Austurland - 16.05.2013, Blaðsíða 8
8 16. MAÍ 2013
Austfirskar krásir á
Matvæladeginum á Hótel Héraði
Matvæladagur
Austfirskra krása
Austfirskar krásir standa fyrir Matvæladegi fimmtudaginn
16. maí næstkomandi á Hótel Héraði. Í tilefni þess tók
ritstjóri viðtal við Eygló Björk Guðmundsdóttur, formann
stjórnar Austfirskra krása um daginn, starfsemi og markmið
Krásanna.
Hvaða hópur stendur á bak við
Austfirskar krásir?
Aust f i rskar krás ir er
samstarfsvettvangur eða klasi
matvælaframleiðenda og veitingahúsa
á Austurlandi. Þetta er félag sem
vill efla matvælaframleiðslu og
matarmenningu á svæðinu.
Getur þú lýst fyrir lesendum í stuttu
máli starfsemi og helstu markmiðum
Austfirskra krása?
Starfsemin felst að mestu í þátttöku
í ýmsum viðburðum, s.s. þátttaka
í sýningum en einnig gefum við út
bækling fyrir ferðamenn sem vilja
upplifa staðbundinn mat. Við höfum
haldið úti heimasíðu og látum til okkar
taka með ýmsum hætti til að vekja
athygli á viðfangsefninu. Markmiðið
er að efla matvælaframleiðslu sem
atvinnugrein á svæðinu og í því teljum
við tækifæri felast fyrir svæðið en það
hefur mjög margt að bjóða á þessu
sviði, sterk einkenni og sérstöðu sem
halda má enn frekar á lofti.
Fyrirhugað er að halda Matvæladag
Austfirskra krása þann 16. maí. Til
hvaða markhópa eruð þið að höfða
með deginum og hver eru helstu
markmið hans?
Markmiðið með Matvæladeginum
er að efla viðskipti og heimamarkað
með austfirskar afurðir og búa til
aðdráttarafl fyrir svæðið í gegnum
matinn. Margir áhugaverðir
framleiðendur eru á svæðinu og mikil
nýsköpun hefur átt sér stað undanfarin
ár. Öflugur heimamarkaður er forsenda
þess að þessi fyrirtæki geti stækkað
og Matvæladagurinn er viðleitni til
þess að vekja athygli stofnana ríkis og
sveitarfélaga, verslana og fyrirtækja
almennt á því að beina innkaupum
í nærumhverfið. Það er að detta úr
tísku að flytja sama hráefnið fram og
til baka um hnöttinn því umhverfislega
séð er mun heilbrigðara að framleiða
hráefni nær þeim stað sem þess er
neytt. Þetta er ein megin áskorunin
til framtíðarinnar þegar kemur að
umhverfismálum til að minnka
fótspor við vöruflutninga sem veldur
hitnun andrúmsloftsins. Hvers vegna
að flytja lambakjöt inn til Íslands frá
Nýja-Sjálandi ef við eigum jafnvel betra
hráefni sjálf, svo að ég nefni dæmi.
Hvað hefur Matvæladagurinn verið
haldinn oft og hver hefur ávinningurinn
verið af honum hingað til ?
Við héldum daginn í fyrsta skipti í
fyrra og þótti okkur hann takast vel.
Ég held að það hafi komið flestum á
óvart hvað flóra framleiðenda er í raun
fjölbreytileg á Austurlandi.Þetta eru
ekki endilega stór fyrirtæki en þau eru
sérhæfð og bjóða upp á mikil gæði. Við
viljum draga þetta allt fram í dagsljósið
og skapa vettvang fyrir framleiðendur
til að sýna hvað þeir eru að fást við.
Margt hefur bæst við úrvalið á einu
ári þannig að það verður alltaf eitthvað
nýtt að sjá. Þetta verður skemmtilegur
dagur, enda er matur skemmtilegt
viðfangsefni og við leggjum áherslu á
að þátttakendur hafi gaman af því að
koma, fræðist en fái auk þess eitthvað
til að bragða á.
Eru einhverjar nýjar áherslur með
deginum í ár?
Það má segja að matur í
ferðamennsku sé í ákveðnum fókus í
ár. Nýsköpunarmiðstöð er með okkur
og þeirra fólk ætlar að halda erindi
um mat í upplifun ferðamannsins.
Veitingahús finna fyrir miklum áhuga
ferðamanna á „local“ matvælum og
nokkur veitingahús munu bjóða upp
á sérstakan matseðil í nafni Krásanna
sem á örugglega eftir að vekja áhuga
hjá fólki.
Hvernig hefur starfsemi Austfirskra
krása þróast á síðustu árum og
hvernig sjáið þið samstarfið þróast í
framtíðinni?
