Austurland - 16.05.2013, Blaðsíða 9
916. MAÍ 2013
Fjallkonan -
veislueldhús á hjólum
Hákon Guðröðarson veitingamaður og eiginmaður hans
Hafsteinn Hafsteinsson myndlistarmaður og hönnuður frá
Norðfirði standa að baki veitingabílinn Fjallkonuna. Faðir
Hákonar, Guðröður Hákonarson, vinnur með þeim hjónum
að verkefninu en hann er sérfræðingur um kjöt og grill auk
þess sem hann er með meirapróf. Fjallkonunni verður lagt
fyrir utan Hótel Hérað á Matvæladeginum 16. maí nk.
Ritstjóri ræddi við Hákon um verkefnið og þróun ferðaþjónustu
á Austurlandi.
Hver er Hákon?
Ég heiti Hákon Guðröðarson og
er oft kallaður Hákon Hildibrand.
Ég er 26 ára og fæddur og uppalinn
Norðfirðingur. Ég hef verið að brasa
við mat eins lengi og ég man eftir mér
og mér hefur alltaf þótt skemmtilegast
í heimi að taka á móti gestum, gefa
þeim góðan mat og skemmta þeim.
Ég byrjaði rétt eftir fermingu að vinna
í hótel og veitingabransanum.Eftir að
ég útskrifaðist sem stúdent 17 ára, lá
leiðin í háskólanám í Sviss þar sem ég
lærði hótel- og veitingarekstrarfræði.
Eftir það þvældist ég um heiminn og
kom svo heim til Íslands og vann hjá
Hilton í eitt ár. Árið 2009 flutti ég heim
á Norðfjörð og rak veitingastaðinn Frú
Lúlú í eitt ár en fór aftur suður eftir
að ég lokaði staðnum. Ég fékkst við
ýmislegt næsta eina og hálfa árið, lærði
hönnun um tíma í listaháskólanum,
kenndi ástríðumatseld og gerðist
svo frægur að verða eftirsóttur
skemmtikraftur á landsvísu með
margumtalaðri munngælukennslu.
Kennslan fór mismikið fyrir brjóstið
á fólki en allir sem mættu skemmtu
sér konunglega en þó líklega enginn
betur en ég. Fyrir tveimur árum var
fyrirheitna landið í austri farið að kalla
enn og aftur. Við Hafsteinn, maðurinn
minn, ákváðum því að flytja austur til
reynslu en eftir þriggja mánaða dvöl
vorum við ákveðnir í að hér vildum
við skjóta rótum. Við höfum verið að
taka á móti og þjónusta alls konar gesti
og hópa af öllum stærðum síðustu tvö
ár. Hér eru mýmörg tækifæri fyrir
skapandi fólk sem þorir og er óhrætt
við að hafa áhrif á umhverfi sitt. Mikil
vinna er framundan hér á Norðfirði við
að koma ferðaþjónustu almennilega
á koppinn og þaðan á kortið. Við
hlökkum til að takast á við verkefni
framtíðarinnar og erum ekki á leið
héðan næstu árin.
Hver er hugmyndin og hvernig er
Fjallkonan útbúin?
Hreyfanleiki og frelsi, stærra
markaðsvæði og færri takmarkanir.
Fjallkonan er gamall amerískur
herbíll sem hefur verið innréttaður
sem veislueldhús. Verkefnið er ennþá
í þróun og verður gaman að sjá hvert
það tekur okkur næst. Það er einmitt
það frábæra við að reka veitingastað á
hjólum, maður getur farið hvert sem er.
Trukkurinn er útbúinn með
öllum helstu tækjum sem prýða gott
veislueldhús. Bak við trukkinn erum við
svo með stóreldhús og aðstöðu til kjöt-
og fiskvinnslu í gömlu mjólkurstöðinni
á Norðfirði. Við feðgar erum búnir
að vera að endurnýja það sögufræga
matvælahúsnæði síðustu mánuði.
Með þessari nýju aðstöðu opnast nýir
möguleikar og eru okkur fá takmörk
sett hvað varðar aðstöðu til þróunar og
framleiðslu á matvörum úr staðbundnu
hráefni. Við erum í langhlaupi en ekki
kapphlaupi svo við ætlum okkur bara
að fara rólega af stað og leyfa hlutunum
að þróast og gerjast. Sumarið sem er
framundan, mun að miklu leyti fara
í tilraunir og prófanir. Eitt er víst, við
munum kitla bragðlaukana og krydda
tilveruna hér eystra.
Hvað verður boðið upp á?
Maturinn er fyrst og fremst úr
úrvals staðbundnu hráefni og er
matseldin fushion á milli hefðbundins
íslensks matar og alþjóðlegrar
matseldar, klassískur heimilismatur
með nútímalegu ívafi að hætti Lúlú.
