Austurland - 16.05.2013, Blaðsíða 4
4 4. októBer 2012
Sveitahótelið
Silfurberg í
Breiðdal
Heimsókn á Silfurberg til Guðrúnar og Jóns
að Þorgrímsstöðum í Breiðdal.
Reykvíkingarnir Guðrún Sveinsdóttir og Jón B. Stefánsson
festu kaup á jörðinni Þorgrímsstöðum
í Breiðdal í nóvember árið 2003 en þá
höfðu þau um skeið leitað að jörð
til kaups víða á landinu og þá frekar
nálægt Reykjavík. Þau áttu alls ekki
von á að falla fyrir jörðinni en ákváðu
engu að síður að skoða hana fyrir
áeggjan tengdasonar síns en hann ólst
upp á Egilsstöðum. Snyrtimennskan
á býlinu, andinn í húsinu og stórbrotin
náttúran heillaði þau og nokkrum
mínútum eftir komuna á Þorgrímsstaði
vissu þau bæði að þetta var rétta
jörðin. Hugmyndin um að byggja upp
ferðaþjónustu fæddist síðar og hafa þau
nú breytt hlöðunni í hótel.
Jörðin Þorgrímsstaðir er innst
í Breiðdalnum við þjóðveg 1 og
fyrsti bærinn sem maður kemur að
eftir að hafa ekið Breiðdalsheiði frá
Egilsstöðum. Þegar þau hjónin keyptu
jörðina var þar sauðfjárbú með um
230 kindur. Það stóð aldrei til hjá
þeim að vera með búskap en þar sem
þau fengu jörðina afhenta um vetur
var ákveðið að bíða með að skera féð
niður að minnsta kosti fram á næsta
haust. Þau fengu nágranna til þess að
sjá um gegningar fyrsta veturinn og
hafði hann jafnframt það hlutverk að
fylgjast með heimarafstöðinni sem sá
bænum fyrir rafmagni. Eftir fyrsta
veturinn ákváðu hjónin að tengja
býlið við rafkerfi RARIK til að tryggja
öruggt rafmagn og losna við umstangið
í kringum rekstur rafstöðvarinnar. Í
framtíðinni horfa þau þó til þess að
nýta heimarafstöðina aftur og gæla
við þá hugmynd að lýsa upp bæjargilið
á veturna.
Vorið eftir kaupin tóku þau fullan
þátt í sauðburðinum og komust að
því að það var mjög gaman að stunda
sauðfjárbúskap. Fyrir tveimur árum
voru þau með 190 kindur á fóðrum
en hafa nú aðeins tæplega 30 kindur
eftir að hótelið tók til starfa. Kindurnar
gegna líka hlutverki á hótelinu þar sem
útsýni er inn í fjárhúsið úr borðstofunni
og eldhúsinu. Einnig eru kindur
áberandi í innbúi hótelsins, svo sem
kindaskúlptúrar úr tré eftir Aðalheiði
S. Eysteinsdóttur í herbergisálmu
hótelsins.
Jón og Guðrún: Jón er
byggingarverkfræðingur og rak eigin
verkfræðistofu þar til hann ákvað að
láta drauminn um að flytja í sveitina
verða að veruleika. Hann hefur hannað
og haldið utan um endurbæturnar með
dyggri aðstoð Guðrúnar sem starfaði
sem lögfræðingur hjá Íslandsbanka
en hætti störfum fljótlega eftir
jarðakaupin til að einbeita sér að
uppbyggingunni á Þorgrímsstöðum.
Strax eftir jarðakaupin byrjaði Guðrún
að kaupa ýmiskonar tuskudýr af
stærri gerðinni til að hafa í sveitinni.
Þessi dýr mynda nú athyglisverðan
tuskudýragarð í setustofu hótelsins
(sjá mynd) en þarna má sjá dýrin sem
fylgdu landnámsmönnum í upphafi en
kúna vantar þó enn. Þarna má einnig
finna álft úr lambaskinni og laxaroði
eftir Bryndísi Bolladóttur. Gantast
var með tuskudýrin í vinahópnum og
talið líklegt að þau yrðu einu dýrin á
jörðinni en tuskudýragarðurinn vekur
í dag verðskuldaða athygli gesta.
Aðstaða er fyrir allt að 12 manns
á hótelinu í fjórum tveggja manna
herbergjum og stúdíóíbúð auk þess
sem hægt er að bjóða upp á gistingu
í íbúðarhúsinu fyrir um 8 manns.
Æskileg stærð á hópum er 8-10 manns.
