Bæjarins besta - 07.02.2013, Page 19
FIMMTUDAGUR 7. FEBRÚAR 2013 19
Lausn á síðustu krossgátu Sudoku þrautir
Gaf Háskólasetrinu tvo vinnustóla
„Ég er sjálf í háskólanámi og styðst við svona vinnustól
heima fyrir. Tryggingastofnun greiðir aðeins fyrir einn stól á
hvern einstakling og því gat ég ekki verið með stólinn í skól-
anum, en hann er mér mjög mikilvægur“ segir Ingibjörg
Snorradóttir íbúi á Ísafirði, en hún og eiginmaður hennar
Hávarður G. Bernharðsson gáfu Háskólasetri Vestfjarða tvo
vinnustóla. Umræddir vinnustólar eru gríðarlega mikilvægir
fyrir námsmenn með skerta hreyfigetu. Ingibjörg ákvað að
ganga fyrirtækja á milli á Ísafirði og safna fyrir tveimur stól-
um, enda telur hún nauðsynlegt að Háskólasetrið búi yfir
slíkum vinnustólum. Stólarnir voru afhentir Peter Weiss forstöðu-
manni Háskólasetursins í hádeginu á föstudag.
Ingibjörg leggur stund á fjarnám í fjölmiðlafræði við
Háskólann á Akureyri. Hún segir fyrirtæki á Ísafirði hafa verið
einkar liðleg og það sama megi segja um Öryggismið-
stöðina, sem sló rækilega af verði stólanna. „Við viljum
koma á framfæri þakklæti til allra sem tóku þátt í þessu með
okkur hjónum í söfnuninni og studdu við bakið á þessari
hugmynd,“ segir Ingibjörg, en annar stólanna verður stað-
settur í Fræðslumiðstöð Vestfjarða og hinn í Háskólasetri
Vestfjarða.
Ingibjörg Snorradóttir háskólanemi og Hávarður G. Bernharðsson eiginmaður hennar ásamt
Peter Weiss forstöðumanni Háskólasetursins og Guðrúnu Sigríði Matthíasdóttur móttökuritara.