Dagblaðið Vísir - DV - 02.06.2010, Qupperneq 7
FRÉTTIR 2. júní 2010 MIÐVIKUDAGUR 7
Jón Björnsson, eiginmaður Sig-
rúnar Bjarkar Jakobsdóttur, seldi
sparisjóðnum Byr hlutabréf í jarða-
félaginu Lífsvali að upphæð 65
milljónir króna í nóvember 2007,
samkvæmt heimildum DV. Jón var
framkvæmdastjóri og hluthafi í Lífs-
vali en meðeigandi hans að félag-
inu og annar stjórnarformaður í því
var stjórnarformaður Byrs, Jón Þor-
steinn Jónsson. Núverandi stjórn
Byrs sendi þetta mál til Fjármála-
eftirlitsins og sérstaks saksóknara í
mars síðastliðnum vegna gruns um
að Byr hefði verið misnotaður í við-
skiptunum því kaupin á bréfunum
hefðu ekki verið rökrétt.
Kaupmáli Jóns og Sigrúnar Bjark-
ar, sem er fyrrverandi bæjarstjóri og
oddviti sjálfstæðismanna á Akur-
eyri, hefur verið nokkuð í umræð-
unni upp á síðkastið en með hon-
um voru eignir færðar frá Jóni og yfir
til Sigrúnar. Kaupmálinn var gerður
rétt áður en embætti sérstaks sak-
sóknara gerði húsleit í sparisjóðn-
um Byr. Þau felldu kaupmálann úr
gildi eftir að hann komst í hámæli.
Umræðan um kaupmálann átti síðar
þátt í að grafa undan pólitískum ferli
Sigrúnar Bjarkar á Akureyri. Sigrún
Björk sagði af sér sem oddviti sjálf-
stæðismanna á Akureyri á mánu-
daginn eftir að flokkur hennar beið
afhroð í nýafstöðum kosningum þar
í bæ. Salan á bréfunum í Lífsvali er
því ekki eina óheppilega málið sem
Jón tengist.
Tekið skal fram að þó að stjórn
Byrs hafi séð tilefni til að senda
ábendingu til Fjármálaeftirlitsins
og saksóknara er ekki þar með sagt
að embættið muni rannsaka málið
og hvað þá ákæra í því. Staðan á at-
hugun málsins hjá saksóknara liggur
ekki ljós fyrir en vitað er að málið var
sent frá Byr til saksóknarans.
Ákveðið í kringum aukninguna
Lífsval er eitt stærsta jarða-
félag Íslands og á um
45 jarðir víðs veg-
ar um landið. Aðstandendur félags-
ins eru áðurnefndir Jónar, Lands-
bankinn, Guðmundur Birgisson á
Núpum, Ólafur Wernersson, eldri
bróðir Karls, Ágúst Sindri Karls-
son, kenndur við Exeter Holding,
og Gunnar Þorláksson, annar af eig-
endum verktakafyrirtækisins BYGG.
Landsbankinn er stærsti hluthafi fé-
lagsins með um 19 prósenta eignar-
hluta. Lífsval skuldaði þrjá milljarða
króna í árslok 2008 og tapaði 1,2
milljörðum á því ári, samkvæmt árs-
reikningi ársins 2008. Eignir félags-
ins eru metnar á 5,2 milljarða króna
en tekið skal fram að það er mats-
verð samkvæmt ársreikningi. Félag-
ið hefur aldrei skilað hagnaði.
Ákveðið var að kaupa bréfin í Lífs-
vali á fundi í stjórn Byrs þann 23.
nóvember árið 2007. Heimildir DV
herma að stjórn Byrs hafi metið það
sem svo að greitt hafi verið yfirverð
fyrir bréf Jóns en samkvæmt sölunni
til Jóns átti Lífsval að vera um 7 millj-
arða króna virði þegar salan átti sér
stað því Jón seldi um eins prósents
eignarhluta. Ætla má að verðmæti
Lífsvals hafi þó ekki verið meira en
3,5 til 5 milljarðar króna.
Einnig þóttu tengsl Jóns Björns-
sonar og Jóns Þorsteins Jónsson-
ar ekki vera heppileg vegna tengsla
þeirra í gegnum Lífsval.
Samkvæmt heimildum DV var
ákveðið að nota ætti hluta af því fjár-
magni sem fengist í stofnfjáraukning-
unni miklu í Byr í desember árið 2007
til að fjármagna kaup Byrs á bréfun-
um í Lífsvali. Það var Glitnir sem fjár-
magnaði stofnfjáraukninguna. Því
var búið að ráðstafa fjármununum
sem fengust í stofnfjáraukningunni
að hluta til áður en hún fór fram.
Fleiri slíkar viðskiptaákvarðanir voru
teknar í stjórn Byrs fyrir stofn-
fjáraukninguna.
