Dagblaðið Vísir - DV - 03.04.2013, Blaðsíða 16

Dagblaðið Vísir - DV - 03.04.2013, Blaðsíða 16
16 Umræða 3. apríl 2013 Miðvikudagur Helgi Hrafn Gunnarsson, oddviti Pírata í Reykjavík norður, svaraði spurningum lesenda á Beinni línu. Thorlaug Agustsdottir Hver er helsta sérstaða Pírata miðað við aðra flokka sem bjóða núna fram til Alþingis?  Helgi Hrafn Gunnarsson Sérstaða Pírata felst í því að vera í fyrsta lagi nútímamiðaður og í öðru lagi alþjóðamiðaður flokkur. Það er þess vegna sem við tönnlumst stanslaust á internetinu í flestum okkar málflutningi, það er vegna þess að hinir flokkarnir hafa ekki náð að fylgja þróun síðustu ára í upplýsingatækni, þrátt fyrir að sú þróun hafi í reynd gjörbreytt öllu sem við gerum. Við viljum nútímalega nálgun á svo gott sem öll málefni. Þar koma inn klassísk málefni eins og tjáningarfrelsi og auðvitað lýðræðið, í nútímaljósi. Kristinn Briem Gætu hugmyndir Pírata ekki valdið glundroða ef þær yrðu settar í framkvæmd?  Helgi Hrafn Gunnarsson Ég sé ekki alveg hvernig það ætti að gerast, nei. Með fullri virðingu eru alltaf uppi raddir um að þetta eða hitt „setji allt á annan endann“ eða að ef þetta eða hitt, þá „fari allt til fjandans“ en ég hef aldrei séð það rætast … þvert á móti eingöngu þegar enginn virðast búast við því, svo sem í hruninu 2008. Frekari áhyggjur hef ég af „glundroða“ ef stjórnvöld fara ekki að taka þátt í heiminum sem við búum við núna, frekar en stanslaust að reyna að stjórna í heimi sem er liðinn. Haukur Ísleifsson Eru einhverjir flokkar sem Píratar væru ekki tilbúnir að vinna með í stjórnarsamstarfi eftir kosningar?  Helgi Hrafn Gunnarsson Nei, það eru engir slíkir flokkar. Aðferðafræði okkar gagnvart öðrum flokkum endurspeglast af IMMI- þingsályktuninni sem Birgitta Jónsdóttir lagði fram og Alþingi samþykkti einróma. – Þessi málefni eru ekki jafn umdeild og maður myndi halda, heldur fyrst og fremst hunsuð. Við lítum á það sem verksvið okkar að fá hlutina í gegn í samvinnu við alla aðra flokka. Sú aðferðafræði hefur sannað sig að virki fyrir Pírata, bæði í IMMI-þingsályktunar- tillögunni og vissulega á Evrópuþinginu. Við sigrum með því að sannfæra. Við erum ekki hrædd við lýðræðið. Rúnar Sigurjónsson Hvert er mat þitt á félagslega kerfinu og kerfisfræðingum sem notfæra sér það? Er það hugsun Pírata að endurskoða og jafnvel í raun stokka það kerfi upp á nýtt til að koma í veg fyrir misnotkun á félagslega kerfinu?  Helgi Hrafn Gunnarsson Það sem stórvant- ar í allri stjórnsýslunni er aukið gegnsæi. Það er enginn sjáanlegur ágreiningur um að 1) við þurfum sterkt félagslegt kerfi, 2) við ættum að minnka misnotkun á því eftir bestu getu. – Með stórauknu gegnsæi, skýrari reglum og meiri nýtingu upplýsingatækninnar má auka til muna skilvirkni félagslega kerfisins og reyna að skerpa línurnar milli þeirra sem þurfa á hjálp að halda og þeirra sem misnota kerfið. Að því sögðu er mikilvægt að stjórnmálamenn taki ekki ákvarðanir um hver þurfi raunverulega hjálp og hver ekki, heldur sérfræðingar á sínu sviði, svo sem læknar, geðlæknar og sálfræðingar. Þetta er akkúrat málefni sem stjórnmálamenn eiga sem minnst að vasast mest í heldur útbýta verkefnum á rétta aðila. Héðinn Björnsson Hversu stóran hluta af þjóðarframleiðslu finnst þér að hið opinbera ætti að ráðstafa? Meira en núna, minna en núna eða nokkurn veginn núverandi samneyslustig?  