Í veislusal hótelsins er unnt að taka á
móti stærri hópum. Í salnum er búið
að setja upp hundruðir ljósþráða í
loftið sem birtast sem stjörnubjartur
himinn og ef vel er að gáð má finna
þar stjörnumerkið Karlsvagninn og
Pólstjörnuna. Leitast hefur verið við
að nýta gamlan efnivið og hráefni
sem var til á bænum. Til dæmis eru
gamlir tunnustafir notaðir sem hluti
veggklæðninga innanhúss og ryðgað
bárujárn einnig. Í veitingasalnum eru
til sýnis tveir erfðagripir sem nú fá nýtt
hlutverk: skautbúningur af ömmu Jóns
og upphlutur frá móðurfjölskyldu
Guðrúnar.
Öll aðstaða á hótelinu er hin
glæsilegasta og hugað að öllum
smáatriðum. Gott útsýni er úr
herbergjunum og frábært útsýni úr
stúdíóíbúðinni yfir Breiðdalinn en þar
geta gestir notið stjörnubjarts himins
og norðurljósa á veturna. Heitur pottur
og gufubað er fyrir utan húsið þar sem
hægt er að láta líða úr sér eftir góðan
göngutúr með bæjargilið í baksýn.
Hverjir munu njóta sveitasælunnar
í framtíðinni? Unnt er að bóka
herbergi með morgunverði á
Silfurbergi á heimasíðu hótelsins.
Veitingasala er einungis til gesta
hótelsins. Silfurberg er aðili að
Ferðaþjónustu bænda en ýmsir aðrir
ferðaþjónustuaðilar sjá einnig um
bókanir. Mjög hefur verið vandað til
allra endurbóta og markmiðið er að
veita góða og persónulega þjónustu.
Horft er til þess að hótelið henti vel
fyrir minni hópa sem vilja dvelja í
að minnsta kosti 3 nætur á hótelinu,
slappa af og hlaða batteríin. Verð á
gistingu verður í hærri kantinum
þannig að líklegt er að markhópurinn
verði erlendir ferðamenn sem leita
eftir endurnæringu og náttúrufegurð.
Dætur þeirra hjóna hafa tekið virkan
þátt í ævintýrinu en Helga, elsta
dóttir þeirra Guðrúnar og Jóns, er
hótelstýra. Systurnar hyggjast standa
fyrir heilsuvikum á hótelinu þar
sem lögð verður áhersla á heilnæma
fæðu, slökun og hreyfingu. Boðið
verður upp á jóga- og pilatestíma,
heilsubótargöngur og fyrirlestra um
heilsutengd málefni. Þá verða læknir
og heilsumarkþjálfi á staðnum sem
munu fara heildstætt yfir heilsufar
og lífsstíl þeirra þátttakenda sem þess
óska. Einnig er horft til þess að hópar
veiðimanna sem koma austur, svo
sem rjúpna- og hreindýraveiðimenn,
geti gist á hótelinu og notið þess að
slaka á, vera útaf fyrir sig og njóta
persónulegrar þjónustu.
Af hverju Silfurberg? Sveitahótelið
Silfurberg dregur nafn sitt af íslenska
kristalnum silfurbergi sem finnst
á nokkrum stöðum á landinu og
var áður meðal annars notað í
smásjár. Talið er að silfurberg hafi
verið notað af víkingum til að finna
staðsetningu sólarinnar á skýjuðum
degi. Silfurbergsnámur má finna víða
á Austurlandi til dæmis í Breiðdal en
frægasta náman er Helgustaðanáman
í Eskifirði. Auk silfurbergsnámunnar
í Breiðdal er dalurinn þekktur fyrir
ýmis jarðfræðileg fyrirbæri svo sem
kulnaða megineldstöð og gott aðgengi
að jarðlögum frá fornsögulegum
tímum samanber jarðfræðisýningu
í Breiðdalssetri á Breiðdalsvík.
Heiðarvatn efst á Breiðdalsheiði
tilheyrir Þorgrímsstöðum en þar veiðist
bæði bleikja og urriði. Í Breiðdal er
fjölbreytt fuglalíf auk þess sem stórar
hjarðir hreindýra halda þar til á veturna
og vorin.
Opið verður á sveitahótelinu
Silfurbergi frá 15. apríl til 15. nóvember
ár hvert en nánari upplýsingar um
aðstöðu, bókanir og þjónustu hótelsins
má finna á heimasíðunni www.
silfurberg.com. Það er óhætt að mæla
með þessu glæsilega sveitahóteli fyrir
minni hópa og aðila sem vilja veita sér
ákveðinn munað og hvíla sig frá amstri
hversdagsins
SGK
Útsýni eru úr matsal í fjárhúsin
tuskudýrin
kindur á svefnherbergisgangi