Matseðillinn er síbreytilegur eftir því
hvaða hráefni fæst á bryggjunni og
hjá bændunum þann daginn. Einnig
reynum við að laga matseðilinn að
hverju tilefni og kúnnanum hverju
sinni. Fjallkonutrukkurinn verður á
ferð og flugi um Austurland í sumar og
munum við sækja margar bæjarhátíðir
heim. Þess á milli verðum við mest á
Norðfirði og í nærsveitum. Einnig er
rétt að benda á að hægt er að panta
okkur á staðinn og fá veislu fyrir litla
og stóra hópa við öll tilefni. Til dæmis
höfum við grillað ofan í túristahópa úti
í náttúrunni, á ættarmót og svo höfum
við fengið fyrirspurnir frá fyrirtækjum
sem vilja fá okkur til að koma og elda
ofan í starfsmenn, oft í hádeginu
á föstudögum. Hægt er að senda
fyrirspurnir og bókanir á hakon@lulu.
is eða hringja í síma 865-5868. Verið er
að að vinna í heimasíðu og netmiðlum
sem verða vonandi komnar í gagnið í
lok mánaðar.
Hver er þín framtíðarsýn á þróun
ferðaþjónustu á Austurlandi og í
Fjarðabyggð?
Ég hef tröllatrú á ferðaþjónustu
á Austurlandi því hér eru frábærir
hlutir að gerast og spennandi
tímar framundan. Austurland er
sá fjórðungur sem hvað minnsta
athygli hefur fengið hingað til en er
virkilega að sækja í sig veðrið. Að
mínu mati er nýbúið að uppgötva
okkur sem spennandi áfangastað. Þó
að vissulega hafi lengi verið umferð
gesta hér eystra þá hefur meirihluti
þeirrar umferðar legið í gegnum
svæðið og fólk stoppað stutt við.
Gestir eru stöðugt að verða upplýstari
um þann fjölbreytileika sem að svæðið
hefur upp á að bjóða og gefa sér meiri
tíma í heimsóknina. Við eigum þó
mikið starf fyrir höndum til að gera
Austurland að eftirsóknarverðum
áfangastað þar sem gestir stoppa
t.d. í vikutíma. Gaman er að sjá þá
breytingu og vakningu sem hefur átt
sér stað á síðustu árum. Það er að færast
ákveðin alvara í ferðaþjónustuna og
margir farnir að sinna henni sem fullri
vinnu í stað þess að hún sé eingöngu
hliðarbúgrein. Þótt fólk innan geirans
sé farið að taka ferðaþjónustu alvarlega
þá þarf allsherjar átak til að virkja allt
samfélagið til þátttöku. Við erum það
sem gerir áfangastað að upplifun. Það
eru margir sem vinna í ferðaþjónustu
án þess að hafa hugmynd um það.
Hér þarf betri kynningu og fræðslu
um ferðaþjónustu til opinberra aðila,
stofnana, stjórnsýslu og fyrirtækja í
öðrum atvinnugreinum. Fjölga þarf
stórum gistieiningum, vönduðum
veitingahúsum, auka fjölbreytni í
afþreyingu og fjölga stöðum sem eru
opnir allt árið. Ferðaþjónusta á samleið
með mörgum öðrum atvinnugreinum
en frumkvæðið verður að koma frá
ferðaþjónustunni sjálfri og það byrjar
með fræðslu númer eitt, tvö og þrjú.
Hér hefur verið fjöldinn allur af
gríðarlega flottum fyrirlestrum og
vinnustofum í allan vetur sem gaman
hefði verið að sjá fleira áhrifafólk úr
pólitíkinni og atvinnulífinu sækja. Ég
hvet fólk til að mæta og fræðast með
okkur.
Ég segi að við séum heppin hér
fyrir austan að koma svolítið seint
inn í ferðaþjónustuna á landsvísu því
það gefur okkur tækifæri til að læra
af hinum og gera betur. Við getum til
dæmis lært af vandamálum annarra
vegna átroðnings og fjölda gesta. Hér
getum við gert ráð fyrir þessu strax
og varið landið, hannað til framtíðar
og skipulagt frá upphafi. Það er
ómetanlegt tækifæri fólgið í því að geta
skipulagt framtíðina meðan aðrir eru
að redda nútíðinni og gera við fortíðina.
Ferðaþjónustan á að taka alvarlega sem
atvinnugrein. Hún er ekki fyrir hvern
sem er. Henni verður að sinna af alvöru
og af ástríðu. Ferðaþjónusta er ekki
hobbý þó ferðalög kunni að vera það.
Hér er mikilvægt að fólk átti sig á að
ferðþjónusta verður að vera arðsöm og
atvinnuuppbyggjandi og að henni verði
að sinna af metnaði ef vel á að takast til.
Þetta snýst ekki um fjölda gesta heldur
hvað þeir skilja eftir. Hér eigum við
tækifæri á að verða staður sem tekur á
móti völdum gestum sem skilja mikið
eftir. Austurland er ekki fyrir alla og
þarf ekki einu sinni að reyna að vera
það. Hér er ekkert Bláa lón, Gullfoss
eða Geysir. Fólkið er okkar Gullni
hringur og kyrrðin er okkar Harpa.
