Dagblaðið Vísir - DV - 02.06.2010, Page 11
FRÉTTIR 2. júní 2010 MIÐVIKUDAGUR 11
Arndís Einarsdóttir er 44 ára, þriggja barna móðir. Hún er atvinnulaus og sér fram á að vera komin á
götuna í haust með tvær dætur sínar, 6 og 9 ára. Hún hefur sótt um fleiri hundruð störf en sjaldnast
fengið svör við umsóknunum. „Ég hef að meðaltali sótt um fjögur störf á dag, fimm daga vikunnar,“ segir
Arndís sem er orðin þreytt á langvarandi aðgerðaleysi stjórnvalda.
„ÉG Á FREKAR AÐ
ÞIGGJA BÆTUR“
Arndís Einarsdóttir hefur ver-
ið atvinnulaus í um tíu mánuði.
Þar áður var hún í námi en fékk
ekki fyrirframgreidd námslán svo
hún sá þann eina kost í stöðunni
að hætta í náminu og þiggja frek-
ar bætur frá Félagsþjónustunni.
Arndís segist ekki hafa tekið þátt í
góðærinu svokallaða en standa þó
uppi snauð.
Árið 1999 keyptu hún og þáver-
andi eiginmaður hennar sér litla
íbúð við Laugaveg. Árið 2002 var
íbúðin orðin of lítil fyrir fjölskyld-
una sem fór stækkandi og því festu
þau kaup á 70 fermetra einbýlis-
húsi sem kostaði sex milljónir og
þau gerðu það upp sjálf. Íbúðin
þeirra seldist ekki svo þau leigðu
hana út. Árið 2005 skildu Arndís og
eiginmaður hennar og seldu húsið.
Arndís flutti þá aftur í litlu íbúðina
við Laugaveg ásamt tveimur ung-
um dætrum sínum.
Bara venjuleg fjölskylda
„Við erum bara venjuleg fjölskylda
sem hefur lent í ýmsu en tókum
aldrei þátt í góðærinu, við vorum
nærri því við fátækramörkin þeg-
ar uppgangurinn var sem mestur,“
segir Arndís.
Í kjölfar skilnaðarins ákvað Arn-
dís að fara í nám til að bæta stöðu
sína. Hún kláraði stúdentspróf
og fór þar næst í Háskóla Íslands.
Hún fékk fyrirframgreidd námslán
fyrstu önnina en veiktist og gat ekki
klárað prófin og endaði því uppi
með námslánaskuld. Hún fékk ekki
fyrirfram greidd námslán í kjölfar-
ið. Þetta leiddi til þess að á endan-
um neyddist Arndís til að hætta í
náminu og þiggja frekar bætur hjá
Félagsþjónustunni, en þær gat hún
ekki fengið ef hún var skráð í nám.
„Það er eins og hugtakið hjálp til
sjálfshjálpar sé ekki til innan kerfis-
ins.Í raun á ég frekar að þiggja bæt-
ur og gera ekkert í staðinn fyrir að
mennta mig,“ segir Arndís.
Fjögur störf á dag, fimm daga
vikunnar
Eftir að henni varð ljóst að hún gæti
ekki haldið áfram í skólanum hefur
hún sótt um fjölda starfa. „Ég nota
yfirleitt morgnana til atvinnuleit-
ar og hef fundið það út að ég hef
að meðaltali sótt um fjögur störf á
dag, fimm daga vikunnar.“ Arndís
byrjaði að sækja um störf í ágúst á
síðasta ári, eða fyrir um 10 mán-
uðum. „Eftir allar þessar umsókn-
ir hef ég fengið þrjú svör og eitt
viðtal. Ég held það hafi svona 150
manns verið boðaðir í það viðtal og
það var hálfsdags starf í afgreiðslu.
Fyrst var ég að sækja um störf út frá
menntun minni, ég er menntað-
ur heilsunuddari, en núna sæki ég
bara um allt,“ segir Arndís og bætir
við: „Þetta er rosaleg höfnun, fyrstu
vikurnar var ég bjartsýn og hélt að
það væri ekkert mál að fá vinnu.
Svo eftir ákveðinn tíma fóru að
renna á mann tvær grímur og mað-
ur veltir fyrir sér hvað sé í gangi,“
segir Arndís sem er orðin þreytt á
langvarandi atvinnuleysi.Hún seg-
ir það lýjandi til lengdar að vera án
atvinnu og er ósátt við aðgerðaleysi
stjórnvalda. „Það vantar hvatningu
til að gera eitthvað. Ég hef starf-
að með grasrótarsamtökum og í
stjórnmálum til að hafa eitthvað að
gera,“ segir Arndís sem hefur verið
virk í starfi Heimavarnarliðsins.
