Morgunblaðið - 05.06.2014, Page 29

Morgunblaðið - 05.06.2014, Page 29
Það er sérstaklega minnis- stætt hvað hún var þeim ávallt góð á gamlárskvöld þegar allir voru uppteknir við flugelda, en hundarnir skulfu af hræðslu inni í herbergi. Þá sat amma hjá þeim og róaði þá. En nú er kominn tími til að kveðja elsku ömmu okkar. Við munum ætíð búa að yndislegum og dýrmætum minningum um hana. Amma kær, ert horfin okkur hér, en hlýjar bjartar minningar streyma um hjörtu þau er heitast unnu þér, og hafa mest að þakka, muna og geyma. Þú varst amma yndisleg og góð, og allt hið besta gafst þú hverju sinni, þinn trausti faðmur okkur opinn stóð, og ungar sálir vafðir elsku þinni. Þú gættir okkar, glöð við undum hjá, þær góðu stundir blessun, amma kæra. Nú hinstu kveðju hjörtu okkar tjá í hljóðri sorg og ástarþakkir færa. (Ingibjörg Sigurðardóttir) Við munum alltaf sakna þín, elsku amma. Hvíldu í friði. Þínar, Hjördís Maríanna, Sara Hildur og Anna Rakel. Það lá eftirvænting í loftinu þegar von var á Laugu frænku í sveitina. Hún var töluvert yngri en mamma, alltaf svo kát og áhyggjulaus og til í að leika við okkur bræður. Það fylgdi henni ferskur keimur af öðrum heimi, jafnvel útlöndum. Það birtist nammi sem ekki fékkst í kaupfélaginu og líka dót. Lauga var sú af Gauksstaða- systrum sem ekki fékk að fara í Kvennaskólann á Blönduósi, enda fannst afa á Gauk nóg fyr- ir Húnvetninga að fá þrjár af hinum föngulegu dætrum þeirra ömmu til búsetu í hér- aðinu. Held að systurnar þrjár hér fyrir norðan hafi stundum skrafað um að seint ætlaði litla systirin að finna mann, enda komin vel á þrítugsaldurinn. En svo birtist hún einn sum- ardaginn með hann Jón Gunnar uppá arminn sem heillaði þær allar og varð hennar lífsföru- nautur til lokadags. Hún lærði hjúkrun og forframaðist í þeim fræðum í Bandaríkjunum og átti síðan langa og farsæla starfsævi. Heyrt hef ég, að oft hafi hún í starfi látið vaktaplön lönd og leið til að fylgja skjólstæðingi að leiðarlokum lífsins. Hjúkr- unarkona var hún, ekki hjúkr- unarfræðingur, fannst það orð smækka þetta göfuga starf. Heimili hennar og Jóns var oft áningarstaður þegar leið einhvers í fjölskyldunni lá til Reykjavíkur. Þau hjón áttu líka heima í Bolungarvík í nokkur ár og þangað var gott að koma. Það var ætíð glaðværð og hlýja í öllum móttökum og viðmóti þeirra hjóna. Hin síðari ár urðu samfundir helst á ættarmótum og kveðju- stundum, vissulega rætt um að hittast oftar, líka spjallað um það í síma, en það komst ekki nógu oft í verk. Nú er komið að kveðjustund hennar sjálfrar, sem ekki var óvænt og erfið veikindi að baki. Gauksstaðasystkinin voru fjórtán, þar af sjö systur og eru nú allar látnar, en einn bróðir lifir, Gísli Steinar. Lífssýn þeirra systra var skýr og sönn. Þeim fannst dauðinn rökréttur endir á lífshlaupinu. Þegar af- komendurnir voru teknir við amstri hversdagsins og vöxtur ættartrésins tryggður væri hlutverkinu lokið. Þær kvöddu tilbúnar til að yfirgefa þetta til- verustig og fullvissar um tilvist annars og betra, þar sem ný og spennandi viðfangsefni biðu. Við Jón bróðir og fjölskyldur þökkum