Gerðir kirkjuþings - 1993, Síða 100
FJÖLSKYLDUÞJÓNUSTA KIRKJUNNAR
Laugavegi 13,101 Reykjavík s. 62 36 00
einhver staldri við og rétti þeim sína hönd.
Þeir sem hingað leita eru kannski ekki margir illa farnir eftir ræningja og ribbalda
en það er unnt að vera særður á sálu og sinni og þeir eiga líka að eiga sitt athvarf.
Fjölskyldur sem hingað leita hafa upplifað margs konar særindi, misskilning,
skeytingarleysi, lítilsvirðingu, orðið fyrir mikilli sorg, fundið sig einmana og yfirgefna,
og það er ekkert nýtt í þessum heimi. En það sem skiptir þau svo miklu máli er að
þau vilja ekki búa við þetta ástand og þrá að vera elskuð, mæta skilningi, finnast
þau vera einhvers virði, þarfnast ástúðar og þess vænta þau helst af sínum
nánasta. Ef ekki þar hvar þá? Er það ekki í hæsta máta góð guðsþjónusta að reyna
að hjálpa þeim á þann kærleiksveg, allri fjölskyldunni, unga parinu, þögla
karlmanninum, drykkfeldu móðurinni, skilnaðarbörnunum, og öllum hinum
fjölskyldunum sem eru allar að reyna að gera sitt besta. Þau eru öll velkomin með
sárindi sín og við viljum reynast þeim náungi er vinnur miskunnarverk.
Og við teljum líka að þessi þjónusta kirkjunnar hafi sannað sig sem sést best á því
að æ fleiri koma vegna góðrar reynslu annarra og ábendinga frá þeim. Ánægður
viðskiptavinur er sagður besta auglýsingin. Hins vegar erum við ekki blind á galla
okkar og takmörk, og ekki eru allir sáttir við starfsaðferðir okkar og sjálfsagt ekki við
ýmislegt annað. Við höfum frá upphafi viljað marka okkur nokkuð ákveðinn bás
með því að leggja áherslu á að vinna með fjölskylduna, eins og við gerum með því
að hafa hjónin saman í nánast öllum viðtölum, en ekki stunda einstaklingsvinnu.
Aðrir aðilar hér á landi vinna öðruvísi en við og þar með er ekki sagt að okkar
aðferð sé betri heldur hitt að við kunnum þessa aðferð betur en aðrar. Um leið og
ég segi það dreg ég nokkuð í land því við þrjú sem hér störfum í viðtölunum höfum
öll talsverða reynslu af einstaklingsviðtölum líka. En samanburðurinn er í mínum
huga ótvíræður fjölskylduvinnunni í hag.
Handleiðsla.
Ég var mjög mótaður af prestsreynslu minni og þar var einstaklingsvinnan mun
meira áberandi. Ekki veit ég hvaðan sú vitneskja kom tii mín. En þegar ég kynntist í
framhaldsnámi mínum bæði heima og erlendis því viðhorfi og þeirri vinnuaðferð að
að eiga sem mest samstarf við fjölskylduna og vinna meira með þá einingu fannst
mér leitt að hafa ekki fyrr kynnst þessari aðferð. Það er mitt mat að nokkuð skorti á
að við prestarnir höfum nægjanlega kunnáttu til viðtala svo vel sé. En sú vissa að
mikið er leitað til presta af sóknarbörnunum í hvers kyns erindagjörðum og
vandræðum styður nauðsyn þess að fræða og styrkja prestana í þeirra góða
sálgæslustarfi.
Við sem hér störfum vitum um okkar fákunnáttu og leitum eftir stuðningi þeirra sem
betur kunna. Þess vegna höfum við líka leitað okkur leiðbeiningar og sótt hana út
fyrir landssteinanna til íslendings í Gautaborg, Kristínar Gústavsdóttur,
félagaráðgjafa sem þar býr og starfar með manni sínum að fjölskylduráðgjöf og
handleiðslu. Ég stundaði nám hjá þeim hjónum í tvö ár og lauk því um síðustu
áramót mér til ómældrar styrkingar í nýju starfi.
5.10.1993
95