Bæjarins besta


Bæjarins besta - 09.04.2009, Blaðsíða 12

Bæjarins besta - 09.04.2009, Blaðsíða 12
12 FIMMTUDAGUR 9. APRÍL 2009 Daníel Jakobsson er einhver fremsti skíðagöngumaður sem Íslendingar hafa eignast, ef ekki sá allra fremsti. Slíkur samanburður getur þó verið erf- iður þegar yfir langan tíma er litið. Þrátt fyrir þetta hætti hann keppni ungur að aldri, aðeins 24 ára, eða nokkrum árum áður en skíðagöngumenn eru jafnan komnir á toppinn á ferli sínum. Hann sneri sér þá að framhaldsnámi, lagði stund á viðskiptafræði, og hefur hlotið mikinn frama í starfi enda þótt hann sé aðeins 35 ára að aldri. Hann veitir nú forstöðu stærsta útibúi Lands- bankans. Í æfingunum á skíðunum í uppvextinum heima á Ísafirði lærði Daníel að setja sér markmið og hann telur að sú reynsla hafi fylgt honum bæði í námi og starfi. Hann er nú formaður Skíðasambands Íslands. Að setja sér markmið – spjallað við afreksmanninn í skíðagöngu Daníel Jakobsson, sem ungur tamdi sér sjálfsaga og nýtur hans enn Aðeins um tólf af æviárunum þrjátíu og fimm sem komin eru átti Daníel heima á Ísafirði en Ísfirðingar hafa jafnan viljað eigna sér hann. Þetta voru upp- vaxtarárin þegar hann var að mót- ast sem skíðamaður og afrek ís- firskra skíðamanna fyrr og síðar hafa jafnan verið stolt bæjarins. Daníel var fjögurra ára þegar fjölskyldan fluttist til Ísafjarðar árið 1977. „Ég er fæddur í Reyk- javík en foreldrar mínir voru í þann veginn að flytjast á Seyðis- fjörð þegar ég fæddist og þar var ég fyrstu fjögur æviárin. Ég klár- aði gagnfræðaskóla á Ísafirði en eftir það eða árið 1989 fluttum við til Reykjavíkur. Ég var eitt ár í Reykjavík áður en ég fór út til Svíþjóðar í skóla og fylgdi þannig í spor Einars Ólafssonar skíða- göngumanns frá Ísafirði og fyrr- verandi þjálfara míns.“ – Segðu frá Ísafjarðartíman- um, æskuárunum og uppvextin- um, hvenær þú byrjaðir á skíðum og hvernig það þróaðist ... „Það er nú hjá mér eins og svo mörgum, að æskan er einn ævin- týraljómi. Ég er alinn upp í Mið- túninu og þarna í kring var fullt af krökkum og við vorum alltaf úti að leika okkur. Á sumrin vor- um við í fótbolta og byssuleik og að hjóla en á veturna voru það skíðin hjá mér frá níu ára aldri. Ég byrjaði á svigskíðum en var mjög lofthræddur þegar ég þurfti að fara upp í efri lyftuna. Það var rétt fyrir jól að ég hringdi í ömmu og sagði að ég vildi göngugalla í jólagjöf og byrjaði á gönguskíðum. Þá voru bræður mínir líka byrjaðir á gönguskíð- um. Þegar ég lít til baka, þá voru uppvaxtarárin stöðugt ævintýri og allur bærinn að ala mann upp. Mér finnst eiginlega þetta sam- eiginlega uppeldi standa svolítið upp úr og ævintýraljóminn sem hvílir yfir öllu í minningunni.“ Áhuginn skiptir einna mestu máli – Hvenær fórstu að skara fram úr í göngu? „Það hefur verið þegar ég var um fjórtán ára aldur. Þá tók Muggur [Guðmundur Rafn Krist- jánsson] við þjálfun okkar í göng- unni. Hann náði mjög vel utan um hópinn, þetta var mjög gaman og hann fékk okkur til að æfa mikið. Síðan kom Einar Óla aftur heim til Ísafjarðar og þá kom ekkert annað til greina en við yrðum settir í þjálfun hjá honum. Hann lét okkur líka æfa mjög mikið og upp úr því fór ég að vinna mót á landsvísu.