Akureyri - 29.03.2012, Qupperneq 12
1329. MARS 2012
Nei, mér finnst það ekki. Þú veist hvað
gerist ef þú átt bíl og gerir ekkert með hann.
Hann grotnar niður og það nákvæmlega
sama gæti gerst hér. Það liggur í hlutarins
eðli. Ef þú lokar skóla þá er ólíklegt að hann
verði opnaður aftur.
Ekki til peningar til að spila á 150 ára afmæli
bæjarins
Hvað segja spilarar í hljómsveitinni um þessa
stöðu?
Þeir vilja spila meira, það er alveg ljóst.
Það nýjasta er að við munum ekki geta verið
með á Akureyrarvöku þótt við hefðum svo
sannarlega viljað það. Bærinn vill það líka
en það eru bara ekki rekstrarlegar forsend-
ur fyrir þátttöku okkar.
Ertu að segja að á 150 ára afmæli Akureyrar-
bæjar sem mikið hefur verið látið með séu ekki
til peningar fyrir því að Sinfóníuhljómsveit
Norðurlands, flaggskip tónlistar á Norðurlandi,
geti leikið fyrir bæjarbúa?
Já.
Í menningar- og listabænum Akureyri?
Já.
Er þessi umræða um menningarbæinn Akur-
eyri þá kannski aðallega prjál og tildur, eitt
risastórt hús, bissnessvæðing og innantóm orð?
Ég hef ekki rekist á marga pólitíkusa
hér á síðustu árum sem hafa haft baráttu
fyrir listastarfsemi á stefnuskrá sinni.
En hvað með hljóminn í salnum ykkar? Ertu
ánægður með hljóminn í Hamraborg?
Já, að flestu leyti er hljómurinn mjög
góður en það verður þó að segja eins og er
að enn er ekki búið að klára salinn. Það
vantar ennþá hurðir á sviðið og millivegg
þannig að ég bíð spenntur eftir því að fá
að heyra hvernig salurinn hljómar þegar
allt verður klárt.
Hápunktur starfsins fram undan
Víkjum talinu að því sem fram undan er hjá
Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Það stendur
mikið til – ekki satt?
Jú, hápunktur starfsársins er fram und-
an, á skírdag. Þá höldum við tónleika öðru
sinni í samstarfi við unghljómsveit Sin-
fóníuhljómsveitar Íslands. Við gerðum það
líka í fyrra og tókst vel til. Nú munum við
flytja tvö verk, annars vegar sellókonsert
eftir Elgar þar sem sólistinn er ekki af
verri endanum, hún Sæunn Þorsteinsdótt-
ir sem er héðan og hefur sigrað heiminn
með sellóleik sínum. Við höfum stefnt að
því lengi að Sæunn kæmi til að spila með
hljómsveitinni.
Stórviðburður?
Já. Ég veit um fólk sem hefur beðið eftir
því í allan vetur að koma norður yfir heið-
ar um páskana, bara til að heyra þennan
konsert. Elgar og Sæunn eru þess virði að
ferðast býsna langt til að heyra þau saman.
Hinn hluti efnisskrárinnar er stórsin-
fónía, 5. sinfonía Shostakovich, sem er al-
gjört dúndur. Kosturinn við að halda fáa
tónleika er reyndar sá að þá eru aðeins flutt
verk sem eru efst á óskalistum. Þá verða
bara bitar af því besta í boði.
Hve marga þarf til að flytja þetta?
Um áttatíu manns.
Ímyndaðir þröskuldar
Tónlistin er þér meira en bara vinna, ekki satt?
Jú, það er kannski klisja að orða það
þannig, en tónlistin hefur orðið líf mitt. En
það eru ekki allir sem fá notið hennar og
sumpart er sú gjá vegna misskilnings. Milli
mikils þorra fólks og klassískrar tónlistar er
til staðar eitthvað sem mætti kalla ímynd-
aðan þröskuld. Allt of margir trúa því að
klassískir tónleikar séu bara fyrir einhverja
sérstaka tegund af fólki. Bara fyrir þá sem
„hafa vit á tónlist“. Eina vitið hins vegar
sem þarf til að njóta klassískrar tónlistar er
sama vit og þarf til að njóta hvaða tónlistar
sem er. Það eina sem þarf er heyrn og hjarta.
Svo þarf að vita að maður hafi viljann til
að opna hjartað fyrir þeim áhrifum sem
tónlistin færir manni í gegnum heyrnina.
Þetta er eina vitið sem skiptir máli .
Þú hefur reynt að miðla þessari hugsun
í kynningum þínum áður en SN flytur verk
sín á tónleikum hér í húsinu.
Já, ég er að reyna að opna augun hjá
fólki fyrir því að það eina sem sé sérstakt
við klassíska tónlist er að fullt af ólíku fólki
getur sest niður og upplifað eitthvað stór-
kostlegt í sömu tónlistinni, upplifað ein-
hvern mikilfengleika í gegnum hljóðbylgj-
ur. Ég fæ oft að heyra þegar fólk þakkar
mér fyrir að loknum tónleikum: „En ég hef
náttúrlega ekkert vit á þessu...“. Það þarf að
þurrka út þá fjarstæðu að fólk þurfi að hafa
sérstakt vit á klassískri tónlist.