Helgi Hrafn Gunnarsson Það fer algerlega eftir aðstæðum. Til lengri tíma er auðvitað betra að kerfið sé sem minnst að því gefnu að ríkið uppfylli skyldur sínar en í þeim aðstæðum sem við erum núna, þ.e. enn að rétta úr kútnum eftir hrunið 2008, þá er ekki tímabært að hið opinbera ráðstafi minna. En þetta fer mjög mikið eftir aðstæðum hverju sinni. Það styttist í að það verði svigrúm til þess að minnka samneysluna en það er ekki tímabært ennþá … reyndar er heilbrigðis- þjónusta sérstaklega illa stödd núna. Bjarki Grönfeldt Er netið algjörlega heilagt? Má ekki undir neinum kringumstæðum snerta við því?  Helgi Hrafn Gunnarsson Það væri hægt að skrifa heila bók sem svar við þessari spurningu. Í stuttu máli, nei, netið er ekki „algjörlega heilagt“, hvað sem er átt við með því, og auðvitað má snerta við því. – En það sem má ekki gerast, er að það komist undir stjórn ríkisstjórnar eða fyrirtækis. Internetið er í grundvallaratriðum bara samskipti. Stjórn yfir internetinu þýðir stjórn yfir samskiptum. Yfirvöld nútímans skilja ekki afleiðingar gjörða sinna, svo sem þegar það á að fara að ritskoða netið, og átta sig ekki á hættunum. Það er ýmislegt sem þarf að gera, til dæmis skerpa reglur um friðhelgi einkalífsins. En þær aðferðir þurfa bæði að vera raunhæfar, þær þurfa að virka gegn þeim vanda sem stefnt er að því að leysa og þær verða að virka án gerræðis og tortímingu internetsins. Ritskoðun er ekki bara slæm þegar „vont efni“ er ritskoðað, heldur er ritskoðun í eðli sínu andlýðræðislegt tæki. Að gefa yfirvöldum stjórn yfir internetinu er að gefa þeim stjórn yfir því sem við hugsum, heyrum, sjáum og segjum. Það má aldrei gerast. Guðfinna Kristinsdóttir Hafið þið áhuga á að skoða aðra gjaldmiðla en íslensku krónuna, ef svo, hverja?, ef ekki, af hverju ekki?  Helgi Hrafn Gunnarsson Algerlega! Persónulega tel ég kanadíska dollarann vera rétta valið en það er alveg sjálfsagt að skoða aðrar leiðir líka, svo sem bindingu við aðra gjaldmiðla. En alveg sama hvað gerist, þá þarf tvennt að koma til 1) Viðræðum við ESB þarf að ljúka með skýrri niðurstöðu. 2) Stór- auka þarf erlent fjármagn á Íslandi. – Þaðan kemur stefna okkar um netvænt Ísland, því internetið er verulega vannýtt til að hala inn erlendan gjaldeyri, sem gæti gefið okkur fleiri valmöguleika. Það sem er mikilvægt að skilja varðandi krónuna er að hún sveiflast til í alþjóðlegu samhengi. Ellegar hefði ekki verið verðbólguskot í kjölfar kreppunnar og ellegar væri ekki túrisminn að blómstra svona mikið. Gjörvallur efnahagur okkar byggist á alþjóðlegu samhengi og það er kominn tími til að tala meira um það. En stjórnmálamenn vilja frekar lofa ókeypis peningum en díla við það erfiða mál. – Allt kemur til greina í gjald- eyrismálum en fyrst þarf sá málaflokkur að fá verðskuldaða athygli. Robert Gudmundsson Hvernig ætlið þið að bregðast við síaukinni fíkniefnaneyslu landsmanna?  Helgi Hrafn Gunnarsson Með þeim aðferðum sem hafa sannað sig, nefnilega hinni svokölluðu „portúgölsku aðferð“ sem miðar að því að í staðinn fyrir að refsa fólki fyrir að eiga kannski við vandamál að stríða, bjóða því hjálp og aðstoð sem er við hæfi. – Fyrir 10 árum var fíkniefnaneysla aðalmálið í Portúgal. Núna kemst hún ekki inn á lista yfir það sem kjósendur hafa áhuga á, vegna þess að stefnan hefur virkað svo stórkostlega. Lausnin er að líta á fíkn sem heilbrigðismál, ekki lögreglumál, og afglæpavæða fíkni- efnaneyslu. Árni Sigurðsson Þið talið fyrir portúgölsku leiðinni í vímuefnamálum. Hvar stendur flokkurinn gagnvart lögleiðingu kannabisefna og skattlagningu sölu þeirra eins og áfengi? (nb skv. nýlegri frétt væri eingöngu VSK af núverandi kannabisneyslu á Íslandi um milljarður á ári).  