Listin að lifa - 01.09.2000, Side 24
Hún hleypur á móti mér, léttstíg og
sólbökuð, geislandi af lífskrafti. Eru
orkustraumarnir frá Kaldbak svo
magnaðir, að Úlla í Hrísey er allt
önnur kona en Úlla í Reykjavík? „Ég
er svo full af súrefni eftir sumarið,
hér er ég alltaf úti," segir hún bros-
andi.
Land-Rover jeppinn hennar Úllu,
model ‘63, þætti enginn frúarbíll í
Reykjavík, en í Hrísey, þar sem „taxi“
ferðamannsins er dráttarvél, jafngildir
hann „Rolls Royce“. Ystibær er fyrir
stafni, um 5 km norðan við þorpið, óð-
alssetur Úllu nær yfir um helming eyj-
arinnar að flatarmáli. Innan girðingar
tekur við paradís fugla og gróðurs. í
landi Ystabæjar er stærsta kríuvarp á
Islandi, með stærri æðarvörpum og tal-
in vera þéttasta rjúpnabyggð í heimi.
Fyrir tæpum 40 árum var hér gróð-
urvana auðn, vargfuglavé og engin tré
til að hlífa smáfuglunum. Æðarkollan
átti hér ekki griðland. Hér má sjá
hverju mannshöndin fær áorkað. Sæ-
mundur Stefánsson, eiginmaður ÚIlu,
var kaupsýslumaður í Reykjavík, en
náttúruunnandi í innsta eðli. Ystibær
var hans ættaróðal, hér vitjaði hann
uppruna síns, bætti mistök forfeðra
sinna sem létu stórveður og sauðfé
eyða öllu niður í rót - með viðamikilli
skógrækt.
„Hér eru mínar stöðvar, hér hefur
mér liðið best, sama segja kona mín
og afkomendur. Hér er unaðsreitur
fjölskyldunnar,“ sagði sá maður sem
lét hönd sína fara líkt og töfrasprota
um gróðurvana mela. Sæmundur lést í
hárri elli fyrir fjórum árum. Nú situr
Úlla á Ystabæ á sumrin, vaktar æðar-
varpið, verkar æðardún og selur.
Ystibær er kynngimagnaður staður.
Spegill hafsins brosir á móti manni og
hafaldan niðar í logninu. Hér hefur
Sæmundur horft inn Svarfaðardal til
æskustöðva sinna á Völlum þar sem
faðir hans, Stefán Kristinsson, var
prófastur og móðir hans, Sólveig Pét-
ursdóttir Eggerz, húsfreyja á stóru
prestssetri. I svo tignarlegri umgjörð
hafs og bergrisa rifjast upp sólarsýn
Davíðs Stefánssonar:
Sé ég af Sólarfjöllum sýnir á alla
vegu... Sé ég af Sólarfjöllum svipi lið-
inna alda... Sé ég af Sólarfjöllum svip
hinna miklu djúpa...
Hvítar, hávaxnar blómabreiður
þekja móana næst bænum og litlir
ungar kíkja fram úr þykkninu. I
friðlandi Ystabæjar iðar allt af lífi,
Úlla leyfir ungviðinu að hlaupa yfir
vegslóðann - hér á bíllinn ekki for-
gang.
„Melurinn hérna var okkur erfiður,
enda trúlega staðið í friði fyrir ræktun-
artilraunum allt frá ísöld,“ segir Úlla.
„Við reyndum grasfræ, lúpínufræ og
áburð, en ekkert dugði, melurinn var
svo harður að fræin festust ekki. Þá
settum við niður lúpínuhnausa, þannig
náði lúpínan að festa sig í jarðvegin-
um og var fljót að sá sér. Nú er hvönn-
in orðin yfirsterkari og kerfillinn,
blómjurt sem talin er hafa komið til
landsins með tilbúnum áburði.“
Utan við bæinn er Úlla búin að
breiða út dún til sólþurrkunar og móð-
ir hennar situr í tjaldi á túninu við að
fjaðratína. Eg hef samviskubit af að
trufla, vil hjálpa til, en Úlla aftekur
það með öllu. „Þú ert ekki ónæm fyrir
flónni, yrðir öll útbitin,“ segir hún
hlæjandi. A skammri stund er kaffi á
borðum, Úlla á Ystabæ er vön að taka
á móti gestum. Yfir rjúkandi kaffi er
gott að spjalla og ekki spillir útsýnið.
„Vissulega eru forréttindi að geta
skipt sér á milli landshluta, verið hér á
sumrin, í Reykjavík á vetuma,“ segir
Úlla. „Friðurinn héma er svo umvefj-
andi og útsýnið gefur mikið, kannski
fær maður líka orku frá Kaldbaki.“
Sagt er að þrjár orkustöðvar séu
á íslandi: Snæfellsjökull. Hekla og
Kaldbakur. Standi maður á ákveðnum
bletti í Hrísey, snúi baki í Kaldbak og
horfi í átt til Snæfellsjökuls er sagt að
sjónlínan vísi til Keopspýramídans í
Egyptalandi og orkuflæðið sé þrefalt
um líkamann. Dvöl á Ystabæ hlýtur
að vera heilsubætandi.
I
1
I
24