Bauðst til að nudda
bankamenn
Arndís telur kerfið virka letjandi á
fólk.Hún vill vinna en segir enga
vinnu að fá og getur ekki verið í
skóla því þá getur hún ekki fram-
fleytt fjölskyldu sinni. „Það er oft
talað um atvinnulaust fólk þannig
að það sé bara hangandi í fríi all-
an daginn en það er ekki þannig.
Þú ert alltaf atvinnulaus. Þegar þú
vaknar, sofnar, um helgar og á jól-
unum. Þetta er ekki frí. Sjálf hafði
ég verið með þessa fordóma áður
en ég varð atvinnulaus og dauð-
skammast mín fyrir það.“
Arndís segist hafa leitað ým-
issa leiða til að finna sér atvinnu.
„Ég fór til dæmis í bankann minn
og bauð þeim að ég myndi nudda
starfsfólk upp í skuldirnar mínar,
það var bara hlegið að mér,“ seg-
ir hún og hlær við. „Maður er bara
að reyna að sýna sjálfsbjargarvið-
leitni en það er eins og það sé ekki
gert ráð fyrir sjálfsbjargarviðleitni
í kerfinu. Það er betra að hafa fólk
bara á bótum.“
Hún telur ástæðuna fyrir
langvarandi atvinnuleysi sínu vera
meðal annars sú að hún líti ekki
vel út á pappír. „Ég lít ekki vel út á
ferilskrá, ég var heimavinnandi í 5
ár og svo fór ég í skóla. Það kem-
ur ekki vel út á pappír. Ég er dug-
leg og hef mikla reynslu. Til dæmis
sem foreldri geðsjúks barns og sem
foreldri fyrirbura auk þess að vera
menntaður heilsunuddari. En ég
þarf bara að sitja út í horni og gera
ekki neitt,“ segir hún.
Einnig telur hún að erfitt sé að
koma sér að því maður sé bara nafn
á pappír. „Þetta er svo breytt frá því
hvernig þetta var fyrir nokkrum
árum þegar maður gekk sjálfur inn
í fyrirtækin og gat selt sig þannig, í
dag er þetta allt í ferlum,“ segir Arn-
dís.
Ekkert má út af bregða
Arndís segir að ekkert megi út af
bregða þegar fjárhagurinn sé svona
þröngur. „Ég til dæmis lofaði stelp-
unum mínum óvart bíóferð í vetur.
Við þurftum að bíða eftir barna-
bótamánuði til að ég gæti efnt lof-
orðið og þá var hætt að sýna mynd-
ina,“ segir Arndís.
Hún hefur þegið mataraðstoð
frá Mæðrastyrksnefnd þegar mjög
hart hefur verið í ári. „Þegar mað-
ur fer í fyrsta skiptið í Mæðrastyrks-
nefnd eru það mjög þung skref að
stíga og mikil skömm sem maður
þarf að yfirstíga,“ segir Arndís. „Ég
reyni samt að fara sem sjaldnast
þangað en stundum bara verð-
ur maður. Annars er ekki mik-
ið að hafa þar lengur því það er
líka kreppa þar. Fyrst var maður
að fá svona tvo, þrjá poka, núna
er þetta kannski botnfylli,“ segir
Arndís.
Hún segist passa upp á að vera
vel undirbúin ef eitthvað kynni að
fara úrskeiðis. „Ég er alltaf með
pening í umslagi í veskinu mínu
sem nægir fyrir leigubíl upp á slysó
ef eitthvað gerist.“
Á götunni í haust
Nú horfir hún fram á að lenda á
götunni í haust, með dætur sín-
ar tvær. „Ég byrjaði að safna van-
skilum á íbúðina eftir að ég fékk
ekki námslánin fyriframgreidd,
ég bara gat ekki borgað af henni.“
Arndís segir augljóst að hún geti
ekki farið út á almennan leigu-
markað með svo lágar tekjur á
mánuði. Hún getur ekki sótt um
leiguíbúð hjá Félagsþjónustunni
fyrr en eftir að búið er að taka
íbúðina af henni. „Þá skilst mér
að það geti tekið við um tveggja
til þriggja ára bið eftir íbúð,“ seg-
ir Arndís sem yrði þá væntanlega
að fara á almennan leigumarkað
á meðan. „Ég er í afneitun fyr-
ir því sem gerist í haust og ætla
að reyna að njóta sumarsins með
börnunum mínum. Ég reyni að
hafa húmorinn að vopni og það
hefur haldið manni gangandi.“
VIKTORÍA HERMANNSDÓTTIR
blaðamaður skrifar: viktoria@dv.is
Á götunni Arndís sér fram á að lenda á götunni í haust verði ekkert að gert.
Það er oft talað um atvinnu-
laust fólk þannig að
það sé bara hangandi
í fríi allan daginn en
það er ekki það, þú ert
alltaf atvinnulaus.
Lýjandi atvinnuleysi
Arndís hefur sótt um
fjölda starfa en fær
sjaldnast svör við
umsóknunum.
MYND SIGTRYGGUR ARI