“ – Hvað heldurðu að hafi orðið til þess að þú varðst smátt og smátt betri en aðrir? Er það lík- amsbyggingin og líkamshreystin eða er það skaphöfnin, kappið og áhuginn? „Ætli það sé ekki samspil af þessu öllu, en líklega skiptir áhug- inn einna mestu máli. Það þarf bæði áhuga og sjálfsaga til að þjálfa sig eins og ég gerði. Ég æfði um 300 daga á ári en var á ferðalagi allt upp í 200 daga á ári. En að upplagi og þegar ég var í gagnfræðaskóla held ég að ég hafi svo sem ekki haft neina líkamlega eiginleika fram yfir aðra. Ætli það hafi ekki fyrst og fremst verið áhugi og samvisku- semi og viljinn til að skara fram úr og vinna. Það sem dró mig allt- af áfram var viljinn til að vinna.“ – Varstu þá að sama skapi tap- sár, fannst þér slæmt að vera ekki fyrstur? „Ja, mér fannst nú ekki gott að vera ekki fyrstur, en það leið nú eiginlega mjög fljótt hjá. Ég var kannski tapsár þegar ég var ungl- ingur.“ Árin erlendis Fyrir milligöngu Einars Ólafs- sonar fór Daníel í skíðamennta- skóla í Jarpen í Svíþjóð, þar sem hann var í þrjú ár. Þegar náminu þar lauk árið 1993 flutti hann til Östersund og einbeitti sér að skíðunum. „Ég æfði að mestu með lands- liðinu og svo með sænska klúbbn- um mínum. Það var vel utan um okkur haldið á þessum tíma. Við í landsliðinu vorum með sænskan þjálfara á þessum árum, Bo Er- iksson, sem var mjög hæfur.“ Árið 1992 fór Daníel á HM unglinga í Finnlandi, 1993 fór hann aftur á HM unglinga og þá í Tékklandi og keppti svo í tveim- ur göngum á HM sem fram fór í Falun sama ár. Það hafði því verið nokkur stígandi í þessu hjá honum og 1994 árið þegar hann keppti á Ólympíuleikunum í Lillehammer í Noregi var hans fyrsta ár í fullorðinsflokki. Útibússtjóri hjá Landsbankanum – Æviferillinn að öðru leyti í stórum dráttum fyrir utan skíða- ferilinn ... „Ég kom aftur heim til Íslands 1997 og hætti alveg keppni á skíðum. Þá var ég búinn að vera sjö ár úti í Svíþjóð. Þegar ég kom heim fór ég í Háskóla Íslands að læra við- skiptafræði. Árið 2000 eignumst við hjónin okkar fyrsta barn og flytjum til Akureyrar þar sem konan mín fór í skóla. Við vorum þar í fjögur ár og ég vann þá að stærstum hluta í útlánum hjá Landsbankanum. Árið 2004 flytjum við aftur til Reykjavíkur. Reyndar var ég þá búinn að vinna í eitt ár fyrir sunn- an þó að við byggjum fyrir norð- an. Fyrst var ég í tvö ár í aðal- bankanum en núna er ég búinn að vera útibússtjóri á tveimur stöðum og núna er ég útibússtjóri á Laugavegi 77. Það er stærsta úti- bú bankans og og stór hluti fyrir- tækjaþjónustu bankans fer þar í gegn.