Lögmannablaðið - 01.03.2015, Blaðsíða 29

Lögmannablaðið - 01.03.2015, Blaðsíða 29
LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 01/15 29 AÐSENT EFNI Umfjöllun Hæstaréttar um vitnisburð BÓ Í öðru lagi kemur eftirfarandi fram í dómi Hæstaréttar: „Þá er til þess að líta að við skýrslugjöf vitnisins BÓ fyrir dómi var lögð fyrir hann í tilefni af breyttum framburði hans frá lögregluskýrslu um tiltekið atriði spurning um hvort hann hafi átt samtöl sem þessi og lýsti hann því fyrst í stað að hann hafi rætt við „ákærðu og verjendur þeirra eftir að ákæran kom“, síðan að hann hafi „farið yfir gögnin“ af því að hann „vantaði bara að fá ýmsar upplýsingar“, nánar aðspurður sagðist hann hafa hitt „verjendur í þessu máli“, en að endingu að um hafi verið að ræða verjanda ákærða Hreiðars. Af svörum, sem ákærðu Hreiðar og Sigurður gáfu við aðalmeðferð málsins við spurningum sem snerust um atriði í framburði BÓ hjá lögreglu, verður ekki annað ráðið en að þeir hafi báðir gengið út frá því að framburður þessa vitnis í skýrslu, sem hann átti eftir að gefa fyrir dómi, yrði á annan veg en framburður hans hjá lögreglu.“ Að hverju fann Hæstiréttur? Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að „atriði varðandi“ umrætt vitni gæfu tilefni til aðfinnslu. Ekki er fyllilega ljóst hvað Hæstiréttur á við með því. Tilvísun Hæstaréttar til þess að vitnið hafi m.a. sagst hafa hitt „ákærðu og verjendur“ kann að benda til þess að rétturinn telji að verjandinn hafi átt fund með vitninu ásamt skjólstæðingi sínum. Fyrir því er reyndar engin stoð í framburði vitnisins og rétt að taka fram að verjandinn átti einn í þessum samskiptum. Er verjanda óheimilt að sýna eða afhenda gögn? Í framburði vitnisins kom sem fyrr segir fram að vitnið hafi viljað fá ýmsar upplýsingar hjá verjandanum og afrit gagna. Hugsanlega ber að skilja umfjöllun Hæstaréttar svo að óheimilt hafi verið að sýna umræddu vitni málsskjöl. Það verður þó að teljast ólíklegt enda verður ekki séð að til sé lagaákvæði þar sem bann er lagt við því, einu og sér. Verjandi hlýtur raunar að þurfa að horfa til gagna málsins þegar upplýsinga er aflað frá vitnum og vera heimilt að kanna hvort vitni geti veitt upplýsingar um efni eða tilurð skjallegra sönnunargagna. Hafði verjandinn rangt við í samskiptunum? Það eina sem lá fyrir í málinu um efni samskipta verjandans við vitnið var framburður vitnisins um að það hafi hitt verjandann á einum fundi. Vitnið kvaðst hafa viljað fá upplýsingar og farið hafi verið yfir gögn. Vitnið var spurt að því fyrir dómi hvort það hafi verið beitt þrýstingi á fundinum eða lagt að því að segja eitthvað annað en sannleikann fyrir dómi. Vitnið neitaði því. Ekki verður því séð að eitthvað í framburði vitnisins hafi gefið Hæstarétti tilefni til að ætla að verjandinn hafi farið á svig við skyldur sínar í þessum samskiptum. Vitneskja skjólstæðings um framburð vitnis Í dómi Hæstaréttar er vísað til þess að tveir ákærðu hafi gengið út frá því við skýrslugjöf fyrir dómi að framburður vitnisins BÓ yrði á annan veg fyrir dómi en hjá lögreglu. Óljóst er hvaða þýðingu þetta hefur haft við mat réttarins á störfum verjandans. Er með þessu verið að segja að verjandinn hafi vitað hver framburður BÓ yrði og komið boðum um það efni til þessara tveggja ákærðu? Ekkert liggur þó fyrir um þetta í málinu og ástæða til að benda á að vitnið og ákærðu voru nánir samstarfsmenn til margra ára. Ef rétt væri, er verjanda þá samkvæmt þessu óheimilt að gera skjólstæðingi sínum grein fyrir því sem fram kann að koma í samskiptum við vitni? Réttaróvissu eytt eða hún aukin? Af dómi Hæstaréttar verður ótvírætt ráðið að verjendum er heimilt, og eftir atvikum skylt, að eiga samskipti við vitni við undirbúning aðalmeðferðar í sakamálum. Með þeirri niðurstöðu hefur tímabundinni óvissu um það efni verið eytt. Fjölmargar áleitnar spurningar vakna hins vegar við lestur dómsins um það hvers konar samskipti verjendum er heimilt að eiga við vitni. Hugsanlega munu dómstólar halda áfram á sömu braut og móta þær reglur, eftir því sem tilefni gefst til, í síðari dómum. Það hlýtur hins vegar að vera umdeilanlegt hvort það sé hlutverk þeirra. Vond staða fyrir verjendur Þetta er vond staða fyrir þá lögmenn sem taka að sér verjendastörf. Ekki liggur fyrir, þrátt fyrir umræddan dóm Hæstaréttar, hvað var aðfinnsluvert í samskiptum verjendanna við vitnin. Um það gætu vitnin borið, væru þau að því spurð, að samskiptin voru ekki á nokkurn hátt óviðeigandi, hvað þá að ólögmætum aðferðum hafi verið beitt. Fyrir ályktunum Hæstaréttar um þetta efni er að mati undirritaðra ekki nokkur stoð. Verjendur hljóta að hugsa sig tvisvar um áður en þeir ræða við vitni, þrátt fyrir að viðurkennt sé að þeim sé það heimilt. Víki vitni í einhverjum atriðum frá framburði sínum hjá lögreglu má verjandi samkvæmt framangreindu búast við aðfinnslum, óháð því hvernig samskiptunum var háttað og hvað upplýst er um þau. Slík staða er að mati undirritaðra ótæk. CATO L Ö G M E N N

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.