Helgi Hrafn Gunnarsson Við höfum ekki tekið það fyrir sérstaklega vegna þess að það er ekki tímabært að okkar mati að fara út í það á meðan fíklar eru skilgreindir sem glæpamenn. Þegar afglæpavæðingin hefur sannað sig verður kannski pólitískt raunhæft að lögleiða kannabisefni en þeim sem vilja lögleiða kannabisefni segi ég eftirfarandi; óréttlætið í dag er meira en svo að ykkur sé sagt hvað þið megið gera við eigin skrokk og huga; við erum að refsa þeim sem eiga miklu meira bágt en mestu hasshausarnir. Það vandamál þarf að leysa strax í gær. En það æðislega við portúgölsku aðferðina sem við aðhyllumst, er að hún virkar í reynd til að draga úr vandanum. Allir, burtséð frá viðhorfum til kannabisefna, ættu að taka undir portúgölsku aðferðina. En umræðan um kannabisefni fjallar oftast um að þau séu ekki nógu skaðleg til að bann sé við hæfi, en fyrst þarf að athuga, að það ber að afglæpavæða fíkniefnaneyslu vegna þess að hún er skaðleg, ekki vegna þess að hún er örugg. Vonandi verður tímabært að ræða lögleiðingu kannabisefna alvarlega fyrir næstu kosningar. En akkúrat núna þarf að forgangsraða rétt; hætta að refsa fórnarlömbunum. Ástasigrún Magnúsdóttir Hver eru áhersluatriði Pírata í velferðarmálum?  Helgi Hrafn Gunnarsson Aðaláhersluatriðið er fíkniefnastefnan vegna þess að þar er svo gott tækifæri til að gera svo mikið gott við svo alvarlegu vandamáli sem engum flokki á Íslandi virðist hafa dottið í hug að taka alvarlega. – En við sjáum ekki miklar deilur um velferðarmálin, aðallega vannýtingu á úrræðum og lélegar aðferðir, til dæmis við að greina alvöru vandamál frá sýndarvanda- málum. Lykilinn að góðu velferðarkerfi er skilvirkni og góðar upplýsingar sem gera okkur kleift að takast rétt á við hluti. Gyrðir Egilsson Hvar standa Píratar þegar kemur að verðtryggingu ?  Helgi Hrafn Gunnarsson Þetta er tvíþætt spurning, annars vegar hvað sé hægt að gera fyrir fólk í skuldavanda í dag, og hins vegar hvernig kerfið eigi að virka til frambúðar. Fyrir fólk í vandræðum í dag viljum við hjálpa því að sækja rétt sinn fyrir dómstólum og aðstoða eftir fremsta megni fólk við að skuldbreyta yfir í óverðtryggð lán ef það vill þau. – En þau eru ekkert ókeypis heldur, vext- ir geta orðið mjög háir þannig að það fer eftir aðstæðum hvers og eins hvort þeirra henti betur. En það þarf að setja á lyklalög þannig að lántakendur geti í framtíðinni keypt sér húsnæði með húsnæðið sem veð. Það væri líka heilbrigðara að bankarnir lánuðu fé út frá þeirri áhættu að ef lántakandi geti ekki greitt lánið þá fái bankinn bara húsið, ekki líka bílinn og GSM símann. – Sumsé, við erum hlynnt lyklalögum, en eins og fólk veit, þá er ekki hægt að beita þeim fyrir þá sem eru þegar með verðtryggt lán vegna samnings- og eignarréttar. Ólafur Ólafsson Er hægt að berjast fyrir frelsi á internetinu ásamt því að verja höfundarrétt á áður útgefnu efni á sama tíma? Hvar stendur Pírataflokkurinn gagnvart CISPA /SOPA?  