Krásirnar eru frekar ungt félag,
var stofnað 2009, þannig að það má
kannski segja að félagsstarfið sé enn í
mótun. Þetta félag hefur frá upphafi
verið býsna virkt og meðlimir eru
áhugasamir og leggja mikið upp úr
samstarfi innan félagsins. Ég held að
það verði meira af því, veitingahúsin
geta t.a.m. tekið sig saman um þema
og þjappað sér saman um viðburði
eða áherslur. Lykilorð okkar verða
samvinna og samtal, því vissulega
verðum við að gera kröfur til okkar
og samseinast um ákveðin atriði ef við
eigum að ná árangri. Í dag einbeitum
við okkur að viðburðum sem snúa að
því að auka viðskipti með matvælin
okkar því þegar allt kemur til alls eru
það viðskiptin sem skapa störf og koma
hlutunum á hreyfingu.
Austf irskar krásir fengu
nýverið frumkvöðlaverðlaun
Ferðamálasamtaka Austurlands –
hvaða tækifæri sjá Krásirnar í auknum
ferðamannastraumi til Íslands og
Austurlands?
Við eigum að geta búið til fleiri
viðfangsefni og afþreyingu fyrir
ferðamenn í kringum mat. Ferðamenn
sem heimsækja Ísland eru upplýst
fólk sem gjarnan er að leita að
náttúruupplifun, þetta er fólk sem
ferðast langt og hefur þá væntanlega
farið víða. Það er spennandi að tengja
matarupplifun og náttúruupplifun og
svo má ekki gleyma því að matur er
menning. Í gegnum matinn getum við
lýst skilyrðum svæðisins, landslagi og
sagt sögur. Það er mjög áhugavert og
gaman fyrir ferðamanninn að taka þátt
í þessu. Á Austurlandi eru mörg mjög
góð veitingahús, við eigum þó nokkur
það sem ég myndi vilja kalla úrvals
veitingahús sem bjóða upp á mikil
gæði í mat og umhverfi. Svo eigum
við líka mjög skemmtileg „bistro“. Það
skiptir mjög miklu máli fyrir svæðið
að þessum aðilum standi hráefni í
hæsta gæðaflokki úr fjórðungnum og
annar efniviður í hvers konar jákvæða
upplifun af svæðinu til boða.
Eitthvað að lokum sem þú vilt taka
fram?
Ég vona bara að sem flestir láti sjá
sig á Matvæladeginum á Hótel Héraði
fimmtudaginn 16. maí! Húsið opnar
kl 16.00 en formleg dagskrá hefst kl
17.00. Gestum gefst kostur á að spjalla
við framleiðendur og smakka á ýmsum
kræsingum í framhaldinu.
SGK
Nýr veitingastaður í Kleinunni
Þráinn Lárusson, veitingamaður, skólastjóri og hóteleigandi með meiru, opnaði nýjan
veitingastað „Salt - cafe & bistro“ í Kleinunni (Miðvangi 2-4) á Egilsstöðum nú um helgina.
Ritstjóri tók Þráin tali.
Af hverju Salt? Salt er gott alþjóðlegt
nafn sem allir þekkja og vita hvað
þýðir. Salt er okkur nauðsynlegt, Væri
líf án salts.
Hvaða áherslur verða á
matseðlinum? Þetta er bístro og getur
því boðið upp á hvað sem er og það
er í rauninni það sem við ætlum að
gera en reyna að vera í heilsusamlegri
kantinum - með allt svona alls konar
Verður boðið upp á Austfirskar
krásir? Við munum setja okkur
markmið um að nota slíkt þegar það
á við.
Hvenær verður opið?
Opnunartíminn á eftir að koma í ljós
Við ætlum að hafa opið núna í maí frá
10 -21 og í sumar frá 8 – 23. Svo sjáum
við til í haust.
Fyrir hverja? Fyrst og fremst
heimamenn og síðan auðvitað
afþreying fyrir ferðamenn. Lífga upp
á bæinn. Hádegið er síðan hugsað fyrir
vinnandi fólk.
Framtíð ferðaþjónustu á
Austurlandi? Það má segja að
sóknarfærin séu hvað mest hér en
við erum rétt að leggja af stað. Aðrir
landshlutar hafa forskot og við eigum
að geta nýtt okkur reynslu þeirra í
okkar uppbyggingu. Samkeppni er á
milli svæða og við þurfum að standa
betur saman hér til að geta staðist
kröfur nútíma ferðamennsku.
Annað sem þú vilt taka fram? Ég
vona bara að Héraðsmenn og aðrir
Austfirðingar taki þessu framtaki vel
og styðji við okkur með því að hafa
við okkur viðskipti. Það er jú það sem
gerir okkur kleift að gera eitthvað gott
og skemmtilegt fyrir þá í staðinn.
Staðurinn er og verður að mótast og
þroskast á næstu vikum og á eftir að
bjóða upp á miklar nýjungar á næstu
vikum og með haustinu. SGK