langa og gefandi sam- fylgd árin öll og sendum fjöl- skyldu Laugu samúðarkveðjur. Jóhannes Torfason. Við förum norður í Hóla þegar sumrar og skoðum æskustöðvar hans Hallgríms – þú verður með okkur og segir frá byggðinni og fólkinu í sveit- inni og svo fræðumst við um hann Hallgrím. Þetta sagði hún Sigurlaug við mig í haust og hélt áfram að minna á að bráð- um kæmi vorið og þá væri stutt þar til tími væri uppi að líta á Hallgrím. Nú er vorið komið en við Sigurlaug förum víst ekki saman í Hóla, hinn samvisku- lausi sjúkdómur sem hún hefur barist við nokkuð mörg liðin ár hefur sigrað og aðfaranótt mið- vikudags næstliðinnar viku var hún ferjuð yfir það fljót þar sem engin ferja er til baka. Hver var Sigurlaug? Hún hét fullu nafni Sigurlaug Erla Jóhannesdóttir og var fædd og alin upp í Garðinum vestast á Reykjanesinu þar sem landið er flatt og grösugt eins og Hol- land í andstöðu við aðra hluta þessa svæðis sem er úfið hraun gróðursmátt. Og Sigurlaug unni þessum bletti og talaði ætíð með lotningu um þetta land æsku sinnar. Foreldrar Sigurlaugar, Jóhannes og Helga, bjuggu á bænum Gauksstöðum og þau og ætt- menni þeirra stunduðu sjóinn og voru útgerðarfólk. Og börn- in á Gauksstöðum urðu mörg og systurnar voru sendar hver af annarri norður í land á hús- mæðraskóla en fyrir þeim fór eins og sauðamönnunum í þjóð- sögunum, þær komu ekki til baka og þegar þrjár höfðu ver- ið numdar á brott af góðbænd- um húnvetnskum sagði heim- ilsfaðirinn á Gaukstöðum: nú fara ekki fleiri norður. Sigur- laug fór því ekki norður en nam hjúkrunarfræði í höfuð- borginni og hjúkrun varð henn- ar starf um langan aldur og í borginni kynntist hún mann- inum sínum, Jóni Tómassyni, og það voru ekki kynni til einn- ar stundar – það var hið far- sæla samband ævi alla. Í okkar munni, skyldmenna og tengdafólks Sigurlaugar, hét hún raunar ekki Sigurlaug – hún var ætíð kölluð Lauga og Jón maðurinn hennar var í okkar munni alltaf nefndur Nóni. Nóni og Lauga voru oft- ar nefnd bæði í einni andrá en sitt í hvoru lagi og segir það sem segja þarf um hið nána samband þeirra hjóna. Það var aldrei neinn hávaði í nærveru Laugu, hún fór um með hóg- værð og ljúfmennsku en þó með þeirri ákveðni og styrk að að engum hvarflaði að troða henni um tær. Það var ein- staklega gott að heimsækja Laugu og Nóna og njóta þess notalega og fallega umhverfis sem þau höfðu búið sér og þiggja þær veitingar sem aldrei gleymast úr eldhúsinu hennar Laugu. Því fylgir tóm og söknuður að skynja að oftar verður ekki komið til Laugu til að njóta hennar gestrisni og vináttu og fara bættari frá garði við kveðjustund á varinhellu. Hann sem öllu ræður mark- ar okkur mannanna börnum tíma og nú er tími svilkonu minnar og vinar á enda runn- inn þó enn væri margt ógert og ferðin til Hóla verður ekki far- in þó vorið sé komið. Hin góða minning um þig, Sigurlaug, mun lifa þó söknuður sé sár við brottför. Innilegar samúðar- kveðjur til þín, Nóni, og til fjöl- skyldu þinnar allrar frá mér og systur þinni og okkur öllum í fjölskyldunni. Megi Drottinn sem öllu ræður hugga ykkur og styrkja á dögum