Austurland - 06.09.2012, Page 4

Austurland - 06.09.2012, Page 4
4 6. SEPTEMBER 2012 Ferðaþjónusta í vanda? Mikil umræða hefur átt sér stað um áhrif fyrirhugaðrar hækkunar á virðisaukaskatti úr 7% í 25,5% á ferðaþjónustuna á Íslandi en í sumar var sérstakt gistináttagjald, 100 krónur, lagt á gistirými. Sjónarmið stjórnvalda eru þau að mikilvægt sé að skattar í ferðaþjónustu séu svipaðir og í öðrum atvinnugreinum. Ferðaþjónustan hefur hafnað þessu og vísað til þess að í nágrannlöndunum sé hvergi 25,5% og víðast sé virðisaukaskattur af ferðaþjónustu í lægra skattþrepi. Jafnframt hefur verið bent á að hækkun á virðisaukaskatti í Danmörku hafi orðið til þess að velta ferðaþjónustunnar hafi minnkað um 7,2% fyrri hluta ársins samanborið við sama tímabil árið áður er lægra skattþrep var við lýði (HORESTA samtök hótela og veitingastaða í Danmörku, 2012). Sérstaklega má rekja þennan samdrátt ferðaþjónustunnar í Danmörku til þess að erfitt sé að draga að alþjóðlegar ráðstefnur og viðburði til Danmerkur þar sem Danir standist ekki verðsamanburð. Viðburðir af þessu tagi eru mikilvægur liður í að lengja ferðamannatímann samanber átakið „Ísland allt árið“. Í greinagerð KPMG (Alexander G. Eðvardsson, 30. ágúst 2012) um áhrif fyrirhugaðra breytinga á virðisaukaskatti á hótelrekstur kemur fram að þrátt fyrir að ferðaþjónustugeirinn hafi að einhverju leyti fengið virðisaukaskatt endurgreiddan vegna starfseminnar þá hafi ástæður þess legið í innskatti vegna endurbóta og húsnæðiskostnaðar en ekki vegna almenns rekstrarkostnaðar. Taki ferðaþjónustan á sig hækkunina þá mun framlegð innan ferðaþjónustunnar fara úr því að vera jákvæði um 5,9% í að vera neikvæð um 4,2%. Verði hækkuninni hleypt út í verðlagið er því spáð að gestum fækki um 8,6% sem myndi jafnframt þýða neikvæða framlegð um 2,5%. Ef litið er til afkomutalna hótel- og gistiheimila árið 2011 má sjá að ekki er svigrúm hjá greininni til að taka á sig skerðingu á tekjum sem óhjákvæmilega verur ef hækkun á virðisaukaskatti nær fram að ganga. Gert er ráð fyrir að fækkun ferðamanna og styttri dvöl þeirra á landinu geti orðið til þess að ríkissjóður verði af 1,2 til 3.4 milljörðum á ári og að heildartekjur samfélagsins geti lækkað um 10 til 28 milljarða. Ferðaþjónustuaðilar hafa bent á að gistináttagjald sé handahófskennd skattheimta og flókin í framkvæmd. Þá hefur verið rætt að mögulegt sé að setja á svokallað komugjald þegar ferðamenn koma til landsins. Í greinagerð frá Icelandair (Bogi Nils Bogason, 2012) kemur fram að slíkt gjald muni hafa bein áhrif á verð flugmiða en rannsóknir sýna að hækkun á fargjöldum um 1% veldur meira en 1% samdrætti í eftirspurn. Greinarhöfundi lék forvitni á að vita hvernig sumarið hefði gengið og hvaða skoðun ferðaþjónustuaðilar hefðu á fyrirhuguðum hækkunum. Leitað var til 10 ferðaþjónustuaðila með nokkrar spurningar um fjölgun ferðamanna, þróun ferðaþjónustunnar og álit þeirra á aukinni skattlagningu. Af þeim 10 er fengu sendar spurningar svöruðu 5: Auður Anna Ingólfsdóttir, hótelstýra á Hótel Héraði á Egilsstöðum, Guðjón Böðvarsson, hótelstjóri á Hótel Tanga, Arngrímur Viðar