Ský - 01.12.2009, Blaðsíða 25

Ský - 01.12.2009, Blaðsíða 25
a Sigurður, sem er fæddur árið 1942, lagði stund á listnám í Reykjavík á árunum upp úr 1960, en hélt síðan til Hollands og starfaði þar við myndlist um árabil. Þar gerðist hann meðlimur í Fluxus-hreyfingunni, sem var stofnuð til höfuðs viðteknum venjum og reglum um hvað flokkaðist undir list. Á þessu tímabili einbeitti Sigurður sér að gjörninga- og hugmyndalist. Við heimkomuna gekk hann beint inn í SÚM hópinn svokallaða og hélt sína fyrstu myndlistarsýningu árið 1969. Tveimur árum síðar sneri Sigurður sér að ljósmyndun. Í frægri seríu sinni Situations gerði hann einungis eitt eða tvö eintök af hverrri mynd. Eina þeirra keypti Listasafn Íslands nýverið fyrir metupphæð sem hljóðaði upp á milljónir króna. „Ég heyrði að það hefði valdið töluverðu fjaðrafoki,“ segir Sigurður kíminn, sem kveðst hafa nálgast verkefnið á ljóðrænan og heimspekilegan hátt; byggt upp sjónrænt ástand sem hann því næst ljósmyndaði. „Það tók mig tíu ár að gera þessar fjörutíu ljósmyndir, sem gerir að meðaltali fjórar á ári. Samt fannst mér ég vera í fullri vinnu. Ljósmynd er fönguð á broti úr sekúndu en öll vinnan er fólgin í undirbúningnum. Líf listamannsins eru sjálf hvert; hann veltir því stöðugt fyrir sér hvað hreyfir við honum og hverjar séu hans langanir og þrár. Á undan hverri ljósmynd var langt íhugunartímabil. Þá leyfði ég hugmyndinni að skríða rólega inn í kollinn og framkallast smátt og smátt. Reyndar var á þessu ein undantekning. Eitt sinn, eftir gleðskap, hrökk ég upp um miðja nótt og rissaði eitthvað á blað á náttborðinu. Daginn eftir vissi ég varla hvað sneri upp og hvað niður. En það rifjaðist upp fyrir mér og daginn eftir það tók ég myndina.“ Umrædd ljósmynd er nú í eigu Pompidou-safnsins í París. Á ferli sínum hefur Sigurður notast við ýmsa miðla við listsköpun sína. „Sem listamaður sé ég engan mun á því að skrifa skáldsögu eða mála mynd. Ég nálgast allt með sama viðhorfinu: að líkamna hugmynd með það að markmiði að skilja hana – að upplifa á áþreifanlegan hátt hvernig hún lætur mér líða. Um leið og ég flyt líkama og sál inn í miðilinn sem ég hef valið flyst hugmyndin út úr mér og inn í listaverkið. Tómleiki og vonleysi fylgir ávallt í kjölfarið en ég hræðist ekki slíkar tilfinningar. Þannig ástand gerir mér kleift að hlaða mig á nýjan leik; að taka á móti nýjum hugmyndum og nýjum tilfinningum. Ef maður er ávallt uppfullur af einhverju verður aldrei pláss fyrir eitthvað nýtt.“ Að lokum berst talið að listsköpun og leggur Sigurður ríka áherslu á að verk sín séu opin fyrir túlkun hvers og eins. „Í hvert skipti sem ég skil listaverk verð ég fyrir vonbrigðum. Ég vil upplifa list, ég vil trúa henni en ég vil alls ekki skilja hana. Mér þykja útskýringar vera leiðinlegar og hamlandi. Ef sá sem virðir fyrir sér listaverkið fær ekkert út úr því nema hugmyndina sem knúði listamanninn til að gera það, þá er verkið harla fátæklegt; ekkert nema útfærsla á hugmynd sem hefði alveg eins getað verið útlistuð með fáeinum orðum. Skilgreiningar og orðlegur skilningur eru að mínu mati ofmetin fyrirbæri. Ég hef ávallt litið á list sem sköpun nýrrar orku sem aðrir geta síðan meðtekið og nýtt til að móta sína persónulegu túlkun. Fyrir mér er það einmitt þetta sem listin snýst um. Verkin mín eru tilfinningaleg rými – andleg svæði sem ég get heimsótt aftur og aftur og upplifað á nýjan leik þá ákveðnu tilfinningu sem ég var haldinn þegar ég vann verkið. Þetta er eins og að hafa landvistarleyfi á hinni álfunni. Þeirri andlegu.“ „Ég vil upplifa list, ég vil vera trúr henni en ég vil alls ekki skilja hana.“

x

Ský

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ský
https://timarit.is/publication/1110

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.