Morgunblaðið - 29.03.2014, Blaðsíða 4
4 ÍÞRÓTTIR
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 29. MARS 2014
VIÐHORF Á LAUGARDEGI
Það var skemmtilegt, og
meiri forréttindi en ég gerði mér
grein fyrir, að fá að setjast niður
með Robbie Fowler um síðustu
helgi og spjalla stuttlega við
hann. Fowler var hress, á öðrum
bjór og tók því ekkert illa þó ég
viðurkenndi United-ást mína.
Af fréttum að dæma virðast
bjórarnir hafa orðið fullmargir
hjá Fowler, sem nennti ekki að
sinna öllum þeim fjölmörgu
stuðningsmönnum sínum og Liv-
erpool sem vildu nálgast hann
daginn eftir. Margir fengu þó
mynd af sér með kappanum eða
ómetanlega áritun.
Þegar ég hugsa um Fowler
koma nefplástrarnir hans strax
upp í hugann. Þeir eru alveg
merkilegt fyrirbæri. Plástrar sem
áttu að auðvelda öndun. Nokkrir
knattspyrnumenn virtust hafa á
þessu tröllatrú en svo hættu allt
í einu allir að nota þá, enda álíka
mikið gagn í þeim fyrir atvinnu-
fótboltamenn og í töfradrykkn-
um í Space Jam.
Fleiri svona nýjungar hafa
vakið forvitni manns og áhuga,
en svo reynst algjört kjaftæði.
Dæmi um það var þegar Robin
van Persie og fleiri fóru að venja
komur sínar til Serbíu þar sem
legkökuvökvi úr hryssum var
notaður til að ná skjótari bata af
meiðslum. Vinsældir slíkra með-
ferða virðast síður en svo miklar
í dag – kannski vegna þess að
einhver benti á að sérfræðing-
urinn í Serbíu væri ekki í neinum
fötum.
Ég skil samt fullkomlega að
meiðslapésar eins og Van Persie
vilji prófa eitthvað nýtt. Ég var
búinn að rífa upp sömu togn-
unina í öðru lærinu sirka 70 sinn-
um áður en mér var bent á að
láta sprauta einhverri saltvatns-
lausn í lærið, sem hefur haldið
síðan.
BAKVÖRÐUR
Sindri Sverrisson
sindris@mbl.is
HANDBOLTI
Guðmundur Hilmarsson
gummih@mbl.is
Enn og aftur verðum við vitni að því
að handknattleiksforystan í heim-
inum skorar sjálfsmark. Úrskurður
evrópska handknattleikssambands-
ins, EHF, í máli sem það hafði til
rannsóknar vegna framgöngu Tal-
ants Dujshebaevs, þjálfara pólska
handknattleiksliðsins Kiecle, í garð
Guðmundar Þórðar Guðmunds-
sonar, þjálfara þýska liðsins Rhein-
Neckar Löwen, er gott dæmi um þá
spillingu sem ríkir og hefur ríkt um
árabil innan alþjóðahandknattleiks-
hreyfingarinnar.
Að Dujshebaev sleppi við að fá
langt bann og þurfi einungis að reiða
fram smáaura í sekt er hneyksli og
gerir ekkert annað en að sverta
ímynd þessarar skemmtilegu
íþróttar sem lengi vel hefur verið
nefnd þjóðaríþrótt okkar Íslendinga.
Maður spyr sig: Hvað var eftirlits-
maður EHF á leiknum að gera?
Hann hefur greinilega ekki verið að
vinna sína vinnu eða hefur lokað aug-
um fyrir því sem hann varð vitni að.
Í annað sinn á skömmum tíma
gerir EHF hressilega í brækurnar
en á dögunum var Milina Knezevic,
ein af bestu handknattleikskonum
heims, úrskurðuð í aðeins tveggja
leikja bann fyrir að skalla mótherja
sinn í andlitið í leik í Meistaradeild-
inni. Skilaboðin sem EHF sendir
með þessum vægu dómum eru væg-
ast sagt vond en bæði Dujshebaev og
Knezevic hefðu að mínu mati átt að
fá langt keppnisbann enda bæði sek
um að að beita grófu ofbeldi sem á
hvorki heima innan vallar né utan
hans.
