Austurland - 13.11.2014, Síða 9
13. Nóvember 2014 9
Vélstjórinn frá Aberdeen
(Grásk. i. – Frásögn Axels Tulinius. þórbergur þórðarson skrásetti. )
Fyrsta júlí árið 1894 var ég settur
sýslumaður í Norður-Múlasýslu.
Settist ég að á Seyðisfirði og fékk
til íbúðar eitt herbergi uppi á lofti
í öðrum enda lyfjabúðar Ernst lyf-
sala. Hafði ég þar skrifstofu mína,
en í einu horni herbergisins stóð
rúm mitt, og var dregið hengi fyrir.
Á herberginu voru tveir gluggar á
gafli.
Meðal þeirra mála, er fyrir mér
lágu, þegar ég tók við sýslumanns-
embættinu, var beiðni frá Magnúsi
Stephensen landshöfðingja um að
halda rannsókn út af skozkum togara,
sem komið hafði inn á Seyðisfjörð í
maímánuði um vorið. Skip þetta hét
M.a. Dodds og var frá Aberdeen. Hélt
það frá Seyðisfirði heim til Aberdeen,
en þegar þangað kom, hafði það misst
vélstjórann. Skýrðu skipverjar svo frá,
að hann hefði dottið fyrir borð milli
Færeyja og Hjaltlands. En það þótti
þó grunsamlegt, að framburði eins
hásetans hafði ekki borið saman við
frásögn hinna. Þess vegna leituðu við-
komandi yfirvöld vitneskju um málið
hingað heim.
Skömmu eftir að ég kom til Seyðis-
fjarðar, fór ég bæði út með norður-
og suðurbyggð fjarðarins til þess að
spyrjast fyrir um þennan togara frá
Aberdeen. En ég gat enga fræðslu um
hann fengið aðra en þá, að skipverjar
höfðu gert sér glaðan dag, meðan þeir
stóðu við á Seyðisfirði, og að einn Ís-
lendingur, kallaður Páll jökull, hefði
verið með þeim að gleðinni.
Svo líður og bíður þar til seint í
september. Þá er það eitt sinn snemma
nætur, að ég sit að vinnu minni í skrif-
stofunni. Kemur þá inn til mín Ernst
lyfsali. Spyr hann mig að því, hvort
mér hafi ekki verið tilkynnt, að lík hafi
slæðzt upp á línu úti í mynni Seyðis-
fjarðar hjá fiskimönnum frá Brimnesi.
En Brimnes stendur sem kunnugt er,
utarlega með Seyðisfirði norðanmegin.
Ég segi að mér hafi ekkert verið til-
kynnt um þetta, og ég kvaðst ekki
leggja neinn trúnað á sögu þessa, því
að það væri skylda að láta sýslumann
vita, þegar slíkir fundir fyndust.
Rétt á eftir fer ég að hátta. En ég
get með engu móti sofnað. Ligg ég
andvaka lengi fram eftir nóttu af um-
hugsun um það, að sagan hlyti líklega
að vera sönn, og sannfærðist ég meira
að segja um það þá um nóttina, að
líkið hlyti að vera af vélstjóranum frá
Aberdeen.
Á sjötta tímanum vakna ég og fer á
fætur. Er ég þá algerlega sannfærður
um, að sagan um líkfundinn sé sönn.
Fer ég því til og fæ léðan lítinn gufu-
bát hjá Ottó Wathne og tek með mér
nokkra menn, þar á meðal Eyjólf Jóns-
son ljósmyndara. Héldum við síðan út
að Brimnesi. Ég geng þar á land og er
þá svo sannfærður um líkfundinn, að
ég spyr fyrsta manninn, sem ég hitti:
„Hvar er líkið? “ Hann vísar mér í hjall
þar á túninu og segir, að það sé þar.
Förum við svo þangað allir, berum
líkið út og leggjum það á túnið. Þar tók
Eyjólfur mynd af því, sem ég á ennþá.
Líkið var þannig á sig komið, að
báðir framhandleggirnir voru dottnir
af því, en naktar beinapípurnar voru
eftir af upphandleggjunum. Allt hár
og hold var skafið burt af höfðinu, svo
að einungis nakin hauskúpan var eftir.
Sömuleiðis voru og allir vöðvar kropp-
aðir burt af hálsliðunum. Að öðru leyti
var búkurinn lítt skemmdur. Var það
því að þakka, að fötin tolldu ennþá
utan á honum, en þau virtust hafa verið
gegnsósa af olíu eða feiti.
Það voru venjuleg sjómannsföt, en
á fótunum voru fjaðrastígvél. Bún-
ingurinn og þó einkum stígvélin virt-
ist mér benda á, að þetta hefði verið
vélamaður. Á buxnahnöppunum stóð
nafnið Aberdeen, og í öðrum buxna-
vasanum fundum við einn penny. Allt
útlit líksins var hið hvumleiðasta, og
svo megnan ódaun lagði af því, að við
tókum töluvert nærri okkur að koma
í námunda við það.
Ég sannfærðist undir eins um, að
þetta mundi vera lík vélstjórans frá
Aberdeen. Fluttum við það inn til
Seyðisfjarðar, og sendi ég þegar eftir
Jóni Jónssyni, lækni á Fljótsdalshér-
aði, til þess að rannsaka líkið, því að
Guðmundur Scheving, er þá var hér-
aðslæknir á Seyðisfirði, var um þessar
mundir í siglingu. En nú vildi svo til,
að hann kom heim úr siglingunni, áður
en Jón læknir hóf að kryfja líkið, og
voru þeir því báðir við uppskurðinn.
