Dagblaðið Vísir - DV - 26.05.2009, Blaðsíða 12
þriðjudagur 26. maí 200912 Fréttir
Berlusconi
„fórnar“ sér
Í viðtali við CNN sagði Sil-
vio Berlusconi að hann hefði
aldrei gerst sekur um smekk-
laus ummæli og að hann kynni
ekki við starf sitt þessa dagana.
Berlusconi skellti skuldinni á
dagblöð og sagði að öll smekk-
laus ummæli sem honum hafa
verið eignuð væru uppspuni
dagblaða.
Í viðtalinu sagði Berlusconi
einnig að honum fyndist starf
sitt vera íþyngjandi: „Ennþá
skynja ég fórn í öllu sem geri.
Fullkomlega. Ég vildi frekar
gera það sem ég gerði áður eða
eitthvað annað núna,“ sagði
Berlusconi.
Samband hans við unga snót
frá Napólí hefur verið vatn á
myllu fjölmiðla á Ítalíu og stefnt
hjónabandi hans í voða.
Sortuæxli sækir á
Yfir 10.000 manns fá á hverju ári
banvænustu tegund húðkrabba
á Bretlandi vegna óhóflegrar
notkunar sólbekkja og sólbaða á
sólarströnd.
Tilfellum illkynja sortuæxla
fjölgaði um 650 á einu ári á Bret-
landi vegna brúnkuæðis bæði
heima fyrir og erlendis, sam-
kvæmt tölum frá krabbameins-
stöð landsins. Nemur fjölgunin
6,5 prósentum.
Nýjustu tölur eru síðan 2006,
en þá voru greind 10.410 til-
felli og gera sérfræðingar ráð
fyrir að sú tala eigi eftir að fara
yfir 15.500 árið 2024. Illkynja
sortuæxli verði þar með fjórða
algengasta krabbamein beggja
kynja.
Ríkir sofa frekar
naktir
Könnun sem Sentio Research
Danmark gerði fyrir fréttastof-
una Newspaq leiddi í ljós að því
ríkari sem þú ert því meiri líkur
eru á að þú sofir nakinn.
Að meðaltali sofa þrett-
án prósent Dana án klæða, en
þéni viðkomandi undir 200.000
dönskum krónum á ári, um 4,8
milljónum íslenskra króna, er
líklegra að hann sofi í nærfatn-
aði eða stuttermabol.
Af þeim lægst launuðu sofa
aðeins um fimm prósent nak-
in, en næstum einn af hverjum
fimm af þeim auðugustu, sem
þéna yfir 700.000 danskar krón-
ur á ári, um 16,7 milljónir ís-
lenskra króna, sefur spjaralaus.
Rannsóknin leiddi ennfrem-
ur í ljós að karlmenn eru í meiri-
hluta þeirra sem sofa naktir því
tvöfalt fleiri karlmenn en kven-
menn sofa án klæða.
Ókeypis próf reyndist rándýrt
Réttað verður í máli varðandi Vís-
indakirkjuna í Frakklandi, en hún
hefur verið ákærð um svindl. Málið
er tilkomið vegna kvartana konu sem
segist hafa sætt þrýstingi af hálfu kirkj-
unnar til að greiða háar fjárhæðir eftir
að henni var boðið upp á ókeypis per-
sónuleikapróf.
Frönsk stjórnvöld líta á Vísinda-
kirkjuna sem sértrúarsöfnuð og verð-
ur þetta í fyrsta skipti sem réttað er yfir
kirkjunni í svikamáli þar í landi. Fyrri
dómsmál hafa tengst einstökum með-
limum Vísindakirkjunnar.
Að sögn konunnar sem lagði fram
kvörtunina komu meðlimir kirkjunn-
ar að máli við hana í París og buðu
henni upp á ókeypis persónuleika-
próf, en þegar upp var staðið hafði
hún eytt öllu sparifé sínu í bækur,
lyf og rafrænan mæli, svonefndan e-
mæli, sem er hluti af búnaði Vísinda-
kirkjunnar.
Lögfræðingar Vísindakirkjunnar
hafa lýst yfir að þeir muni berjast gegn
ákærunum og neita að beitt hafi verið
andlegum þrýstingi af nokkru tagi.