komandi. Jóhannes Sigvaldason. Minningarnar staldra við á unglingsárum mínum. Sigur- laug Erla kom í fjölskyldu okk- ar þegar Jón Gunnar bróðir minn kynnti hana fyrir okkur. Hún var svo falleg ung hjúkr- unarkona, eins og starfið hét þá. Brúðkaupsdagurinn á Gauks- stöðum í Garði í júní 1960 er minnisstæður. Það var ham- ingja í loftinu, sólskin í fallegu umhverfi við hafið og fögur græn tún. Sigurlaug Erla, eða Lauga eins og hún var alltaf kölluð, var mjög tengd þeim stað, talaði oft um hve gott væri að sjá hafið og hún naut þess síðari árin að nýju á fal- lega heimili þeirra á Þorragöt- unni. Þau sköpuðu sér einnig sælureit í sumarhúsinu í Gríms- nesi þar sem þau nutu kyrrðar, náttúru og útiveru með fjöl- skyldu og vinum. Það er erfitt að minnast Laugu öðruvísi en að tala um þau hjónin saman, slík var sam- heldni þeirra í öllu sem þau tóku sér fyrir hendur, bæði í störfum og áhugamálum, sem voru mörg. Hún var stoð Jóns í hans ábyrgðarstörfum og hann í hennar störfum sem hjúkr- unarfræðingur. Á sviði hjúkrunar veit ég að hún naut trausts og virðingar fyrir vel unnin störf. Fáa hef ég þekkt sem hugsað hafa eins vel um heilsuna alla tíð sem hún. Lauga stundaði sund, leikfimi, jóga, skíði, golf og fleira. Í því, eins og öðru, voru þau hjónin samrýmd. Umhyggjusemi um velferð allra í fjölskyldunni var einstök. Í gleði og sorg var hún alltaf til staðar. Ég minnist margra góðra stunda á heimilum okkar, á ferðalögum heima og erlendis og öllum samverustundunum með þeim og elskulegum börn- um þeirra. Um árabil var stór- fjölskyldan samankomin um áramót heima hjá þeim hjónum, á Háaleitisbraut og svo í Kúr- landi. Það var alltaf mikil til- hlökkun á okkar heimili. Þau voru höfðingjar heim að sækja og héldu öllum við efnið við spil og leiki langt fram eftir nóttu þar sem allir voru þátttakend- ur, ungir sem aldnir. Þessar stundir eru okkur öllum ógleymanlegar. Af æðruleysi og dugnaði háði hún hetjulega baráttu við ill- vígan sjúkdóm. Hún var hetja eins og hún átti kyn til, sýndi af sér einstakan þrótt og lífsvilja, vildi helst ekki að talað væri um sín veikindi. Erindi úr ljóði eftir Jón Thoroddsen kemur upp í hug- ann: Hún þolgóð þrautir bar, þá sterk, er reynd var mest; ástvinum engill var, af guði sendur bezt sorgþjáðan sefa’ að hugga og allan hugar bæta brest. Söknuður Jóns bróður, Helgu, Tómasar og Sigríðar Maríu, tengdabarna og barna- barna er mikill. Einstakur stuðningur þeirra undanfarnar vikur ber fagurt vitni um kær- leika sem ríkti þeirra á milli. Við biðjum góðan Guð að styrkja þau á erfiðum tímum. Ég og fjölskylda mín kveðj- um einstaklega ljúfa konu með þakklæti fyrir allt sem hún hef- ur verið okkur. Herdís Tómasdóttir. Margs er að minnast þegar við kveðjum Sigurlaugu vin- konu okkar. Við Óli kynntumst Laugu í gegnum Jón en þeir voru vinnufélagar til margra ára. Fyrstu kynnin voru í ferð- um eða viðburðum á vegum borgarinnar og síðar í leik og gleði. Þær eru ógleymanlegar stundirnar sem við áttum með Laugu og Jóni í Badgastein í Austurríki á skíðum og síðan allar góðu og skemmtilegu stundirnar í golfi bæði hér heima og