Mætast aftur á mánudaginn
Aganefnd EHF skýlir sér á bak
við það að ekki séu nægar sannanir
fyrir því að Dujshebaev hafi slegið
Guðmund Þórð eftir leik Kielce og
Löwen í Meistaradeildinni, og það á
afar viðkvæman stað, en sú peninga-
upphæð sem Dujshebaev er gert að
greiða í sekt er fyrir framkomu hans
á fréttamannafundi eftir leikinn.
Bara sú framkoma þjálfarans hefði
réttlætt nokkurra leikja bann enda
fór hann gjörsamlega yfir strikið
með leikrænum tilburðum sínum og
reyndi ítrekað að sverta mannorð
Guðmundar Þórðar.
Það verður fróðlegt að fylgjast
með síðari viðureign Löwen og
Kielce sem fram fer í Mannheim í
Þýskalandi á mánudagskvöldið. Þar
þurfa „ljónin“ hans Guðmundar að
vinna upp fjögurra marka tap frá
fyrri leiknum og ég er ekki í vafa um
að Guðmundur, þessi frábæri þjálf-
ari, nái að „gíra“ sína menn vel upp
og þeir hjálpi honum að slá Dujs-
hebaev og lærisveina hans úr
keppni. Alltént held ég með Löwen í
þessu einvígi en vona þó að Þórir
Ólafsson standi sig fyrir pólska liðið í
leiknum.
Ánægjuleg endurkoma
Alexanders
Vendum okkar kvæði í kross. Ís-
lenska landsliðið í handknattleik var
valið í fyrradag fyrir tvo vináttuleiki
gegn Austurríki en leikirnir eru liðir
í undirbúningi fyrir leikina á móti
Bosníumönnum í júní um farseðilinn
á HM í Katar á næsta ári. Eins og
Alexander Petersson greindi frá í
samtali við undirritaðan á dögunum
er hann tilbúinn að spila með lands-
liðinu á nýjan leik og það er mikið
ánægjuefni að „vélmennið“ eins og
Alexander er oft kallaður er kominn
til baka en hans hefur verið sárt
saknað á tveimur síðustu stórmót-
um.
Með Alexander innanborðs er ís-
lenska landsliðið töluvert öflugra
jafnt í vörn sem sókn og handbolta-
áhugafólk, sem ætlar að berja liðið
augum í leikjunum við Austurríki um
næstu helgi, fyrst að Ásvöllum og
síðan í Ólafsvík, fær vonandi að sjá
Alexander og strákana okkar alla
skila góðum leikjum.
Val landsliðsþjálfarans Arons
Kristjánssonar á landsliðshópnum
kemur fáum á óvart. Þetta er sá leik-
mannahópur sem hann hefur unnið
að mestu með frá því hann tók við
keflinu af Guðmundi Þórði Guð-
mundssyni. Ég hefði þó viljað sjá
línumanninn Atla Ævar Ingólfsson
fá tækifæri. Hann hefur staðið sig af-
ar vel með liði Nordsjælland í
dönsku úrvalsdeildinni og hefur ver-
ið þar í stóru hlutverki.
EHF sendir
vond skilaboð
Morgunblaðið/Ómar
Endurkoma Alexander Petersson spilar á ný með landsliðinu þegar það
mætir Austurríki næstkomandi föstudagskvöld og á laugardag.
FÓTBOLTI
Benedikt Bóas
benedikt@mbl.is
FH-ingar urðu fyrir miklu áfalli
þegar vinstri bakvörður liðsins, Sam
Tillen, fótbrotnaði illa í leik með sín-
um mönnum gegn HK í Lengjubik-
arnum. „Ég man að ég ætlaði svo-
leiðis að dúndra boltanum frá en ég
hlýt að hafa þrumað í leikmann HK
sem orsakaði brotið,“ segir Tillen
nokkuð brattur miðað við aðstæður.
Aukaspyrna var dæmd á Tillen fyrir
brot en sjálfur lá hann í grasinu, fót-
brotinn.
„Þegar ég lá í grasinu hugsaði ég
með mér að þetta væri eitthvað al-
varlegt, ég fann það alveg. En þetta
var óþarfa tækling hjá mér því við
vorum að vinna leikinn stórt.“
FH vann leikinn 10:1 en staðan
var 7:1 þegar Tillen fór í hina af-
drífaríku tæklingu og fótbrotnaði.
Þrátt fyrir glæstan sigur vörpuðu
meiðslin skugga yfir sigurgleðina.
