Vísbending


Vísbending - 18.03.2013, Blaðsíða 2

Vísbending - 18.03.2013, Blaðsíða 2
2 V Í S B E N D I N G • 1 1 T B L 2 0 1 3 Söguþráðurinn í óbyggðavísum Ómars Ragnarssonar kemur upp í hugann þegar reynt er að skilja þróun grískra efnahags mála. Fleiri leiðarsteinar úr íslenskri efnahags- og alþýðusögu skjótast líka út úr staðreyndaþokunni. Íslenska leiðinTil dæmis minningin um það hvernig menn (já, aðallega karlar) gengu vísvitandi, vel til hafðir, vansvefta, en bláedrú, frá hverjum verðbólgukjarasamningnum á fætur öðrum. Þó að búið væri að ganga frá gengislækkunaráætluninni fyrir samningstímabilið fyrirfram og þótt þeir væru búnir að reikna út að kaupmáttaraukning yrði minni en engin í lok tímabils. Hvers vegna hélst slíkt kerfi? Skýringin er margþætt. Fyrirtæki sem skulduðu í íslenskum krónum og launþegar, sem einnig skulduðu í íslenskum krónum, höfðu smávægilegan hag af aukinni verð bólgu meðan lán þeirra voru óverð tryggð og okurlög settu þak á nafnvaxta stigið. Samningamenn verkalýðsfélaganna vissu að erfitt væri að selja launþegum hugmyndina um að hægt væri að minnka verðbólguna undir sífelldum fréttum um eilífar verðhækkanir á öllum vígstöðvum. Kannski óttuðust hægfara verkalýðsleiðtogar stuðningistap til róttækari afla innan félaganna. Hjá atvinnurekendum höfðu menn fullan skilning á vanda verkalýðs forustunnar. Þeir, sem seldu á innlendan markað, voru á margan hátt í sömu stöðu og launþegarnir: Þeir þurftu að fá meira fyrir sína þjónustu og vöru til þess að standa straum af sífelldum kostnaðarhækkunum. Gríska leiðin Af hverju er þessi formáli að umfjöllun um grísk efnahagsmál nauðsynlegur? Vegna þess að vandinn og lausnir á honum kalla í sjálfu sér ekki á eldflaugaverkfræðilegar lausnir. Þess vegna spyr ferðalangur og gestur í Grikklandi: Af hverju er blessað fólkið ekki búið að kippa þessu í lag? Þessi sama spurning hefur efalítið brunnið á vörum útlendinga sem komu til Íslands á árunum 1975 til 1990. Margarita Katsimi og Thomas Moutos gera ágætlega grein fyrir aðdraganda þess að Grikkland komst í þann vanda sem við er að etja, sjá (Katsimi & Moutos, 2010). Árið 1994 hófst annar hluti aðlögunaráætlunar ríkjanna í evrópska myntsamstarfinu að upptöku sameiginlegrar myntar. Lögð var áhersla á lítið umfang opinberra skulda og afgang eða óverulegan halla á ríkisfjármálum sem forsendu aðildar einstakra ríkja að evrusamstarfinu. Grikkland skoraði ekki hátt á þessa mælikvarða árið 1994. Heildarskuldir hins opinbera voru nálægt 100% af VLF og fjárlagahalli hafði sveiflast á milli 8 og 14% af VLF um langt árabil. Með því að hækka skatta þannig að skatttekjur sem hlutfall af VLF jukust um 8% tókst Grikkjum að lækka hallann niður fyrir 3% af VLF á sex ára tímabili. Útgjöld sem hlutfall af VLF héldust hins vegar óbreytt. Skilyrði fyrir evruaðild náðust samt, a.m.k. að nafninu til. Ennþá var samt starfsmannafjöldi hjá hinu opinbera 50% meiri en t.d. á Spáni og Ítalíu. Og útflutningshlutfall var ótrúlega lágt eða rétt yfir 20% af VLF. Evran kemur til sögunnar Evru upptakan hafði margvísleg áhrif á grískan efnahag. Skuldatryggingarálag á grísk ríkisskuldabréf lækkaði mikið, enda treystu kaupendur