Lögfræðingar konunnar munu á
hinn bóginn bera við að kirkjan reyni
kerfisbundið að afla fjár með andleg-
um þrýstingi og með vísindalega vafa-
sömum „lækningum“.
Vísindakirkjan á mismikið upp á
pallborðið hjá ríkisstjórnum Evr-
ópu og á síðasta ári var úrskurðað í
Þýskalandi að hún væri í andstöðu við
stjórnarskrána.
Spænskur dómstóll hefur hins
vegar úrskurðað að Vísindakirkjan á
Spáni skuli endurheimta sæti sitt á
lista landsins yfir opinberlega viður-
kennd trúarbrögð.
Vísindakirkjan dregin fyrir dómstól í Frakklandi fyrir tilraun til fjársvika:
Verslun Vísindakirkjunnar í París Vísindatrú er talin sértrú í Frakklandi.
Fátt bendir til þess að stjórnvöld í Norður-Kóreu hyggist láta undan þrýstingi um að
kasta fyrir róða kjarnorkuáætlun landsins. Kjarnorkutilraun þeirra bendir til þess að
geta þeirra til kjarnorkuárásar sé jafnvel meiri en áður var haldið.
Roðinn í auStRi
Norður-Kórea á á hættu enn frekari
einangrun á alþjóðavettvangi eftir
yfirlýsingar stjórnvalda þess efnis að
tilraun með kjarnorkusprengju, jafn-
öfluga þeirri sem lagði Hiroshima í
rúst, hafi tekist fullkomlega.
Innan við tveir mánuðir eru liðn-
ir síðan stjórnvöld í Norður-Kóreu
reittu Bandaríkjamenn og banda-
menn þeirra til reiði með tilrauna-
skotum á langdrægum skotflaugum.
Norður-Kóreumenn fullyrtu þá að
um hefði verið að ræða burðarflaug-
ar fyrir fjarskiptagervihnetti.
Á þeim tíma beittu Rússar og Kín-
verjar neitunarvaldi hjá öryggisráði
Sameinuðu þjóðanna gegn refsi-
aðgerðum gegn Norður-Kóreu, en
næsta öruggt má telja að kröfur um
aðgerðir gegn landinu munu verða
háværar nú, enda um mun alvarlegra
mál að ræða.
Lengra á veg komnir en Íranar
Þar til fyrir um hálfu ári ályktuðu er-
lendar ríkisstjórnir að þrátt fyrir að
Norður-Kórea hefði yfir sex til tólf
kjarnaoddum að ráða skorti Norð-
ur-Kóreumenn getu til að gera þá
þannig úr garði að hægt væri að festa
þá á skotflaug.
Síðustu mánuði hafa þó ver-
ið teikn á lofti um að Norður-Kórea
væri komin í hóp fullgildra kjarn-
orkuvelda, með getu til að þurrka
út heilu borgirnar í Japan og Suður-
Kóreu.
Þessi nýja staða hefur verið und-
irstrikuð af fjölda ályktana sem sér-
fræðingar frá Alþjóðlegu kjarn-
orkumálastofnuninni hafa sent
varnarmálaráðuneyti Bandaríkj-
anna. Talið er að Norður-Kóreu
sé ekkert að vanbúnaði til að út-
búa miðlungsdræg flugskeyti með
kjarnaoddum.
Sé sú raunin er Norður-Kórea
lengra á veg komin en Íran í kapp-
hlaupinu að því marki að geta gert
kjarnorkuárás. Að auki breytist til
muna jafnvægið á milli stórs, en fá-
tæklega búins, hers Norður-Kóreu og
Suður-Kóreu, sem nýtur stuðnings
Bandaríkjanna.
Snéru baki við samkomulagi
Stjórnvöld Norður-Kóreu vöruðu við
annarri kjarnorkuvopnatilraun eftir
að Sameinuðu þjóðirnar fordæmdu
tilraunir Norður-Kóreumanna með
skotflaugarnar þann 5. apríl. Samein-
uðu þjóðirnar samþykktu þá einnig
að herða refsiaðgerðir gegn Norður-
Kóreu sem ákveðnar voru árið 2006 í
kjölfar kjarnorkutilraunar landsins.