Öflug ferðaþjónusta gæti breytt
miklu í daglegu lífi Fjarðabúa og
gert sveitarfélagið að ákjósanlegri
stað til að búa á. Rannsóknir sýna að
jákvætt viðhorf íbúa til heimabyggðar
eykst með auknum gestakomum.
Heimamenn fá nýja sýn á svæðið sitt
þegar að þeir upplifa það með augum
ferðamannsins og við fyllumst stolti
af því að segja fólki frá bænum okkur.
Stærsta verkefnið fyrir Fjarðabyggð
er að markaðssetja okkur sem heild
en draga um leið fram sérkenni hvers
byggðarkjarna. Hér eru áhugaverð
verkefni í gangi s.s uppbygging Franska
spítalans á Fáskrúðsfirði og komur
skemmtiferðaskipa til Eskifjarðar og
Norðfjarðar. Einnig finnst mér frábært
að vera virkur þátttakandi í Meet the
Locals verkefninu sem á rætur sínar að
rekja til Fjarðabyggðar.
Á svæði eins og í Fjarðabyggð þar sem
framleiðsla er stærsti iðnaðurinn þá
þurfum við nauðsynlega á fjölbreyttari
störfum að halda, fleiri störfum fyrir
konur og ungt fólk. Öflug ferðþjónusta
á ársgrundvelli getur skapað slík störf.
Hjá sveitarfélaginu þarf að efla skilning
á ferðaþjónustu og mikilvægi hennar
fyrir lífsgæði íbúa. Sveitarfélagið þarf
að vinna markvisst með okkur sem
störfum í ferðaþjónustu til að skapa
umhverfi þar sem ferðþjónusta getur
dafnað. Sveitarfélagið sjálft er einn
af stærstu aðilum í ferðaþjónustu án
þess kannski að gera sér grein fyrir því.
Bærinn rekur tjaldstæði, sundlaugar
og söfn. Sveitarfélagið þarf að tryggja
gæði sinnar þjónustu eins og við hin og
þar verð ég að hallmæla því fyrir það
hvernig söfnin hérna eru rekin bæði
hvað varðar opnunartíma og móttöku.
Fjarðabyggð hefur kosið að fá félög
eldri borgara til að sinna söfnunum
4 tíma á dag 3 mánuði á ári sem er
í engu samræmi við opnunartíma
tjaldstæða á vegum sveitarfélagsins.
Ég hef ekkert út á eldri borgara að setja.
Þeir eru allir af vilja gerðir og væri þetta
vissulega falleg hugmynd ef hér væri
um viðbót að ræða við hefðbundna
safnvörslu. Stærsti hluti þessa fólks
hefur takmarkaða tungumálakunnáttu
og þar sem að félögin reyna að deila
yfirsetunni þannig að fólk þurfi helst
ekki að vinna nema einstaka sinnum
þá get ég aðeins gert mér í hugarlund
hver gæði og samræming þjónustunnar
er. Fyrir utan það að mér finnst ekki
eðlilegt að sveitarfélagið stuðli að því
að fólk sem er farið af vinnumarkaði
hafi atvinnu af ungu fólki.
Norðfjörðurinn er mér þó alltaf
efstur í huga því hér sé ég tækifæri
í hverjum steini og hef hugmyndir
til að fylla hvert hús í bænum. Hér
er n minnst þróuð á Austurlandi
en við höfum upp á hvað mest að
bjóða. Nokkur ár eru í göng og það
er mikilvægt að við byrjum strax að
fegra bæinn okkar og undirbúa okkur.
Gangabæir fá alltaf ákveðna umferð í
upphafi og við þurfum að vera tilbúin
til að taka á móti fólkinu þegar það
kemur. Við getum lært af Siglfirðingum
og séð hvað hefur gengið vel hjá þeim.
Gaman væri að allt samfélagið tæki
höndum saman við að gera bæinn sinn
að eftirsóknarverðum áfangastað og í
leiðinni líflegri stað fyrir Norðfirðinga
að búa á. Norðfjörður hefur búið við
einangrun lengi og gengið illa að
aðlagast hugsuninni um sameinaða
sveitarfélagið Fjarðabyggð. Með
göngum og tilheyrandi gestagangi
held ég að Norðfirðingar muni öðlast
nýja sýn á eigið umhverfi og vera stoltir
heimabyggð sinni.
Laga þarf gömlu húsin og fegra
umhverfið í kringum okkur.
Ferðamenn koma ekki til að skoða
steinsteypu og gler. Verið er gera nýtt
skipulag fyrir miðbæinn og gaman væri
ef einhverjir vildu mynda þrýstihóp
með mér til að tryggja að hugað
verði að þörfum ferðaþjónustunnar
í framtíðarskipulagi. Stuðla verður
að varðveislu gamalla húsa ásamt
endurbyggingu upphaflegrar
götumyndar. Ef einhverjir hafa áhuga
á að koma í fúaspýtu og ferðaþjónustu
félagið þá má það sama fólk hafa
samband sem og allir þeir sem hefðu
áhuga á því að koma hér af stað átaki
í samfélaginu til að undirbúa opnun
nýrra ganga. SGK