Ég lagði fyrir læknana ýmsar spurn-
ingar, er áttu að leiða það í ljós, hvort
maðurinn hefði dáið, áður en hann
datt í sjóinn. Sannaðist það við upp-
skurðinn, að því er læknarnir fullyrtu,
að hann hefði þá verið dáinn eða með-
vitundarlaus.
Að uppskurðinum loknum lét ég
þvo fötin af líkinu og rannsakaði á
þeim sauma og bætur. Má geta þess
hér, þótt það varpaði í sjálfu sér ekki
miklu ljósi yfir rannsókn mína, að
ég lagði það undir úrskurð tveggja
greindra kvenna, hvort bætur, sem
voru á buxnarassinum, væru bættar
af karli eða konu. Staðhæfðu þær
hiklaust, að þær væru bættar af kven-
manni. Eftir þetta var líkið jarðað með
mikilli viðhöfn, og gerðu bæjarbúar
allt til þess að hafa útförina sem virðu-
legasta.
Þessu næst tek ég að rannsaka málið
að nýju. Kemur nú ýmislegt upp úr
kafinu, sem enginn þóttist hafa neina
hugmynd um við fyrra réttarhaldið.
Meðal annars er mér sagt, að óregla
mikil og ölæði hefði verið á skipinu.
Það hefði morrað lengi stjórnlaust úti
á Seyðisfirði. Þar hefði hver höndin
verið uppi á móti annarri, og áflog og
háreysti hefðu bergmálað þaðan í land.
Stór hundur hefði verið á skipinu, er
hefði verið sígeltandi, meðan á þessum
ólátum stóð. Þetta bar sama fólkið, sem
ekkert mundi við fyrra réttarhaldið.
Um sömu mundir, sem ég lauk
réttarhöldunum, kom eimskip frá út-
löndum til Seyðisfjarðar. Minnir mig
það vera frá Zöllner stórkaupmanni
og kæmi til að sækja lifandi fénað.
Ég greip nú tækifærið, snaraði öllum
réttarprófunum í snatri á ensku og
sendi þau með fjártökuskipinu til lög-
reglustjórans í Aberdeen. Var þá málið
tekið þar fyrir á nýjan leik. Sannaðist
nú, að manninum hafði verið varpað
fyrir borð úti á Seyðisfirði, og höfðu
járn verið bundin við framhandleggi
hans. Þess vegna hafði líkið haldizt
svona lengi við botninn og framhand-
leggirnir slitnað af, er það var dregið
upp.
Um kvöldið, þegar allt þetta var um
garð gengið, gekk ég snemma til náða
og hugði að njóta góðrar hvíldar eftir
þetta rannsóknarvafstur. En nú brá svo
við, að ég gat með engu móti sofnað.
Úti var tunglskin og bjartviðri. Ég hafði
dregið tjöldin frá glugganum, og her-
bergið var allt uppljómað af tunglsljósi.
Klukkan þrjú til fjögur um nóttina
hafði mér ekki runnið blundur í brjóst.
Lá ég glaðvakandi með opin augu og
horfði til dyra. Sé ég þá allt í einu, að
herbergishurðin opnast ofurhægt og að
í dyrunum stendur skozki vélstjórinn,
nákvæmlega eins ásýndum og líkið leit
út. Hauskúpan var nakin og skinin,
augnatóftirnar holar og auðar. Glitti í
hvítan tanngarðinn mili skoltanna, og
skjallhvítar beinapípurnar héngu niður
með síðunum. Ég þóttist samt sjá, að
hann væri reiður og bæri illan hug til
mín. Þessi ferlega mannsmynd þokast
hægt og hægt inn eftir gólfinu, stefnir
beint að rúmi mínu og starblínir á mig
holum augnatóftunum. Ég vildi ekki
eiga á hættu að bíða lengur boðanna og
snarast fram úr rúminu og út á gólfið
á móti ófreskjunni. Ég var að eðlisfari
myrkfælinn, en í þetta sinn fann ég
ekki til neinnar hræðslu. Ég ávarpa
hann á íslenzku og spyr, hvað hann
sé að gera hér, og segist ég sízt hafa
búizt við því af honum, að hann lofaði
mér ekki að vera í friði. En hann gefur
orðum mínum engan gaum, heldur
mjakar sér steinþegjandi beint framan
að mér, unz við mætumst á miðju gólfi
og hann ræðst á mig með heljarafli.
Slöngvar hann berum beinapípunum
yfir um handleggina á mér og utan
um mig hálfnakinn. Ég tek á móti
eftir föngum, og hefjast þarna milli
okkar harðvítugar stimpingar. Þótt
hann væri sterkur og illur viðskeytis,
veitti mér samt betur, og fékk ég að
lokum hrakið hann aftur á bak og út
úr herbergisdyrunum, sem þá stóðu
galopnar. Smelli ég síðan hurðinni í
lás, gríp eldspýtustokk og kveiki og
les, það sem eftir er nætur. Kom mér
ekki dúr á auga, fyrr en fólk var komið
á stjá í húsinu um morguninn.
Tvær næstu nætur gekk draugur
þessi ljósum logum á neðri hæðinni.
Sótti hann þá svo ákaft að Ernst lyfsala,
að hann fékk ekki sofið með neinni
værð. Eftir það varð hans ekki vart
þar í húsinu.
Heimild: Þjóðsagnabókin. Sýnisbók
íslenzkra þjóðsagnasafna.
Annað bindi. Sigurður Nordal tók
saman. Almenna bókafélagið. 1980,
Reykjavík, bls. 88-91
vélstjórinn frá Aberdeen gerðist á Seyðisfirði