Þegar Sameinuðu þjóðirnar neit-
uðu að biðjast afsökunar á að hafa
fordæmt aðgerðir Norður-Kóreu í
apríl ráku þarlend stjórnvöld alþjóð-
lega eftirlitsmenn úr landi og hótuðu
að taka upp þráðinn þar sem frá var
horfið með kjarnakljúfinn í Yongbyon
og snéru baki við samningaviðræð-
um þar að lútandi. Norður-Kóreu-
menn samþykktu árið 2007 að hefja
niðurrif áðurnefnds kjarnakljúfs.
Þessi tilraun Norður-Kóreu hef-
ur aukið ótta um að þar á bæ nálgist
menn getu til að útbúa langdræg-
ar skotflaugar með kjarnaoddum,
sem fræðilega væri hægt að skjóta til
Havaí og Alaska.
Áhyggjuefni allra þjóða
Það þarf ekki að koma neinum á
óvart að Barack Obama, forseti
Bandaríkjanna, lítur málið alvarleg-
um augum og hann sagði að tilraun
Norður-Kóreu væri áhyggjuefni fyrir
allar þjóðir. „Norður-Kórea storkar
með beinum og gáleysislegum hætti
alþjóðasamfélaginu,“ sagði Obama.
Í yfirlýsingunni sagði hann að fram-
ferði Norður-Kóreu yki á spennuna í
norðausturhluta Asíu og græfi undan
stöðugleika.
Kínverjar, helsta bandalagsþjóð
Norður-Kóreu, hvöttu nágranna
sína til að forðast aðgerðir sem aukið
gætu á spennu á svæðinu og hvöttu
Norðir-Kóreumenn til að snúa aftur
að samningaborðinu. Stjórnvöld í
Kína sögðust vera „staðfastlega and-
víg“ tilraun Norður-Kóreu.
Japanir sögðust mundu leita nýrr-
ar ályktunar þar sem tilraun Norður-
Kóreu yrði fordæmd, en Japanir telja
sig vera ofarlega á lista Norður-Kóreu
yfir hugsanleg skotmörk.
Auk kjarnorkutilraunarinnar í gær
skutu Norður-Kóreumenn þremur
skammdrægum skotflaugum í til-
raunaskyni.
„Norður-Kórea storkar
með beinum og gáleys-
islegum hætti alþjóða-
samfélaginu,“ sagði
Obama.
KoLbeinn þorSteinSSon
blaðamaður skrifar: kolbeinn@dv.is
október 2006 – Norður-Kórea framkvæmir kjarnorkutilraun neðanjarðar
Febrúar 2007 – Norður-Kórea samþykkir að loka helsta kjarnakljúfi sínum í
skiptum fyrir eldsneyti
Júní 2007 – Norður-Kórea lokar helsta kjarnakljúfi sínum í Yongbyon
Júní 2008 – Norður-Kórea gefur loks út yfirlýsingu um stöðu sína í kjarnorkumál-
um
október 2008 – Bandaríkin fjarlægja Norður-Kóreu af lista yfir þjóðir sem styðja
hryðjuverk
Desember 2008 – Norður-Kórea hægir á ferli við að kasta fyrir róða kjarnorku-
áætlun sinni í kjölfar ákvörðunar Bandaríkjanna um að fresta aðstoð í orkumálum
Janúar 2009 – Norður-Kórea lýsir því yfir að allt stjórnmála- og hernaðar-
samkomulag við Suður-Kóreu sé fallið úr gildi og sakar nágrannaþjóðina um
„fjandsamleg áform“.
Apríl 2009 – Norður-Kórea framkvæmir eldflaugaskot og fullyrðir að um sé að
ræða burðarflaug fyrir samskiptagervihnött
Maí 2009 – Norður-Kórea endurtekur leikinn frá 2006
Hersýning í norður-Kóreu
Her landsins er fjölmennur en
fátæklega búinn.
Skotflaugar í norður-Kóreu,
ódagsett Tilraunaskot fóru fram
sama dag og kjarnorkutilraunin var
framkvæmd.