slíkra bréfa því að þau væru jafn örugg og þýsk eða hollensk ríkisskuldabréf. Vaxtagreiðslur gríska ríkissjóðsins lækkuðu og grísk stjórnvöld notuðu tækifærið til þess að auka útgjöld til jafns við þann ávinning sem af hlaust. Nú er auðvelt að segja að hefðu Grikkir notað 50/50 reglu við að draga úr ríkissjóðshalla og hefðu þeir notað lækkandi vaxtagreiðslur til að draga enn frekar úr skuldabyrðinni, væru þeir ekki í þeirri stöðu sem þeir eru í dag. Það er alveg jafn rétt og það hefði verið rétt að segja við aðila vinnumarkaðarins og stjórnvöld á Íslandi árið 1980 að það væri hægt að ná betri kaupmætti með hófsamari kjarasamningshækkunum. Grikkir kusu að hækka óbeina skatta og þeir kusu að draga ekki úr útgjöldum. Hækkun beinna skatta og niðurskurður hefði skapað óánægju meðal ákveðinna hópa kjósenda og stjórnvöld vildu ekki þurfa að standa þeim reikningsskap slíkra íþyngjandi aðgerða. Þrjú hjól undir bílnum, en áfram skröltir hann þó Þegar fjármálakreppan skall á árið 2008 voru allar tölur alls staðar skoðaðar með gagnrýnni augum en áður. Eigendur grískra ríkisskuldabréfa uppgötvuðu að gríska ríkið hafði ekki stöðu að óbreyttu til að standa undir skuldabyrðinni og fóru að losa sig við þessi bréf. Og skuldatryggingarálagið fór upp úr öllu valdi eins og kunnugt er. Árangur, en hafa þeir úthald? Grískum stjórnvöldum hefur nú af miklu harðfylgi tekist að ná niður kerfisbundnum halla. Hallinn sem þau standa frammi fyrir er að stórum hluta vegna lítilla umsvifa í hagkerfinu. Atvinnuleysi er á bilinu 25-30% og meðal ungs fólks um 58%. Framleiðni er lítil. Stjórnvöld hafa dregið úr tilfærsluútgjöldum, en veigra sér við að fækka opinberum starfsmönnum nema með því að segja upp þeim sem hafa gerst brotlegir í starfi eða hafa fengið starfið á grundvelli falsaðra prófpappíra. Heil 70% af tekjum ferðamannaþjónustunnar grísku koma frá innlendum ferðamönnum og ekki frá útlendum. Það er ávallt erfitt að auka skilvirkni í opinberum rekstri. Það er líka erfitt að ná fram aukinni framleiðni í einkageiranum. En þegar almennt kreppuástand ríkir og atvinnuleysi hefur náð áður óþekktum hæðum er það nánast ómögulegt. Grískir hagfræðingar eru ekki bjartsýnir. Þeir benda á að fólk telji sig ekki geta hert sultarólina meira, hvort heldur það eru opinberir starfsmenn eða aðrir. Svo má eðlilega spyrja: Er möguleiki á að auka ferðamannatekjur þegar allt er í kaldakoli heimafyrir hjá flestum mögulegum ferðamönnum? Ferðamannaþjónusta í Grikklandi verður ekki byggð á Norðmönnum og Þjóðverjum þó svo að það kunni að vera hægt á Íslandi. Það er því óljóst hvort gerist fyrr, að grískum stjórnvöldum takist að ná viðunandi tökum á grunndvallarvanda í hagkerfinu eða að almenningur í landinu gefist upp. Enginn vill hugleiða það hvað gerist ef almenningur gefst upp. Tilvitnuð verk Katsimi, M., & Moutos, T. (2010). EMU and the Greek crisis: The political-economy perspective. European Journal of Political Economy, 26 (4), 568-576. Þórólfur Matthíasson prófessor

x

Vísbending

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vísbending
https://timarit.is/publication/281

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.