Það er vont að sjá liðsfélaga sinn
þjást og Tillen gæti orðið lengi frá
knattspyrnuiðkun.
Finnst hann skulda
FH leik í sumar
Tillen hefur áður meiðst alvarlega
en hann varð fyrir því þegar hann
var í unglingaliði Chelsea. Hann
gekk í raðir Lundúnaliðsins þegar
hann var aðeins 11 ára gamall og
hefur oft skrifað um reynslu sína á
fótbolta.net, hvernig það sé að vera
unglingur í stórliði.
Hann er alinn upp í Newbury þar
sem þeir hann og Joe bróðir hans
byrjuðu að sparka sín á milli. Joe
hefur einnig spilað hér á landi með
Fram, Val og Selfossi þar sem hann
er núna. Sam Tillen var í Chelsea
þangað til hann var tvítugur, fór til
Brentford í tvö ár áður en hann söðl-
aði um og samdi við Fram eftir að
hafa ráðfærst sig við Ólaf Inga
Skúlason sem þá var leikmaður
Brentford. Eftir fimm ár í Safamýr-
inni fór hann til FH. „Ég meiddist
svolítið þegar ég var 16-19 ára og
einu sinni var ég frá í eitt og hálft ár.
En síðan þá hef ég verið laus við
meiðsli sem betur fer.
Ég stefni ótrauður á að spila með
FH í sumar. Það er mitt markmið og
ég ætla mér að gera hvað sem ég get
til að ná því markmiði. Mér finnst ég
skulda öllum hjá FH það.“
Nennir ekki sjónvarpsglápi
Tillen vinnur í Gamla Lækjar-
skóla í Hafnarfirði og kann vel við
bæði starfið og þá sem vinna með
honum. „Ég er stuðningsfulltrúi og
er einnig með nokkra enskukúrsa
fyrir níunda bekk.“
Þegar viðtalið við Tillen var tekið í
vikunni hafði hann verið heima hjá
sér í Hafnarfirði í tvo daga og leidd-
ist þófið. „Að sitja heima og horfa á
sjónvarpið er ekki alveg fyrir mig,“
segir hann og brosir. „Ég stefni að
því að fara í ræktina um helgina og
æfa vel undir stjórn Silju Úlfars-
dóttur og Jónasar Grana sjúkra-
þjálfara. Ég ætla að reyna að stíga í
fótinn og reyna aðeins á hann,
styrkja beinið og vöðvana í kring.
Ég hitti lækni eftir átta vikur og
ætla að vera í sem bestu líkamlegu
ástandi við skoðunina.“
Tillen fékk mikið af skilaboðum
víða að þegar fréttir um fótbrot hans
bárust um netmiðla í síðustu viku.
Twitter samfélagið óskaði honum
góðs bata. „Auðmjúkur segi ég takk
til þeirra sem sendu mér skilaboð.
Sömuleiðis vil ég þakka fyrir mig til
HK, bæði leikmanna og þeirra sem
koma að hjá félaginu. Auðvitað FH-
ingum öllum líka því stuðningur
þeirra var gríðarlegur, nánast yf-
irþyrmandi en allar kveðjurnar og
stuðningurinn skipti mig máli. Góð-
vild allra mun vera mér hvati til að
snúa aftur sterkari en áður.“
Hinn brotlegi brotnaði
Sam Tillen leikmaður FH stefnir á að ná leik með liðinu í sumar Fótbrotn-
aði gegn HK fyrir viku Þakklátur fyrir stuðninginn sem honum barst
Morgunblaðið/Ómar
Lykilmaður Sam Tillen var í stóru hlutverki á sínu fyrsta tímabili með FH
en hann lagði upp tíu marka liðsins, næst flest allra leikmanna í deildinni.
Samuel Tillen
» Hann er 28 ára gamall Eng-
lendingur sem ólst upp hjá
Chelsea og var þar til 2005 en
fékk ekki tækifæri með aðallið-
inu. Hann spilaði síðan með
Brentford í C-deildinni í tvö ár.
» Tillen gekk til liðs við Fram í
ársbyrjun 2008 og lék með lið-
inu í fimm ár, alls 98 leiki í
efstu deild.
» Hann fór til FH í fyrra og lék
20 leiki með liðinu í efstu deild
2013 en fótbrotnaði í leik gegn
HK 21. mars.