erlendis. Að heim- sækja þau í sumarbústaðinn var yndislegt og oft var Lauga eitthvað að hugsa um skóginn sinn. Á síðustu árum hefur hún verið að grisja skóginn og hefur sonur okkar notið þess að fá tré úr lundinum hennar. Lauga var hlý og góð mann- eskja og alltaf var gott að ræða við hana um allt milli himins og jarðar. Hún kom alltaf fram við okkur sem jafningja. Eitt af því sem mér þykir gott að minnast er að hún sagði að hvatning okkar til golfiðkunar hefði hjálpað henni til að stunda golf- ið og áttum við þar margar góðar stundir. Lauga heimsótti okkur á afmæli mínu síðastliðið haust og það var yndislegt að fá þau hjón til að gleðjast með okkur á þeim tímamótum. Að kynnast og fá að umgangast manneskju eins og Laugu eru forréttindi því hún hvatti mig ávallt til góðra verka og sýndi einstaka hlýju gagnvart litlu fjölskyldunni okkar Óla. Við kveðjum Laugu með söknuði og þökkum henni fyrir það sem hún gaf okkur. Við sendum samúðarkveðjur til Jóns, barna þeirra og fjöl- skyldna. Takk fyrir, kæra Lauga, og hvíl í friði. Kristín og Ólafur. Ein besta vinkona mín, Sig- urlaug Jóhannesdóttir frá Gaukstöðum í Garði, er látin. Lauga var traust og einlæg vin- kona mín frá barnæsku og mig langar til þess að minnast hennar með örfáum orðum. Við fæddumst og ólumst upp í Garðinum suður með sjó, hún á Gaukstöðum en ég á Meiða- stöðum. Við kynntumst kornungar í barnaskóla, en kannski hvað best í Héraðsskólanum á Laug- arvatni þar sem við vorum her- bergissystur. Trúnaðartraustið og vináttan tengdu okkur alla ævi sterkum og órjúfanlegum böndum. Lauga var afar heilsteyptur persónuleiki, sviphrein og glæsileg, sterk, en jafnframt ljúf og hlý. Hún var glaðsinna og hrókur alls fagnaðar í vina- hópi. Við hittumst gjarnan ann- að slagið nokkrar æskuvinkon- ur og köllum okkur „Stelpurnar úr Garðinum“. Við skiptumst á að bjóða hver annarri heim í kaffi og spjall. Þar skipaði Lauga frá Gauk sinn hressilega og notalega sess. Lauga var hjúkrunarfræð- ingur og lifði afar heilsusam- legu lífi, naut útivistar í golfi með manni sínum, Jóni G. Tóm- assyni, og ekkert virtist eðli- legra en illvígur sjúkdómur hefði ekki erindi sem erfiði þar sem hún var. Það var raunar sérstök lífsreynsla fyrir mig sem hef aldrei slegið golfkúlu að sjá svipinn á þeim hjónum þegar þau voru að segja frá golfferðum sínum eða lýsa land- kostum þar sem golfvellir voru dýrustu perlurnar. Það er gott að muna þær stundir lífsorku og hreysti en á vissan hátt enn sárara að sjá þessa síðustu orr- ustu við vágestinn tapast, þótt það sé auðvitað það eina sem við getum gengið út frá sem vísu í lífinu, að eitt sinn skal hver deyja. Ég mun sakna Laugu mikið, en sárastur er missirinn fyrir Jón, eiginmann hennar, og fjöl- skyldu þeirra. Ég flyt þeim ein- lægar samúðarkveðjur frá mér og eiginmanni mínum. Ég bið Guð að blessa okkur minningu Laugu vinkonu. Guðrún Jónsdóttir (Rúna). Það er komið að kveðju- stund, kær vinkona og vinnu- félagi er fallin frá. Hópurinn okkar varð til í tengslum við Öldrunarlækningadeild Land- spítalans – móttökudeild í Há- túni, en þar unnum við allar um lengri