Helgi Hrafn Gunnarsson Takk fyrir þessa spurningu því hún veður beint í mikilvægi höfundarréttar. Við erum algerlega í einu og öllu gjörsamlega og ófrávíkjanlega á móti hryllingi á borð við SOPA, PIPA, ACTA og CISPA. – Þarna er um að ræða löggjöf sem lýsir því best hvað internetið og frjáls sam- skipti eru í mikilli hættu sökum höfundar- réttar og því mikilvægi þess að endurskoða hann. – Við erum ekki á móti höfundarrétti samt, heldur viljum uppfæra hann þannig að ekki þurfi svona aðgerðir til þess að framfylgja lögum. Klassískar hugmyndir um höfundarrétt eru ekki samhæfðar við upplýsingaöldina og í staðinn fyrir að taka til baka bestu tækniframför mannkyns finnst okkur eðlilegra að uppfæra lögin í samræmi við nútímann. Þetta er skólabókardæmi um mikilvægi höfundarréttar og kemur einmitt inn á að viðhorf okkar snúast ekkert um að fá að niðurhala höfundarréttarvörðu efni ókeypis. Það snýst um tjáningarfrelsið, friðhelgi einkalífsins og réttinn til samskipta án eftirlits og samþykkis sérhagsmuna. Það augljósasta sem hægt er að gera til að laga höfundarrétt að nútímanum án þess að ganga of hart nærri hagsmunum listamanna og hugbúnaðargerðar er að lögleiða dreifingu til einkanota. Það þarf ekki gerræði til að framfylgja höfundarrétti þegar dreifing er í gróðaskyni, en þegar kemur að einstakling- um til einstaklinga, þá blasir við að það ætti hreinlega að vera löglegt. Allavega frekar en að tortíma frjálsum samskiptum. Síðast en ekki síst er það svolítið á ábyrgð okkar sem búum til hugbúnað og tónlist að finna út úr bisnessplani sem virkar í nútímanum. Það er ekki ábyrgð þín sem neytanda og þú átt ekki að borga launin mín með frelsi þínu. Thorir Celin Styðjið þið fleiri virkjanir og meiri stóriðju?  Helgi Hrafn Gunnarsson Helst ekki, þótt það geti „meikað sens“ í sumum tilfellum … það er auðvitað ekki hægt að segja af eða á alfarið við þeim – en við aðhyllumst mun frekar smáiðju sem gerir út á netið. Þannig fáum við gjaldeyrinn inn í landið og getum byggt upp stöðugan efnahag fyrir alla landsmenn. Einnig er netið mjög vannýtt á landsbyggðinni og þar eru mikil sóknartækifæri. Margir vita ekki að yfirþyrmandi meirihluti starfa á Íslandi er í örfyrirtækjum og smáfyrirtækjum. Sema Serdar Ert þú hlynntur eða andvígur inngöngu Íslands í Evrópusambandið?  Helgi Hrafn Gunnarsson Það er ekki ákvörðun stjórnmálamanna að ganga eða ganga ekki í Evrópusambandið heldur ákvörðun þjóðarinnar í bindandi þjóðar- atkvæðagreiðslu. – Við teljum að það beri að mynda stefnu sem miðar að báðum möguleikum. Ef þjóðin vill fara í ESB, þá viljum við að Ísland verði eitt kjördæmi í Evrópuþingskosningum. Ef þjóðin vill ekki fara í ESB þarf að endurskoða EES-samn- inginn, sérstaklega ef Noregur fer að sýna tilburði til þess að annað hvort ganga í ESB eða endurskoða EES. Persónulega verð ég að segja að ég er algerlega á báðum áttum og vil sjá hvað kemur úr þessum samninga- viðræðum áður en ég mynda mér endanlega skoðun. En lykilatriði er að það verði bindandi þjóðaratkvæðagreiðsla, og að svar þjóðar- innar gildi. Hálfdán HelgaogÁgústuson Hver er stefna Pírata í skattamálum?  