“ Fjölskyldan og hugðarefnin Eiginkona Daníels er Hólm- fríður Vala Svavarsdóttir frá Ól- afsfirði. Sigurgeir Svavarsson bróðir hennar var með Daníel í landsliðinu og þau kynntumst gegnum hann. Börn þeirra eru þrjú, Anna María, níu ára, Jakob, átta ára, og Unnur Guðfinna, þriggja ára. Bræður Daníels eru Óskar og Þórir, en foreldrar þeirra eru Auð- ur Daníelsdóttir aðalbókari og séra Jakob Ágúst Hjálmarsson, sem á sínum tíma var sóknar- prestur á Ísafirði og síðan dóm- kirkjuprestur í Reykjavík. – Eru einhver sérstök áhuga- mál í tómstundum sem þú hefur fyrir utan skíðin? „Síðustu árin má segja að vinn- an hafi verið helsta áhugamálið mitt, eins hallærislegt og það nú er! En við ferðumst mikið, bæði innan lands og utan. Pólitíkin er líka dálítið áhugamál hjá mér. Svo eru það bara barnauppeldið og útivera almennt. Ég á kajak, geng á fjöll og svo framvegis.“ Hefði e.t.v. getað gert betur – Þegar þú lítur til baka, ertu sáttur við árangurinn eða finnst þér að þú hefðir átt að gera og geta ennþá betur? „Svarið við því er dálítið tví- bent. Ég held að ég hefði getað gert betur. Ég var ekki nema 24 ára þegar ég hætti að keppa og átti einmitt þá mitt besta ár. En mig langaði að fara að mennta mig meira og hefði ég ætlað að halda áfram að keppa og verða betri hefði ég orðið að leggja miklu meiri peninga í þetta, pen- inga sem ekki voru til. Auk þess var ég á þessum tíma orðinn einn í landsliðinu og þetta voru orðnar tvö hundruð hótelnætur á ári. Ég var mikið einn og það hafði mikið að segja. Þetta var orðið ekki nógu skemmtilegt í kringum mig. Á síðasta heimsmeistara- mótinu var ég einn á hótelher- bergi í tvær vikur. Það var ekki lengur þessi skemmtilegi hópur og gleðin var farin úr þessu. Og þegar dregur úr áhuganum, þá er erfitt að halda áfram. Samt held ég að það hefði verið gaman að gefa þessu kannski tvö ár í viðbót. En þetta var bara ákvörðun sem var tekin og ég sé ekkert eftir því.“ – Er það ekki óvenju snemmt fyrir gönguskíðamann að hætta keppni 24 ára gamall? „Jú, það má segja að menn séu að ná hámarkinu kringum 27-28 ára aldur og geti haldið því kann- ski fimm ár í viðbót. Eins og ég sagði var það mitt besta tímabil þegar ég hætti og hugsanlega hefði ég náð lengra hefði ég hald- ið áfram.“ Gunnar Pétursson náði mjög góðum árangri Sagt er að Daníel Jakobsson sé fremsti skíðagöngumaður Ís- lendinga fyrr og síðar. Hann segir sjálfur aðspurður að líklega megi færa rök bæði með því og móti. „Við Einar Ólafsson vorum í heildina í svipuðum klassa í Sví- þjóð og á Ólympíuleikum. Sam- keppnin var að vísu harðari á Ólympíuleikunum þegar ég var að keppa og fleiri þjóðir. Einar á hins vegar betri árangur en ég í Svíþjóð. Samanburðurinn við þá eldri er erfiðari, til dæmis við menn eins og Gunnar Pétursson, sem náði mjög góðum árangri á Ólympíuleikum.“ Fyrirmynd- irnar á Ísafirði Þegar vikið er að þeim fjölda skíðamanna í fremstu röð hér- lendis sem Ísafjörður hefur alið af sér segir Daníel: „Að skapa afreksskíðamenn – sá fjöldi Ísfirðinga sem hefur far- ið á Ólympíuleika er alveg ótrú- legur þegar litið er til baka. Við ættum að hafa í huga, að það er kannski engin tilviljun. Andinn á Ísafirði var einfaldlega þannig,

x

Bæjarins besta

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bæjarins besta
https://timarit.is/publication/1104

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.