eða skemmri tíma. Þegar deildin flutti á Landa- kot 1997 dreifðumst við víða, en þá fundum við hversu dýrmæt vinátta okkar var og ákváðum að halda áfram að hittast og höfum gert óslitið síðan. Við tókum okkur hlé yfir sumar- mánuðina, en hlökkuðum alltaf til að koma til Laugu í sept- ember. Óbilandi áhugi okkar á hjúkrun og mikilvægi þess starfs var það sem umræður okkar snerust um, þótt við vær- um ekki allar að störfum nú seinni árin. Minningarnar flæða verm- andi og hlýjar eins og hún var sjálf, jákvæð, uppörvandi og umhyggjusöm og næm á líðan sjúklinga sinna. Sigurlaug var verðugur fulltrúi sannrar hjúkrunar og vonandi auðnast stéttinni okkar að missa ekki sjónar á þeirri hugsjón. Hugur okkar er hjá Jóni og fjölskyldunni. Guð blessi ykkur og við vottum okkar innilegustu samúð. Í minningu mætrar konu margt um hugann fer. Eitt líf með gleði og vonum, úr heimi er farin hér. Ég bið að hana taki og geymi í faðmi sér, sá er yfir vakir og heyrir allt og sér. (Sv. G.) Guðlaug, Hanna María, Hanna, Matthildur, Rósa og Sigrún. Hún var frá Gauksstöðum í Garði úr stórum systkinahópi, stolt af sínum uppruna sem kom afar vel í ljós í einni af ferðum Öldrunardeildar Hjúkr- unarfélags Íslands þar sem hún var fjörmikill kynnir sem geisl- aði af væntumþykju og stolti vegna sinna uppeldisstöðva. Hún hafði yfir sér þessa lát- lausu reisn sem er laus við allt oflæti. Glaðsinna, hláturmild og skemmtileg, góð manneskja sem alltaf mátti treysta. Þessi síunga og kvika manngerð sem einkennir svo marga af okkar kynslóð. Við hittumst flestar í fyrsta sinn 2. janúar 1952 í „kirkj- unni“, þáverandi kennslusetri Hjúkrunarskóla Íslands. Laugu fylgdi gleði, brosmildi og hlát- ur. Námið sóttist vel hjá okkur öllum en sumar okkar féllu yf- irmönnum betur í geð en aðrar og um tíma velti Lauga því al- varlega fyrir sér að hætta námi vegna þess vanmats sem hún mátti þola á pörtum. Hún var ekki ein um það. En sem betur fer lauk hún námi, fór með Rúnu til Banda- ríkjanna þar sem þær kynntust nýjungum og manneskjulegra vaktafyrirkomulagi en tíðkaðist hér þá. Eftir heimkomuna unnu þær stöllur ötullega að því að laga vaktakerfið hér fyrir okk- ur hinar og þær sem á eftir komu. Þær breyttu viðhorfum til frambúðar. Hún hitti svo hann Nóna sinn sem hún giftist og eign- aðist með þrjú yndisleg börn, sem eignuðust svo fallegu barnabörnin þeirra. Lauga unni sínum ágæta manni, var mikil og sannkölluð fjölskyldumann- eskja. Þau hjón voru höfðingjar heim að sækja og er í minnum haft þegar boðið var austur í bústað þar sem dekrað var við okkur og veitt af rausn og fág- un. Allt var svo fallegt í kring- um þau. Í saumaklúbbnum hjá okkur er mikið unnið í höndum, kennt, leiðbeint og lært. En þar er líka skipst á bókum, þær ræddar og kafað í samfélagsmálin, stund- um fundnar lausnir. Það var alltaf svo gaman og gagnlegt að ræða við Laugu og þegar maður var búinn að tjá djúpstæðar pælingar og Lauga sagði án hiks, „ég er alveg sam- mála þér“ eða „núna er ég al- veg sammála þér“, þá fannst manni að marka það sem fram hafði komið og leið betur en ella. En stundum var