Helgi Hrafn Gunnarsson Í stuttu máli eru skattar ill nauðsyn. Það er auðvitað almennt betra að hafa þá lága (og vonandi er það orðið óumdeilt núna) en að sama skapi þarf að fjármagna ríkisreksturinn með skattheimtu. Til lengri tíma ber að lækka skatta, en ríkissjóður er ennþá að jafna sig eftir hrunið svo það er ekki endilega tímabært að lækka skatta mikið akkúrat núna … það væri kannski nærri lagi að einfalda skattkerfið til muna, sérstaklega virðisaukaskattskerfið. Því einfaldara sem þetta er, því betra. Stefán Ólafsson Hversu sammála eða ósammála ertu eftirfarandi fullyrðingu „Stjórnkerfi þjóða eins og Íslands verður ekki umbylt með því að koma nýju fólki í stóla, t.d. á Alþingi. Þegar nýtt fólk er kosið til starfa, líkt og gerðist með Jón Gnarr í Reykjavík, er aðallega verið að kjósa ný viðhorf, viðleitni og nálgun til verka frekar en nákvæmar úrlausnir á einstökum atriðum sem stjórnsýslan þarf að eiga við hverju sinni.“  Helgi Hrafn Gunnarsson Því verður auðvit- að ekki „umbylt“ án byltingar, samkvæmt skilgreiningu. – Til þess þarf meira en nýtt fólk, það er rétt. En það er hægt að kjósa inn fólk sem vill breyta kerfinu þannig að það sé auðveldara að breyta því til betri vegar, og erfiðara að breyta því til verri vegar. Fólk er hrifið af byltingum og skyndibreytingum en það er sá galli á þeim að það er engin leið að tryggja, án lýðræðis og tilheyrandi umstangs, að nokkuð betra komi í stað þess sem var umbylt. Kerfi þróast eftir tilhneigingum sínum samkvæmt eðli sínu, og við viljum breyta eðli kerfisins þannig að það þróist í átt til batnaðar. Þaðan kemur viðhorf okkar til gagnsæis sem er ekki nógu mikil áhersla á. Þegar hlutirnir eru gagnsæir er mun auðveldara fyrir almenning, fræðimenn, lögfræðinga og allt heila klabbið að koma auga á vankanta og laga þá. – En kerfinu þarf að breyta innan frá til að heimila því að breytast til betri vegar. Ástasigrún Magnúsdóttir Þú talar um sýndarvandamál velferðarkerfisins og raunveruleg vandamál þess. Getur þú nefnt dæmi um slíkt?  Helgi Hrafn Gunnarsson Já, kannski klaufa- lega orðað hjá mér, afsakaðu það, en ég var að meina aðgreiningu á þeim sem virkilega þurfa á hjálp að halda, svo sem fatlaðir, og þá sem þurfa lausnir sem veita þeim tæki- færi til að láta ljós sitt skína. Þunglyndis- sjúklingur til dæmis þarf ekki að liggja á kerfinu alla ævi ef hann fær viðunandi hjálp til að sigrast á þunglyndinu. Sömu sögu er ekki að segja um alla geðkvilla, en ég ítreka núna að þetta er spurning sem stjórnmála- menn eiga ekki að þykjast vita of mikið um. En úrræðin eiga að mótast af því að gefa fólki tækifæri til að gera það sem það vill. – Úrræðin eiga ekki að miðast einvörðungu við að skófla peningum í vandamálið heldur að ráðast rétt á vandamálið. Andri Harðarson Hvað yrði það fyrsta sem Píratar mundu gera á þingi ef þið náið manni inn?  Helgi Hrafn Gunnarsson Ú, núna viltu loforð án þess að ég viti fyrirfram hvað nákvæmlega gerist á næstu mánuðum! – Það lítur allavega út fyrir að það verði að setja fram frumvarp um nýja stjórnarskrá. Það er mjög mikið í nýju stjórnarskránni sem við hefðum viljað sjá, svo sem eflingu ýmissa borgararéttinda eins og tjáningarfrelsis, sem eru hreinlega í molum á Íslandi þótt margir virðist ekki átta sig á því. Börkur Sigurðsson Hvernig er staðan á Íslandi í dag í sambandi við upplýsinga- tækni í skólum, sérðu fyrir þér einhverjar breytingar þar?  