Bæjarins besta


Bæjarins besta - 30.12.2009, Qupperneq 6

Bæjarins besta - 30.12.2009, Qupperneq 6
6 MIÐVIKUDAGUR 30. DESEMBER 2009 Útgefandi: H-prent ehf., kt. 600690-1169, Sólgötu 9, 400 Ísafjörður, sími 456 4560, fax 456 4564. Ritstjóri: Sigurjón J. Sigurðsson, sími 892 5362, bb@bb.is. Blaðamenn: Thelma Hjaltadóttir, símar 456 4693 og 849 8699, thelma@bb.is, Friðrika Benónýsdóttir, símar 456 4560 og 697 8618, fridrika@bb.is. Ritstjóri netútgáfu bb.is: Sigurjón J. Sigurðsson. Ljósmyndari: Halldór Sveinbjörnsson, sími 894 6125, halldor@bb.is. Ábyrgðarmenn: Sigurjón J. Sigurðsson og Halldór Sveinbjörnsson Lausasöluverð er kr. 400 eintakið með vsk. Veittur er afsláttur til elli- og örorkulífeyrisþega. Einnig sé greitt með greiðslukorti. Önnur útgáfa: Ferðablaðið Á ferð um Vestfirði. ISSN 1670 - 021X Ritstjórnargrein „Nú genginn er sérhver þess gleði og þraut“ Árið sem nú kveður verður Íslendingum minnisstætt fyrir margra hluta sakir. Ef til vill ekki hvað síst fyrir sundurlyndisfjandann sem herjaði á þjóðina eins og hver önnur plága og fáum eirði. Sóttkveikjan: bankahrun, fjárhagsleg kollsteypa samfélags meðal efnuðustu þjóða heims; ríkidæmi sem glataðist í pókerspili þar sem æra íslensku þjóðarinnar var lögð að veði. Svartnættinu sem hrun spilaborgarinnar olli verður vart með orð- um lýst. Sama til hvers horft er. Og svo brugðust krosstré sem önnur tré. Alþingi, sem afdráttarlaust átti að vera sameiningartákn þjóðar- innar á örlagastundu, varðaði í þess stað veginn með rifrildi í stað rökræðna, sem vænta mátti að leitt hefðu til samstöðu um úrlausn mála. Fjölmiðlar slóu taktinn daginn út og inn. Bölmóðurinn allsráð- andi. Smáaletrið dugði góðum fréttum. Vantraustið jókst með hverri vikunni sem leið. Daglega nýjar fréttir af misferli, svikum og prettum. Ætlar þetta aldrei að taka enda? Jafnvel nú, þegar komið er undir lok árs, berast fréttir um meint gjaldeyrissvik sem Seðlabankinn sé með til athugunar og sögð eru jafngilda um 93% af útflutningi þorsks fyrstu níu mánuði ársins! Ætlar okkur aldrei að láta segjast? Hverra kosta eigum við þegar nýju ári er fagnað? Almenningur er tortrygginn, spyr um ábyrgð og krefst réttlætis. Heiðarleiki var krafa þjóðfundarins. Eitt skal yfir alla ganga, menn standi ábyrgðir gjörða sinna, ekki bara búðarhnuplarinn. Réttmæt krafa. Hafi einhverjir brotið gegn lögum í aðdraganda bankahrunsins verðum við að treysta að fólkið sem vinnur að rannsókn mála og dómstólar, komi til þeirra kasta, rísi undir ábyrgð. Með lögum skal land byggja. Þótt sárindin risti djúpt og biðin eftir niðurstöðu kunni að þykja löng eigum við ekki annarra kosta völ en að treysta að réttlætið sigri að lokum. Á meðan verðum við að halda áttum. Okkar bíður það mikil- væga verk að byggja nýja Ísland, að tryggja að sagan endurtaki sig ekki. ,,Hvað boðar nýárs blessuð sól?