Arngrímsson, eigandi og framkvæmdastjóri Ferðaþjónustunnar Álfheima á Borgarfirði eystri, Ríkey Kristjánsdóttir, einn eigenda á Hótel Öldunni á Seyðisfirði og Þórir Stefánsson, eigandi og hótelstjóri á Hótel Framtíð á Djúpavogi Viðhorf ferðaþjónustuaðila Flestir töldu að fjölgun ferðamanna í ár sé óveruleg en Þórir, hótelstjóri á Hótel Framtíð, hefur orðið var við talsverða fjölgun á Djúpavogi miðað við 2010 og 2011 en árið næði ekki þeim fjölda sem hefði verið árið 2009. Fram kom að flestir ferðamenn koma frá Þýskalandi en fjölgun hefur verið á ferðamönnum frá Ísrael, Bandaríkjunum og Asíulöndunum. Einnig koma Balkanlöndin sterk inn. Aðspurð ir um hvor t ferðaþjónustuaðilar gætu greint að ferðamannatímabilið væri að lengjast samanber átaksverkefnið „Ísland allt árið“ þá kom fram hjá Auði á Hótel Héraði að Japanir væru að koma utan hefðbundins ferðamannatíma til að skoða norðurljósin. Guðjón Böðvarsson, hótelstjóri á Tanga á Vopnafirði, sagðist ekki finna fyrir lengingu ferðamannatímabilsins og taldi að eflaust hefðu átaksverkefni í markaðssetningu meiri áhrif á gamalgróna ferðamannastaði. Allir þeir sem svöruðu töldu að álagning gistináttagjalds væri flókin í framkvæmd og skilaði litlu þegar á heildina væri litið. Aðspurðir um fyrirhugaða hækkun á virðisaukaskatti á gistingu þá töldu allir þeir sem svöruðu að greinin mætti alls ekki við þeirri hækkun en Ríkey hjá Hótel Öldunni á Seyðisfirði taldi að slík hækkun myndi koma verst niður á ferðaþjónustuaðilum á jaðarsvæðum Fram kom hjá Auði Önnu, hótelstjóra á Hótel Héraði á Egilsstöðum, að hún áætlaði að hækkunin myndi leiða til 10-15% samdráttar í greininni þar sem ferðamenn og ferðaskrifstofur myndu stytta ferðir og fjöldi ferðamanna myndi leita annað. Á Hótel Héraði er þegar búið að selja 70% af gistinóttum næsta sumars og því erfitt að breyta verðinu. Fram kom hjá Arngrími Viðari, framkvæmdastjóra Álfheima á Borgarfirði eystri, að meginþorri þeirra fjármuna sem varið sé til uppbyggingar á ferðaþjónustustöðum renni til opinberra aðila. Vissulega þurfi fjármagn til uppbyggingar en mikilvægt sé að velta þeim vanda ekki yfir á flugfélög eða ferðaþjónustuaðila heldur mætti hugsa sér að landeigendur og opinberir aðilar innheimtu hófsamt gjald (t.d. 300-500 krónur) fyrir komu á um 20 vinsælustu ferðamannastaði landsins og gætu þá í staðinn veitt mannsæmandi þjónustu. Fjármálaráðherra Oddný Harðar- dóttir hefur sett á laggirnar nefnd stjórnvalda og hagsmunaðila sem er að fara yfir málið, Samtök ferðaþjónustunnar vona að sú vinna muni skila sér í nýrri nálgun í skattlagningu á greinina og nauðsynlegri fjármögnun til uppbyggingar á grunnþjónustu á vinsælustu ferðamannastöðum landsins. -SGK Plasthlífar arctictrucks.is Kletthálsi 3 - 110 Reykjavík - sími 540 4900 - www.arctictrucks.is á húdd, glugga og ljós Hótel Aldan seyðisfirði. Mynd: Ríkey Kristjánsdóttir Hótel Tangi á Vopnafirði. Mynd: Guðjón Böðvarsson Kræsingar. Mynd: Ríkey Kristjánsdóttir

x

Austurland

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Austurland
https://timarit.is/publication/1094

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.