Helgi Hrafn Gunnarsson Já, heldur betur. Internetið (enn og aftur) hefur gjörbreytt því hvernig fólk almennt lærir og skólakerfið er eitt af þeim kerfum sem þarf að uppfæra með hliðsjón af því. Ég læri sjálfur kóranska arabísku, landafræði, tel mig vita hvers vegna heimurinn lítur út fyrir að vera minna en 14 milljarða ára gamall, ég kann einhvern örsmæðarreikning, en ekkert af þessu lærði ég í skóla. Ekki neitt af því. Ég lærði ekki forritun eða tónsmíð í skóla heldur. Það var sú tíð að þetta þótti eitthvað sérstakt, að vera sjálflærður, en tilfellið er að það er að verða mjög normal. – Skólastarfið þarf að uppfæra í samræmi við það. Menntun og upplýsingadreifing hefur gjörbreyst. Þá er ég alls ekki að segja að skólar séu óþarfir, heldur bara að þeir þurfa að taka inn í myndina breytt lærdómsmynstur ungs fólks og barna. Ólafur Ólafsson Hvar standa Píratar varðandi einkavæðingu á auðlindum landsmanna á Íslandi? Þar standa 3 stór mál mjög ofarlega; 1) Fiskurinn sem er eign allra landsmanna, 2) framtíðarplön/hugmynd landsvirkjunar um orkuútflutning með sæstreng til Evrópu, 3) Framtíðarolíuævintýri Íslands, eign landsmanna eða einkarekinna fyrirtækja?  Helgi Hrafn Gunnarsson 1) Fiskurinn er vissulega eign allra landsmanna eða öllu heldur veiðiheimildir. Lögfræðingar hafa átt erfitt með að skilja það hugtak, en sjálfum sýnist mér það þýða ríkiseign og skil ekki hvers vegna fólk er feimið við að kalla það það. Síðan þarf að ráðstafa þeim réttindum til einkaaðila til nýtingar, en veiðiheimildir í grundvallaratriðum, sem og náttúruauðlindir almennt, eiga að vera í eigu þjóðarinnar … sem lögtæknilega þýðir í eigu ríkisins. Nýting má svo vera í einkahöndum. 2) Ég hef ekki kynnt mér hugmyndirnar nógu vel, en ég ótt- ast að með sæstreng fari Ísland líka að flytja inn rafmagn sem er þá búið til með kolum og olíu. Það gengur gegn því að Ísland verði grænasta land í heimi, sem væri sorglegt. En ég ítreka að ég hef ekki kynnt mér áætlan- irnar nógu vel til að svara þessu efnislega. 3) Ég hef sömu áhyggjur og af lið 2, að við förum að stóla á óendurnýjanlega orkuframleiðslu þegar við höfum nú tækifæri til að vera grænasta land í heimi. Metanbyltingin er að eiga sér stað sem er dásamleg þróun og ég óttast að hún snúist við. – Að því sögðu hef ég ekki kynnt mér málið nógu vel né rætt það við mér fróðari menn innan flokksins (það eru eflaust 4–5 spekúlantar hjá okkur með miklu skemmtilegri skoðanir). Árni Árnason Sæll meistari. Hver er stefna Pírata í dýraverndarmálum, einkum verksmiðjubúskap með dýr? – Finn það ekki í stefnuskránni.  Helgi Hrafn Gunnarsson Það er frekar nýlega komið til umræðu hjá okkur og því get ég ekki sagt þér frá fullmótaðri stefnu í dýraverndunarmálum, en þau samtöl sem ég hef tekið þátt í hingað til lýsa áhyggjum af verksmiðjubúskap, sem margir telja ekki vera til staðar á Íslandi. Flestir virðast líta svo á að verksmiðjubúskapur sé bara vandamál erlendis, en hér erum við sífellt að heyra hærri raddir um að hérlendis finnist mikil misnotkun á dýrum. Stefnan er hins vegar ennþá í mótun. Að því sögðu, þá eru dýra- verndunarlög á Íslandi, og ef þau eru ekki nógu sterk, eða þeim ekki framfylgt nógu vel, þá er sjálfsagt að taka á því. Viltu ekki bara mæta á málefnafund hjá okkur og segja okk- ur hvernig þetta eigi að vera? ) – Við hikum ekki í eina sekúndu við að afrita hugmyndir annarra ef okkur finnst þær góðar. „Ekki hrædd við lýðræðið“ Nafn: Helgi Hrafn Gunnarsson Aldur: 32 ára Menntun: Google Starf: Forritari

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.