum og sér í lagi er átt
við ákvæði sem kveða á um
beina nauðungarsölu án und-
angengins dómsúrskurðar, en
slíkt gengur í berhögg við
reglur Evrópska efnahags-
svæðisins um neytendavernd
sem fela í sér ótvíræða
skyldu dómstóla og úrskurð-
araðila að gæta sérstaklega
að neytendarétti varðandi
lánssamninga,“ segir í álykt-
uninni.
Á vef embættis sýslu-
mannsins í Reykjavík kemur
fram að í apríl hafi 154 fast-
eignir verið seldar nauðungar-
sölu það sem af er árinu. Þar
má jafnframt sjá að það sem
af er ári eru skráðar nauð-
ungarsölubeiðnir 836. 505
fasteignir voru seldar nauð-
ungarsölu allt árið 2012.
Skora á
sveitarfélög
að beita sér
ÁLYKTUN HAGSMUNA-
SAMTAKA HEIMILANNA