svarið „ég get ekki verið sammála því“. Engin læti en fullkomin ein- drægni í umræðunni. Mér fannst ég hækka í sessi þegar skoðanir okkar fóru saman. Hún var óendanlega vonsvik- in þegar krabbameinið, sem ekki hafði látið á sér kræla lengi, tók sig upp aftur. Hún gerði allt sem hægt var fyrir heilsuna, reyndi að trúa lækn- unum og treysta á vísindin. Það lá henni svo fjarri að kvarta. Sl. miðvikudag var árleg vor- ferð Hjúkrunarfélags Íslands farin. Lauga hafði haft á orði að þann dag færi hún og hún fór í óvissuferðina miklu sem okkur öllum er ætluð. Ég veit ekki, frekar en aðrir, hvað við tekur að þessu lífi loknu. En sé um einhverja röðun að ræða, þá er Lauga þar sem birtan og kær- leikurinn ríkja. Þannig mun það verða í minningunni um ókomna tíð. Að leiðarlokum sendum við Jóni, afkomendum og öðrum þeirra nánustu innilegustu vin- akveðjur og biðjum þeim far- sældar og gæfu um ókomna tíð. Fyrir hönd „hollsins“ okkar, Jóna Valgerður Höskuldsdóttir. Kær vinkona okkar, Sigur- laug Erla Jóhannesdóttir, er látin. Hér kveður yndisleg kona sem alltaf var full af orku og bjartsýni. Fyrir um 35 árum ákváðum við fern hjón að fara saman í veiðiferð, njóta lands- ins og félagsskapar hvert ann- ars. Ferðafélagarnir voru sam- starfsmenn frá Reykjavíkur- borg ásamt mökum. Af þessum átta manna hópi eru nú þrír fallnir frá, þ.e. Þórður Þ. Þor- bjarnarson borgarverkfræðing- ur, Sigurlaug Aðalsteinsdóttir meinatæknir og nú Sigurlaug Erla Jóhannesdóttir hjúkrunar- fræðingur. Stefnt var að því að fara í eina veiðiferð á sumri. Ferð- irnar urðu margar og ógleym- anlegar fyrir okkur vinahópinn. Lengst af fórum við í Fróðá á Snæfellsnesi þar sem við dvöld- um í nokkra daga við veiðar, náttúruskoðun og mannlífsat- huganir. Við kölluðum okkur Fróðárvini. Þegar veiðiferðunum lauk tókum við að ferðast um landið, tókum fyrir ákveðinn lands- hluta í hverri ferð og fórum víða á þessum árum. Tvisvar hélt hópurinn til útlanda. Fyrst til Egyptalands og London og síðar um hálendi Skotlands. Vetrarsamkomur á heimilum hvert annars urðu svo fastir lið- ir hjá okkur. Auk þess sem sím- tölum og óformlegum fundum fjölgaði með árunum og vina- böndin styrktust. Í þessum hópi naut Lauga sín vel. Hún hafði alist upp í Garðinum í stórum systkina- hópi þar sem lífsbaráttan gat verið hörð og minntist hún þess oft. Hún var náttúruunnandi og hvar sem við stoppuðum var Lauga óðara komin af stað upp um hóla eða niður í fjöru. Hún var óþreytandi að skoða steina og safna þeim. Hún var ótrú- lega létt á fæti og ófáir eru þeir golfvellirnir sem hún lagði að fótum sér, en hún og maður hennar, Jón G. Tómasson, voru óþreytandi golfáhugamenn. Lauga var sannur vinur vina sinna. Hún gaf okkur ást og umhyggju í sorg og gleði í lífs- baráttunni. Við sendum Jóni og fjölskyldunni allri okkar inni- legustu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning hennar. Sonja Backman, Birgir Ísl. Gunnarsson, Sigríður Jónatansdóttir, Eggert Jónsson. MINNINGAR 29 MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 5. JÚNÍ 2014

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.