Svo er annað sem ég hef oft heyrt hjá
fólki sem er óvant sinfónískum tónleikum;
það kemur oft út steinhissa á þeim hughrif-
um sem það verður fyrir við að hlusta á það
magnaða hljóðfæri sem sinfónísk hljómsveit
er. Margir hafa eingöngu heyrt slíka tónlist
í gegnum einn pínulítinn hátalara en verða
svo fyrir upplifun á tónleikum sem ekki
er hægt að lýsa. Því það er ekki hægt að
líkja því saman að heyra sinfóníska tónlist
í gegnum tveggja tommu hátalara og heyra
hana í raunverulegum flutningi.
Á versta stað í húsinu!
Hvernig er „sándið“ hjá þér sem stjórnanda,
þar sem þú stendur á sviðinu beint fyrir framan
hljómsveitina?
Hvað varðar hljómgæðin er ég að sumu
leyti á versta stað í húsinu. En munurinn
á því að standa þar sem ég stend núna og
þegar við komum fram í kirkjunum og
íþróttahúsunum er náttúrlega ósegjanlegur.
Eftir á að hyggja finnst mér stundum eins og
ég hafi verið að mála mynd með rimlagard-
ínur fyrir augunum, ég sá ekki nema hluta
af myndinni. Svo þegar við fluttum í Hof
var rimlagardínunum allt í einu svipt burt
og þá hrópaði maður: Frábært! Allt í einu
heyrði ég hvað önnur flauta var að gera.
Og hún heyrði betur en áður í sjálfri sér og
öðrum, gat rétt sig af, ef hún var ekki að
spila alveg hreint. Þetta er náttúrlega mikill
munur, enda spilar hljómsveitin miklu betur
en hún gerði áður en við fluttum í Hof.
Hin fyrirhafnarlausa mötun
Félagsfræðingar tala stundum um McDonald-
svæðingu samélagsins. Með því er m.a. vísað
til þess að stór hluti fólks hefur verið vaninn
við að fá það alltaf sem fólkið vill með ná-
kvæmlega sama hætti og áður og það verður
að gerast fljótt. Kann að vera að McDonald-
svæðingin hafi orðið til þess að fólk nenni ekki
að leggja sig eftir flóknari fyrirbrigðum líkt og
klassískri tónlist?
Já, það tengist eflaust ýmislegt þessari
McDonaldsvæðingu sem þú nefnir og
við hjá Sinfóníuhljómsveit Norðurlands
erum ekki hluti af henni. Í þessu samhengi
dettur mér í hug að það er mikið talað
um hið peningalega hrun okkar, þegar
bankarnir hrundu, en það er minna talað
um hugmyndafræðilega og siðferðilega
hrunið. Við urðum ofboðslega upptekin
af peningum og efnislegum gæðum og
ætlum nú enn að sækja hamingjuna út á
við, en var hrunið ekki afurð ómenningar?
Breyttumst við ekki í Nýríka Nonna? Það
er nú ekki hrósyrði að vera nýríkur og ég
held að við höfum hagað okkur eins og
við gerðum af því að hin menningarlega
undirstaða okkar var ekki nógu sterk. Enn
er reynt að telja okkur trú um að við getum
sótt okkur lífsgæði út á við en það sem við
ættum að læra af hruninu er að við finnum
ekki aukin lífsgæði, ekki raunveruleg lífs-
gæði, nema að leita inn á við. Þá getum við
farið að tala um tilganginn með listastarf-
semi. Til hvers höldum við sinfóníutón-
leika? Hvers virði er listastarfsemi, þessi
starfsemi sem þarf fyrirhöfn til að njóta
og byggir ekki á þeirri fyrirhafnarlausu
mötun sem verður sífellt fyrirferðarmeiri.
Nokkuð sem gefur okkur meira eftir því
sem við leitum lengra og höfum meira fyrir
að nálgast og kafa ofan í. Gefur okkur
ekki ytri efnahagsleg verðmæti heldur
innri upplifun sem, ef hlúð er að, hjálpar
okkur að beina sjónum inn á við í sterkum
upplifunum til að greina betur hver við
erum og fyrir hvað við stöndum í raun og
veru sem einstaklingar. Einnig til að átta
okkur betur á því hvað það er sem skiptir
okkur í raun mestu máli. Tónlistin er ekki
takmörkuð auðlind. Þvert á móti er hún
þannig að því dýpra sem þú kafar ofan í
hana því meira veitir hún þér.
Jón Leifs orðaði það þannig að bók-
menntirnar leituðust við að varpa ljósi á
raunveruleikann, myndlistin færði raun-
veruleikann í æðra veldi en tónlistin væri
sjálfur Guð almáttugur!
Jón Leifs kunni að nota stór orð en ég
myndi aldrei verða sammála þessu því með
þessum ummælum finnst mér hann gefa í
skyn að tónlistin sé svo upphafin að hún
sé ekki fyrir venjulegt fólk. Mín skoðun er
að tónlistin sé einmitt fyrir alla og ég vil
vinna að því að afhelga klassíska tónlist ef
svo má segja. Tónlistin er í rauninni alveg
fáránlegt fyrirbrigði. Hún er bara hreyfing
á lofti en þvílík áhrif sem þessi hreyfing
getur haft á mannssálina. Svo er hún eign
allra og aðgengileg öllum eins og súrefnið
í andrúmsloftinu.
TEXTI Björn Þorláksson
MYNDIR Völundur Jónsson
TÓNLISTIN ER í rauninni alveg fáránlegt fyrirbrigði!