“ spurði klerkurinn og þjóðskáldið frá Skógum í Þorskafirði. Bjargföst trú hans var að í hendi Hans sem yfir öllu vakir væri ,,allt vort stríð, - hið minnsta happ, hið mesta fár, - hið mikla djúp, hið litla tár. “ Látum ekki vandamál líðandi árs byrgja okkur sólarsýn á nýju ári. Bæjarins besta óskar landsmönnum öllum friðar og farsældar á komandi ári og þakkar lesendum og velunnurum nær og fjær og við- skiptavinum samfylgdina í aldarfjórðung. s.h. Góð afkoma hjá Bolungarvík þrátt fyrir lækkun útsvars Bæjarstjórn Bolungarvíkur vísaði fjárhagsáætlun ársins 2010 til síðari umræðu á fundi sínum fyrir jól. Áætlunin gerir ráð fyrir að heildartekjur A- hluta verði 542 milljónir króna en heildar- tekjur A- og B-hluta verði 643 milljónir auk 73 milljóna króna óvenjulegra tekna. Gert er ráð fyrir að A-hluti bæjarsjóðs skili 52 milljóna hagnaði, en þar af eru 14 milljónir vegna sérstaks álags á útsvar. Ennfremur er gert ráð fyrir að rekstur samstæðunnar A- og B-hluta skili 108 milljóna króna hagnaði, en hagnaður í fé- lagslega íbúðakerfinu, sem er B- hluta fyrirtæki skýrist að mestu af niðurfellingu lána hjá Íbúða- lánasjóði að fjárhæð 73 milljónir króna. Því er reiknað með að sveitarfélagið verði orðið sjálf- bært á árinu 2010 eins og fyrri áætlanir og samningur við Eftir- litsnefnd með fjármálum sveitar- félaga gerðu ráð fyrir. Ekkert álag verður því á útsvar frá og með árinu 2011. Fjárhagsáætlunin gerir ráð fyr- ir mun minni skatttekjum en stefnir í árið 2009 og er munurinn ríflega 50 milljónir til lækkunar. Þá er gert ráð fyrir minni tekjum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem nema 12 milljónum króna. Veltufé frá rekstri er áætlað 126 milljónir eða 20% af heildartekj- um. Gert er ráð fyrir niðurgreið- slu skammtíma- og langtímalána að upphæð 221 milljónir króna og fjárfestingu sem nema 66 milljónum en tekin verði ný lán upp á 80 milljónir. Heildarskuldir samstæðunnar að frádregnum veltufjármunum og langtíma- kröfum eru áætlaðar 760 millj- ónir í árslok 2010 og lækka um 73 milljónir á árinu þrátt fyrir 66 milljóna króna fjárfestingu. Þannig hækkar eigið fé um 108 milljónir. Með þeim hagræðingarað- gerðum sem ráðist var í á árinu 2009 hefur tekist að varðveita grunnþjónustu sveitarfélagsins. Áfram verður unnið að hagræð- ingu og má þar nefna sérstaklega þær aðgerðir sem eru til skoðunar varðandi sorpmál og slökkvi- liðið. „Þótt reynst hafi nauðsynlegt að hægja á í útgjaldafrekustu framkvæmdinni á vegum sveitar- félagsins, þá verður henni haldið áfram á næsta ári þótt ekki sé fyrir séð að hún klárist á árinu. Sveitarfélagið á því að vera vel í stakk búið til að standa við skuld- bindingar sínar og veita íbúunum áfram góða þjónustu,“ segir í stefnuræðu bæjarstjóra. Bolungarvík. Netspurningin er birt viku- lega á bb.is og þar geta lesendur látið skoðun sína í ljós. Niðurstöðurnar eru síðan birtar hér. Eyðir þú minni fjármunum í flug- eldakaup í ár? Alls svöruðu 484. Já sögðu 339 eða 70% Nei sögðu 145 eða 30% Fyrsta tölu- blað á nýju ári kemur út fimmtudaginn 7. janúar. Gleðilegt ár með þökk fyrir samskiptin á árinu sem er að líða! Spurningin

x

Bæjarins besta

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bæjarins besta
https://timarit.is/publication/1104

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.