Jón gefur ekki færi á sér
Lífsvalsmálið er eitt af nokkrum mál-
um úr sparisjóðnum Byr sem hafa
verið send til eftirlitsaðila. Þekkt-
asta málið er líklega það sem tengist
Exeter Holding þar sem stjórn Byrs
lét sparisjóðinn kaupa af sér stofn-
fjárbréf í sjóðnum til að geta stað-
ið í skilum við MP Banka sem lánað
hafði til kaupanna. MP Banki hafði
hótað að gera einhverja af skuld-
urunum gjaldþrota. Jón Þorsteinn
Jónsson er einnig lykilmaður í Ex-
eter-málinu. Rannsóknin á málinu
er langt komin hjá embætti sérstaks
saksóknara.
DV hafði samband við Jón
Björnsson til að ræða við hann um
söluna á Lífsvalsbréfunum til Byrs.
Jón svaraði skilaboðum blaða-
manns um að hringja með tölvu-
skeyti þar sem hann spurði hvert er-
indið væri. Blaðamaður sagði Jóni
að erindið væri að spyrja um um-
rædda hlutabréfasölu. Jón svaraði
ekki þeim pósti fyrr en blaðamaður
spurði hann hvort hann hygðist ekki
hafa samband. Þá sagði Jón að hann
ætlaði að hafa samband síðdegis á
þriðjudag. Jón hafði hins vegar ekki
samband við DV til að svara spurn-
ingum um Lífsvalsmálið.
MÁL JÓNS Í LÍFSVALI
SENT TIL SAKSÓKNARA
Stjórn Byrs sendi ábendingu um sölu Jóns Björnssonar á hlutabréfum í Lífsvali til Byrs til Fjármálaeft-
irlitsins og sérstaks saksóknara í mars síðastliðnum. Jón er eiginmaður Sigrúnar Bjarkar Jakobsdóttur,
fyrrverandi oddvita sjálfstæðismanna á Akureyri. Stjórnin taldi Byr hafa greitt Jóni yfirverð fyrir bréfin.
Stjórnarformaður Byrs var viðskiptafélagi Jóns. Jón gefur DV ekki tækifæri til að spyrja hann um málið.
INGI F. VILHJÁLMSSON
fréttastjóri skrifar: ingi@dv.is
Til saksóknara Stjórn sparisjóðsins
Byrs sendi Fjármálaeftirlitinu og
sérstökum saksóknara erindi í
mars um meinta misnotkun á
sparisjóðnum þegar hann keypti
bréf Jóns Björnssonar í nóvember.
Jón er eiginmaður Sigrúnar Bjarkar
Jakobsdóttur, fyrrverandi oddvita
sjálfstæðismanna á Akureyri.
Heimildir DV herma að stjórn
Byrs hafi metið það sem
svo að greitt hafi verið
yfirverð fyrir bréf Jóns.
Lífsvalsmenn Jón Þorsteinn Jónsson
og Guðmundur Birgisson, kenndur við
bæinn Núp, eru tveir af aðstandendum
jarðafélagsins Lífsvals. Jón Þorsteinn og Jón
Björnsson eru viðskiptafélagar í Lífsvali og
Jón Þorsteinn var jafnframt stjórnarformaður
í sparisjóðnum Byr sem keypti bréfin af Jóni.
Þegar Ríkissjónvarpið fjallaði um
það í byrjun maí að Sigrún Björk
Jakobsdóttir, þáverandi oddviti
Sjálfstæðisflokksins á Akureyri,
og Jón Björnsson, eiginmaður
hennar, hefðu gert með sér kaup-
mála síðasta haust sem fól í sér
að allar fasteignir eiginmannsins
voru færðar yfir á hana, brást hún
ókvæða við í sjónvarpsviðtali. Sig-
rún Björk lýsti mikilli hneykslun
á að RÚV skyldi yfir höfuð fjalla
um þau mál. Í viðtalinu sagði Sig-
rún Björk: „Mér finnst með hrein-
um ólíkindum að vera í viðtali út
af þessu, fyrir það fyrsta, og að
þetta skuli vera samfélagið sem
við erum að kalla yfir okkur, finnst
mér vera með hreinum ólíkind-
um.“
Um var að ræða einbýlishús
þeirra á Akureyri, helmingshlut
Jóns í landskika í Hörgárbyggð
og hluta í sumarhúsi í Ölfusi.
Þá kom fram í kaupmála hjón-
anna að bankareikningur Sigrún-
ar væri séreign hennar. Hún vildi
ekki meina að kaupmálinn væri
gerður til að skjóta undan eign-
um. Nokkrum dögum síðar lýsti
hún því hins vegar yfir á fundi full-
trúaráðs Sjálfstæðisflokksins á Ak-
ureyri að þau hefðu látið ógilda
kaupmálann. valgeir@dv.is
Sigrún Björk var undrandi á að RÚV
fjallaði um hennar mál:
„Með hreinum
ólíkindum“